2.2.2010 | 16:35
2 fyrir 1 - ef þú verzlar ekki við Íslendinga
Ég kíkti á heimasíðu EJS. Dell Inspiron ferðatölva með 15" skjá kostar þar 149.900 kr.
http://ejs.is/Pages/970/itemno/TV-INSP15%252312-RED
Windows 7 er ekki innifalið, heldur Windows Vista (sem ætti ekki að vera til sölu lengur, það er úrelt og óvinsælt). Windows 7 kostar 16.100 í viðbót, svo tölvan kostar þá 166 þúsund.
Svo kíkti ég á Dell í Bandaríkjunum. Sama tölva þar kostar núna 699$. Miðað við núverandi gengi 128kr/$ gerir það 88.773 kr. Windows 7 er innifalið í því verði.
Það má því kaupa tvær tölvur á verði einnar ef verslað er í Bandaríkjunum. Reyndar eru tölvurnar ekki eins, ég valdi dýrustu tölvuna í Bandaríkjunum sem er betur útbúin en sú íslenska.
8GB iPod kostar nú 39.995 kr. í Elko en 139.99$ á Amazon sem gerir 17.918 kr.
Það má því kaupa meira en 2 iPod á verði eins í Bandaríkjunum.
Ég tek þessi tvö dæmi af því þetta eru algengar vörur, sem hreyfast mikið. Það ætti að vera samkeppni um að flytja inn en samt virðist vera þegjandi samkomulag um að leggja 100% á þær.
Þetta er svipuð álagning og var fyrir hrun, sýnist mér. 100% er "eðlileg álagning" á Íslandi (en ekki annars staðar). EJS og Elko eru ekki verri en aðrar verzlanir að þessu leyti.Það er ekki náttúrulögmál að álagning sé svona há. Flutningskostnaðurinn útskýrir ekki muninn. Grænn pipar kostar 300 kr kílóið svo það kostar ekki meira en 300 krónur að flytja eitt kíló inn af einhverju.
Ég panta ekki sjálfur á netinu vegna þess að landið er svo lokað. Ég útiloka möguleikann fyrirfram af því ég nenni ekki að berjast við tollinn og tiktúrurnar í honum.
Þótt ég flytti tölvuna inn sjálfur myndi ég lenda aftur í kjaftinum á tollinum ef hún bilaði og ég þyrfti að fylla út skýrslur til að koma henni í viðgerð.
Verslunareigendur vita þetta og haga álagningu samkvæmt því.
Ef hægt væri að liðka fyrir innflutningi með póstverslun held ég að vöruverð á Íslandi myndi lækka. Hún myndi veita heildsölum og smásölum aðhald sem þeir fá alls ekki í dag.
Flokkur: Neytendamál | Breytt 3.2.2010 kl. 10:29 | Facebook
Athugasemdir
Býsna snjöll og skemmtileg grein sem á gott erindi á þessum síðustu og verstu. Spurning um að stofna Kaupfélag?
Herra Jón (IP-tala skráð) 2.2.2010 kl. 17:14
Er það ekki það sem buy.is er að gera (n.b. ekki vitund tengdur þeim aðilum). S.s. að versla inn og selja með minni álagningu?
Jóhannes (IP-tala skráð) 2.2.2010 kl. 17:28
Kári, ég er rétt kominn frá Sviss, sem er nú talið með dýrari löndum.
Þar kostar 8 GB iPod CHF 169,00, sem samsvarar ISK 20.000.
Þetta er rétt hjá þér, álagningin hér á skerinu er ógeðsleg.
Græða, græða, eins og fyrir hrunið
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 2.2.2010 kl. 17:33
Ekki að ég ætli að fara að verja þessa fáránlegu álagningu sem viðgengst á Íslandi, en tollar, vörugjöld og skattar á iPod tæki útskýra að einhverju leyti þennan verðmun, þetta er tollað sem upptökutæki (nafni tollflokksins breytt síðar í "margmiðlunartæki") þó enginn sé hljóðneminn.
Nánar: http://maclantic.is/frett=1632
Þröstur (IP-tala skráð) 2.2.2010 kl. 17:41
Heill og sæll og þakka þér fyrir að ýta þessari umræðu af stað. Án efa er álagning á þessi tól og tæki gríðarlega há. Fátt slær þó út verð á varahlutum, sem bifreiðaumboðin selja. Ódýr varahlutur, sem ég keypti í USA, í þýska bifreið, var seldur hér á þreföldu verði. Sala á bifreiðum hér er nú í lágmarki og er ekki ólíklegt að bifreiðaumboðin reyni að bæta hag sinn með aukinni álagningu á varahluti. En hvergi er okrið þó meira en þegar kemur að prentarableki. Stundum kostar lítið meira að kaupa nýjan prentara með fjögurra lita bleki en að kaupa eingöngu blekið. Og svo er þess vandlega gætt að selja ekki blek til áfyllinga, eins og unnt er að kaupa víða erlendis. Að vísu hafa sumir framleiðendur prentara forritað blekhylkin þannig, að aðeins er unnt að nota þau einu sinni og því ekki hægt að fylla á þau. Hugmyndafluginu eru lítil takmörk sett þegar hagnaðarvonin er í forsæti. B.k. ÁG
Árni Gunnarsson (IP-tala skráð) 2.2.2010 kl. 17:42
Að sama skapi má skoða verðmun á 27 tommu iMac, sem er 20% m.v. söluverð á vef Apple.com og Apple.is, sé tekið tillit til VSK. Miðað við sendingarkostnað hingað heim (oft ca. 11%) er svo sem ekki hægt að segja að það sé verið að svína mikið á okkur.
iPod skatturinn er vörugjald og STEFgjald, er það ekki?
Tóti (IP-tala skráð) 2.2.2010 kl. 17:55
Sæll Kári
Ér er nokkuð undrandi á þessum samanburði hjá þér.Tek fram að ég tengist EJS ekki á nokkurn hátt .Ég sló hinsvegar inn þessum 699$ sem þú segir að tölvan kosti og mér sýnist að gjöld og flutningskostnaður yrðu ca:44.370.-kr, þannig að tölvan hingað komin kostar kr:136.309.- miðað við tollgengi í dag. Þá á maður eftir að fást við ábyrgðamál ef til kæmi þannig að mismunurinn sem er ca 30 þús,ja ekki fynnst mér það ósanngjarnt,eða hvað?
Gunnar Egilsson (IP-tala skráð) 2.2.2010 kl. 17:57
Í 90% tilfella þá er liggur ábyrgðin á háu verðlagi á Íslandi hjá stjórnvöldum. Þetta á sérstaklega við um matvöru og vörur eins og Ipod sem er skattlagt og tollað til helvítis. Eina leiðin til að eignast Ipod er að kaupa hann erlendis og taka með sér heim.
Mr. Crane (IP-tala skráð) 2.2.2010 kl. 18:26
100% álagning á fartölvum? Láttu þig dreyma!!! Held þú megir deila að minnsta kosti með 2.
OskarJ (IP-tala skráð) 2.2.2010 kl. 18:29
Það er allt ódýrara í Usa en i evrópu! Það er örugglega há álaggning á íslandi, en íslenskir umboðsaðilar fá vörurnar á hærra verði en kollegar þeirra í bandaríkjum norður ameríku! Það er til dæmis auðvelt að fjármagna flugferð til Usa frá svíþjóð bara með því að kaupa 2 gítara. Af hverju þetta er svona veit ég ekki, en það er tvennt ólíkt gengi gjaldeyris og verðlag. Verðalag á íslandi er og hefur alltaf verið hátt, vegna þess kannski að allir eru tilbúnir að borga mikið fyrir að vera flottari en næsti maður og fólk leggur á sig aukavinnu til að kaupa flott dót. Síðan vindur þetta upp á sig allt verður dýrara vegna þess að þeir sem selja geta hækkað verðið því neytandinn kaupir og þegar allt hækkar þá hækkar kostnaður þeirrra sem selja og þá verða þeir að hækka meira. Það getur vel verið að það sé fáum aðilum um að kenna hvernig farið er fyrir klakanum, en stór þáttur er líka að íslendingar eru eins og þeir eru, allir eru að reyna að verða ríkir og ota sínum tota. Bið að heilsa á klakann frá lågpris sverige sem er þó dýrari en bandaríkin.
Björn Vilhjalmsson (IP-tala skráð) 2.2.2010 kl. 18:42
Já.. álagning.
Keypti Flúor 2D ljósaperur í bílageymsluna hjá okkur.
1 Stk í búðum á íslandi frá 2700-3000kr eftir því hvar ég athugaði.
Fékk 20 stk á 20Pund í UK.
ca 18000kr komið hingað heim með öllum gjöldum.
Engin álagning á Íslandi. :)
Benedikt (IP-tala skráð) 2.2.2010 kl. 18:43
Það má líka skoða skuldsetningu ýmissa fyrirtækja til að skilja álagninguna þeirra.
Fákeppnin veldur því að fyrirtæki komast upp með að velta afborgunum af lánum út í verðlagið. Í sumum geirum ríkir jafnvel ákveðin samkeppni, en þar sem öll fyrirtækin í viðkomandi geira hafa skipt um hendur með skuldsettum yfirtökum hækkar verðlagið SAMT heilt yfir.
Það eru tækifæri á ýmsum mörkuðum á Íslandi fyrir nýja aðila sem geta komið inn án skuldahala, en umhverfið er kannski ekki beint fýsilegt til að stofna innflutningsverslun þessa dagana.
Hjálmar Gíslason (IP-tala skráð) 2.2.2010 kl. 19:06
Maður á alltaf að nota tækifærið þegar maður er í USA og uppfæra tölvubúnaðinn sinn. Maður sleppur við flutningskostnað og ef maður stoppar í rauða hliðinu og borgar vsk fær maður límmiða á vélina og getur komið og farið með hana úr landi eins og manni sýnist.
ipodinn á maður hins vegar að koma með heim í vasanum út af tollum og stefgjöldum :)
Guðný (IP-tala skráð) 2.2.2010 kl. 21:03
Sæll Gunnar,
Ég er að bera saman útsöluverð í báðum löndum. Ég geri ráð fyrir að ef verzlun pantar heilan gám inn, fái hún vöruna með lægra verði og minni flutningskostnaði heldur en sá sem flytur aðeins eitt stykki inn með pakkapósti.
Þess vegna finnst mér ekki rétt að segja að tölvan kosti 136 þúsund hingað komin, EJS hlýtur að geta tekið hana inn á eitthvað lægra verði en það.
Kári Harðarson, 2.2.2010 kl. 22:16
Benedikt, er viss um að þú hefðir fengið 20 stk hér á 25 000 í búð eftir umtali. Þ.e. hefðir komið og engin til á lager og þú beðið í 10 daga. Það er nokkkurn veginn sama verð og þú borgaðir því þú gleymir að reikna inn í verðið vinnuframlag þitt i.e. leita að perunum, finna þær, borga etc.
Einar Guðjónsson, 3.2.2010 kl. 00:15
Þá má væntanlega rekja einhvern hluta af hærra verðlagi til fólksfjölda, ég bý í London þar sem leiguverð á atvinnuhúsnæðum viðist vera lægri en Reykjavík (fyrir utan örfáar götur) þá má búast við því að hver verslun í London fái mun fleirri viðskiptavinni heldur en Ísland býður uppá og fer því minni kostnaður af hverri seldri einingu í greiðslu á föstum kostnaði einsog leigu, einnig má benda á það að þjónusta á Íslandi er með því besta móti en ekki þykjir óalgengt hérna í London að fá vöru afhenda nokkrum dögum eftir kaup þá sérstaklega raftæki, sú krafa sem flestir á Íslandi hafa (td. ég) er að maður vill fá allt strax og því fylgir auðvitað kostnaður fyrir söluaðila þar sem oftast þarf að halda úti lager á staðnum, þessi "auka" kostnaður verður væntanlega að skila sér útí verðlagið. Þá má örugglega skoða launakostnað einnig þar sem starfsfólk á Íslandi virðist vera meira tilbúið að leysa þann vanda sem upp hefur komið (þar sem hver viðskiptavinur skiptir máli) en maður hefur mikið lent í "don´t care" stöðu hérna þegar eitthvað kemur uppá.
Talandi um Dell, þá eru þeir mjög ódýrir hér í Bretlandi en eru eingöngu vefverslun og símaverið virðist vera í Indlandi. Hef reynt að versla við þá en endaði með því að ég afpantaði vöru sem ég átti að fá eftir þrjá daga eftir 2ja vikna bið. Efast um að svoleiðis kerfi myndi endast á Íslandi þrátt fyrir lægra vöruverð.
Sigtryggur Arnþórsson (IP-tala skráð) 3.2.2010 kl. 12:21
Sæll Kári.
Ég hjó eftir því að þú nefndir 100% álagningu hér á Íslandi, þar sem útsöluverð í Ameríku er 50% lægra en hér. Ég átti í innflutningi ásamt heildsölu- og smásöludreifingu á ímsum vöruflokkum í fjölda ára og veit því að innflytjendur kaupa sína vöru ekki á útsöluverði erlendis. Venjulega er útsöluverð í henni Ameríku með um 100% álagningu og oft meir, en minna ef um útsölur er að ræða.
Umboðsaðili (Dealer) á Íslandi fær venjulega um 30% til 50% afslátt af verði framleiðanda eða útflytjanda. Ofan á það eru síðan eðlileg flutningsgjöld og svo viðbótar álagning innflytjenda. Þar af leiðandi er verðmunurinn eðlilega mun hærri en 100% frá kaupferði frá framleiðanda erlendis. Það er sárt að segja, að það eru ekki margir sem virðast kunna að gera innkaup erlendis frá nema þeir heiti Hagar (Bónus, Hagkaup o.fl.), Krónan, Nettó, Kostur, Elko, Tiger o.s.frv.
En flott ábending frá þér.
Með kveðju, Björn bóndi
Sigurbjörn Friðriksson, 3.2.2010 kl. 13:07
Sæll Kári,
það er nú alveg ferlegt að menn skuli taka undir svona fullyrðingar. Heiminum er skipt upp í nokkur markaðssvæði og ráða framleiðendur verðum á hverju þeirra. Það er alveg klárt að t.d. Dell heldur uppi hærri verðum í Evrópu en USA, sama má t.d. segja um Lewis (501 á 44$), DVD diska ofl ofl og getur umboðsaðili hér yfirleitt lítið gert í þessu. Ábyrgð á vörunni er einnig oft bundin við markaðssvæði. Varðandi iPod þá fær hann 35% vörugjöld ásamt 25,5% vsk sem hækkar verðið verulega og þýðir ekkert að bera þetta saman við USA. Hins vegar má alveg taka undir það að EJS sé með háa álagningu. Varðandi flutning þá þarf að taka sumar vörur með flugi á meðan aðrar (pipar) getur farið í skip. Flutningur er mældur út frá þyngd eða rúmmáli eftir því hvort er hærra. 100% álagning í tölvubransanum hér er fáheyrð en 300%-1000% venjan í fatabransanum og þar látið þið fara illa með ykkur.
BB (IP-tala skráð) 3.2.2010 kl. 16:36
BB,
Það er ekki augljóst að Ísland eigi að vera í markaðssvæðinu sem er dýrarasta markaðssvæði í heimi.
Það eru til eyjar í ballarhafi sem tilheyra ódýrum markaðssvæðum. Við erum miðja vegu milli Evrópu og Ameríku, getum við ekki með réttu verið með svipað verðlag og Grænland eða Nova Scotia (sem er lágt).
Við erum á dýrasta svæðinu af því við erum búin að koma okkur þangað.
Kári Harðarson, 4.2.2010 kl. 10:23
Ég kíkti á DELL í Nunavut, Kanada sem er eins langt út í ra**gati og hægt er að komast, fyrir norðan Hudson Bay. Þar kostar tölvan 499 kanada dollara.
Kári Harðarson, 4.2.2010 kl. 10:27
Er ekki eðlilegt að þeir sem vilja bíða eftir vörunni borgi minni álagningu? Ég held ekki að póstverslun eigi eftir að útrýma hefðbundinni verslun, en það er fáránlega erfitt að flytja hluti til landsins í dag sem er það sem ég var að benda á upphaflega.
Kári Harðarson, 4.2.2010 kl. 10:38
Kári, þú gengur nú ekki alveg heill til skógar. Nú viltu segja okkur úr Evrópu - gengur það upp? Varðandi innflutning á vöru þá hef ég ekki heyrt af því, það er ekkert mál að versla á ebay eða Amazon með kreditkorti en allar vörur lenda hins vegar í tolli og fá tilskilin gjöld (ath. vörugjöld og vsk leggjast ofan á kaupverð + flutningskostnað). Erfiðleikar við innflutning eru frekar í fjármögnun á lager eins og sjá má í vöruúrvali í stærri verslunum og hafa sumir þurft að staðgreiða sem áður höfðu kannski 30 daga krít. Varðandi álagningu þá þarf hún að duga fyrir háum fjármagnskostnaði, launum og hækkandi sköttum ásamt t.d. staðsetningu (t.d. Kringlan). Það er ekki eins og tölvufyrirtækin séu að skila stórum hagnaði þessa dagana, sum þeirra eru bara rekin á skattfé bankanna.
BB (IP-tala skráð) 4.2.2010 kl. 12:12
Það voru ekki mín orð að við yrðum ekki í Evrópu. Ég er bara að segja að koppastaðir geta verið með góð verð.
Ég væri sáttur við Evrópsk verð. Við verðum í Evrópu áfram en við þurfum ekki að vera í "dýrasta 1% evrópu"
Á tímabili þurftu öll okkar viðskipti að fara í gegnum Danmörku. Núna kaupum við stundum fram hjá Dönum og náum betri viðskiptum, losnuðum við óæskilega milliliði. Við þurfum að halda því ferli áfram.
Microsoft snarlækkaði verð til íslendinga þegar kom í ljós að við værum ekki lengur "ríkasta þjóð í heimi". Hvers vegna ekki að semja við aðra birgja á þessum nótum?
Þú skrifaðir:Það er ekki eins og tölvufyrirtækin séu að skila stórum hagnaði þessa dagana, sum þeirra eru bara rekin á skattfé bankanna.
Áttu við að hagnaðurinn sé lítill fyrir eða eftir að þeir borga af lánunum sínum? Ef þau eru að borga mikið af lánum, vil ég síður taka þátt í að hjálpa til við það.
Tollar og VSK eru lögð ofan á flutningskostnað og það skekkr stöðu póstverslunar enn frekar því ef ef ég flyt inn 1 stk. af einhverju er flutningskostnaður miklu hærra hlutfall af innkaupsverðinu.
15$ vara + 15$ flutningskostnaður = 30$. 50% tollur ofan á báða liði gerir 45$.
Ef 15$ vara fengi 50% gjöld fyrst yrði hún 22.50$. 15$ flutningskostnaður sem legðist á eftirá myndi gera samtals 37.50$.
Það munar um minna.
Kári Harðarson, 4.2.2010 kl. 15:29
Kári,
Það er einfaldlega rangt hjá þér að þú sért að bera saman útsöluverð í báðum löndum. Verð í Bandaríkjunum eru ávallt gefin upp án söluskatts enda er hann mismunandi eftir ríkjum, en er að jafnaði 7-10% - þessari upphæð þarf að bæta við. Þegar borin eru saman póstverslunarverð og verð út úr búð þarf að taka sendingarkostnað með inn í dæmið, í báðum tilfellum (þ.e. Dell tölvur og Apple iPod) þarf að bæta við sendingarkostnaði og reikna svo söluskatt ofan á kaupverð+sendingarkostnað til að fá sambærilega tölu, þá áttu enn eftir að bíða í nokkurn tíma eftir vörunni en þegar þú kaupir í verslun er verslunareigandinn búinn að leggja í kostnað við að afla vörunnar, birgðakostnað af að liggja með hana á lager osfrv.
Þegar ég var í barnaskóla var þetta kallað að bera saman epli og appelsínur og var okkur kennt að gera það ekki ef við vildum á annað borð láta taka mark á okkur.
... (IP-tala skráð) 12.2.2010 kl. 16:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.