Enn meira um háskerpu útsendingar: Breiðband símans verður að Ljósnetinu

Ég var of fljótur á mér þegar ég sagði að menn hefðu ekki verið að fjárfesta í nýjum búnaði fyrir útsendingu á sjónvarpi.

Fréttatilkynning var að berast frá símanum um að þeir ætla að breyta "Breiðbandi" símans í "Ljósnet" símans.  Breiðbandið var ekki ljósleiðari heim í hús heldur ljósleiðari út í götuskáp símans fyrir utan húsið (og næstu hús í grennd) og svo gamaldags loftnetssnúra inn í húsið.

Loftnetssnúran verður nú rifin úr sambandi einhvern tímann á þessu ári og "breiðbands" myndlyklunum gömlu sem tengdust henni verður skilað til Símans.  Þess í stað verður ljósleiðarinn tengdur við símasnúruna sem liggur inn í húsið.

Í stað myndlykilsins sem tengdist loftnetssnúrunni kemur nýr myndlykill sömu gerðar og þeir sem hafa verið settir upp fyrir áskrifendur "Sjónvarps" símans.  Lykillinn verður tengdur við nýjan router sem er kallaður VDSL router og kemur í stað gamla ADSL routersins ef hann var til á heimilinu fyrir.

Nýji routerinn verður tengdur við símalínu eins og ADSL router en nýji routerinn er 100 Megabit í báðar áttir, ekki 2-3 Megabit eins og gamli ADSL routerinn.  Hraða aukningin er möguleg af því VDSL staðallinn gerir ráð fyrir stuttri símtaug sem hefur mikil gæði og það mun símtaugin hafa ef hún er látin enda strax út í götuskáp í stað þess að vera tengd alla leið niður í símstöð í miðbænum.

Loftnetssnúran er búin að renna sitt skeið.   Bless loftnetssnúra!  Ég efast um að ég leggi nýja loftnetssnúru upp á þak og freisti þess að enn sé sjónvarpsmerki í gömlu greiðunni þar enda er tímaspursmál þar til sjónvarpsútsendingum á VHF verður hætt hér, það er verið að leggja útsendingarnar niður í flestum löndum í kringum okkur.

Margir voru komnir með ADSL og farnir að tengja myndlykla við ADSL routera (þennan pakka kallar síminn "Sjónvarp símans").  ADSL routerar nota gömlu símasnúruna sem liggur frá íbúð símnotenda alla leið út í símstöð.  Það er talsvert lengri leið en út í götuskápinn á horninu sem VDSL router verður tengdur við.  Lengri leið þýðir minni sendihraða. 

Frá 2006 hafa notendur "Sjónvarps" símans fengið myndlykil sem var með HDMI háskerputengi auk SCART tengis enda eru þeir nothæfir til að taka á móti háskerpu útsendingum.   Flöskuhálsinn var fyrst og fremst ADSL routerinn sem þeir voru tengdir við á heimilinu.  Þegar VDSL / Ljósnetið verður tengt verður lítið mál að sjá almennilegt háskerpumerki á þessum lyklum því þótt ein háskerpurás sé 8 Megabitar sér ekki högg á vatni þegar 100 Megabitar eru í boði.  Það eru samt nokkrir megabitar á sekúndu eftir fyrir fleiri sjónvarpsrásir eða venjulegt hangs á netinu.

Þeir sem eru ekki í hverfi sem var með Breiðbandið geta beðið þolinmóðir eftir ljósleiðara gagnaveitu Reykjavíkur ef hann er ekki þegar kominn í götuna.

Eurosport og fótbolti hafa verið einu háskerpu rásirnar í boði þó nokkuð lengi, en loksins bætast nýjar háskerpu rásir við seinna á árinu, bæði vegna þess að fjöldi notenda sem getur tekið við háskerpu eykst til muna en líka vegna þess að verðið á háskerpurásum hefur verið að lækka í innkaupi. History Channel HD, og DR HD ættu að bætast við fljótlega og hver veit nema næstu Ólympíuleikar verði loksins sendir út í háskerpu hér á landi?

PS:  Hér er grein um VDSL á Wikipedia


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er Síminn að fara að nota VDSL2 á höfuðborgarsvæðinu ?

Jón Frímann (IP-tala skráð) 1.3.2010 kl. 18:35

2 Smámynd: Jóhannes Reykdal

Útsendingar um loftnet eru síður en svo á leið í burtu. Með tilkomu DVB-T2 opnast nýjar víddir fyrir háskerpuútsendingar.

Einnig bendi ég á að ADSL2+ nær upp í 24Mb/s þótt það fari eftir aðstæðum. Algengur hraði er 10-12Mb/s.

Einnig held ég að VDSL sé ekki 100/100.

Jóhannes Reykdal, 1.3.2010 kl. 19:17

3 identicon

Nei, þú varst ekki of fljótur á þér Kári. Loftnetin eru ekki á leiðinni út. 

Síminn ætlar aðeins að flytja 50-100 Megabita á sekúndu um þann símaþráð sem þeir ætla að tengja úr götuskáp í hús, en sjónvarpssnúran sem þeir ætla að fjarlægja getur flutt 100 sinnum meira.

 

Mikil afturför það...! Síminn kallar þetta breytingu úr Breiðbandi í Ljósnet. Ekki trúa þessu eins og nýju neti. Þetta er ekkert meira ljós en í því gamla. Ljós í götuskáp, en núna símavír inn í hús í stað sjónvarpsvírs, sem getur flutt miklu meira. Réttnefni væri að kalla það breytingu úr Breiðbandi í Mjóband, því með þessum breytingum eru þeir að flétta inn í grunnkerfið flöskuháls til langrar framtíðar, sem þeir geta makað krókinn á og hækkað til hæstu hæða greiðslubyrði heimilanna fyrir sjónvarpsdreifingu. Almenningur var búinn að borga grunnnetið og þar með Breiðbandið áður en Síminn fékk það gefins. Nú er að koma í ljós raunverulegu afleiðingarnar af því að hafa grunnnetið í einkaeigu. Þröngir sérhagsmunir eigandans ráða ferðinni, lokuð rás á himinháu verð fyrir hina fáu, sem hafa efni á að borga, frekar en almannaþjónusta, sem allir geta notið á viðráðanlegu verði.  Síminn var svo vinsamlegur að veita landsmönnum ókeypis fræðslu í sjónvarps­dreifingarmálum fyrir nokkrum misserum, með sjónvarpsauglýsingum þar sem menn með keðjusög fóru upp á þak til að saga loftnetin niður, hljóta ýmsar spurningar að vakna, einkum vegna þess að þetta hafði í för með sér, að margt fólk, sem hefur enga fræðslu fengið aðra en þessa, heldur enn þann dag í dag, að loftnetin séu til óþurftar, ef ekki óþörf með öllu.

Eðlilegt er að ýmsar spurningar vakni, svo sem um viðskiptasiðferðið á bakvið áróður fyrir eigin einokun með því að hvetja fólk til að fjarlægja aðrar  dreifileiðir frá heimilum sínum, sem gerir RÚV, öryggishlutverki þess  og greiðendum útvarpsgjalds til RÚV erfiðara fyrir, ekki síst nú þegar Síminn stígur næstu skref og Míla sem hagnast á öllu saman, og þeir senda almenningi sem fjarlægði loftnet sín í góðri trú  reikninginn fyrir allt saman. Reikninginn fyrir grunnnetið, sem almenningur var búinn að greiða margfalt fyrir áður en þeir fengu það gefins.
 40.000 heimili á höfuðborgarsvæðinu hafa um árabil getað horft ókeypis á opnar sjónvarpsrásir gegnum gamla breiðbandið. Það sem gamla breiðbandið hefur framyfir hið nýja mjóband, er að gamla loftnetssnúran úr götuskáð og inn í hús flutti margar sjónvarpsdagskrár í einu, svo á heimilum með mörg sjónvarpstæki, gat hver horft á mismunandi dagskrár. Í nýja mjóbandskerfinu er þetta ekki mögulegt, nema með aukakostnaði. Vandinn blasir einna helst við í fjölbýlishúsakerfum, sem margir ólíkir notendur hafa margar ólíkar þarfir, og húsfélög kannski misjafnlega vel í stakk búin að bregðast hratt við þörfum allra. Það fer eftir tæknilegri úfærslu hvaða möguleika kerfið býður íbúum hússins upp á. Eðlilegast væri, að slík útfærsla feli ekki í sér markaðshindranir fyrir neinn á þessum markaði, þannig að notendur hafi frjálsan og óhindraðan aðgang að öllum þeim útsendingum sem markaðurinn býður upp á, hvort sem það er í lofti eða kapli, og hvort sem það eru opnar rásir eingöngu, eða lokaðar rásir gegn gjaldi, eða hvað annað, sem fólk vill. Þessu er ekki til að dreifa.
OG afleiðingarnar hafa ekki látið á sér standa. Jafnvel þótt menn taki einhverju tilboði Símans, upplifa margir það sem mikla afturför, að geta aðeins horft á eina dagskrá í einu. Í hverri viku sem líður og Síminn frátengir götuskápa, bætast fleiri við, sem sitja fyrir framan svartan sjónvarpsskjá og allar útvarpsstöðvar eru dottnar út. Síminn er búinn að frátengja sjónvarpið og útvarpið hjá þessu fólki og gerir ekkert í staðinn, nema fólk taki upp budduna. Tekur kannski úr sambandi kl. fjögur á föstudagssíðdegi, þegar of seint er að leita hjálpar fyrir helgina.
 Margir sem hringja til RÚV segjast fá einhver sölumannatilboð frá Símanum með upplýsingar sem margar hverjar standist ekki, þegar á reynir. Margir eru öskureiðir út í Símann og segjast aldrei ætla að skipta við þetta fyrirtæki frama, og ekki að ástæðulausu.  

Leggðu saman þær upphæðir sem Síminn er að rukka og athugaði hvaða upphæð þú færð, ef allir væru áskrifendur, þá sérðu að loftnetin eru ekki á leiðinni út. 

 

Síminn hefur ekki enn lært af hruninu hvað almannaþjónusta er, þeir eru ennþá í græðgisútrásarfötunum, og herða tökin grunnnetinu og almenningi, sem ekki fær rönd við reist: Peningana og mikið af þeim, eða við tökum Sjónvarpið af þér, það er Síminn.

Kristján Benediktsson (IP-tala skráð) 1.3.2010 kl. 19:32

4 Smámynd: Kári Harðarson

Ég gaf mér að þeir færu í VDSL2, en þeir gætu verið á leið í "gamla VDSL", staðalinn á undan VDSL2.

Gamla Coaxsnúran hafði mikla möguleika enda veðjaði síminn á hana á sínum tíma.  Ég held að þeim gangi illa að fá nýjan búnað sem nýtir hana, ADSL og VDSL vann keppnina við kapalmótöldin.  Það er því ekki við þá að sakast þótt þeir afskrifi þessa fjáfestingu.

Hins vegar:

Ef til stendur að hætta gömlum útsendingum í lofti og á kaplinum (Breiðbandið var almannaeign) þurfi almenningi að vera boðið upp á ókeypis dreifikerfi á þeim rásum sem eru ókeypis, Omega, RÚV o.s.frv.

Það þarf að setja upp DVB-T senda í stöð gömlu VHF sendana.  Þetta skilst mér að sé gert í öðrum löndum þar sem hliðrænum útsendingum hefur verið hætt.  Annars er ríkið að gefa fyrirtækjunum gömlu VHF tíðnirnar en kostnaðurinn við að koma sér upp nýjum móttöku búnaði, plús áskrift lendir á almenningi.

Ég veit ekki hvaða almannaskyldur síminn hefur.  Hann er orðinn einka...

Kári Harðarson, 1.3.2010 kl. 22:23

5 Smámynd: Billi bilaði

Þeir slökktu á breiðbandinu hjá mér án aðvörunar. Ég er nú búinn að vera sjónvarpslaus í 2 vikur, og þeim finnst það allt í lagi - og vilja að ég borgi þeim tæp 13.000,- á mánuði svo ég geti fengið sjónvarp aftur.

Ég er búinn að biðja Voðatjón um adsl-myndlykil, og samþykkja tilboð, en það ætlar greinilega að taka tímann sínn að fá það í gang. Ég bíð því áfram sjónvarpslaus.

ES: Síminn jók ekki vinafjölda sinn með þessari handrukkunarhegðun!

Billi bilaði, 2.3.2010 kl. 15:59

6 Smámynd: Jóhannes Reykdal

Breiðbandið var ekki almannaeign heldur í eigu Símans (eða Mílu).

 Það stendur ekki til að hætta dreifingu í lofti, þótt tæknin gæti þróast eitthvað áfram.

Jóhannes Reykdal, 2.3.2010 kl. 16:29

7 identicon

Góðan daginn,

Erlendur Steinn heiti ég og er forstöðumaður hjá Símanum og tæknilega ábyrgur fyrir Ljósneti Símans. Mig langar að upplýsa ykkur um hvað Ljósnet Símans felur í sér.

Ljósnet Símans byggir á tveimur tæknilegum lausnum

1. VDSL2 (Very high speed Digital Subscriber Line 2) búnaði sem staðsettur getur verið í götuskápum, símstöð eða í kjallara fjölbýlishúsa. Meðal vegalengd heimtauga að breiðbandsgötuskáp er um 120 metrar sem er tillögulega stutt og er VSDL2 tæknin á þeirri vegalengd fær um að veita allt að 100 Mb/s niður til notanda og allt að 50 Mb/s frá notanda. Ýmsir þættir hafa áhrif á hversu nálægt 100 Mb/s er hægt að ná ss. vegalengd og gæði koparheimtaugar, innanhúslagna og afkastageta VDSL2 beinis. Einnig verður mögulegt innan skamms að að binda eina eða fleiri heimtaug saman og þannig auka enn frekar hraða til heimila.

2. GPON (Gigabit Passive Optical Network) búnaði sem er staðsettur í símstöðvum og tengist með ljósleiðara í brunn þar sem 32 eða 64 heimili eru samtengd með ljósleiðara. Heimagátt á heimilum umbreytir svo ljósmerkinu yfir í rafmerki. Núverandi kynslóð GPON tækninnar sem Síminn notar styður 2,5 Gb/s frá símstöð og 1,2 Gb/s til símstöðvar (samnýtt bandvídd fyrir 32 eða 64 tengingar) en mikil þróun er í GPON tækninni og er verið að þróa næstu kynslóð GPON sem mun styðja 10 Gb/s frá símstöð. Heimagátt þarf að styðja við þann hraða sem heimilið kaupir hverju sinni.

Í báðum tilfellum getur Síminn boðið háhraða Internettengingu til heimila og marga myndlykla þar sem hver fjölskyldumeðlimur getur horft á sína sjónvarpsrás, hvort sem er í hefbundinni upplausn eða háskerpu eða leigt sína mynd í SkjáBíó.

Dæmi um hvernig nýta má Ljósnet Símans

• Tvær háskerpu sjónvarpsrásir 16 Mb/s

• Tvær hefðbundnar sjónvarpsrásir 8 Mb/s

• Háhraðainternettenging (leikir, fjarvinna og fl.) 15 Mb/s

• 5 VoIP símarásir 1 Mb/s

Samtals: 40 Mb/s

Síminn er að byggja upp VDSL2 á höfuðborgarsvæðinu í grónum hverfum en GPON tæknin er í boði í nýjum hverfum á höfuðborgarsvæðinu, sjá nánar útbreiðslu hér: http://www.siminn.is/einstaklingar/netid/askrift/vdsl-heimilisfong/

Annars þakka ég ykkur fyrir áhugann á Ljósneti Símans og hvet ykkur til að skoða nánari upplýsingar á: http://www.siminn.is/einstaklingar/netid/askrift/ljosnet/

Bestu kveðjur

Erlendur Steinn

Erlendur Steinn Guðnason (IP-tala skráð) 5.3.2010 kl. 17:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband