Hvers vegna ég hef viljað ganga í evrópusambandið

Þegar ég keypti reiðhjól síðast var árið 1998.  Þá borgaði ég 70 þúsund krónur fyrir það og var sjálfur með 430 þúsund krónur í laun, ég bjó í Danmörku.

Núna kostar sambærilegt hjól 299 þúsund krónur í Erninum. Ég er hins vegar ekki með 299/70 * 430 = 1,8 milljónir í laun, launin mín eru miklu nær þeim 430 þúsundum sem ég hafði þá.

Matarkarfan hefur hækkað úr ca. 6 þúsund í 20 þúsund.  Samt er ég hættur að kaupa merkjavöru eins og Ben & Jerrys ís, Tropicana appelsínusafa og Gillette rakblöð, nú heitir appelsínusafinn "Happy" eitthvað og rakblöðin "Matador".

Kaupmáttur launa er ca. 25% af því sem hann var.  Hallærið er rétt nýbyrjað, aðeins liðnir 18 mánuðir af því og ómögulegt að segja hvenær því lýkur. Ísland er á hægri leið út úr umheiminum eftir því sem bílarnir á götunum ryðga.

Efnahagslega er Evrópa á útjaðrinum borið saman við Asíu og Bandaríkin, og nú hefur Ísland færst í útjaðar Evrópu. Við töldum okkur með hinum norðurlöndunum í daglegu tali áður, en miðað við kaupgetu er nær að við flokkum okkur með Portúgal og Búlgaríu.

Ísland getur ekki bara selt rafmagn og fisk því þá eru bara tækifæri hér fyrir ófaglært vinnuafl og svo þá sem stjórna auðlindunum og vilja því að við seljum rafmagn og fisk.  Við verðum þá eins og Kongó eða Bólivía (mikið af auðlindum, lágt GDP). 

Ég vil vera í nánu samstarfi við fyrirtæki í öðrum löndum, framleiða hugbúnað, handbremsuhandföng í Renault eða bara eitthvað fullunnara en fisk og ál.   Ég vil komast nær Evrópu, ég vil ekki vera í útjaðrinum.  Frumkvöðlafyrirtæki þurfa að geta pantað hráefni og varahluti án þess að eyða mörgum dögum í tollafgreiðslu.   Þess vegna vil ég ganga í Evrópusambandið.

---

Ég spara fyrir hlutum, vil ekki fá lánað fyrir þeim enda er ég ekki sammála nýja orðtakinu: "Greitt lán er glatað fé".  Ég treysti ekki íslenskum hlutabréfum en valdi að spara með venjulegum bankareikningum.  Ég bjóst við hruninu, en ég vissi ekki að krónan myndi enda sem einhvers konar "mjólkurmiðar" innanlands með ekkert skráð gengi erlendis.  Ég get ekki flutt því ég kemst ekki úr landi með það sem ég á.  Ég vil geta sparað í gjaldmiðli sem er ekki leiksoppur glæpamanna, ég vil geta farið héðan með sparnaðinn ef mér líst ekki á blikuna.  Þess vegna vil ég ganga í evrópusambandið.

---


Ári fyrir hrun fengum við símtal frá Glitni sem benti okkur á að við værum með sparifé á "Uppleið 4", vildum við ekki færa það á nýjan reikning sem héti "Sjóður 9" og bæri betri ávöxtun? Við spurðum hvort þessu fylgdi áhætta? Fulltrúinn laug að okkur og sagði "Nei".

Við töpuðum 200 þúsund krónum á þessari lygi, en erum samt ennþá í viðskiptum við þá. Ég hef helst viljað loka á öll mín viðskipti en það er tilgangslaust því bankarnir hér eru allir jafn sekir og við verðum að hafa viðskiptabanka.

Sumir segja að Íslandsbanki sé ekki sami banki og Glitnir var.  Með sömu rökum ætti að sýkna glæpamenn af því ef þeir borða og fara á klósettið eru þeir ekki lengur "sömu mennirnir", þeir innihalda jú aðra hluti.

Ég þarf að geta hætt að versla við fyrirtæki sem gera svona lagað, þótt þau skipti um kennitölur.  Ég vil komast í nýjan banka og tryggingarfélag.  Helst vil ég gamla viðskiptabankann minn frá því ég bjó úti.  Þess vegna vil ég ganga í evrópusambandið.

---

Systir mín sem býr í Danmörku sagði mér í óspurðum fréttum að vinur hennar sem býr í Frakklandi hafi sent henni kassa af rauðvíni sem honum fannst gott, kassinn beið eftir henni á tröppunum  þegar hún kom heim úr vinnunni.  Ég vil líka að vinur minn geti sent mér kassa af rauðvíni, "af því bara".  Ef verkafólk og fjármagn má streyma til og frá landinu, hvers vegna má ég þá ekki panta bók á Amazon eða kassa af rauðvíni?  Þess vegna vil ég ganga í evrópusambandið.

---

Ég hef lengi verið hissa hvað umræða er hatrömm á móti sambandinu.  Flestir í mínu nánasta umhverfi hafa búið erlendis, og vita að Ísland er aftarlega á merinni og einangrað í mörgu tilliti.  Þótt flatskjáir séu komnir hingað er svo margt annað sem er ókomið, betri hlutir en flatskjáir, ótrúlegt en satt.  Stjórnsýsla kemur upp í hugann.

Það hefur runnið upp fyrir mér að á landinu er stór hópur af fólki sem ég þekki ekki neitt, sem óttast allt sem það þekkir ekki.  Það á varla til hnífs og skeiðar og er því hrætt við framtíðina og ókunnuga.  Það mun sennilega kjósa Sjálfstæðisflokkinn bara af því orðið "sjálfstæði" kemur fyrir í nafninu,  þar til lífið verður endanlega murkað úr því.

Ég kaus einu sinni Sjálfstæðisflokkinn.  Ég reykti líka einu sinni.

Einu sinni var hafnfirðingum bannað að vinna í Reykjavík.  Man einhver eftir því?  Yfirleitt borgar sig að opna á samskipti, ekki loka þeim.

 

680px-europe.jpg

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Barkarson

Sæll Kári

Þetta er nú einhver besta ESB færsla sem ég hef lesið og, ég er hjartanlega sammála. 

Björn Barkarson, 16.4.2010 kl. 11:48

2 identicon

Gott hjá þér Kári. 

Andri Haraldsson (IP-tala skráð) 16.4.2010 kl. 12:36

3 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Það er rétt athugað þetta tvennt: spilað er á ótta fólks við hið ókunnuga og að orðið "sjálfstæði" í sjálfstæðisflokknum hefur undarlegan pólitískan sexappíl þó það sé hið mesta öfugmæli. Að ganga í ESB er fyrir ísland einsog fyrir ÍSÍ að vera aðili að Ólympíuleikunum. Dramatíkin um afsal fullveldis er ógeðfelldur og tilhæfulaus áróður.

Gísli Ingvarsson, 16.4.2010 kl. 13:21

4 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Sammála. Að ganga í Evrópusambandið hefur tvímælalaust fleiri kostir en gallar.

Úrsúla Jünemann, 16.4.2010 kl. 13:31

5 Smámynd: Óskar Þorkelsson

frábær rök og eins og mælt úr mínum munni.. sammála öllu .

Óskar Þorkelsson, 16.4.2010 kl. 18:16

6 Smámynd: Gísli Foster Hjartarson

Þakka þér góðan pistil Kári fæ að linka á hann.

Gísli Foster Hjartarson, 16.4.2010 kl. 20:31

7 identicon

Snilld.

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 16.4.2010 kl. 20:59

8 identicon

Blogg(ari) með viti!

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 16.4.2010 kl. 21:21

9 Smámynd: Brattur

Snilldarpistill... hann þarf að rata í blöðin... þeir sem eru alfarið á móti inngöngu í ESB ala einmitt á ótta við að við missum sjálfstæðið við þá inngöngu... og því miður þá gleypa allt of margir við því...

Brattur, 16.4.2010 kl. 22:31

10 Smámynd: Lana Kolbrún Eddudóttir

Eins og mælt út úr mínum munni, og hafðu þökk. Tek undir með öðrum að þessi pistill þyrfti að rata á prent.

Lana Kolbrún Eddudóttir, 16.4.2010 kl. 23:22

11 Smámynd: Jón Valur Jensson

Selur maður af hendi sjálfstæði þjóðar og fullveldirétt fyrir eitt reiðhjól?!

Svo er þessi færsla þín með makalausar ýkjur og rangfærslur: "Matarkarfan hefur hækkað úr ca. 6 þúsund í 20 þúsund" – og: "Kaupmáttur launa er ca. 25% af því sem hann var." – Þetta er í megnri mótsögn við nýlega fram komnar tölur um kaupmátt og verðlagsmál.

En það er fróðlegt að sjá hér hverjir þyrpast að þér með fagnaðarsöng!

Jón Valur Jensson, 16.4.2010 kl. 23:36

12 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

fín færsla.

annars vonast til að eiga stund með þér og ykkur - yfir vitsmunalegu spjalli næst þegar þið eða við verðum á hinu landshorninu . .

kv.

bensi

Benedikt Sigurðarson, 16.4.2010 kl. 23:37

13 identicon

Lærður maður sagði Starkaði eitt sinn, að stærðfræðilega þenkjandi menn gætu ætíð reiknað sig niður á réttlætingu gjörða sinna og hugsana. Það á hins vegar ekki við um mannlegt eðli eins og sagan hefur margoft sýnt. Kári vill kannski að það bíði sín kassi af rauðu þegar hann kemur hjólandi heim. Og þá er gott að vera í ESB. Væri ekki rétt að bera það undir Systembolaget í Svíþjóð. Þótt ekki hafi ég kynnt mér það sérstaklega, dreg ég það mjög í efa að rauðvínskassarnir frá Frakklandi bíði þar í stöflum á útitröppunum við lok vinnudags, þegar Gustav kemur akandi á Volvóinum.

Evran er hálfguð hjá Kára, eins og fleirum. Sennilega eru margir þegnar ESB ósammála Kára um ágæti hennar og sumir spá því að endalok hennar séu ekki langt undan. Benda má Kára á það, að Seðlabanki Evrópu getur ekki einu sinni bjargað Grikklandi nema með aðstoð frá IMF.  Og heldur Kári að hagsveiflur Íslands verði ætíð í takti með ESB löndunum. Írar, og nokkrar aðrar þjóðir ESB eru vafalítið á öðru máli. Kári segir: "Flestir í mínu umhverfi ..." . Hvaða umhverfi er það, með leyfi að spyrja? Jú, sennilega eru þetta menntamenn sem geta ekki hugsað sér neitt hallærislegra en vera hluti af litlu, en ekki stóru. Þetta lýsir elítukenndum hugsunarhætti hinnar lærðu efri millistéttar sem finnst svo hallærislegt að kenna sig til eins lands. Síðan er það alþýða manns sem á hvorki til hnífs né skeiðar. En ágætu lesendur; þetta er hópur sem Kári "... þekkir alls ekki neitt." Auðvitað, enda virðist Kári ekki eiga samleið með alþýðunni; hans vinir hafa víst allir búið erlendis. Kári ætlar sér auðvitað ekki að vera með neinn hræðsluáróður, en minnir þó að þeir sem ekki kjósa það sama og hann muni allir farast (það rignir ösku nú þegar). 

Starkaður getur ekki látið hjá líða að undrast það, að vinir Kára (þessir sem hafa búið erlendis) telja að Ísland sé aftarlega á merinni og einangrað. Hvað einangrunina varðar, vill Starkaður minna á að Ísland er eyja, því verður ekki breytt með inngöngu í ESB. Og færumst við framar á hrossið við að ganga í ESB? Í hvaða tilliti? Starkaður vill hins vegar hvetja Kára til að gaumgæfa það vel hvort Ísland sé ekki einfaldlega of aftarlega á merinni, of einangrað, of dýrt, með of fáa kassa af rauðvíni, með of dýr reiðhjól , með of marga alþýðumenn sem ekki hafa búið í útlöndum, með of lélega banka og tryggingafélög til að hann geti yfirleitt búið hér.  Og í augnablikinu lifir Kári af því sem flutt er héðan út; mest er það nú fiskur og ál.

Starkaður (IP-tala skráð) 16.4.2010 kl. 23:40

14 identicon

Þetta er nú sæmilega kjánalegt blogg hjá þér! Heldurðu virkilega að allt þetta verði bara draumur ef við göngum í ESB? Handföngin í Renault eru að líkindum úr áli... og hugsanlega gætu þau verið framleidd úr íslensku áli. Það væri nefnilega hæglega hægt að vinna álið mun meira hérna á Íslandi... rétt eins og er gert í Straumsvík, einu íslenskra álvera. Samlíking við Kongó og Bólívíu er bara ekki á rökum reist, en vissulega getum við gert betur!

Það hefur hingað til ekki verið vandamál fyrir mig að panta bækur frá Amazon, en í guðs bænum ekki bulla svona klisju með rauðvínskassann. Allra síst þegar hér situr skattlagningarflokkur dauðans við völd. Þú getur eftir sem áður pantað þér þitt rauðvín, en það kostar. Það mun gera það áfram, þrátt fyrir ESB, rest assure!

Annars set ég bæði fiskimiðin og landbúnaðinn ofar rauðvínskössum á þröskulda háskólakennara!

