Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Sjö fræ ofbeldis

Mahatma Gandhi gaf Arun, barnabarni sínu lista yfir það sem samfélög ættu að forðast ef ekki ætti að koma til ofbeldis.

Stephen R. Covey, höfundur "Seven habits of highly effective people" kom með eftirfarandi skýringar á hverri aðvörun um sig.

Gandhi_studio_1931

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Auður án vinnu

Hér er átt við þá sem fá eitthvað fyrir ekkert - þá sem sýsla með markaði og eignir til að þurfa ekki að skapa verðmæti eða vinna heldur sýsla með fólk og hluti fram og til baka. Í dag eru til starfsgreinar sem byggjast á því að skapa auð án þess að vinna, búa til peninga án þess að borga skatt, hagnast á styrkjum án þess að leggja neitt að mörkum til þeirra, eða njóta góðs af því að vera ríkisþegn eða starfa hjá fyrirtæki án þess að taka á sig ábyrgð eða áhættu.


Ánægja án ábyrgðar

Aðalspurning hinna vanþroskuðu, gráðugu og eigingjörnu hefur alltaf verið: Hvað fæ ég? Mun þetta gleðja mig, mun þetta láta mér líða vel? Margir vilja ánægju án ábyrgðar samviskulaust, þeir yfirgefa jafnvel maka og börn til þess að geta "bara verið þeir sjálfir". En sjálfstæði er ekki æðsta þroskastigið, það er bara lítið skref á leiðinni til samhjálpar sem er æðsta stigið. Að læra að gefa og þiggja, lifa óeigingjarnt, sýna tillitsemi og nærgætni, það er markmiðið.

Auglýsingar hvetja forstjóra til að njóta lífsins áhyggjulaust af því "þeir eiga það skilið" eða "þeir hafa unnið fyrir því" eða "þeir vilja það, svo því ekki að láta undan og gefa eftir?" Skilaboðin eru: þú ert búinn að ná takmarkinu. Nú þarftu ekki samvisku lengur. Í sumum auglýsingum eru sextugir menn með þrítugum konum á leið á ráðstefnur. Hvað varð um eiginkonurnar? Hvað varð um reglur samfélagsins sem segja að framhjáhald sé ekki í lagi?


Þekking án drenglyndis

Of lítil þekking er hættuleg en mikil þekking án drenglyndis er miklu hættulegri. Þeir sem safna þekkingu án þess að hafa þroskað sig sem manneskju eru eins og fullur krakki á sportbíl. Allt of oft gerist það í háskólum að menn útskrifast með hausinn fullan af þekkingu en ekkert brjóstvit.



Viðskipti án siðferðis

Ef við leyfum hagkerfum að þróast án siðferðilegrar undirstöðu munum við enda með siðlaust samfélag og fyrirtæki. Sérhver viðskipti eiga að fara fram þannig að kaupandi og seljandi fái það sem honum ber. Gullna reglan er að allir aðilar þurfa að njóta góðs af viðskiptunum og réttlætis þarf að hafa verið gætt.

Fólk lendir í vandræðum þegar það segir að yfirleitt stundi það siðleg viðskipti. Það þýðir að einhver hluti viðskiptanna sé ekki í lagi. Fólk er með baktjaldamakk, leynilíf sem það felur jafnvel fyrir sjálfu sér og útskýrir einhvern veginn að það sé undanþegið lögum guðs og manna.


Vísindi án manngæsku

Ef vísindin einblína á tækni og aðferðir enda þau sem árás á mannkynið. Tækni byggir á vísindum. Ef skilningur á tilgangi með jarðvistinni er ekki til staðar gera þau okkur fórnarlömb tækninnar. Við sjáum vel menntað fólk klifra upp metorðastiga vísindanna þótt þrep fyrir manngæsku vanti og stiginn halli upp að vitlausum vegg.

Langflestir vísindamenn sem nokkurntímann hafa verið til eru lifandi í dag og þeir hafa valdið sprengingu í tækni og vísindum. Við munum sjá fullt af tæknibyltingum en án manngæsku munum við ekki sjá framfarir fyrir mannkynið. Óréttlæti heimsins mun vera með okkur áfram.


Trúarbrögð án fórna

Ef við færum engar fórnir getum við verið virk í kirkjustarfi en samt óvirk í útbreiðslu fagnaðarerindins. Þá er ekki reynt að hjálpa fólki eða bæta úr vandamálum samfélagsins. Það kostar fórnir að þjóna öðru fólki, sérstaklega þarf að fórna sínu eigin stolti og fordómum.

Einu sinni fylgdist ég með hjónabandi þar sem erjurnar hljóðnuðu ekki. Mér varð þá hugsað að þetta fólk þyrfti að gefast upp gagnvart hvoru öðru og iðrast ef hjónabandið ætti að geta gengið. Þú getur ekki fundið fyrir samhug án þess að hafa auðmýkt. Stolt og eigingirni mun eyða sambandi manns og Guðs, manns og konu, manns og manns, sjálfs og sjálfs.


Stjórnmál án grunngilda

Án grunngilda er engin höfuðátt til að stefna að, ekkert til að treysta. Samfélög sem gera mikið úr stjórnmálamönnum en lítið úr grunngildum eru búin að gera viðkomandi mann að ímynd, markaðsvöru sem hægt er að selja og lítið annað.

Við sjáum stjórnmálamenn eyða milljónum í að byggja upp ímynd sína þótt hún sé grunn og innihaldslaus, til að kaupa atkvæði og fá embætti. Þegar þeim tekst það fáum við stjórnkerfi sem lýtur eigin lögmálum óháð hinum náttúrulegu sem ættu að vera við lýði, þau sem eru í stjórnarskránni, að allir séu skapaðir jafnir og með jafnan rétt til lífshamingjunnar.

Í kvikmyndinni "Boðorðin tíu" segir Móse við Faraó, "við viljum lúta Guðs lögum, ekki þér". Hann er að segja, "við munum ekki láta að stjórn manns sem styðst ekki við grunngildi". Í réttlátum samfélögum og fyrirtækjum eru náttúruleg grunngildi við lýði og jafnvel þeir hæstsettu verða að fylgja þeim. Enginn er yfir þau hafinn.

 


Reykjavíkurborg

Hér eru skálkar og skækjur
er skjögra um götur og torg.
Hér eru dólgar og dækjur
með dýrslega hegðan og org.

Mörg eru svínin er sitja
að sumbli hér í vorri borg.
Þeirra æ vandræðin vitja
er valda oss trega og sorg.

Hér eru búðarmenn barðir
menn bíta hvern annan og slá.
Rustarnir vandræðum varðir
svo venja sig glæpalíf á.

Hér úir og grúir af götum
á gangséttar bílum lagt er.
Svæðunum grænu við glötum
og gröndum því fegursta hér

Rusl fyllir götur og garða
en glerbrot og veggjakrot smá
hér menjar og minnisvarða
mannvirkin lítil og há.

Borgartún bankarnir fylla
og byggingarlistin þar dvín.
Víða mun spákaupmanns- spilla
speglahöll fagurri sýn.

Miðbæjarhreysin og hrófin
svo hrörleg mjög eru að sjá.
Og þykk liggur skíta-skófin
í skotum og strætunum á.

Kringlur menn keppast að reisa
og kaupa sig leiðanum frá.
Af Nesinu nýríkar þeysa
Nadíur Porsche-jeppa á.

Spillingin röftum hér ríður
í Ráðhúsi Tjarnar við hlið.
Mönnum þar sárast það svíður
að sitja ei kjötkatla við.

 

-- Höfundur: Vandráður Torráðsson

 

IMG_7938

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Af hverju má ég ekki eiga færeying?

Kæri prestur.

Takk fyrir allar upplýsingarnar um homma.

Ég hef lært mikið og reyni að deila fróðleiknum með eins mörgum og ég get.  Þegar einhver reynir að verja lífshætti samkynhneigðra, minni ég þá á að í 3.Mósebók 18:22 stendur að þeir séu  viðurstyggð.  Ég þarf samt nánari upplýsingar frá þér varðandi nokkrar aðrar reglur í biblíunni og hvernig best er að framfylgja þeim.

Þegar ég kveiki í nauti sem brennifórn þá veit ég að ilmurinn er þægilegur fyrir Drottinn skv. 3.Mósebók1:9.  Vandinn er nágrannarnir, sem segja að ilmurinn gleðji þá ekki.  Á ég að  ljósta þá?

Mig langar til að selja dóttur mína í ánauð eins og stendur í 2.Mósebók 21:7.  Hvað  heldur þú að sé sanngjarnt verð fyrir hana núna?

Ég veit að ég má ekki hafa samneyti við konu sem hefur á blæðingum skv. 3.Mósebók 15:19-24.  Vandinn er að ég sé það ekki á þeim.  Ég hef reynt að spyrja þær, en flestar verða móðgaðar.

Í 3.Mósebók 25:44 stendur að ég megi halda þræla, bæði menn og konur ef þeir eru frá  öðru landi.  Vinur minn segir að þetta eigi við um dani en ekki færeyinga. Getur  þú útskýrt þetta nánar?

Nágranni minn vinnur flestar helgar.  Í 2.Mósebók 35:2 stendur að hann eigi að deyja.  Verð ég að eiga frumkvæði að því að drepa hann?

Vinur minn heldur því fram að þótt það sé viðurstyggð að borða skelfisk skv. 3.Mósebók 11:10,  þá sé það samt minni viðurstyggð en samkynhneigð.  Ég er ekki sammála.  Getur þú leyst úr þessu?

Í 3.Mósebók 21:20 stendur að ég megi ekki koma að altari Guðs ef ég hef sjóngalla.  Ég viðurkenni að ég geng með gleraugu.  Þarf ég að hafa fullkomna sjón eða er hægt að beygja reglurnar eitthvað?

Flestir vinir mínir láta klippa sig, þar á meðal hárið í kringum gagnaugun þótt  það sé alveg bannað samkvæmt 3.Mósebók 19:27.  Hvernig eiga þeir að deyja?

Ég veit að ég saurgast ef ég snerti húðina af dauðu svíni skv. 3.Mósebók 11.6-8,  en má ég samt spila fótbolta ef ég er með hanska?

Frændi minn er bóndi.  Hann brýtur lögmálið skv. 3.Mósebók 19:19 með því að sá tveim mismunandi fræjum í sömu mörkina, og konan hans brýtur það líka með því að ganga  í fötum úr tvenns konar þræði (bómull/pólýester).  Hann  bölvar líka þó nokkuð.   Þurfum við að hóa í allt sveitafélagið og grýta þau eins og stendur í 3.Mósebók 24:10-16 eða getum við í fjölskyldunni séð um málið með því að brenna þau til dauða  eins og við gerum við fólk sem sefur með tengslafólki sínu? (3.Mósebók 20:14).

Ég veit að þú ert vel að þér í þessum hlutum og ég er sannfærður um að þú getir hjálpað mér þarna.  Takk fyrir að minna á að Guðs orð eru eilíf og óbreytanleg.

Þinn vinur,

Sveinn..

 

Þýtt héðan

PS:  Þriðju Mósebók má lesa hér.

 


Surtr fer sunnan

Hollywood hefur hannað mörg eftirminnileg skrýmsli.  Skrýmslið á myndinni er þó "alvöru" og sennilega banvænna en skrýmslin í bíómyndunum áttu að vera, því þetta er orrustuflugmaður:

 Predato-Planes-2

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hann er með glóandi glyrnur og horn eins og ári úr djöflabókum miðalda.  Glóðin í augunum er endurkastið frá myndavélum í hjálminum.

Sniðugt hvað raunveruleikinn minnir stundum á gamlar sögusagnir.  Maður vonar bara að þetta sé alger tilviljun en ekki vísun í opinberunarbók Jóhannesar...

 

Heimild: Daily Mail 

 

 


Napólí Norðursins

Við rætur Vesúvíusar stendur Napólí með sínar tíu svæðisstjórnir sem ná víst illa að vinna saman í mörgum málum.  Að einhverju leyti er  mafíunni um að kenna hef ég heyrt. naples trash-jj-001

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Stundum held ég að Reykjavík sé svolítil Napólí norðursins.

Ég hef fylgst með málefnum hjólreiðamanna lengi og þess vegna veit ég  að ekki ein sál í borgarkerfinu er með málefni þeirra á sinni könnu.  Kerfið virðist ekki ráða við þessa nýju hugsun, að reiðhjól séu ekki leikföng.

Ég hef líka orðið var við að borgin mín er orðin ansi subbuleg.  Ég hjóla yfir glerbrot á gangstéttum sem eru frá því á menningarnótt.  Bílar leggja uppi á stéttum, brunahanar ryðga og gangstéttar eru að verða að mulningi sumsstaðar vegna elli.  Byggingarverktakar skilja eftir illa frágengin vinnusvæði án þess að gengið sé frá hjáleiðum og merkingum.

Það var með miklum herkjum að tekið var á skálmöldinni sem hafði skapast í miðbæ Reykjavíkur um helgar, árum saman tók enginn af skarið.

Menn hafa rifist mikið um vegalagningu út úr bænum og flutning flugbrauta og engar ákvarðanir eru í sjónmáli.  Nú síðast var málefnum Orkuveitunnar klúðrað á mjög viðvaningslegan hátt svo seint mun gleymast.

Því verð ég að spyrja upp á ensku:  "What have you done for me lately?"

Hvernig nýtist vinnudagurinn hjá borgarstarfsmönnum, ekki sem pólítíkusum heldur sem venjulegum starfsmönnum sem þurfa að vinna vinnuna sína en fá annars tiltal og eru jafnvel reknir?

Eru gæðamálin ekki örugglega í góðu lagi eins og hjá nútíma fyrirtækjum? 

Getur verið að það sé eitthvað að borginni eins og hún er uppbyggð, að hún hreinlega virki illa sem kerfi, óháð því hver sest í borgarstjórastólinn?  Er það innbyggt í hana að allt þurfi að fara í pólitískan baklás?

Ég hitti almenna borgarstarfsmenn sem afgreiða mig þegar ég fer í sund, í strætó eða á bókasafn.  Ég þarf ekki mikið að ræða daginn og veginn til að heyra hversu langþreyttir þeir eru.  Ég heyri af yfirmönnum sem eru alltaf á fundum og virðast ekki vinna við annað.  Ábyrgðin virðist býsna dreifð og enginn tekur af skarið.

Hvaða mál hafa verið kláruð?  Hvar er "todo" listinn og hvað er búið að haka við?

  • Hvað með sorphirðu á flöskum og dagblöðum í heimahús?  Af hverju förum við í bíltúr með flöskurnar okkar?
  • Hvað með rafrænu hliðin sem standa ónotuð á öllum sundstöðum?
  • Hvað með rafræna miðakerfið sem átti að koma í strætó?  Hvað kostaði þróun þess?
  • Hvað með 200 metra hjólastíginn á Laugavegi, hvenær á að framlengja hann?
  • Hvað með ljósleiðarann sem Orkuveitan lagði, hvenær verður hann tengdur við eitthvað í mínu heimahúsi?
  • Hvað með útivistaraðstöðu í Laugardal fyrir borgarbúa, af hverju eru engar framkvæmdir þar nema ný bílastæði?
  • Hvernig er með skipulag á Öskjuhlíðarsvæðinu?  Hvernig verður þetta með vegalagningu við nýja hús Háskólans í Reykjavík?
  • Hvað með hættulegar gangbrautir kringum hringtorgið hjá Þjóðminjasafninu sem var kvartað út af þegar Ingibjörg Sólrún var borgarstjóri?
  • Hvað með breytingar á umferðarmannvirkjum vegna aukinnar bílaumferðar eftir Miklubraut?
  • Af hverju var tölvuvæðing bókasafnanna tíu árum á eftir öðrum borgarbókasöfnum á norðurlöndum?
  • Hvað með skipulagsmál í Skuggahverfinu?
  • Hvað með skipulagið á Laugavegi?
  • Af hverju eru svo mörg borgarhverfi alger viðvaningsleg skipulagsslys?
  • Hvað með stórátakið í málefnum hjólreiðamanna sem allir flokkar hafa haft á sínum stefnuskrám?


Þetta eru bara málin sem ég tek eftir persónulega.  Ég er hvorki fatlaður, gamall né með smábörn á heimilinu. Samt er af nógu að taka.

Ég hef óþægilega á tilfinningunni að mál séu ekki að mjakast hægt en örugglega áfram í kerfinu heldur að renna afturábak eða hverfa.

Ég hef líka á tilfinningunni að það sé alltaf verið að finna hjólið upp aftur í hverju máli.  Það virðist alltaf vera hægt að byrja að rífast aftur um eitthvað sem ætti að vera grundvallaratriði eða búið að ákveða.

Það er engin afsökun að þetta séu allt saman pólítísk mál.  Orðið "Pólítík" þýðir "Málefni borgarbúa" á latínu.  Það þýðir ekki "fólk sem rífst að eílífu og gerir ekkert".

Borgarbúar verða gjaldþrota ef við ætlum að bíða eftir að allir verði vinir.  Við hjónin tölum saman um litinn á eldhúsinu en svo er líka málað á endanum (hvítt venjulega).

Plató hélt því fram að  ríki og borg ætti að stjórna af embættismönnum sem fengju stranga ævilanga menntun til þess arna.  Það er fasísk hugsun, en vantar kannski upp á starfsþjálfun embættismanna borgarinnar, valda þeir ekki verkinu?  Er ekki nóg að vera læknir eða lögfræðingur til að fá að stjórna borg?

Um daginn voru háskólarnir teknir út af óháðum erlendum aðilum.   Kannski Reykjavík þyrfti að fá sambærilegt aðhald utanfrá.  Er ekki einhver vinabær sem til vamms segir?

Kannski er allt í himnalagi í Reykjavík en ég bara orðinn langþreyttur að sjá enga stefnumörkun í málefnum hjólreiðamanna...

 


Líf án kjölfestu

Það sem fylgir er ekki blogg heldur þýðing á ræðu sem var haldin árið 1854, af manni sem hét Henry David Thoreau og ég met mikils.  Ég ákvað að sýna honum virðingarvott með því að þýða eina af hans frægustu ritum á íslensku, en mér vitanlega hefur ræðan ekki verið þýdd áður.

Ræða er heilar tólf síður svo ég mæli með því að lesendur prenti hana út ef þeir vilja spreyta sig á henni.  Ég er bara búinn að prófarkalesa einu sinni svo ég tek á móti leiðréttingum fegins hendi.

Kveðja, Kári

 

Henry_David_Thoreau

 

 

 

 

 

 

 

 

 



Líf án kjölfestu

eftir Henry David Thoreau


1.

Fyrir skömmu var ég staddur á ráðstefnu þar sem mér fannst fyrirlesarinn hafa valið umræðuefni sem varðaði hann sjálfan lítið.  Fyrir vikið leiddist mér að hlusta.  Hann lýsti hlutum sem stóðu honum ekki nærri og það var heldur ekki neinn rauður þráður eða kjarni í fyrirlestrinum.

Ég hefði viljað sjá hann fást við sínar persónulegustu upplifanir eins og skáldin gera.  Besta hrós sem ég hef fengið var þegar einhver spurði hvað mér fyndist og hlustaði svo á svarið sem ég gaf.  Ég verð hissa og hrifinn þegar þetta gerist, það er svo sjaldgæft að menn vilji nýta mig eins og verkfæri sem þeir kunna vel á.  Yfirleitt vilja menn nota mig til að komast að því hvað þeir eiga marga hektara lands - því ég er landmælingamaður - eða þá vilja þeir fá fréttir af einhverjum málum í gegnum mig. Þeir vilja ekki kjarnann úr mér heldur hismið.

Maður kom eitt sinn til mín og bauð mér að halda fyrirlestur um þrælahald, en þegar ég talaði við hann komst ég að raun um að hann og hans lið vildi að fyrirlesturinn yrði 90% á þeirra forsendum en 10% á mínum svo ég afþakkaði.

Ég geng út frá því að þegar fólk vill fyrirlestur, vilji það vita hvað mér finnst um eitthvað málefni, jafnvel þótt ég sé kannski mesta fífl landsins, ekki af því það vill heyra það sem hentar því að heyra og því finnst þægilegt að hlusta á.

Ég ákveð því yfirleitt að gefa fólki vænan og óþynntan skammt af mér sjálfum. Fólkið bað um mig og borgaði fyrir, því er ég staðfastur í að láta það hafa mig, þótt ég drepi það úr leiðindum.

2.

Nú ætla ég að segja svipaða hluti við ykkur, lesendur mína.  Af því þið eruð hérna og ég hef ekki ferðast mikið ætla ég ekki að tala um hluti sem eru langt í burtu heldur eru eins nærri heimahögunum og hugsast getur.  Tíminn er naumur og því ætla ég að sleppa öllu skjalli en halda mig við gagnrýna hugsun.

3.

Hugleiðum í hvað við verjum lífinu.

4.

Þetta er heimur viðskipta.  Hvílík læti!  Umferðin vekur mig flestar nætur.  Másið í henni truflar draumana.  Það er enginn hvíldardagur. Það væri frábært að sjá mannkynið í fríi einu sinni.  Það er ekkert nema vinna, vinna, vinna!  Ég get ekki keypt bækur með auðum blaðsíðum til að skrifa hugsanir í, því einhver er yfirleitt búinn að rúðustrika þær fyrir krónur og aura.

Írskur maður sá til mín hripa hugsanir niður í vasabók, hann gaf sér strax að ég væri að skrá unna tíma og reikna mér laun.  Ef maður dettur út um gluggann í barnæsku og bæklast, eða missir vitið þá er sorg samfélagsins mest yfir því að þarna fór góður starfskraftur. Ég held að það sé ekkert, ekki einu sinni glæpir, sem stendur listum og heimspeki, lífinu sjálfu jafn mikið fyrir þrifum eins og þessi sífelldu viðskipti.

5.

Í útjaðri bæjarins býr raupsamur fauti sem hefur komist í álnir.  Hann ætlar sér að byggja vegg þar sem landareign hans endar í brekku.  Almættið kom þessari flugu í hausinn á honum svo hann færi sér ekki að voða, og hann er búinn að bíta í sig að ég eigi að eyða þremur vikum í þetta með honum.  Kannski græðir hann peninga á verkinu svo erfingjar hans geta eytt þeim í einhverja vitleysu.  Ef ég geri þetta með honum munu flestir taka eftir hvað ég er duglegur og vinnusamur, en ef ég kýs að verja tíma mínum í verkefni sem skapa raunveruleg verðmæti en litla peninga munu flestir líta á mig sem iðjuleysingja.

Þar sem ég þarf ekki atvinnubótavinnu til að halda mér frá voðaverkum og þar sem ég sé ekkert gott við þetta verkefni mannsins, frekar en svo mörg verkefni samlanda okkar, jafnvel þótt hann geti skemmt sér við þetta, vel ég að halda áfram mínu lífsnámi við annan skóla.


6.

Ef maður fer í göngutúra um skóginn hluta hvers dags af því hann elskar skóginn, verður hann stimplaður letingi, en ef hann eyðir öllum deginum í að hugsa um peninga, lætur höggva skóginn og berstrípar landið verður honum hampað sem iðjusömum frumkvöðli. Hafa bæir ekkert við skóga að gera annað en höggva þá niður?

7.

Flestir yrðu sármóðgaðir ef einhver bæði þá um að henda steinum fram og til baka yfir einhvern vegg í skiptum fyrir pening. Hins vegar er fullt af fólki ráðið í álíka tilgangslaus störf.  Til dæmis var ég á fótum skömmu eftir dögun um sumardag þegar ég sá nágranna minn stjórna uxum sem drógu risastóran tilhöggvin stein sem var bundinn aftan í vagn.  Dagurinn byrjaður, sviti á brá, iðinn og til fyrirmyndar var hann, öllum letingjum til skammar.

Ég hugsaði með mér:  þetta eru verk mannana sem Bandaríkjaþing var skapað til að vernda, karlmannlegt, heiðarlegt strit, jafn heiðarlegt og dagurinn er langur, strit sem lætur matinn bragðast vel og gerir samfélagið gott, sem allir virða og telja heilagt. Þarna fer einn hinna heilögu, sem vinnur erfitt en nauðsynlegt starf.

Ég fann fyrir smá samviskubiti af því ég horfði á hann út um gluggann og var ekki sjálfur byrjaður að baksast eitthvað. Dagurinn leið -- um kvöldið fór ég fram hjá garði annars nágranna sem er ríkur og hefur marga í þjónustu sinni. Sá eyðir háum fjárhæðum í vitleysu en bætir þjóðfélagið lítið.  Þarna sá ég steininn frá í morgun orðinn hluta af hégómlegu minnismerki sem átti að auka á dýrðir hússins hjá nágrannanum.

Við þetta hvarf ljóminn af erfiðisverkum mannsins frá í morgun.  Mér finnst sólin hafa verið gerð til að lýsa upp verðugri verk en þetta.  Í óspurðum fréttum má geta þess að verkkaupinn er farinn úr bænum, skuldugur, og sestur að annars staðar til að styðja listir og dáð.

8.

Fjáröflunarleiðir liggja yfirleitt niðurávið.  Ef maður gerir eitthvað eingöngu til að fá peninga þá hefur maður verið iðjulaus eða þaðan af verra.  Ef sá sem vinnur fær ekkert nema launin hefur hann verið svikinn, og hann svíkur sjálfan sig.

Ef þú færð laun sem fyrirlesari eða rithöfundur verður þú að vera vinsæll og þá liggur leiðin líka niðurávið þótt hún halli kannski heldur minna.  Sú þjónusta sem fæst best borguð er iðulega sú sem leiðinlegast er að veita.  Þú færð greitt fyrir að vera eitthvað minna en manneskja.  Ríkið er enginn draumavinnustaður fyrir vel gefið fólk.  Jafnvel bestu skáldin vilja síður ganga á ættarauðinn þótt þau ættu hann, þeim þarf að greiða þó ekki sé nema með vínflösku og eitthvað annað skáld þá væntanlega kallað burt frá sinni skáldskapargyðju til að búa vínið til.

Hvað mig sjálfan varðar þá fæ ég ekki borgað fyrir þær landmælingar sem ég vil helst vinna við, því atvinnuveitendur vilja þær ekki.  Þeir vilja helst að ég mæli ónákvæmt og þeim í hag.  Þegar ég bendi þeim á að hægt sé að mæla á ýmsa vegu spyrja þeir alltaf hvernig þeir fái stærstu mælitölurnar, ekki hvaða mæliaðferð sé réttust.

Einu sinni bjó ég til mælistiku til að mæla timbur og reyndi að selja hana í Boston en sá sem mældi þar, benti mér á að hann væri nú þegar of nákvæmur og að fyrir vikið létu viðarsölumenn mæla fyrir sig í Charlestown áður en þeir kæmu yfir brúna.

9.

Markmið þess sem vinnur ætti að vera að vinna vel, ekki að afla launa eða landa góðu starfi.  Það borgar sig fyrir samfélagið að borga fólki svo góð laun að það fái á tilfinninguna að peningar séu aukaatriði.  Ekki ráða mann sem vinnur fyrir þig út af peningunum heldur af því honum finnst vinnan skemmtileg.

10.

Það er eftirtektarvert að fáir eru í svo góðri vinnu að það megi ekki tæla þá frá henni með smá pening.  Ég sé auglýst eftir hressum ungum mönnum eins og ef það eina sem ungir menn hafi fram að færa sé að vera hressir.  Menn eru sífellt að koma mér á óvart með því að bjóða mér að vera með í einhverju nýju  verkefni eins og ég væri iðjulaus og að líf mitt hefði verið samfelldur ósigur hingað til.  Ekki eru það gullhamrar!  Það er eins og ef hann hefði hitt mig veglausan á úthafinu, á leiðinni ekkert, og sé að bjóða mér far!  Ef ég gerði það, hvað myndu lánadeildir bankanna segja um mig?

Nei, ég er ekki verkefnalaus á þessu stigi.  Sannast að segja sá ég auglýst eftir hæfum sjómönnum þegar ég var drengur á gangi við mína heimahöfn og þegar ég hafði aldur til lagði ég úr höfn.

11.

Samfélagið hefur engar þær mútur sem freista hyggins manns.  Þú getur safnað peningum til að bora í gegnum fjall en þú getur ekki safnað peningum til að ráða mann sem er að skipta sér af sínum eigin málum.  Hagsýnn og verðmætur maður gerir það sem hann getur hvort sem samfélagið greiðir honum eða ekki.  Hinir verðlausu bjóða verðleysi sitt til hæstbjóðanda og búast í sífellu við að fá góða stöðu.  Maður gerir ráð fyrir  að þeir verði sjaldnast fyrir vonbrigðum.

12.

Kannski ver ég frelsi mitt óvenju heiftarlega.  Mér finnast tengsl mín og skuldir við samfélagið vera lítil og tímabundin.  Sú litla vinna sem ég þarf að framkvæma til að eiga fyrir nauðþurftum og sem gera mig háðan öðrum er mér yfirleitt ánægjuleg og ég gleymi því yfirleitt að hún sé nauðsynleg.  Fram að þessu hef ég verið hamingjusamur.

Ég sé samt að ef þarfir mínar ykjust mikið  myndi vinnan sem ég þyrfti að framkvæma fljótt breytast í mikla áþján.  Ef ég seldi samfélaginu bæði formiðdaga mína og eftirmiðdaga eins og flestir gera, yrði ekkert eftir fyrir mig þess virði að lifa fyrir.  Ég vona að ég muni aldrei láta lífið í sölurnar fyrir verðlitla súpuskál.

Ég vil leyfa mér að fullyrða að maður geti verið mjög vinnusamur en varið samt tíma sínum illa.  Það eru engin mistök lífshættulegri en að eyða bróðurparti lífsins í að afla sér lífsviðurværis.  Öll merkileg störf nærast á sjálfum sér.  Skáldið þarf að yrkja eins og trésmiðja er keyrð áfram á spænunum úr henni sjálfri.  Þú verður að lifa með því að elska.  En rétt eins og 97 prósent kaupmanna fara á hausinn þá er líf flestra mislukkað samkvæmt þessum staðli og gjaldþrot næsta víst.

13.

Þeir sem fæðast í heiminn sitjandi á stórum arfi eru varla á lífi.  Þeir sem lifa á ölmusu ættingja eða ríkis eru á sveit settir, þótt menn velji að kalla það fínni nöfnum.  Á sunnudögum fer skuldarinn til kirkju og kemst að því að hann hefur eytt um efni fram.  Í kaþólskunni játa menn, ætla að iðrast og tala um að byrja upp á nýtt.  Þannig liggja menn á bakinu, talandi um fall mannsins án þess að reyna að standa á fætur.


14.

Menn gera mismunandi kröfur til lífsins.  Það er mikill munur á tveim mönnum þar sem einn sættir sig við auðveld mörk sem hægt er að skjóta af stuttu færi en hinn tekur langskot þótt hann hitti ekki oft.  Ég vil heldur vera sá síðarnefndi, þótt kínverskt máltæki segi: "Sigrarnir heimsækja ekki þann sem horfir sífellt niður, en sá sem horfir sífellt upp verður fátækur".

15.

Það er merkilegt að fátt hefur verið ritað um það að vinna fyrir sér.  Hvernig á að gera vinnuna ekki bara virðulega heldur ánægjulega? Ef öflun lífsviðurværis er ekki ánægjuleg er lífið það væntanlega ekki heldur.  Maður skyldi ætla að þessi hugsun hefði aldrei hitt nokkurn fyrir.  Er það vegna þess að flestum finnst atvinnan of leiðinleg til að skrifa um hana?

Peningar gætu kennt okkur um þau verðmæti sem skaparinn ætlar okkur að bera skynbragð á en við veljum að hlusta ekki á kennsluna.  Mönnum virðist standa á sama hvaðan lífsviðurværið kemur, hvort þeir vinna sér fyrir því, erfa það eða stela því.  Ég held að þjóðfélagið hafi gert lítið til að ala okkur upp þarna.  Kuldi og hungur eiga betur við mig en margar aðferðir sem menn beita til að afla lífsviðurværis, ég mæli með því að menn haldi sig fjarri þeim.

16.

Viðurnefnið "Vitur" er ofnotað.  Hvernig getur maður verið vitur ef hann kann ekki að lifa betur en aðrir?  Er hann bara lævísari og fjölkunnugri?  Vinnur viskan við færiband eða kennir hún velgengni með fordæmi?  Er til viska sem ekki er hægt að beita við að lifa lífinu?  Er viskan bara malari sem bryður hlutina niður með rökum?

Það má spyrja hvort Plató hafi unnið fyrir sér á betri hátt eða áhrifaríkari en samtíðarmenn hans eða hvort hann hafi fallið í lífsbaráttunni eins og aðrir menn.  Virtist hann betri en aðrir menn af því hann lét sig suma hluti engu varða eða með því að láta fara mikið fyrir sér?  Eða lifði hann kannski betur af því frænka hans mundi eftir honum í erfðaskránni?

Aðferðir flestra við að afla lífsviðurværis eru til bráðabirgða og undanbrögð frá raunverulegu lífi, aðallega af því þeir vita ekki betur en líka vegna þess að þeir ætla sér ekki betur.

17.

Gullæðið í Kalifornínu og viðhorf manna til þess, ekki bara kaupmanna heldur líka menntamanna, er mannkyninu stórlega til vansa.  Að svona margir skuli vera tilbúnir að helga líf sitt þessu fjárhættuspili til að geta seinna keypt þjónustu annara ef þeir vinna í því, án þess að ætla sér að gera neitt verðmætt sjálfir.  Og þeir eru kallaðir frumkvöðlar!

Ég veit ekki um neina ömurlegri þróun í siðleysi viðskipta og allra aðferða við að leita sér lífsviðurværis.  Heimspeki, skáldskapur og trúarbrögð slíks mannkyns eru ekki á við pappírskúlu.  Svínið sem lifir af því að leita af rótum með trýninu myndi skammast sín fyrir þennan félagsskap.  Ef ég gæti fengið allan auð heimsins með því að lyfta fingrinum myndi ég ekki borga hann því verði.

Móhamet vissi að Guð gerði heiminn ekki að gamni sínu.  Maður gæti ætlað að Guð sé fjársterkur aðili sem kastar hnefafylli af aurum til að horfa á mannkynið skríða til að safna þeim upp.  Heimsbíngóið!  Viðurværið á jörðinni eitthvað til að spila með.  Hvílík háðsádeila á stofnanir mannanna!  Niðurstaðan hlýtur að vera að mannkynið hengir sig uppí tré.  Hefur Bíblían bara kennt mönnum þetta?  Er besta uppfinning mannkyns bara betri hrífa?  Kenndi Guð okkur að uppskera þar sem við sáðum ekki í von um að finna kannski gullmola?

18.

Guð gaf réttlátum mönnum leyfi til að afla sér lífsviðurværis á jörðinni.  Hinir ranglátu bjuggu til afrit af leyfinu og notuðu það til að fá sér mat eins og hinir.  Þetta er útbreiddasta tilfelli fölsunar sem heimurinn hefur séð.  Ég vissi ekki að mannkynið hefði þjáðst af gullskorti í árdaga.  Ég hef séð gull, og ég veit að það er gott að smíða úr því en þó ekki eins auðvelt og úr hugsunum mannana.  Arða af gulli getur gyllt stóran flöt en ekki eins stóran og arða af speki.

19.

Gullgrafarar í skriðum fjallanna eru jafn miklir fjárhættuspilarar og kollegar þeirra á börunum í San Francisco.  Hvaða máli skiptir hvort þú hristir teninga eða mold í pönnu?  Ef þú vinnur þá tapar samfélagið.  Gullgrafarinn er óvinur verkamannsins, sama hvernig á málið er litið.  Það er ekki nóg að segja mér að þú hafir unnið sleitulaust til að finna gullið.  Djöfullinn vinnur líka sleitulaust.  Vegurinn til glötunar getur líka verið þyrnum stráður.

Einfaldningur sem heimsækir gullnámu sér samt strax að vinnan þar er eins og fjárhættuspil.  Gullið sem rennur í vasana þar er ekki eins og gull sem er greitt fyrir alvöru vinnu.  Í reynd gleymir hann því strax og byrjar að leita gulls og kaupir þar með miða í lotteríinu.

20.

Eftir að hafa lesið frásögn Howitt um gullgröft í Ástralíu sá ég fyrir mér dalina og árnar sundurskorna af drullupyttum, tveggja og upp í tuttugu metra djúpum, þétt saman og hálffullum af vatni.  Þarna hanga menn til að leita hamingjunnar, ekki vitandi nema ríkidæmið sé beint undir tjaldinu þeirra, stundum grafandi hundruðir metra áður en þeir finna gullæð, stundum missa þeir af heni svo skeikar sentimetrum.

Þeir breytast í púka ofan í pyttunum, hirðulausir um náungann grafa þeir sig í gegnum heilu dalina og breyta þeim í gatasigti áður en þeir drepast úr ofkælingu og sjúkdómum standandi í blautum skít og drullu.

Um daginn var ég að hugsa um hvað hefði farið aflaga í mínu eigin lífi og hvort ég ætti ekki að gera eins og aðrir, en grafa eftir gulli hjá sjálfum mér? Grafa göng inn í miðju mína og finna gullæðina þar?  Það er alvöru gullnáma, jafnvel þótt þú finnir ekkert gull á endanum.

Í öllu falli vil ég feta stíg þótt hann sé hlykkjóttur og mjór ef mér tekst að ganga hann með ást og virðingu.  Þegar maður yfirgefur fjöldann og fer sinn eigin veg með þessu hugarfari mun einstígur hans vera æðri leiðin.

21.

Menn drífa sig til Ástralíu og Kaliforníu eins og ef gullið sé þar, en það er vitlaus átt.  Þeir fara lengra og lengra frá æðinni og eru lánlausastir þegar þeir halda sig heppnasta.  Er jörðin undir okkur ekki full af gulli?  Flæða ekki ár frá gylltum fjöllum til okkar?  Undarlegt nokk eltir enginn þann sem gengur meðfram þeim ám og reynir að stela af honum þessum verðmætum.  Hann getur dvalist þar alla sína daga og enginn reynir að ræna hann lífshamingjunni.

22.

Howitt segir frá manni sem fann fjórtán kílóa gullklump í Ástralíu:  Hann byrjaði að drekka, fékk sér flottan hest, reið um á brokki.  Þegar hann hitti fólk spurði hann það hvort það vissi hver hann væri og upplýsti það svo um að hann væri vesalingurinn sem fann gullklumpinn.  Á endanum reið hann á tré og barði næstum úr sér heilann.  Sennilega var hann þegar búinn að því þegar hann barði honum í gullklumpinn.

Howitt bætti við: "Hann var glataður maður".  En hann er dæmigerður fyrir manngerðina.  Þeir lifa flestir eins og það sé enginn morgundagur.  Hugleiðum nöfnin á stöðunum þar sem þeir grafa:  Asnamelir.  Kálhausadalur.  Morðingjabarinn.  Ætli það sé ekki kaldhæðni í þessum nöfnum?

23.

Nýjasta útrásin fyrir framtakssemi okkar hefur verið grafarrán í leit að gulli á ósunum við bæinn Darien.  Það er iðnaður sem virðist vera í örum uppvexti enda er þingið í Nýju Granada að samþykkja hann og blaðamaður hefur skrifað að fleiri grafreitir muni vafalaust finnast.  Hann bendir mönnum á að mæta í Desember með skóflu, haka, teppi og ekkert annað.  Hann endar með smáu letri: Ef þú hefur það gott heima hjá þér, haltu þig þá heima.  Það mætti skilja þetta: Ef þú getur lifað af grafarráni heima hjá þér, haltu því þá áfram.

24.

En afhverju að leita til Kaliforníu að dæmum?  Kalifornía er byggð af fólki sem kemur frá skólum og kirkjum Nýja-Englands.

25.

Það er merkilegt að meðal prestanna eru svo fáir að kenna góða siði.  Spámennirnir virðast láta sér lynda að afsaka framferði mannanna.  Flestir prestar segja mér með spekilegu brosi, ypptandi öxlum, að vera ekki of viðkvæmur fyrir þessum hlutum, betra sé að spila bara með.  Skásta heilræðið sem ég hef fengið var hálfgert nöldur, að það væri ekki vert tíma míns að reyna að bæta heiminn.  "Ekki spyrja þig hvaðan smjörið kemur á brauðið þitt, þú verður veikur af því".

Það er betra að svelta en að tapa ærunni við að afla brauðsins.  Ef sérhver siðmenntaður maður geymir inní sér siðleysingja, þá er hann bara einn af púkum andskotans.  Þegar við eldumst missum við mörg hver sjónar á hugsjónum okkar og hættum að hlýða okkar bestu köllunum.  Við ættum samt að halda áfram að reyna og hunza háðsglósurnar frá þeim sem hefur mistekist.

26.

Vísindi og heimspeki gefa okkur ekkert frekar sanna og hugrakka lýsingu á lífinu.  Klíkuskapur og dramb ráða einnig ríkjum þar.  Menn fara í rannsóknarleiðangra til að geta notað misnotað svæðin seinna.  Eigum við eftir að leggja himnana undir byggingarframkvæmdir á endanum? Börn geta ekki fengið svör við mikilvægum spurningum eða birt spurningarnar án þess að vera ritskoðuð af prestunum fyrst.

27.

[Ég gæti þegið hjálp með að þýða þessa setningu]  You come from attending the funeral of mankind to attend to a natural phenomenon.  A little thought is sexton to all the world.

28.

Ég þekki ekki menntamann sem er svo frjálslyndur að ég geti hugsað upphátt í návist hans.  Flestir sem þú reynir að tala við munu fljótlega festa sig í eitthvað sjónarmið sem fylgir einhverri stofnun sem þeir aðhyllast.  Þeir munu reka sína lágu rafta milli þín og himinsins þegar það eru himnarnir sem þú vilt sjá.  Burt með köngulóarvefina, þrífðu gluggana segi ég!

Sumar menningarstofnanir segjast hafa útilokað umræður um trúmál.  Hvernig veit ég þá hvaða trúarbrögð þeir aðhyllast og hvort ég hugnast þeim eða ekki?  Ég hef gengið inn á þannig samkundu og gert mitt besta til að lýsa trú minni á lífið en áheyrendur grunaði aldrei hvað ég var að fara.  Fyrirlesturinn varðaði þá jafn lítið og tunglskinið.

Ef ég hefði lesið fyrir þá ævisögur einhverra illmenna hefðu þeir uppveðrast eins og ég væri að skrifa biskupasögur.  Venjulega spyrja menn út í sal "hvaðan kemur þú?" eða "hvert ætlarðu næst?". Ég heyrði til manns út í sal spyrja annan meira viðeigandi spurningar sem lét mig skjálfa og hún var "hvers vegna er hann að þessu?"

29.

Ærlega sagt þá eru þeir menn sem ég veit besta ekki í hugarró, þeir eru sjálfum sér ekki nógir.  Þeir dvelja við yfirborð hlutanna og skjall og þeir skilja tilgang hlutanna bara örlítið betur en aðrir.  Við veljum húsunum okkar granít undirstöður, við rekum girðingarstólpa niður í grjót en við sjálf byggjum ekki á bjargi.  Gaflar okkar eru rotnir.  Úr hverju eru menn sem lifa ekki samkvæmt sannleikanum?

Ég álasa bestu vinum mínum fyrir hjóm, því þótt við séum kurteisir við hvora aðra kennum við okkur hvor öðrum ekki um heiðarleika og hreinskilni eins og villimennirnir gera, eða um staðfestu og áreiðanleika eins og steinarnir gera.  Þessi löstur er okkur báðum að kenna því yfirleitt ætlumst við ekki til meira af hvorum öðrum.

30.

Lætin sem urðu út af frelsishetjunni Kossuth um daginn, hugleiðið hversu yfirborðskennd þau voru!  Menn héldu honum ræður út um allt land en allir endurtóku það sem hinn sagði og enginn komst nær sannleikanum.  Eins og venjulega hallaði hver sér upp að öðrum, eins og Hindúar segja heiminn standa á fíl sem stendur á skjaldböku sem stendur á ormi en vantar svo eitthvað til að setja undir orminn.  Eftir allt havaríið út af þessum einræðisherra höfum við alla vega fengið nýja hermannahúfu í tísku.

31.

Svona innatóm og áhrifalítil eru flest samtöl okkar.  Yfirborð á móti yfirborði.  Þegar við hættum að ástunda íhugun verðum við ófær um annað en stunda skvaldur.  Við getum varla hitt annan mann sem veit eitthvað sem við höfum ekki þegar lesið í blaðinu eða heyrt frá nágrannanum og yfirleitt er eini munurinn á okkur og honum sá, að hann hefur séð blaðið eða verið með einhverjum í kaffi sem við höfum ekki hitt.  Eftir því sem okkar eigið líf brotnar niður kíkjum við oftar á póstinn.  Þú mátt bóka, að sá sem montar sig af mestum pósti hefur ekki heyrt frá sjálfum sér nýlega.

32.

Ég er ekki frá því að það sé of mikið að lesa eitt dagblað á viku.  Ég las blað um daginn og á meðan gleymdi ég sólinni, skýjunum, trjánum og snjónum.  Maðurinn þjónar ekki tveim herrum.  Það þarf að einbeita sér í heilan dag til að njóta þess sem dagurinn hefur upp á að bjóða.

33.

Það getur vel verið að við skömmumst okkar fyrir að segja frá því sem við höfum hugsað eða lesið.  Ég veit samt ekki af það sem ég segi ætti ekki að vera mikilvægt.  Við fæðumst með stóra drauma og þrár og frásagnir af því hvernig gengur að uppfylla þær ættu að skipta máli.

Flestar fréttir sem við heyrum vitum við í hjarta okkar að eru gamlar.  Þær eru ekkert nema endurtekning.  Oft hugsar þú með sjálfum þér, af hverju er það fréttnæmt hvern þú hittir í dag?

Svona eru daglegar fréttir.  Þurrar staðreyndir sem fljóta í loftinu eins og sveppagró sem lenda á heilanum á okkur og vaxa þar eins og einhver sníkjuvöxtur.  Við ættum að þrífa þennan sníkil af okkur.  Hvaða máli skiptir að heimurinn springi í loft upp ef allir sem farast eru sálarlausir?  Ef við erum heil geðheilsu ætti fréttin ekki einu sinni að skipta okkur máli.  Ég myndi ekki flýta mér fyrir horn til að sjá jörðina springa.

34.

Kannski slepptir þú því að lesa blöðin og horfa á fréttirnar í sumar og kannski komst þú að því að það var svo margt fréttnæmt við morguninn og kvöldið eftir sem áður.

Göngutúrarnir voru fullir af uppákomum.  Þú hættir að fylgjast með fréttum frá Evrópu en byrjaðir að fylgjast með þínum eigin málum í náttúrunni. Ef þú velur að dvelja í þessu þunna lagi þar sem hlutirnir í raun og veru gerast, lagi sem er þynnra en prentuð blaðsíða, þá munu þessir hlutir fylla heiminn hjá þér en ef þú ferð upp fyrir eða niður úr þessu lagi gleymir þú þeim og getur ekki rifjað þá upp.

Ef við bara sæjum sólarupprásina á hverjum degi myndum við halda geðheilbrigðinu út ævina.  Hvað eru þjóðir?  Kínverjar, Úngverjar, Þjóðverjar, eins og skordýr út um allt!  Sagnfræðingar reyna tilgangslaust að gera þær eftirminnilegar.  Það eru einstaklingar sem byggja þennan heim.  Hugsandi menn geta mælt orð Lodin:

    Ég lít frá sæti mínu niður á þjóðirnar
    og þær eru eins og aska fyrir mér
    Rólegur er bústaður minn
    og yndislegir eru vellirnir þar sem ég dvelst.

35.

Getum við ekki reynt að lifa án þess að vera eins og á eskimóasleða á harðakani yfir fjöll og dali, dregin áfram af hundum sem glefsa í hvern annan?

36.

Ég hrylli mig við tilhugsunina um hversu oft ég hef verið kominn að því að setja mig inn í einhver tilgangslaus málefni sem ég frétti á götunni og ég er hissa yfir því hveru viljugir menn eru að fylla huga sinn af þessu rusli, sögusögnum og getgátum sem skipta engu máli.  Þessar hugsanir eiga ekkert erindi á stað sem á að vera helgaður hugsunum.  Á hugurinn að vera almenningsstaður þar sem sögusagnir af götunni og málefni úr kaffipásunni eru krufin til mergjar?  Eða á hann að vera hluti af himnaríki sjálfu, musteri þar sem guðunum er þjónað?

Mér finnst svo erfitt að hætta að hugsa um það sem skiptir máli að ég hika við að byrja að burðast með nýja hluti sem skipta engu máli.  Fyrir mér eru flest tímarit og samtöl full af þeim.  Það er mikilvægt að halda huganum hreinum að þessu leyti.

Hugsaðu þér að lesa nákvæmlega heila lögregluskýrslu um eitthvað glæpamál og leyfa staðreyndum málsins að valsa um hugann í marga klukkutíma.  Að breyta hugarfylgsnunum í sorpgeymslu, eins og ef allur skíturinn og rykið af götunni hefðu komist þangað inn.  Er það ekki siðferðislegt sjálfsmorð?

Þegar ég hef neyðst til að fylgjast með í réttarsölum og horft á nágranna mína stelast inn og út þaðan, snyrtilega og vel greidda til að hlusta á málaferlin þótt þeir þurfi þess ekki finnst mér sem ég sjái þá með risastór eyru svo heilinn passar varla á milli.  Eins og trektar, fylla eyrun heilann af drasli.  Skyldu þeir þvo heilann jafnvel og andlit og hendur þegar þeir koma heim?  Stundum hefur mér þótt sem sakborningurinn, kviðdómurinn og dómarinn væru álíka sekir og að elding gæti komið og tekið þá alla saman.

37.

Gerðu þitt ýtrasta til að halda þesari óvelkomnu umferð frá þeim eina stað sem þú getur helgað þér einum.  Það er svo erfitt að gleyma því sem er verra en tilgangslaust.  Ef ég á að samþykkja einhverja umferð í gegnum mig vil ég að hún sé af minningum um fjallalæki en ekki um holræsi borganna.  Það má fá innblástur frá himnum inn um eyrun en líka ómerkilegheit frá börum og lögregluyfirheyrslum.  Eyrun geta numið bæði.  Það er bara eðli áheyrandans sem ákveður hvort eyrunum skuli lokað eða þau höfð opin.

Ég trúi því að hægt sé að saurga hugann með því að venja sig á að hlusta á tilgangslausa hluti þar til allur tíminn fer í þá.  Greind okkar er mulin niður í salla á veginn sem vagnhjól samtímans rúlla yfir og ef þú vilt sjá hvaða vegaundirlag hentar best þarftu bara að hlusta á fólk sem hefur látið heilann undir þessa meðferð of lengi.

38.

Ef við höfum vanhelgað okkur sjálf svona -- og hver hefur það ekki? -- þá er lækningin sú að verða meðvitaður og ásetja sér að gera hugann aftur að helgum stað.  Við ættum að umgangast hugann eins og ef hann væri barn sem við þurfum að gæta, og vera varkár hvað við látum barnið sjá og meðhöndla.

Ekki lesa Tímann.  Lestu frekar í eilífðina.  Tilgangslausar hefðir eru á endanum jafn slæmar og hver annar skítur.  Jafnvel staðreyndir vísindanna fylla hugann af ryki nema þær hann sé hreinsaður með morgungöngu eða staðreyndarnar settar í samhengi við ferskan sannleika. Viska kemur ekki til okkar í mörgum litlum staðreyndum heldur með innblæstri.  Sérhver hugsun markar slóða í hugann eða dýpkar slóða sem fyrir eru, rétt eins og göturnar í Pompeii vitna um aldalanga notkun.

Við vitum svo margt og við getum hæglegarætt hvort við værum ekki betur sett ef við vissum ekkert um sumt af því.  Höfum við ekki menninguna til annars en að lifa groddalegu lífi og þjóna djöflinum?  Að eignast peninga, frægð eða frelsi til að fíflast með það eins og ef við værum ekkert nema hismið án lifandi kjarna innaní?  Eru mannanna verk eins og þær hnetur sem eru óætar og með nálum utaná, sem geta ekkert nema stungið puttana?

39.

Bandaríkin eru sögð vera vettvangur frelsisbaráttunnar en ekki ætla menn að láta sér nægja pólitískt frelsi?  Þótt við gefum okkur að Bandaríkjamaðurinn sé frjáls undan oki pólítísks harðstjóra þá er hann ennþá þræll harðstjóra í efnahagslegum og siðferðislegum skilningi.  Nú þegar lýðræðið, res-publica er fengið er kominn tími til að sjá um persónuræðið, res-privata,  sjá til þess að , eins og Rómverska þingið sagði, "ne quid res-privata detrimenti cperet", að sjálfið líði ekki harðræði.

40.

Köllum við þetta land hinna frjálsu?  Hvers virði er að vera frjáls frá Georg konungi en halda áfram að vera þræll fordómanna?  Hvers virði er að fæðast frjáls en lifa í ánauð?  Hvers virði er pólítískt frelsi nema sem áfangi á leiðinni til persónulegs frelsis?  Erum við að gorta af frelsi til að vera þrælar eða frelsi til að vera frjálsir?

Við erum þjóð pólítikusa sem láta sig eingöngu ytra birði frelsisins varða.  Kannski eru það barnabörn okkar sem verða í raun og veru frjáls.  Við sköttum okkur ranglega því hluti af okkur þarf að bera byrðar en fær ekki atkvæðisrétt.  Við skattlegjum sálina með skrokknum þar til skrokkurinn afétur sálina að fullu.

41.

Hvað varðar sanna menningu og manndóm þá erum við nýlenda ennþá en ekki sjálfstæð þjóð.  Við erum nýlenda því við höfum ekki okkar eigin kjölfestu, og af því við leitum ekki sannleikans heldur endurvarpsins frá honum, og því við erum brengluð og forheimskuð af því að eltast of mikið við viðskipti og kaupmennsku og framleiðslu og landbúnað, sem eru bara leiðir en ekki markmið.

42.

Á sama hátt er breska þingið nýlenda.  Þeir koma upp um sig þegar mikilvæg mál lenda á borðinu hjá þeim, til dæmis vandamálið með Írland.  Af hverju sagði ég ekki Breska vandamálið?  Eðli þeirra rís ekki upp fyrir verkefnin sem þeir fást við.  Fína uppeldið ræður bara við annars flokks viðfangsefni.  Þeir verða vandræðalegir og hjárænulegir þegar þeir lenda í alvöru verkefnum.  Þeir virðast mér eins og gömul tíska, ekkert nema kurteisi, hnésokkar og stuttir jakkar, úreltir.

Það er ókosturinn við mannasiði, að sálin á bak við þá getur haldið þeim gangandi án þess að gefa nokkuð af sér.  Mannasiðir eru þá eins og gömul föt eða skeljar sem vilja fá sömu virðingu og sálin sem er á bak við þá.  Þú færð skelina en ekki kjötið og því miður er það ekki svoa að skelin sé einhvers virði, en skeljar geta stundum verið það.

Maður sem tekur mig fyrir með tómum mannasiðum er eins og maður sem sýnir mér skáp fullan af dóti sem hann hefur safnað þegar ég vildi hitta hann sjálfan.   Það var ekki þetta sem Decker átti við þegar hann kallaði Jesú "fyrsta alvöru herramanninn sem hefur lifað".  Í þeim skilningi er þessi besta ríkisstjórn kristninnar stödd í nýlendunum og aðeins fær um að tjá sig um málefnin norðan Rínar en ekki málefni sjálfs Rómarveldis.  Einn konsúll eða praetor hefði getað gengið frá þeim málum sem halda nú gervöllu enska þinginu og því bandaríska svo uppteknum.

43.

Ríkisstjórn og lög!  Ég hélt að þetta væru virðuleg embætti.  Við höfum heyrt um himinborna löggjafa í mannkynssögunni með nöfn eins og Númas, Líkúrgos og Sólon sem standa fyrir réttlæti, en ímyndum okkur svo að setja eigi lög um þrælahald eða tóbak!  Hvað hafa himinbornir löggjafar með tóbak að gera?  Hvernig geta mannvinir sett lög um þrælahald?  Ef þú leggur spurninguna um þrælahald fyrir son Guðs, hvaða svar heldur þú að þú fengir?  Hvernig getur fylki eins og Virginía svarað fyrir sig á dómsdegi þegar þrælar og tóbak hafa verið helstu framleiðsluvörurnar þar?  Hvernig geta menn verið þjóðernissinnar í þannig fylki ?

44.

Viðskiptaveldi sem gerir hafið hvítfreyðandi með skipaferðum sínum til að sækja hnetur og rúsínur og gerir sjómenn sína að þrælum í þeim tilgangi einum!  Ég sá skipsflak um daginn þar sem líkin lágu á ströndinni og farmurinn af berjum og beiskum möndlum flaut í briminu.  Ekki finnst mér þess virði að hætta lífinu í sjóferð frá Lívornó á Ítalíu til New York fyrir ber og beiskar möndlur.  Ameríka er farin að sækja efni í bitter til Evrópu!  Er ekki saltur sjórinn nógu bitur eða mannslífin sem glötuðust þarna?

Samt vinna viðskiptin svona, og til eru þeir sem titla sig heimspekinga nútímans sem halda að framfarir og siðmenning standi og falli með svona ferðalögum og framkvæmdum sem eru eins og ferðalög flugna í kringum síróp. Þetta væri í lagi ef menn væru ostrur segja sumir því þær geta ekki drukknað.  Og gott blessað svara ég, ef menn væru flugur.

45.

Herndon liðþjálfi sem var sendur af ríkisstjórn okkar til að kanna Amasón svæðið og útvíkka mörk þrælahaldsins þangað, sagði að þar vantaði iðjusama og og vinnufúsa menn sem vissu hvað lífsgæði eru og væru tilbúnir til að skapa þörfina sem virkjaði möguleika landsins þarna.  En hvaða þörf er þetta sem þarf að skapa?  Ekki ástin á lúxus eins og tóbaki og þrælum sem fylkið hans, Virgína er frægt fyrir, eða ís og granít og aðrar auðlindir sem Nýja England státar af.

Aðal skorturinn sem ég hef orðið var við í þeim fylkjum sem ég hef heimsótt, er á háleitum, einlægum markmiðum íbúanna sem þar búa.  Þegar við viljum menningu meira en kartöflur og upplýsingu meira en sykurreyr þá þurfum við ekki þræla eða sölumenn heldur hetjur, dýrðlinga, skáld, heimspekinga og frelsara.

46.

Rétt eins og snjóskafl myndast þar sem vindurinn blæs ekki, þá sprettur stofnun upp þar sem sannleikurinn fær ekki að leika um.  Sannleikurinn blæs samt yfir stofnanir og mun að endingu blása þær niður. 

47.

Stjórnmál í dag eru svo ómanneskjuleg og yfirborðskennd að ég hef aldrei orðið var við að þau varði mig yfirleitt.  Hluti dagblaðanna er lagður undir stjórnmálagreinar án þess að tekin sé greiðsla fyrir þær og þar stendur það eina sem einhvers virði er sagt um stjórnmál, en ég er svo upptekinn af bókmenntum og sannleika að ég les aldrei þessa dálka.  Ég vil ekki deyfa réttlætistilfinningu mína með þeim.  Ég þarf ekki að réttlæta fyrir neinum að hafa ekki lesið nein ávörp forsetans.

Það eru undarlegir tímar þegar keisaradæmi, konungsveldi og lýðræði koma betlandi til mannanna og leggja beiðnir sínar við fætur þeirra.  Ég get ekki tekið mér blað í hönd án þess að rekast á betlgreinar frá einhverri vandræðastjórn sem vælir í mér að kjósa sig.

Greinarnar eru álíka vælugjarnar og betlari haldandi á skilti skrifað á ensku af einhverjum sjómanninum sem kom honum í land hér, með skilaboð um að eldgos í Vesúvíusi eða flóð í ánni Pó sé skýringin á ástandi mannsins.  Ég hika ekki við að benda betlara að fá sér vinnu en hvað getur forsetinn gert ef hann fær það svar frá öllum mönnum?  Hann yrði alveg ruglaður.  Blöðin eru valdið.  Ef maður hættir að lesa blöðin fer ríkisstjórnin á hnén fyrir framan hann að lokum, enda eru einu landráðin í dag þau að lesa ekki blaðið.

48.

Þeir hlutir sem stjórnmálamenn fást við eru vissulega lífsnauðsynlegir fyrir þjóðfélagið en þá ætti að framkvæma ómeðvitað eins og starfsemi innyflanna í líkamanum.  Þetta eru mál sem hægt er að afgreiða í undirmeðvitund samfélagsins.  Ég verð stundum hálf meðvitaður um að þessi mál séu afgreidd, rétt eins og maður getur vaknað við magakveisu og fengið harðlífi.  Pólítík er sarpur samfélagsins, með sand og smásteina innaní og stjórnmálaflokkana eins og vöðva sem nudda innihaldinu saman.  Bæði menn og samfélög geta fengið harðlífi.  Í samfélaginu er birtingarmyndin óendanlegur orðaflaumur.  Líf okkar fer þá í að muna orðræður um það sem átti aldrei að þurfa að koma upp á yfirborðið. 

Hvers vegna ættum við ekki að geta hizt á götu, ekki eins harðlífissjúklingar sem segja frá erfiðum draumförum, heldur sem menn með mjúka meltingu sem óska hvor öðrum til hamingju með dýrðlega morgunstund.  Er ég að biðja um mikið?



Hinn upplýsti

Ég er hrifinn af Búddhisma.  Nú kann einhver að segja að ég hafi  nýverið bloggað að ég tryði ekki. 

Búddhismi er ekki trúarbrögð heldur  tillaga mjög merkilegs manns um það hvernig best er að lifa lífinu.  Búddhamúnkar eru ekki að dýrka Búddha heldur vilja þeir reyna að fylgja hans fordæmi.

Ég hef haft mjög gott af því að kynnast kenningum Búddha þótt ég sé ekki búinn að raka á mér hausinn og fjárfesta í kufli.

Búddha benti mönnum sem vildu vera göfugir á að feta lífsleið sem fæli í sér átta  meginhugmyndir. (The eightfold noble path)

Það er hægt að gera margt vitlausara á netinu en að sækja eitt megin rit búddista sem er á PDF formi hér.

Víetnamski búddamúnkurinn (Thich) Nath Hanh sem er samtíðarmaður okkar (hann er áttræður),  hefur sett þessar hugmyndir fram sem  fimm verkefni sem menn ættu að taka sér fyrir hendur.
nhat hanh

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Framsetning hans er mjög aðgengileg.  Ég ákvað að þýða orð Nath Hanh í staðinn fyrir að horfa á sjónvarpið eftir fréttir.  Hann minnist á neyslu svo ég er ekki að fara langt frá mínum  venjulegu umræðuefnum.


Fyrsta verkefni

Ég veit að tortíming lífs veldur þjáningum og því hef ég ákveðið að  vera umhyggjusamur og læra að vernda líf manna, dýra, plantna og  jarðar. Ég ætla ekki að drepa, né láta aðra drepa, og ég mun aldrei  samþykkja dráp í heiminum, með hugsunum mínum eða atferli mínu.


Annað verkefni

Ég veit að misnotkun, þjóðfélagslegt óréttlæti, rán og kúgun valda  þjáningum og því hef ég ákveðið að rækta með mér ást og umhyggju og  vinna að velferð manna, dýra, plantna og jarðar. Ég hef ákveðið að  vera gjafmildur og deila tíma mínum, orku og efnum með þeim sem eru  þurfandi í raun. Ég hef ákveðið að stela ekki og eiga ekki það sem  ætti að tilheyra öðrum. Ég mun virða eigur annarra, en ég mun hindra  aðra í að græða á þjáningum manna eða annara dýra á jörðinni.


Þriðja verkefni

Ég veit að óábyrg kynhegðun veldur þjáningum og því hef ég ákveðið að  temja mér ábyrgð og læra leiðir til að vernda öryggi og heilindi  einstaklinga, para, fjölskyldna og þjóðfélagsins. Ég hef ákveðið að  taka ekki þátt í kynferðislegum athöfnum sem fela ekki í sér ást né  skuldbindingu. Ég ætla að viðhalda hamingju minni og annara með því að  virða mínar skuldbindingar og þeirra. Ég mun gera allt í mínu valdi  til að vernda börn frá kynferðislegri misnotkun og fyrirbyggja að pör  og fjölskyldur leysist upp vegna óbyrgrar kynhegðunar.


Fjórða verkefni

Ég veit að kærulaust tal og skeytingarleysi gagnvart því sem aðrir  segja veldur þjáningum og því hef ég ákveðið að temja mér að tala af  ástúð og hlusta einbeitt á það sem aðrir segja til að færa þeim gleði  og hamingju og frelsa þá undan þjáningum. Ég veit að orð geta veitt  hamingju eða þjáningu og því hef ég ákveðið að tala af sannsögli og  velja orð sem byggja upp sjálfsöryggi, von og gleði. Ég er staðráðinn  í að dreifa ekki fréttum sem ég veit ekki hvort eru sannar og að  gagnrýna og dæma ekki hluti sem ég veit ekki mikið um. Ég mun forðast  að segja orð sem valda sundrung og sundurþykkju eða valda upplausn  fjölskyldna og samfélags. Ég mun reyna af fremsta megni að sætta og  leysa allar deilur, hversu smáar sem þær eru.


Fimmta verkefni

Ég veit að taumlaus neysla veldur þjáningum og því hef ég ákveðið að  rækta heilsuna, bæði líkamlega og andlega, fyrir sjálfan mig,  fjölskylduna og samfélagið með því að vera meðvitaður um át mitt,  drykkju og aðra neyslu. Ég ætla að neyta aðeins þess sem viðheldur ró,  velsæld og gleði í líkama mínum, og meðvitund minni, meðvitund  fjölskyldu minnar og samfélags. Ég ætla ekki að nota áfengi eða aðra  vímugjafa eða innbyrða eitur hvort sem það er sjónvarpsefni, blöð,  bíómyndir eða samtöl. Ég geri mér grein fyrir því að ef ég skemmi  líkama minn og sál með eitri svík ég forfeður mína, foreldra, samfélag  mitt og komandi kynslóðir. Ég ætla að vinna að umbreytingu ofbeldis,  hræðslu, reiði og óreiðu í sjálfum mér og þjóðfélaginu með því að  stjórna neyslu minni. Ég skil að rétt neysla er forsenda þess að  breyta sjálfum mér og samfélaginu.

 


Óþarfa ánauð II

Adam og Eva voru ekki með nafla svo ekki stunduðu þau naflaskoðun. Þau höfðu  engan að heimsækja, ekkert videó og afi kom aldrei í heimsókn, hvað þá að hann  passaði Kain og Abel.

Það eina sem hjónaleysin höfðu var epli sem á stóð "Ekki éta mig". Þau áttu  aldrei séns í þá freistingu.  Ekki er vitað hvernig Kain eignaðist börn eftir að  hafa drepið bróður sinn...

Svo komu kynslóðir af kóngum sem voru hver öðrum andstyggilegri. Jobsbók,  orðskviðirnir og Davíðssálmar eru ágæt lesning, en þess á milli rennur út í  fyrir bókarhöfundum. Móses leiddi lýðinn áfram og hvílíkur lýður!

Guð gamla testamentisins er mislyndur og frátekinn fyrir Guðs útvöldu þjóð sem  er ekki Íslendingar heldur Gyðingar sem voru sannfærðir um að allir aðrir færu  til fjandans.  Afar óviðkunnaleg heimspeki.

Nýja testamentið er miklu betra.  Ég kann mjög vel við Jesú og er sammála honum  í næstum öllu.  Ég er viss um að hann hafi verið til, Rómverjar staðfesta það í  skrifum sínum.  Ég trúi bara ekki á hann frekar en ég trúi á poppstjörnur,  drauga eða jólasveina.

Ég held að Jesú hafi farið í austur frá Palestínu, kynnst Búddisma og fært hann  í búning sem var nágrönnum hans skiljanlegur. Það útskýrir hvers vegna hugsanir  Jesú eru svo upp á kant við allt sem á undan er gengið í Biblíunni -- enda var  hann krossfestur.  Mér hefur alltaf fundist fyrri bókin draga þá seinni verulega  niður.

Það er hægt að lifa andlegu lífi án trúar og öfugt.  Skipulögð trúarbrögð eru  eins og fótboltaáhorf en andlegt líf er eins og að stunda reglulega hreyfingu.  Þetta tvennt fer oft saman en ekki alltaf. Í þessari samlíkingu eru  trúarofstækismenn eins og fótboltabullur. Hvað hafa þær með íþróttir að gera?

Það kemst enginn í form með því að horfa á fótbolta og mennirnir verða ekki  góðir með því einu að mæta í messur.  Trúaðir og trúlausir þurfa að vinna með  sig andlega því höfuðsyndirnar eru lestir sem allir þurfa að reyna að sigrast á.



Ég hafði mitt trúleysi út af fyrir mig og brosti þegjandi þegar einhver gaf sér  að ég væri trúaður.  Núorðið segi ég að ég trúi ekki.  Fyrir því eru tvær  ástæður.

Í fyrsta lagi hafa árásir trúarofstækismanna á turna, borgir og lönd gefið  misvitrum mönnum veiðileyfi á lýðræðið sem ég met mikils.

Í öðru lagi ýta mörg trúarbrögð undir þá hugmynd að betra líf bíði hinum megin  og ekki þurfi að passa upp á náttúruna því hún sé gjöf Guðs til mannanna til að  fara með eins og þeim sýnist.  Sumir ganga svo langt að hlakka til heimsenda. Ég  vil ekki umbera vitleysuna í þannig fólki.

Enginn má halda að trúarbrögð séu það sama og andleg sjálfsrækt.

Þjóðkirkjuna ætti að skilja frá ríkinu.  Hún segist vera órjúfanlegur hluti af  sögu og menningu landsins.  Það er rétt, hún verður alltaf hluti af sögu  Íslands. Það væru mistök að afneita henni í sögubókunum.  Það er þó ekki rökrétt  að álykta að hún þurfi þess vegna að vera innbyggð í lýðveldið áfram.


lion-and-lamb-sm-web[1]

 

 

 

 

 

 

 


Á páskum er haldið upp á að dagurinn er orðinn lengri en nóttin og að vorið er  að koma. Páskarnir eru eldri en dagatalið.  Þess vegna eru þeir alltaf haldnir á  fyrstu helgi eftir fullt tungl eftir jafndægur á vori og færast til í  dagatalinu.  Kanínurnar og eggin eru frjósemistákn. Sögurnar um engilinn sem  myrti börn Egypta og um innreið Jesú í Jerúsalem komu seinna.

Páskarnir eru ekki bara fyrir trúaða.  Ég get líka sagt: Gleðilega páska!  

PS:  Ég er í góðum félagsskap


Tíminn og þú

Ár, mánuður, vika, dagur.  Eitt af framatöldu er öðruvísi.  Veistu hvert?

Árið er hringferð jarðar um sólu, mánuðurinn hringferð tungls um jörð en
dagurinn hringferð jarðar um sjálfa sig.

Vikan (svarið sem ég vildi fá) er ekki háð himintúnglum heldur er hún gamall
verkalýðssamningur milli faraós og ráðinna starfsmanna við pýramídaviðhald,
vatnsveitur og önnur tilfallandi störf.  Faraó var frumkvöðull í
mannauðsstjórnun. Hjá honum áttu menn að vinna sex daga en halda frí þann
sjöunda.

Biblían sagði seinna að Guð hefði haft sama vaktaplan.  Sennilega var það
skrifað til að skapa jákvætt andrúmsloft á vinnustað gyðinga og sýna þeim hverju
hægt væri að koma í verk með góðri tímastjórnun.

Margir kvarta undan tímaskorti.  Þetta er bull.  Þeir hafa allan tímann í
heiminum.  Það má halda því fram að við séum öll í hinu eílifa núi og að tíminn
sé tálsýn.

Flestir eru bara að reyna að gera of mikið.  Þeir borða aðeins of mikið og þeir
vilja líka meiri tíma.  Tími er peningar svo tímaskortur er bara útgáfa af
græðgi.

"Todo" listinn er önnur ástæða fyrir kvörtunum hjá fólki.  Því hættir til að
hrúga öllu á hann þangað það er orðið sannfært um að það muni ekki hafa tíma til
að lifa.  Fyrirmyndar tímastjórnandi ætti væntanlega að byrja listann sinn:

1. Koma út úr mömmu  2. orga.

Listinn myndi enda:  N-1. segja eitthvað spaklegt  N.Deyja.

Það verður eitthvað á todo listanum þegar þú deyrð og eins gott að sætta sig við
það.  Notaðu hann því fyrir hluti sem þú vilt gera, ekki sem áminningu um hvað
þú ert lélegur pappír.

Nákvæmar klukkur komu nýlega til sögunnar.  Klukkur voru ekki gerðar nákvæmar
fyrr en járnbrautafélög þurftu að samræma lestarferðir yfir heimsálfur.

Núna er fólk farið að leika járnbrautalestir hverja einustu mínútu í lífi sínu.
Það er kannski hagkvæmt fyrir þjóðfélagið en ég veit ekki hvort það hámarkar
lífshamingjuna hjá einstaklingnum.

Ég legg til að menn noti Mán-Fös fyrir fyritækið sem þeir vinna hjá, Lau fyrir
fyrirtækið sem þeir reka sjálfir, þ.e. heimilið, en taki sunnudaginn frá fyrir
sjálfa sig.  Ef sunnudeginum er eytt í Smáralind (hvort sem er í innkaup eða
afgreiðslustörf) er það vísbending um að hægja á sér.


Athyglisverðir tímar

Í bókinni "Art of War" er þessi saga í formála.  Frægur læknir var
spurður af hverju frægð hans stafaði.  Hann svaraði:

         Elsti bróðir minn er svo fær að hann sér sjúkdómseinkennin
         áður en sjúklingurinn kennir sér meins. Frægð hans hefur ekki
         borist út fyrir hverfið.
         
         Næstelsti bróðir minn getur læknað mein á meðan þau eru ennþá
         smásár. Hróður hans hefur ekki borist út fyrir heimaborg
         okkar.
         
         Ég reyni að lækna sjúkdóma þegar sjúklingarnir koma til mín
         sárkvaldir, ég stilli kvalirnar og geri þeim lífið bærilegra.
         Þeir breiða frægð mína út.

Ég er draumóramaður, en í mínum draumaheimi ynnu ráðamenn vinnuna sína
svo vel að þeirra yrði nærri aldrei minnst.  Við læsum um tónleika og
leikhús af því stjórnmálin væru varla fréttnæm.

Þorgerður Katrín var mikið í blöðunum um daginn af því hún lofaði
Háskóla Íslands þremur milljörðum króna.  Ég samgleðst Háskóla
Íslands, en ég hefði verið ánægðari ef Alþingi hefði skapað viðunandi
rekstrargrundvöll fyrir skólann (og aðra skóla) með vel gerðum lögum
svo þessi áberandi góðgerðarstarfsemi Þorgerðar hefði ekki þurft að
verða fréttamatur.

Gömul kínversk bölvun hljómar svona: "May you live in interesting
times". Ég vona að sá dagur muni koma að við Íslendingar lifum ekki á
svona athyglisverðum tímum af því kjörnir ráðamenn vinna vinnuna sína
af ráðvendni og í hljóði.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband