Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
11.9.2009 | 16:47
Nova tekur Símann
"Pabbi, ég þarf að skipta yfir í NOVA".
"Af hverju?"
"Af því vinir mínir eru með NOVA, og ég hef ekki efni á að hringja í þá".
"Þetta hlýtur að vera einhver misskilningur".
Ég fer af stað og kíki á málið. Það kostar 28 kr mínútan að hringja frá "Símanum" í NOVA símnotanda, en ekkert ef þú ert sjálf(ur) með NOVA síma. 28 kr er dýrara en að hringja til Hawaii (það kostar 19,90 kr mínútan, fjarlægð 9.955 kílómetrar).
Hann er nú "kominn til NOVA". Allir vinir hans eru með NOVA svo þetta var "no-brainer" fyrir hann. Við þurfum núna að borga fyrir að hringja í hann, en það er ekki tekið af vasapeningunum hans svo þetta er góð bissness ákvörðun hjá honum.
Ég veit ekki hvort síminn lætur þetta kosta svona mikið til að refsa þeim sem reyna að hafa samskipti við NOVA en nú hafa vopnin snúist í höndunum á þeim.
Ég talaði fyrst við þjónustuver símans og svo við afgreiðslumann í verslun símans. Fátt var um svör. Einn sagði :"ég vona að við finnum betri lausn en þetta Frelsi", hinn sagði: "Getur hann ekki verið með tvo síma?"
Það er tímaspursmál þar til ég og konan skiptum líka því það kostar ekkert fyrir okkur að hringja í hvort annað, þeir sem reyna að hringja í okkur bera allan kostnaðinn.
Ef hann væri áfram í Frelsi en borgaði 2000 kr. aukalega á mánuði má hann velja og hringja í hámark sex vini sína ótakmarkað og óháð kerfi, en bara 60 mínútur hámark á mánuði. Ef hann hringir minna en 60 mínútur fást 2000 krónurnar væntanlega ekki endurgreiddar. Svona verðskrár eru ekki til að auka yfirsýn og auðvelda verðsamanburð.Þetta minnir mig á þegar VISA hélt innreið sína á Íslandi. Kaupmaðurinn þarf að borga fyrir VISA og veltir þeim kostnaði á vöruna, enginn býður staðgreiðsluafslátt. Þú ert því búinn að borga fyrir VISA hvort sem þú notar það eða ekki. Eins gott að nota VISA...
Eru þetta endalok Símans? Stay tuned...
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
3.10.2008 | 11:52
Land hinna dauðu
Hér í Frakklandi er kreppan ekki mikið rædd af venjulegu fólki, hún er fyrst og fremst hausverkur banka og fjárfesta á þessu stigi.
Fólk á mínum vinnustað er að ræða hvað það ætlar að gera næstu helgi, skipuleggja heimboð og hjólakeppnir og sinna föstum liðum eins og venjulega.
Mér sýnist staðan á Íslandi vera talsvert ólík.
Vinur minn álpaðist eitt sinn til þess að skrifa upp á víxil fyrir samstarfskonu sína þegar hann var ennþá svo blautur á bak við eyrun að hann vissi ekki hvað það þýddi að vera ábekingur. Konan borgaði ekki og skuldin féll á félaga minn sem bölvaði sjálfum sér fyrir aulahátt í fjármálum.
Vinur minn var samt ekki jafn mikill auli og Davíð sem einkavæddi bankana og gerði mig og þig ábyrg fyrir því að þeim yrði bjargað ef þeir færu á hausinn þótt þeir stunduðu ekki lengur venjulegan bankarekstur heldur áhættufjárfestingar.
Eða var almenningur aularnir? Ég hafði sjálfur ekki gert mér grein fyrir því að hann hefði gert þjóðina ábyrga fyrir hinum stórkostlega áhættusömu fjárfestingum sem útrásarvíkingarnir réðust í. Mér finnst ótrúlegt eftirá að umræða um þetta hafi aldrei komist upp á yfirborðið. Þeir sem gagnrýndu útrásina voru bara öfundssjúkir og púkó, málið dautt. Ég hafði gefið mér að þeir væru að leika sér að annara fé, ekki mínu. Var málið aldrei rætt því fjölmiðlarnir voru allir í eigu þeirra sömu sem léku fjárhættuspilin í bönkunum og Group þetta og hitt?
Ef þjóðin er ábyrg fyrir spilafíkn bankanna langar mig að fá fram svart á hvítu hvernig það gat gerst. Ég hefði aldrei samþykkt að gerast ábekingur fyrir þessari útrás. Ég óttast bara að sú rannsókn fari ekki fram því of margir valdamiklir menn eru tengdir málinu, aðrir en Davíð.
Líklega ætti erlendur dómstóll að rétta yfir þeim sem störfuðu við Seðlabankann. Það er ekki útilokað að erlendir aðilar sem neyðast til að rétta Íslandi hjálparhönd geri þá kröfu að þeir sem stjórnuðu þessari helför í fjármálum verði leiddir fyrir alþjóðarrétt og málið skoðað í kjölinn.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 12:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
2.10.2008 | 12:53
Ísland geldur fyrir óhóf í fjármálum
Á síðari hluta ársins 2007 versnaði ástandið í húsnæðislánum á Bandaríkjamarkaði. Blaðagreinar fóru þá að birtast um að Ísland væri sem "kanarífuglinn í kolanámunni". Sett var fram sú kenning að slæmt ástand á Íslandi væri ávísun á versnandi horfur hjá öðrum löndum.
Eftir þetta hefur ástandið á Íslandi hríðversnað. Framleiðsuvísitalan hefur lækkað um 4% á fyrsta ársfjórðungi ársins 2008. Hlutabréfamarkaðurinn og gengi krónunnar hafa fallið um þriðjung (skrifað í Júlí 2008).
Skuldir þjóðarbúsins eru út úr kortinu á alþjóðlegan mælikvarða. Viðskiptajöfnuður var neikvæður um 25% af þjóðarframleiðslu árið 2006 og 17% árið 2007. Skuldir þjóðarbúsins voru fimmtánfaldar eigur seðlabanka landsins eða 200 prósent af þjóðarframleiðslu. Langtímaskuldir þjóðarbúsins bæta svo við 350 prósentum af þjóðarframleiðslu. Bankaeignir voru orðnar tíföld þjóðarframleiðsla í lok ársins 2007. Þetta ójafnvægi kemur til vegna innkaupa íslenskra fyrirtækja í Bretlandi, Danmörku og annars staðar.
Hvernir getur svona lítill stubbur valdið svona miklu? Svarið er að finna fyrir árið 2000 þegar flestir bankar voru ennþá reknir eins og deildir í ríkisstjórninni. Raunvextir voru lágir og jafnvel neikvæðir á stundum.
Til að bregðast við eftirspurn eftir lánsfé breyttust bankarnir í pólítiskar stofnanir sem lánuðu aðeins þeim sem voru í náðinni. Óhagræðið sem af þessu hlaust kom fram sem skuldasöfnun erlendis og lengstu vinnuvikur í vestur-Evrópu. Þrátt fyrir allt var niðurstaðan sú að Ísland varð ríkt miðað við höfðatölu.
Bankarnir voru einkavæddir árið 2000 með fljótfærum og pólítískum hætti. Eignarhald á bönkunum fór til manna með náin sambönd í íhaldsflokkunum sem höfðu lítið vit á bankarekstri. Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið voru rekin af fólki sem vildi eins lítil afskipti og hægt var.
Bankarnir breyttust fljótt úr venjulegum bönkum í fjárfestingabanka. Hvorki þeir né ráðuneytin eða seðlabankinn gerðu greinarmun á þeirri ábyrgð og tryggingu sem fylgir venjulegum bankarekstri annars vegar og hins vegar á áhættustarfseminni sem fylgir fjárfestingabankarekstri. Það að ríkið og þar með þegnarnir skyldu ábyrgjast rekstur fjárfestingabankahlutans gerði þeim kleift að taka mjög áhættusamar ákvarðanir bæði heima og erlendis. Þeir ráku starfsemina með erlendum lánum í stað þess að byggja á innlánum viðskiptavina.
Seðlabankinn batt viljandi hendur sínar og ákvað að reyna aðeins að stjórna með ákvörðun vaxta. Hann neitaði sér um að ákvarða bindiskyldu á þeirri forsendu að bankarnir vildu það ekki, og hann reyndi heldur ekki að tala um fyrir bönkunum á siðferðislegum grundvelli. Tilraunir seðlabankans til að hefta verðbólguna með því að hækka vexti (upp í 15% 2008) höfðu þau áhrif að enn meira erlent fjármagn sogaðist til landsins og áhrif vaxtahækkana urðu því engin. Krónan hækkaði í verði þrátt fyrir gífurlegar erlendar skuldir.
Vegna styrks krónunnar á fyrstu árum aldarinnar fóru íslensk heimili og fyrirtæki að taka lán eins og enginn væri morgundagurinn. Nú er svo komið að skuldir íslendinga eru miklu hærri en möguleikar seðlabankans til að gangast í ábyrgðir og aðrir bankar í Skandinavíu hugleiða að aðstoða seðlabankann þótt ekki væri nema til að koma í veg fyrir að hrun Íslands smiti út frá sér.
Þetta gífurlega hrun sem nú á sér stað er útkoma óhófs sem byggðist upp í umhverfi lítils sem einskis eftirlits, sem var ekki til staðar vegna fljótfærnislegrar einkavæðingar. Nú er ríkisstjórn Íslands í mjög alvarlegum vandræðum. Sögusagnir herma að næst stærsti stjórnmálaflokkurinn, sósíaldemókratar, sem komst til valda í maí 2007 í fyrsta sinn í fjórtán ár muni slíta samstarfi við stærsta flokkinn, hinn íhaldssinnaða sjálfstæðisflokk og koma af stað nýjum kosningum.
Skoðanakannanir gefa til kynna að sjálfstæðisflokkurinn muni tapa mjög miklu fylgi og sósíaldemókratar sem hafa beðið minni hnekk á mannorði vegna fjármálahneykslisins gætu fengið nægt fylgi til að mynda nýja ríkisstjórn með öðrum flokkum.
Þetta gæti orðið byrjunin á vel þeginni stefnubreytingu í íslenskum stjórnmálum í átt að norrænu samfélagi þar sem samfélagið stjórnast ekki af duttlungum fjármálamanna og skuldir eru teknar föstum tökum.
Þýtt úr grein sem kom í Financial Times í júlí 2008. Höfundurinn, Robert Wade er prófessor í hagfræði við London School of Economics.
Þeir sem einkavinavæddu bankana og veittu þeim svo ekki nauðsynlegt aðhald en sváfu á verðinum meðan þeir fóru í fjárhættuspil með fjöregg þjóðarinnar munu ekki láta af völdum af sjálfsdáðum þótt það eina sem haldi þeim uppi núna sé drambssvipurinn og jakkafötin. Hvenær mun doðinn breytast í reiði?
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.8.2008 | 00:23
Haukur í horni
Fyrsta vinnan mín í Bandaríkjunum eftir að námi lauk var hjá hugbúnaðarfyrirtæki sem var í þann mund að skrá hlutabréfin sín á NASDAQ. Ég var þá svo blautur bak við eyrun að ég vissi varla hvað hlutabréf voru eða hvað "IPO" (Initial Public Offering) þýddi.
Maðurinn sem réði mig til starfa kom til mín í fyrstu vikunni og sagði "þú ættir að kaupa hlutabréf, öllum starfsmönnum bjóðast þau og þau munu hækka mikið strax og við förum á almennan markað". Ég sagðist ekki eiga krónu með gati enda nýkominn úr námi og væri ekki á leiðinni að fjárfesta. Hann sagði "Þetta er öruggur díll, ég skal lána þér fyrir kaupunum!" Ég spurði hann af hverju og hann sagðist vilja gera vel við sína undirmenn.
Ég var nýbyrjaður og treysti honum varla. Ég fór heim og sagði konunni frá þessu, ég væri kominn í "The firm" og það ætti að fara að neyða mig til að kaupa hlutabréf á nýja vinnustaðnum. Að endingu leyfði ég þó yfirmanninum að lána mér peninga fyrir hlutabréfum. Tveim vikum síðar var fyrirtækið komið á markað, ég seldi hlutabréfin, endurgreiddi yfirmanninum lánið og græddi rúmlega árslaun í leiðinni. Hann hafði þá rétt fyrir sér. Ekki slæmt fyrir þriggja vikna vinnu!
Ég minnist hans oft því hann kom okkur aldeilis vel af stað í húsnæðiskaupunum með þessu góðverki, en svo hugsa ég líka oft hversu gott það er að hafa vini í vinahópnum sem geta bent manni á svona "sure thing". Ég velti stundum fyrir mér hvernig kaupin ganga á eyrinni hér á Íslandi, hversu margir hafa fengið svona góðar ábendingar frá vinum sínum í bönkum og fyrirtækjum. Ef ábendingin er gullslegin þarf maður ekki einu sinni að vera eignamaður því maður getur fengið lán út á ábendinguna ef hún er nógu góð.
Þarna gildir að þekking er máttur. Svona má gera vinum sínum greiða, hvort sem til stendur að hækka eða lækka verð á hlutabréfum, eða jafnvel á gengi krónunnar. Hverjir hafa þessi völd á fjármálamarkaðinum á Íslandi og hverjum hygla þeir? Þegar þeir láta vini sína hafa peninga með þessum óbeina hætti, er það á kostnað venjulegs fólks? Er hægt að koma í veg fyrir þetta á litlum markaði þar sem allir þekkja alla? Ég veit það ekki.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.8.2008 | 01:30
Kifaru og Seglagerðin
Ég hef aðgang að forláta tjaldi sem er hannað með indjánatjöld að fyrirmynd og rúmar auðveldlega tíu manns en pakkast samt jafn lítið og dúnpoki. Ég mæli með þessu tjaldi, framleiðandinn er í Colorado í Bandaríkjunum og heitir Kifaru (http://www.kifaru.net).
Eftir veðurátök kom rifa í toppinn á tjaldinu svo ég hringdi í framleiðandann. Konan í símanum skoðaði mynd af tjaldinu sem ég hafði sent í tölvupósti og sagði að þessi tjalddúkur hefði verið notaður við framleiðsluna fyrir átta árum. Hún hafði svo samband aftur og sagðist hafa fundið gamla dúkinn inn á lager og gráa efnið sem er notað við reykháfsopið.
Hún sagðist ætla að senda mér bæði efnin í pósti mér að kostnaðarlausu og hún gerði það. Við áttum huggulegt spjall í símanum og ég sendi henni fleiri ljósmyndir frá kajakferðum með tjaldið í þakkarskyni.
Næst fór ég í Seglagerðina úti í Örfirisey og sýndi þeim rifuna og spurði hvort þeir gætu gert við hana með efninu sem ég hafði meðferðis frá Kifaru. Konan í afgreiðslunni sagði að viðgerðin myndi kosta að minnsta kosti 10 þúsund krónur en annars væri ómögulegt að gefa verðmat fyrirfram.
Ég afþakkaði og spurði hvort hún gæti selt mér nylonþráð svo ég gæti saumað tjaldið sjálfur? Hún sagði nei, þau ættu bara stór kefli fyrir saumavélarnar. Ég spurði hvort hún gæti gefið mér 1-2 metra og svarið var "Nei".
Næst spurði ég hvort hún ætti lím svo ég gæti límt efnið á sinn stað áður en ég saumaði það? Hún sýndi mér túbu og sagði að hún kostaði 1.500 krónur. Þar með þakkaði ég fyrir og kvaddi.
Þetta sama tjaldlím fann ég í 66Norður fyrir 600 krónur.
Nylon bandið hirti ég af flugdrekakefli og svo saumaði ég tjaldið sjálfur úti í góða veðrinu og var snöggur að.
Þetta eru ólíkar sögur, af viðskiptum mínum við konurnar hjá hinu ameríska Kifaru fyrirtæki og hjá hinni íslensku seglagerð.
Ein skýring sem ég hef á þessu framferði er að í ameríska fyrirtækinu fari saman völd og ábyrgð. Ég hafði á tilfinningunni að konunni stæði alls ekki á sama hvernig hún skildi við mig. Ég yrði að fá lausn minna mála. Ég hef heyrt að í Wal-mart megi starfsfólk taka völdin í eigin hendur til að kúnninn fari glaður út úr búðinni. Samt vinna tugþúsundir hjá Wal-mart. Þetta hlýtur því að fara eftir hugarfari í fyrirtækinu en ekki stærð þess.
Það getur verið að konan hjá Seglagerðinni sé að framfylgja stefnu fyrirtækisins. Hennar markmið sé að rukka alla sem koma um tíu þúsund krónur að minnsta kosti, annars séu þeir eyðsla á tíma og ekki kúnnar sem er þess virði að eltast við. Ég virði líka þá stefnu en ég syng samt lof Kifaru og ekki Seglagerðarinnar.
5.8.2008 | 10:39
Prósentuleikur
Hér er smá ókeypis kennsla í prósentureikningi.
Evran kostaði 90 krónur um áramót en kostar nú 126 krónur.
Það eru margar leiðir við að segja þetta í prósentum. Ein er að segja að krónan hafi lækkað um 28.6%:
(126-90) / 126 = 0.286
Önnnur leið við að segja þetta er að hún haldi eftir 71.4% af upphaflegum kaupmætti sínum:
90 / 126 = 0.714
Þriðja leiðin sem er kannski meira sjokkerandi er að segja að evran hafi hækkað um 40% :
(126-90) / 90 = 0.40
Svo er hægt að sleppa prósentunum en taka dæmi: íslendingur sem var með 400 þúsund í laun í janúar er með 285 þúsund í laun núna ef hann ætlar að eyða laununum í Evrópu.
400 * 90 / 126 = 285
Ef hann ætlar að kaupa eitthvað þar sem kostaði 400 þúsund um áramót kostar það hann núna 560 þúsund:
400 * 126 / 90 = 560
Er ekki stærðfræði skemmtileg?
----
Illugi Gunnarsson sagði eftirfarandi í viðtali í viðskiptakálfi Fréttablaðsins 23.júlí:
Staðan er erfið. [..] Við munum ekki geta leyst þann vanda með því að stefna að upptöku annars gjaldmiðils, eðli vandans er einfaldlega þannig. Ég tel að reynt hafi verið að koma því inn hjá þjóðinni að til sé einföld sársaukalaus leið út úr vandræðunum og þá verði allt í himna lagi. Það finnst mér vera mikill ábyrgðarhlutur.
Ég er sammála því að núverandi vandi leysist ekki með upptöku evrunnar. Ég held ekki að evrusinnar haldi það almennt. Ég hef viljað taka evruna upp áður en góðærið byrjaði og ég mun vilja það eftir að kreppan líður hjá. Mig langar að segja hvers vegna:
Í góðærinu varð krónan mjög sterk. Íslenskir bankar tóku erlend lán og endurlánuðu íslendingum á hærri vöxtum af því þeir hafa einokunaraðstöðu hér á landi. Einokunin felst í því að ég get ekki verið með Visa kort frá erlendum banka og fengið launin mín greidd á reikning þar. Ef við hefðum haft evru hefði fólk verið í viðskiptum við erlenda banka og fengið sömu vexti og aðrir evrópubúar. Íslensku bankarnir hefðu ekki hagnast ótæpilega á þessum lánainnflutningi og vaxtamismun.
Ef íslendingar komast í venjuleg bankaviðskipti hjá erlendum bönkum myndi verðtrygging á lánum líka tilheyra liðinni tíð. Ég fæ ekki verðtryggð laun eða vöruverð, af hverju ættu bankarnir að fá verðtryggð lán? Verðtryggingin er slæm hugmynd því hver er hagur bankanna af því að aðstoða stjórnvöld við að halda verðlaginu stöðugu ef öll þeirra útlán eru verðtryggð?
Verslanir á Íslandi nutu líka góðs af sterku gengi krónunnar en létu neytendur ekki njóta ágóðans. Kunningi minn sem flytur inn vörur og selur sagði mér að þegar best lét hefði hann getað lagt 150% á vöruna áður en hann seldi hana. Han setti næstum því allan hagnaðinn af sterkri krónu í eigin vasa meðan viðskiptavinir héldu áfram að borga óbreytt verð. Hann hefði getað lækkað vöruverð en hann langaði meira í einbýlishús og jeppa. Kúnnunum var sama um arðránið, þeir höfðu ekkert verðskyn.
Ef krónan hefði ekki verið, hefðu neytendur getað borið saman verð í evrum hér við verð í evrum í Evrópu og fengið þannig miklu betra verðskyn. Þeir hefðu líka getað pantað vöruna sjálfir fram hjá íslenskum kaupmönnum með lítilli fyrirhöfn því tollurinn verður ekki sú risavaxna hindrun sem hann er ef við göngum í bandalagið.
Ég hef bloggað um það áður að land sem telur 300 þúsund sálir átti ekki að reisa svona stóra tollmúra því fastakostnaður við tollafgreiðslu er of hár. Hvað myndi það kosta ef akureyringar stöðvðuðu hvern einasta bíl sem keyrði inn á Akureyri og tollflokkuðu allt sem í honum er? Það gera Íslendingar við allan inn og útflutning fyrir þetta litla samfélag.
Íslendingar hafa opnað landið fyrir erlendu vinnuafli og erlendu fjármagni. Bankar, verslunarrekendur og verktakar hafa notið góðs af því. Það er kominn tími til að venjulegt launafólk njóti þess líka.
Andstæðingar segja að ef evran yrði tekin upp þyrftu íslendingar í fyrsta skipti að kynnast launalækkunum. Mér er nokk sama. Innkaupakarfan sem kostaði 9 þúsund um áramótin kostar 16 þúsund núna. Er það ekki launalækkun?
Andstæðingar umræðu um evrópubandalagsaðild segja að við munum afsala okkur einhvers konar sjálfstæði ef við göngum í bandalagið. Ég segi að við höfum þegar glatað efnahagslegu sjálfstæði, við ráðum ekkert við krónuna. Hvað annað sjálfstæði varðar vitum við ekki hvað við erum að tala um fyrr en viðræður við bandalagið hefjast.
Völdin á Íslandi nú eru hjá handfylli af ríkustu einstaklingum landsins. Það eru nokkrar fjölskyldur sem eiga hér verslanirnar, tryggingarfélögin og bankana og forseta landins er boðið í þotuferðir til að kaupa tryggð hans. Hvers konar valddreifing er það? Er þá ekki alveg eins gott að ganga í evrópusambandið?
Viðskipti og fjármál | Breytt 7.8.2008 kl. 19:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
17.7.2008 | 10:04
Góðærið sem aldrei var
Þegar góðærið stóð sem hæst mátti lesa í flestum blöðum að allir væru að verða ríkir. Þetta var ranghugmynd sem mér fannst fæstir fjölmiðlamenn setja út á. Aðgengi almennings að lánsfé var lagt að jöfnu við góðæri, þótt kaupgeta hans væri í raun að lækka.
Ég fann á eigin skinni í miðju góðærinu að launin mín entust ekki eins og þau gerðu. Um aldamótin gat ég fengið mér hádegismat á Kringlukránni en ég var farinn að láta Sómasamloku duga þegar góðærið var lofsungið hvað mest. Ég hélt á tímabili að ég væri eitthvað skrýtinn og ég væri ekki að fatta einhverja nýja hagfræði en hef svo komist að því að svo var ekki. Því var líka haldið fram að þótt bankarnir högnuðust væri enginn í raun að tapa því kakan væri að stækka. Það reyndist líka rangt.
Hvað var að gerast? Af hverju fóru peningarnir frá fólki til bankanna? Af hverju hækkaði allt þótt enginn talaði um verðbólgu? Hér er mín skýring:
Í gamla daga prentaði ríkið peninga þegar það þurfti að fjármagna framkvæmdir. Ef peningar eru prentaðir án þess að verðmæti í landinu aukist heitir það "Verðbólga". Ríkið á nýja seðla og getur fjármagnað brýr og sjúkrahús, en þeir seðlar sem fyrir eru falla í verði sem nemur nýju seðlunum. Peningaprentunin er því sem ósamþykktur skattur sem leggst harðast á þá sem eiga seðlabúnka einhversstaðar.
Verðbólgan var orðin svo óvinsæl (sérstaklega hjá peningaeigendum) að yfirvöld fundu nýja leið til að auka hagsæld án þess að þurfa að nota orðið "Verðbólga". Hún var að gefa bönkum leyfi til að prenta peninga í staðinn fyrir að ríkið gerði það. Nú skyldi einkageirinn byggja brýr og sjúkrahús með bankalánum.
Áður máttu bankar bara lána þá peninga sem þeir áttu til. Nú máttu þeir lána án þess að þeir ættu innistæðu fyrir láninu því bankarnir geta skráð væntanlega endurgreiðslu lána sem sína eign. Sá sem biður bankann um lán fær þá, eins og fyrir kraftaverk, innistæðu á reikninginn án þess að úttekt hafi verið færð af öðrum reikningi innan bankans. Nýjir peningar verða þannig til og bankinn hagnast um vexti af peningum sem hann átti ekki til að byrja með.
Heimildin til að prenta svona peninga heitir því saklausa nafni "Bindiskylda" á Íslandi. Lág bindiskylda jafngildir leyfi til að prenta mikla peninga. Sjá á vísindavefnum um bindiskyldu hér: http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=841
Þetta er peningaprentun eins og þegar verðbólgan var upp á sitt besta en hún heitir bara ekki verðbólga núna. Verð á laxveiðileyfum og fínum mat hækkar niðrí miðbæ og húsnæði þrefaldast í verði en samt segja fjölmiðlar að verðbólgan sé lítil sem engin. Þeir sem eiga þegar hús og landareignir verða ríkari á pappírnum meðan launþegar finna launaseðlana hjaðna í höndunum á sér af því þeir fá stærri lán til að kaupa sömu húsin og voru til fyrir.
Ríkið gaf bankamönnum leyfi til að prenta peninga. Það gat aldrei staðist að menn sem voru ekkert sérstaklega mikið faglærðir, áttu ekki verðmæti svo sem landareignir og bjuggu ekki til nein áþreifanleg verðmæti með höndunum skyldu verða svona ríkir svona hratt.
Það má segja að bólan hafi orðið til vegna þess að almenningur hafði svo gott aðgengi að bankalánum, en ég held að skýringin að ofan svari því hvers vegna bankarnir höfðu svona stórar fjárupphæðir til að lána almenningi til að byrja með.
Kannski er ekkert sérstakt að krónunni sem gjaldmiðli. Kannski þurfum við frekar að skoða hvort við höfum flutt inn of mikið af nútíma bankamenningu? Við ættum að reyna að skilja hvað gerðist hjá fjármálafyrirtækjum á undanförnum árum áður en við göngum næst í kjörklefana.
Hagfræði virðist eiga mikið skylt við heimsspeki. Þegar menn byrja að rýna í undirstöðurnar er ekkert augljóst hvað peningar eru í raun og veru. Sjá ágæta umræðu hér um fyrirbærið "Fractional Reserve Banking"
http://www.tickerforum.org/cgi-ticker/akcs-www?post=16342
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 10:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
25.6.2008 | 11:41
Hvers virði er krónan?
1,1% er ekki fréttnæmt. Ég er ekki frá því að ég hafi sjálfur styrkst um 1% í nótt en ég er ekkert að básúna það við vini og vandamenn.
Varðandi gengið á krónunni: hér er verðið á Evru frá upphafi (grafið er frá www.m5.is):
Myndin talar sínu máli. Evran er svo fokdýr að engin fordæmi eru fyrir öðru eins.
Geir Haarde sagði að krónan væri of lágt skráð. Það væri gaman að trúa því en ég hef ekki skilið rökin fyrir fullyrðingunni. Er fullyrðingin bara barlómur, eins og þegar einhver segist vera með of lág laun?
Við trúum á frjálshyggju hér á landi síðast þegar ég vissi. Er það ekki markaðurinn sem ákveður verðið á krónunni? Af hverju er sjálfsagt að nýja verðið á evrunni sé frávik en ekki nýtt og rétt verð sem endurspeglar afleiðingar gjörða okkar?
Krónan styrkist um 1,1% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 11:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
8.2.2008 | 13:02
Bílalestir
"Mikið svakalega væri gaman að fá lestir til Íslands" hugsaði ég í gærkveldi enda frekar nýkominn frá Evrópu. Svo fór ég að hugsa hvað það væri, sem gerir lestir eftirsóknarverðar.
Lestarteinar eru vegir sem vill svo til að eru úr járni, sbr. nöfnin "Jernbane" og "Chemin de Fer". Þeir voru sniðug lausn á því hvernig hægt er að senda þunga umferð yfir land. Lausnin er barn síns tíma. Iðnbyltingin var að byrja og menn notuðu járn í allt og svo var til nóg af timbri. Því þá ekki að leggja járnveg yfir timburstoðir?
Hugmyndin er svo gömul að gufuvélin kom til sögunnar eftir að járnteinarnir voru fundnir upp. Gúmmíið hafði ekki verið fundið upp, hvað þá uppblásin gúmmídekk. Sprengihreyflar komu miklu seinna. Malbik og steyptir vegir voru ekki komnir til sögunnar heldur.
Af hverju ætti þjóð eins og Ísland sem á hvorki tré né járn að nota járnbrautir? Væri ekki nær að nota steypu eða malbik og nota gúmmídekkin sem við þekkjum best? Úr því við lögðum ekki járnbrautir í iðnbyltingunni tekur því varla úr þessu.
Járnbrautir hafa marga kosti en það að brautin sé úr járni er ekki einn af þeim:
- Einn ökumaður getur flutt mikinn farm því lestir geta orðið langar. Það er synd að sjá fullorðinn mann keyra einn einasta gám yfir langan veg. Má ekki kenna flutningabílum að elta sjálfkrafa hvern annan eða tengja þá saman með krókum?
- Margir farþegar komast milli tveggja staða í neðanjarðarlestum. Þar eru það göngin sem eru kosturinn, ekki lestin í þeim.
- Þunginn í hverjum lestarvagni getur verið mjög mikill, 125 tonna vagnar eru ekki óalgengir. Ég er ekki viss um að þetta sé stórvandamál hér á landi.
- Hægt er að nota rafmagn í stað díselolíu eða bensíns til að knýja lestarvagna því rafmagnslínur eru lagðar yfir teinana. Það er samt ekkert til fyrirstöðu að leggja rafmagnslínur yfir malbikuðum vegum ef menn vilja keyra á rafmagni, samanber strætisvagna í sumum borgum Evrópu.
- Tími milli áfangastaða er lítill vegna þess að járnbrautalestir stoppa sjaldan og keyra hratt. Þarna er "kosturinn" við lestirnar í raun hvað þær nýta veginn sem þær keyra á illa því lestarteinar standa næstum alltaf ónotaðir. 100 metra löng lest sem keyrir eftir 42 km spori milli Reykjavíkur og Keflavíkur nýtir 2 prómill af sporinu. Er þá ekki ódýrara að leggja venjulegan malbikaðan veg en leyfa bara fáum útvöldum að keyra hratt á honum?
- Það þarf ekki að stýra stefnunni á járnbrautalest, bara hraðanum. Með því að setja sjálfstýringu í bíla sem fylgja merkjum í götunni má losna við að stýra þeim ef viljinn er fyrir hendi.
Mín niðurstaða er að það mætti fá flesta kosti við járnbrautir með því að leggja sérstaka vegi fyrir bíla sem stýra sér sjálfir og fylgja hver öðrum. Rafmagnslína væri sett yfir veginn og sérstakur kantur sæi um að stýra bílunum og koma í veg fyrir að önnur umferð færi þar um, rétt eins og lestarteinar eru eingöngu fyrir lestir.
Einn ökumaður gæti tekið að sér að keyra 30-40 bíla í lest og jafnvel mætti sleppa ökumanninum eins og gert er í nýju neðanjarðarlestinni í Kaupmannahöfn, en hún keyrir á gúmmíhjólum mér vitanlega.
Svona tækni ætti miklu frekar erindi til Íslands.
Ef kerfið yrði ekki vinsælt og yrði lagt niður væru allavega til nýjir malbikaðir vegir sem hægt væri að nota undir venjulega umferð.
Svona bílalestir hafa þegar verið prófaðar í Kaliforníu (Sjá The Path Project og Vehicle Platooning.
Ég er ekki að leggja til að við eigum strax að malbika sérstakan veg til Keflavíkur, ég er bara að benda á að innflutningur á járnteinum og lestum til Íslands sé ennþá langsóttari hugmynd. Við þurfum ekki þessa gömlu iðnbyltingar lausn til landsins.
Mér finnst ekkert ósennilegt að við þurfum að leggja flutningabíla-akgrein hringinn um landið úr því skipaflutningar hafa lagst niður. Hvort er þá langsóttara, að hafa fullorðna manneskju í vinnu við að keyra einn einasta gám kringum landið, eða útbúa nýju akgreinina fyrir sjálfvirkan akstur?
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
4.12.2007 | 17:25
Geturðu lánað mér 210 þúsund kall?
Ég hef aldrei getað skilið þessar stóru tölur. Það hjálpar mér samt að segja sem svo, að ef þjóðin ætlaði að leggja saman í púkkið fyrir þessum 63 milljörðum sem vantar á borðið núna þá væru það 210 þúsund krónur á hvern íslending. Önnur leið við að horfa á þetta er að segja að þetta séu rúmlega tíu þúsund árslaun venjulegs manns (ekki fjárfestis).
Ég hef heyrt svo oft að fjárfestingar séu ekki alvöru fyrr en þær eru seldar í skiptum fyrir peninga. Ég hef samt aldrei skilið það almennilega. Þetta er ennþá að vefjast fyrir mér hvernig sumir geta mætt í vinnuna alla ævi og fengið borgað í þessari sömu mynt og er notuð í þessum kaupum og sölum.
Launin hjá venjulegu fólki verða svo óraunveruleg við hliðina á þessum upphæðum. Hvernig getur maður vaknað og drifið sig í vinnuna þegar næsti maður við hliðina á græðir tíu árslaun á einu augnabliki?
Eina svarið sem ég hef er, að maður verður að vinna að einhverju sem maður vill gera og láta peningana vera aukaatriði. Ef maður einblínir á þá verður maður sturlaður.
Forstjóraskipti hjá FL Group | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)