Ófeigur (IP-tala skráð) 16.4.2010 kl. 23:56

15 Smámynd: Stefán Þór Steindórsson

Frólegt að sjá "eitthvað" sem kallar sig Starkaður skrifa um sjálfan sig í þriðju persónu, vantanlega með það að markmiði að þykjast vera eitthvað merkilegur.  Sjálfum þykir mér þetta nú óttarlega leiðinleg færsla hjá honum.

En hvað sem þessum rökum hans Starkaðar þá er þetta góð bloggfærsla hjá þér Kári og margt gott í þessu og þykir mér aðal punturinn vera úr þessu að það sé betra að búa í Danmörku

Stefán Þór Steindórsson, 17.4.2010 kl. 00:40

16 Smámynd: Kama Sutra

Fínn pistill.

Orðið "sjálfstæði" hefur verið sveipað alveg ótrúlega fölskum dýrðarljóma hérna á Klakanum.  "Sjálfstæði" eins og við upplifum það núna er fyrir þá Íslendinga sem vita ekkert betra en að skoppa á tveggja metra háum öldutoppum á hriplekum fleka úti á ballarhafi, hungraðir, blautir, kaldir, hraktir og yfirgefnir - með enga sýn til lands.  Gervisjálfstæði.

Við hin kjósum öruggari og nánari samvinnu við vinaþjóðir okkar í Evrópu.

Kama Sutra, 17.4.2010 kl. 05:29

17 identicon

Ég er harkalega á móti inngöngu, en þú ert góður bloggari, einn af þeim bestu.

Langaði bara að kvitta.

Bestu kveðjur.

runar (IP-tala skráð) 17.4.2010 kl. 06:38

18 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Auðvita eigum við bara að fitja til Evrópu.  Hér er bara rok rigning snjór og eldgos og svo alveg fullt af vitlausu fólk,  sem getur ekki komið frá sé skoðunum sínum nema í löngu leiðinlegu máli.   

Tilhvers andskotans er að vera að húka hér á þessari andskotans horrim ef manni leiðist og getur ekki einu sinni keypt reiðhjól.  Allt gávaða fólkið er í Evrópu og það kann að lifa lífinu. 

Við hinsvegar höfum draslast í áratugi með komunista, vinstri krata og framsóknar menn sem lengst af hafa ekki haft hugmynd um hvað er aftur á bak eða áfram.   Farið þið bara og lofið okkur þverhausunnum að vera hér eftir á mótum Ameríku, Evrópu og Asíu.

Hrólfur Þ Hraundal, 17.4.2010 kl. 09:59

19 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Systir mín sem býr í Danmörku sagði mér í óspurðum fréttum að vinur hennar sem býr í Frakklandi hafi sent henni kassa af rauðvíni sem honum fannst gott, kassinn beið eftir henni á tröppunum  þegar hún kom heim úr vinnunni. 

Þetta getur þú fengið sent til Íslands Kári. Þú greiðir þá bara þau gjöld sem koma. Þetta gildir alls staðar - í öllum löndum. Hvert land hefur sitt. Tollalög Danmerkur á þessu sviði eru frá 1922. 

Það var eins gott að það var ekki bíll sem beið á tröppunum því þá hefði fylgt með reikningur uppá 180% skráningargjald ofan á FOB-verð bílsins plús 25% VASK ofan á allt saman. Ef bíllinn hefði kostað 1 kr þá hefði hún fengið reikning frá skattayfirvöldum upp á 2 kr. þó svo að hún hefði fengið bílinn gefins. Þessutan hefði hún fengið auka tekjuskatt af gjöfinni. 

Skil vel að systir þín hafi fengið rauðvínið sent frá Frakklandi því gott franskt rauðvín kostar mikið í Danmörku og selst afar illa. En sendingarkostnaður hlýtur að hafa verið mikill því hann er allt hér að drepa.

Ef þetta hefði verðið í Bretlandi - sem er í ESB - þá hefði þetta verðið svipað og að senda rauðvínið til Íslands.

ESB-verðlagsvísitala áfengra drykkja og tóbaks í ESB frá því í ágúst 2009 var svona;

FRAKKLAND = 108

DANMÖRK = 120 

ÍSLAND = 139 

BRETLAND = 150

NOREGUR = 217

Þessi vísitala segir þér hvað meðal ESB búi þarf að greiða ef hann ferðast á milli þessara landa. Hér er ekkert tillit teið til kaupmáttar, skatta, búsetukostnaðar, hitaveitu, rafmagni, matarverðs eða neins.   

Það var líka gott að það var ekki Coca Cola sem beið á tröppunum því þá hefði hún fengið sykurukkun fyrir sykurtolli. 2 lítrar af kók kosta hér í DK um það bil 700 ISK. 

Ég vil líka að vinur minn geti sent mér kassa af rauðvíni, "af því bara".  Ef verkafólk og fjármagn má streyma til og frá landinu, hvers vegna má ég þá ekki panta bók á Amazon eða kassa af rauðvíni?  Þess vegna vil ég ganga í evrópusambandið.

Aftur: Þú mátt kaupa þér bók hvaðan sem þú vilt. Þú greiðir bara þau innflutningsgjöld sem gilda hvar sem þú ert í heiminum.

Verkafólk kom til Íslands vegna þess að þar fékk það vinnu sem það hefur ekki getað fengið samfleytt hin síðastliðnu 30 ár hér í Evrópusambandinu - og því ekki haft efni á rauðvíni. Og mannsæmandi laun fékk það líka. Það fær það ekki á mörgum stöðum í ESB. Svoleiðis er þetta rauðvínsbandalag orðið. Þú mátt teljast heppinn að fá sæmilega launaða vinnu fyrir fertugt.  

Aðeins 30% af matvælum komast tollfrjálst inn í Evrópusambandið. Þetta er mun lægra hlutfall en t.d. í Noregi.

Gott að þú varst ekki kúnni í Roskilde Bank Kári.

Hvað með öll þau bankahrun sem dunið hafa á þjóðum ESB síðustu 100 ár. Hvað með allar þær milljónir manna sem fara í hundana í ESB bara af því að þeir búa í ESB löndum. Þetta er að verða ansi stór hluti flestra þjóða ESB. Engin framtíð. Allt kolsvart til langframa.   

Hvað þá með hitaveitukostnað og rafmagns Kári? Á það að verða eins og í ESB þar sem fólk er fláð í orkukostnaði. Ég borga 80.000 ÍSK á mánuði í orku. Ef ég flyt til Íslands þá gæti ég pantað mér vörubíls farm af rauðvíni í hverjum mánuði (þ.e.a.s. ef mér þætti svoleiðis eftirsóknarvert) fyrir þennan pening. 

Þetta er með því þynnra sem ég hef séð um fagnaðarboðskap Evrópusambandsins. Einfaldlega kjánalegt.  

Reiðhjól og rauðvín. OMG!

Kveðjur 

Gunnar Rögnvaldsson, 17.4.2010 kl. 21:55

20 Smámynd: Óskar Þorkelsson

ertu ekki enn fluttur í sæluna á íslandi Gunnar ? Þú sagðist ætla að flytja til íslands í fyrra.. hvað varð úr þeim áformum ? mig minnir að þú hafir sagt að þú hafir ekki fundið húsnæði við hæfi.. núna ætti að vera auðvelt að finna húsnæði á íslandi, bara 5000 íslenskir ríkisborgarar fluttir úr landi á sl 12 mánuðum svo eitthvað ætti nú að hafa losnað fyrir þig Gunnar minn... Sennilega hefuru það svo gott í ESB að þú gjammar til allra á íslandi um hið gagnstæða til þess að þurfa ekki að éta ofan í þig leigupistlana þína undanfarin 2 ár.

Þessi áfengisvísitala.. er hún heimatilbúinn hjá þér Gunnar ?

Óskar Þorkelsson, 17.4.2010 kl. 22:15

21 identicon

Hvað varðar rauðvínið þá er ég hræddur um að ég verði að hryggja síðuritara með því að aðildarríkjum Evrópusambandsins er heimilt að halda sérstökum sköttum og hömlum á verslun með áfengi. Það þýðir að ef vinur hans í útlöndum sendir honum vínkassa þá þarf hann að fara í gegn um tollafgreiðslu, hvort sem Ísland er innan eða utan ESB.

Annars sýnist mér síðuritari aðallega vera að kvarta yfir ýmiskonar viðskiptahömlum sem gjarnan mætti afnema og vel er hægt að afnema án þess að deila stjórn fiskveiðimála, orkumála, skattamála, landbúnaðarmála, utanríkis- og varnamála o.s.frv. með ESB.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 18.4.2010 kl. 00:12

22 Smámynd: Óskar Þorkelsson

"Annars sýnist mér síðuritari aðallega vera að kvarta yfir ýmiskonar viðskiptahömlum sem gjarnan mætti afnema og vel er hægt að afnema án þess að deila stjórn fiskveiðimála, orkumála, skattamála, landbúnaðarmála, utanríkis- og varnamála o.s.frv. með ESB."

Afhverju hefur það ekki verið gert Hans ? getur það verið að hægri stjórnir undanfarna áratugi hafi staðið gegn svoleiðis afléttunum á viðskiptahömlum svo þeirra fólk geti skarað eld að sinni köku ?  ég hallast að því... og mín reynsla af spilltu íslensku stjórnkerfi segir mér það líka

Óskar Þorkelsson, 18.4.2010 kl. 07:58

23 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Góð færsla og á mannamáli.  Allt hugsandi fólk kýs með ESB.

Þórdís Bára Hannesdóttir, 18.4.2010 kl. 11:05

24 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Þetta er alveg makalaus færsla hjá þér Kári ekki samboðin þér.

Ef þú átt eignir á íslandi sem þú tímir ekki að selja til að komast til draumalandsins þá má alveg eins halda fram að draumalandið sé einfaldlega ekki samkeppnisfært.

Guðmundur Jónsson, 18.4.2010 kl. 12:11

25 Smámynd: Morten Lange

Betri bankar og tryggingarfélög :

  • Vill einhver hjálpa Kára, mér og öðrum  að finna banka sem væri betri að eiga viðskipti við en Arion/kaupþing, Glitni/Íslandsbanka eða Landsbanka ?
  • Vill einhver hjálpa Kára, mér og öðrum að finna tryggingafélag sem er betri en Sjóvá, VÍS ( og TM ?) 

Ég hef oft hugsað mér til hreyfings, en lítið hefur orðið um það.  Hef peninga hjá s24, en þá er ég í raun undir hatti BÝRs sparisjóður, og ekki hefur allt verið með felldu þar heldur....  MP banki mögulega skástur, en samt var eitthvað "fishy"  um daginn sem komst upp ?  Til þess að geyma sparnaði, fyri þá sem það geta  : Betra að borga upp lánin að hluta ? Setja í lífeyri í erlendan sjóð ? Auður Kapital ? 

Ef stór hluti viðskiptavina aðal-hrunaðlilana mundi flýja yfir í skárri kost, þá væri það mjög skýr skilaboð.  

Morten Lange, 18.4.2010 kl. 15:49

26 Smámynd: Theódór Norðkvist

Þetta er athyglivert með hjólið og segir mér að kaupmáttartölur og hin svokallað launavísitala séu hvort tveggja falsaðir útreikningar.

Maður er að heyra að tölvur og Ipodar séu á tvöföldu verði hér miðað við að panta þá á netinu, þó maður reikni vaskinn ofan á verðið. Ísland er okursjúkt samfélag.

Það væri gaman að sjá réttan útreikning á kaupmáttarhrapinu hér síðastliðin ár og áratugi. Ekki falsaðan af hagsmunagæsluklíkum og misvitrum opinberum stofnunum.

Theódór Norðkvist, 18.4.2010 kl. 23:10

27 Smámynd: Kári Harðarson

Ég ætti að taka fram, að ég er ekki "halelújah" maður fyrir inngöngu í ESB, er alls ekki ákveðinn.  Ég sé marga skavanka á bandalaginu, sérstaklega þessa dagana þegar þeir eiga svona bágt með að halda evrunni stöðugri.  Greinin hét "hvers vegna ég hef viljað ganga í bandalagið" en ég gæti líka skrifað grein um hvers vegna ég vil ekki ganga í það,  kannski geri ég það fljótlega

Ég var að bera saman hjólaverð í Danmörku 1999 annars vegar, og svo hjólaverð á Íslandi 2010 hins vegar.   Verðmunurinn er fjórfaldur, svo mikið treysti ég mér til að standa við.  Það er hægt að reikna út alls konar rýrnun kaupmáttar, og mín er kannski í hærri mörkunum, en reiðhjól er það sem ég er með á innkaupalistanum mínum þessa dagana og það er dýrt núna.

Ég bjó í Danmörku og hef ekki áhuga á að flytja þangað, þar eru mörg vandamál sem ég vil ekki eiga þátt í að leysa.  Ég vil heldur færa Ísland nær Evrópu en að fara þangað sjálfur.

Ég tel það ekki vera landráð að vilja afsala sér fullveldinu og ganga í sambandið.  Nationalismi er trúarbrögð sem ég aðhyllist ekki og ég sé lítinn mun á að vera arðrændur af samlöndum mínum eða útlendingum.   Siðferðið er síst verra í útlöndum og það er erfitt að flytja inn verri stjórnarhætti en hér hafa verið tíðkaðir.

Ég fæddist ekki með silfurskeið í munni að öðru leyti en því að hafa haft aðgang að menntakerfi og heilbrigðisþjónustu sem var í góðu lagi þegar ég var að alast upp.  Ég á hvorki olíufélag, heildverslun né banka og get því sjálfur titlað mig "alþýðumann".  Ég fór hins vegar í nám og vil að hér séu tækifæri til að nýta námið.  Þeir sem menntuðu sig ekki eiga enga kröfu á því að Ísland sé "verndaður vinnustaður", þeir geta ekki puntað sig með sæmdartitlinum "alþýða" og meinað mér um hann.  Ég vil ekki bara flytja burt og leyfa hinum "þverhausunum" að eiga landið mitt.

Ég held ekki að öll okkar vandamál leysist við inngöngu í bandalagið.  Innganga væri ákvörðun um að byrja á einhverju, ekki endapúnktur.

Kári Harðarson, 19.4.2010 kl. 10:25

28 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Sæll Kári 

Hér er sæmilegt venjulegt 7 gíra herrareiðhjól. Þetta er það sem ég hef keypt handa krökkunum mínum (þessi klassi) á meðan þau voru í framhaldsnámi og handa okkur hjónunum. Þetta hjól endist í nokkur ár. (28" SCO Jive Herre 7 gear). Það kostar 2.800 DKK eða um það bil 64.000 ISK á gengi dagsins. Það er hægt að fá ódýrari hjól en þá eru þau flest mun lélegri og halda ekki veðri eða vindi. 

Þetta hjól fæst í stórverslun sem heitir Bilka. Ef fullorðinn persóna sem vinnur á búðarkassa hjá þessari verslun ætlar að kaupa sér svona hjól þá tekur það hana 42,4 vinnustundir að vinna fyrir þessu hjóli (eftir skatt).

Það eina sem skiptir hér máli er hvað maður er lengi að vinna fyrir einu reiðhjóli eða annarri vöru og þjónustu - og hvað annað lífsviðurværi kostar (matur, orka og annað) = hvað maður á mikið eftir til að eyða í reiðhjól. 

Laun fullorðinnar persónu á búðarkassa eru 16.000 DKK á mánuði fyrir 160 vinnustundir á mánuði. 

Hún fær útborgað 10.500 eftir að skattar hafa verið teknir

Ergo: það tekur 42,4 tíma að vinna fyrir svona hjóli á þessum launum. Um 20-30% af þjóðinni er í þessum launaklassa. 

Athugaðu að Danmörk er reiðhjólaland og magn í smásölu er sennilega hagstætt fyrir þann rekstur

Á síðastliðnum 15 árum fram til ársins 2009 höfðu Íslendingar fengið 80% kaupmáttaraukningu. Á sama tíma fengu Danir 30% kaupmáttaraukningu og Þjóðverjar 2% kaupmáttaraukningu. 

Margir Íslendingar kvörtuðu yfir því hvað þeim fannst reiðhjól í Danmörku dýr miðað við Ísland áður en bankahrunið varð.  

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 19.4.2010 kl. 13:27

29 Smámynd: Kári Harðarson

Sæll Gunnar,

Sá sem er með 500 þúsund kr. í mánaðarlaun á Íslandi fengi ca. 280 þúsund útborgaðar á mánuði og væri því 36 vinnutíma að vinna fyrir hjólinu ef það kostaði 64 þúsund  hér.  Hins vegar fæst SCO ekki hér, afgreiðslumaður í hjólabúð sagði að evrópsk hjól væru orðin of dýr og því ekki hægt að flytja þau inn.

Gary Fisher fæst hins vegar hér.  Þriggja gíra hjól frá þeim (ekki 8 gíra) kostar 116 þúsund.  Þessi með 500 þúsundin væri því  66 klst eða 1.6 vikur að vinna fyrir því.

500 þúsund er ekki kaup á búðarkassa heldur þykir það með hærri launum.

Hvað ætli maður á búðarkassa hafi í laun hér núna?

Kári Harðarson, 19.4.2010 kl. 14:53

30 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Kári Mér sýnist Örninn ekki vera með svona hallærisleg hjól eins og við notum hér í Danmörku Kári.

En þarna er greinilega hægt að fá góð hjól niður í ca. 60 þúsund. Til dæmis þetta Trek 7100 2010 Sports Cykel sem kostar 3.590 DKK í Danmörku (83.000 ISK) en sem kostar 70.000 ISK hjá Erninum.

 

Gunnar Rögnvaldsson, 19.4.2010 kl. 15:29

31 Smámynd: Jón Ragnarsson

Við getum bara googlað þetta.

Trek 4300 í verslun í Danmörku: 4.099DKR = 94.500 IKR

Trek 4300 í verslun á íslandi: 80.000 IKR

Verkamannalaun í Dannmörku: 27€ = 4.600 IKR

Verkamannalaun á Íslandi: 1.880 IKR (2008)

(ok, það er hreint ekki auðvelt að finna gögn um kaup og kjör)

Verkamaður á Íslandi er 42 tíma að vinna fyrir þessu hjóli

Verkamaður í Danmörku er 21 tíma að vinna fyrir þessu hjóli.

Á Danmörk við allt Evrópusambandið? Alls ekki, mig grunar t.d. að það taki Portúgalskan verkamann töluvert lengri tíma að vinna sér inn fyrir þessu hjóli, Danmörk er líklega á toppnum. Skiptir það máli? Nei, það sýnir einmitt að löndin eru enn eins misjöfn eins og þau eru mörg, hvert um sig með sína veikleika og styrkleika. Aðgangur að Evrópusambandinu er fyrst og fremst fjárhagslegur.  Aðgangur að samkeppni, sem okkur vantar hér.

Einhver óskýr, heimatilbúin þjóðrembingur skiptir nákvæmlega engu máli. Við munum áfram tala íslensku, éta skyr og missa svein/meydóminn blindfull fyrstu helgina í ágúst, þeas. vera áfram íslendingar. 

Jón Ragnarsson, 19.4.2010 kl. 23:01

32 identicon

Ég bý í Danmörku og mér finnst stórkostlegt að geta pantað vörur hvaðan sem er frá Evrópusambandslöndunum og fengið þau send heim að dyrum án þess að borga viðbótar toll og tollafgreiðslugjöld. Það sem Gunnar segir hér að ofan er mjög villandi.

Á Íslandi þarf að borga ýmis gjöld og mjög erfitt er að gera sér grein fyrir upphæð þeirra áður en varan er pöntuð. Ég pantaði mér til dæmis hjól á ebay frá Þýskalandi og borgaði uppboðsverðið og lágan sendingarkostnað, og ekkert meira.

Þetta myndi batna mikið á Íslandi við inngöngu í ESB.

Árni Richard (IP-tala skráð) 24.4.2010 kl. 10:22

33 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Takk Árni, Gunnar er búinn að vaða um bloggið á launum frá LÍÚ og sjöllum og boða eld og brennistein ef við göngum í ESb.. við hin sem höfum og búum í ESb vitum betur. 

Óskar Þorkelsson, 24.4.2010 kl. 14:02

34 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Já þetta er stórkostlegt! 

Árni pantaði sér hjól frá Þýskalandi. Það gerði hann m.a. vegna þess að Þjóðverjar hafa ekki fengið kauphækkun í samfleytt 12 ár. Þýskaland heldur launum, verðlagi og kostnaði niðri með járnaga. Það hefur ekki efni á meiru. Þau lönd sem fylgja ekki með fara svo bara á hausinn, eins og Grikkland, Portúgal, Spánn og  Írland þar sem Írar panta margt frá Bretlandi  á netinu eða frá Norður-Írlandi því gengi evrunnar er svo hátt miðað vil lækkandi laun á Írlandi og fallandi kaupmátt þeirra. 

Tveir kunningjar mínir á Íslandi pöntuðu sér bíl frá Bandaríkjunum á netinu. Það var á meðan gengið var "gott" fyrir þá og sæmt fyrir "útflutning". Ekkert hafa þeir þó minnst á að ganga í Bandaríkin. Ekki ennþá að minnsta kosti. 

En eitt er alveg 100% öruggt. Danir munu ekki panta sér bíl frá neins-staðar á netinu.

Börn!

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 24.4.2010 kl. 18:38

35 Smámynd: Óskar Þorkelsson

hæðni er gamalt vopn þeirra sem ekkert hafa að segja af viti.

Óskar Þorkelsson, 24.4.2010 kl. 19:00

36 identicon

Ætla ad vera mjög stuttord: hef fylgst med mínum bankalánum lækka hér í DK, aldrei á Íslandi - thad er aftur á móti rétt ad thad er ekki hægt ad meta allt í krónum og aurum - líkar annars ekki umræda sem gengur út á ad eitthvad land sé "betra", thar med er eitthvad annad land ordid "verra", öll lönd hafa sína kosti og galla og ekkert er verra en annad  - Regína systir Kára

Regina Hardardottir (IP-tala skráð) 25.4.2010 kl. 17:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband