Rafmagnsreiðhjólin eru komin til að vera

Gangandi vegfarendur í Kína mega vara sig á rafmagnsreiðhjólum þessa dagana. Yfirvöld voru ekki viðbúin gífurlegri aukningu á þessum hjólum sem voru sjaldséð fyrir nokkrum árum en eru nú framleidd í 22 milljónum eintaka á ári og seljast fyrir 11 milljarða bandaríkjadollara.

Framleiðsla á venjulegum hjólum hefur fallið um 25% því flestir virðast ekki hafa á móti smá aðstoð við að komast áfram veginn.

black-matra-ms1-electric-bicycle_992385.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

Rafmagnshjólabransinn er erfiður því mikið offramboð er á þessum hjólum, gæðin eru mjög mismunandi og framlegðin lítil. Fyrirtækin sem hafa leyfi til að framleiða þau eru 2.600 talsins en sennilega eru um þúsund þeirra virkir framleiðendur.  Flest byrjuðu að framleiða venjuleg reiðhjól, önnur koma úr mótorhjólabransanum. Stærsti framleiðandinn, Jiangsu Xinri Electric Vehicle co. framleiddi 1,8 milljón "e-reiðhjól" á síðasta ári.

Framleiðendur búast við mikilli aukningu í útflutningi á hjólunum, sérstaklega til Evrópu og Norður ameríku, en þangað voru 70% af útflutningnum send á síðasta ári. Eitt af hverjum átta hjólum sem selt er í Hollandi núna er rafmagnsreiðhjól. Kínverjar fá 377$ fyrir hvert hjól sem selst þar, til samanburðar fá þeir bara 46$ fyrir venjuleg hjól.

Nú má búast við því að kínverska ríkið verði Þrándur í götu þessa nýja bransa. Fram að þessu náðu engin sérstök lög yfir hjólin, þau þurfti ekki að skrá og ökumenn þeirra þurftu engin leyfi. 2.500 banaslys voru á þessum hjólum árið 2007. Á kvöldin eru þau sérlega hættuleg því margir keyra ljóslausir. Einhver lög segja að hámarkshraði hjólanna sé 20 Km/Klst en flest komast miklu hraðar.

(Hjólið á myndinni kemst í 45 km hraða og getur farið 100 km á einni hleðslu, en það er franskt).

Kínverska ríkið vill samt að fólk noti þessi hjól til að minnka mengun og öngþveiti sem önnur farartæki valda. Sumar borgir hafa hækkað leyfisgjald fyrir vespur og mótorhjól, eða jafnvel bannað þau með öllu. Yfirvöld eru líka að reyna að gera þessi rafmagnsreiðhjól ennþá vistvænni, með því að skylda framleiðendur til að nota lithium rafhlöður í stað blýrafgeyma. Stóru framleiðendurnir eins og Xinri og Yaeda eru í samstarfi við háskóla til að endurbæta tæknina. Sumir þeirra eru farnir að tala um að beita þekkingunni til að framleiða rafmagnsbíla.

Þýtt úr Economist

Upplýsingar um Xinri eru hér.

Ísland hefur því miður leyft hjólreiðar á gangstéttum þótt hraði reiðhjóls sé fjórfaldur hraði gangandi vegfarenda,  í stað þess að greiða götu þeirra á malbikinu og byggja upp almennilegt net hjólastíga.  Þessi rafmagnsreiðhjól eiga fullt erindi til Íslands en þau á ekki að leyfa á gangstéttum.  Ég legg til að öll reiðhjól verði bönnuð á gangstéttum en þess í stað verði gert ráð fyrir þeim á götunni eins og í öðrum löndum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir fína grein um rafmagnshjól.

Ég ætla að leyfa mér að vera ósammála þér einu mikilvægu atriði (að mínu mati) og rökstyðja það örlítið.

Ég er algjörlega mótfallinn hjólabanni á gangstéttum. Það hefur því miður verið gert í sumum borgum. Mér finnst því full ástæða til að ræða þetta í fullri alvöru.

Í fyrsta lagi eru reiðhjól á gangstéttum ekki vandamál í dag. Slysatíðnin (milli hjólandi og gangandi) er lítil og alvarleg slys mjög sjaldséð, jafnvel þó hraði reiðhjóla sé stundum mikið hærri en hraði gangandi vegfarenda . Þessi staðreynd ein og sér ætti að duga til að afskrifa hugmyndir um hjólabann á gangstéttum. Slysatíðnin er mikið hærri á sérstökum göngu- og hjólastígum (útivistarstígum).

Langstærstur hluti hjólreiðamanna nota gangstéttarnar að einhverju leiti í dag. Mjög margir þeirra myndu leggja hjólinu ef hjólreiðar á gangstéttinni væru bannaðar. Jafnvel þó hjólastígum væri fjölgað töluvert. Jákvæð áhrif hjólreiða á lýðheilsuna eru margföld (20. föld í Danmörku) á við neikvæðu áhrifin vegna hjólreiðaslysa. Því myndi þetta bann augljóslega hafa slæm áhrif á lýðheilsuna. Þetta atriði eitt og sér ætti að duga til að afskrifa hugmyndir um hjólabann á gangstéttum. 

Fækkun hjólreiðamanna hefur slæm áhrif á öryggi þeirra hjólreiðamanna sem eftir eru. Öryggi hjólreiðamanna (hvort sem þeir eru á akbraut, hjólabraut eða gangstétt) hefur mikla fylgni við fjölda þeirra.  Því hafa allar takmarkanir á hjólreiðum slæm áhrif á öryggi hjólreiðamanna.

Einu jákvæðu áhrifin af hjólabanni á gangstéttum væru aukið öryggi gangandi vegfarenda. En hjólreiðar hafa umferðarróandi áhrif. Þ.e.a.s. eftir því sem hjólreiðamönnum fjölgar (á akbraut, hjólabraut eða gangstétt), því hægar aka bílarnir. Því er mjög óljóst hver endanleg áhrif væru á öryggi gangandi vegfarenda.

Eru rafmagnshjól annars ekki flokkuð sem létt bifhjól á Íslandi í dag? 

Jens (IP-tala skráð) 20.5.2010 kl. 11:40

2 identicon

Best væri ef hjólreiðamenn hefðu aðgreindar hjólabrautir sem víðast en hjóluðu þess utan á götum innan um bíla. Það væri best, en vegna þess sem Jens bendir réttilega á hér að framan þá held ég að íslensk hjólamenning hafi ekki ennþá náð þeim þroska að það sé rétt að banna hjólreiðar á gangstéttum. Fyrst um sinn verðum við að halda opnum þeim möguleika að nota gangstéttar þannig að fólk sem telur sig óöruggt á götunum sé ekki fælt frá því að hjóla. Eftir því sem nýjir hjólreiðamenn öðlast öryggi í umferðinni munu þeir færa sig á göturnar þar sem þeir komast einfaldlega hraðar yfir með því móti og eftir því sem þeim fjölgar mun öryggi allra batna (sem aftur verður til þess að fleiri treysta sér til að hjóla á götum sem aftur leiðir til meira öryggis fyrir alla o.s.frv.) Þegar slíkur hjólreiðakúltúr myndast á Íslandi, þá skulum við ræða um að banna hjólreiðar á gangstéttum, en eins og staðan er núna þá er það ótímabært.

Það sem ég vildi helst sjá gerast strax í íslenskum hjólamálum væri að eitthvert minna bæjarfélag en höfuðborgarsvæðið (t.d. Akranes, Akureyri, Reykjanesbær eða Selfoss) tæki upp á því að aðlaga sinn infrastrúktur að hjólreiðum og banna um leið hjólreiðar á gangstéttum. Viðkomandi bæjarfélag myndi einnig standa fyrir miklu kynningarátaki á hjólreiðum og fá fyrirtæki bæjarins með í lið með allskonar hvata til þess að auka notkun reiðhjóla. Viðkomandi sveitarfélag gæti fengið ríflega styrki frá ríkinu til að hrinda þessu í framkvæmd. Með þessu væri hægt að kanna á smáum skala hvernig hjólreiðar plumma sig sem samgöngumáti í íslensku samhengi. Ef vel gengi væri hægt að slá á margar efasemdaraddir.

Bjarki (IP-tala skráð) 20.5.2010 kl. 16:15

3 Smámynd: Morten Lange

Flottar umræður hér !

Ég er í erfiðleikum með að skrífa stutt en ætla að reyna, og set fram nokkrar tillögur og punkta:

  • Mikilvægt að leyfa ekki rafmagnsreiðhjól sem aðsoða menn í að koma hraðar en 20 eða 25 klst, og sem ekki krefjast að manni snúi peðölunum til að komast áfram,  frá bæði stígum og gangstéttum.  Mér skilst að þannig eru öll rafmagnsreiðhjól á Íslandi í dag.
  •  Í stað þess að banna hjólreiða á gangstéttum, finnst mér réttara að setja hámarkshraða reiðhjóla, til dæmis 10 km á gangstéttum sem ligga upp við hús og dýr húsa.  þessu er ekki þörf í bili þar sem "skyggni"  er gott. 
  • Í stað þess að banna, ætti oft í mínum huga frekar setja takmörk og hækka gjöld.  Til dæmis í stað þess að banna lagningu bíla við götur í miðbænum, sem summir hafa spáð í, gera það bara hæfilega dýrt.  Til dæmis í samræmi við hugmyndir Donals Shoup og hækka verð þangað til 1/4 stæða standa að öllu jöfnu ónotuð.  Hann segirt að götur verða miklu líflegri fyrir víkið. 
  • Nærtækari dæmi, v. gangstétta og bön væri að kynna Hjólafærni rækilega og efla þá kennslu sem er í boði í dag  (hjolafaerni.is, arnid.blog.is ) til muna.

Morten Lange, 21.5.2010 kl. 18:20

4 Smámynd: Steinarr Kr.

Hjólreiðamenn eru sjálfum sér verstir.  Ég hjóla, geng og hleyp mikið á Ægisíðunni, enda er hún í næsta nágreni við heimili mitt.  Um helmingi hjólreiðamanna virðist vera fyrirmunað að nota þar einhvern flottasta sérútbúna hjólreiðastíg sem til eru í landinu, en hika ekki við að hrekja mann út af göngustígnum, sem virðist ekki nógu breiður fyrir þá.  Besta kommentið sem ég hef fengið til dagsins í dag er að ég skuli bara drulla mér að hlaupa á hjólastignum til að vera ekki fyrir.

Á meðan hjólamenn sjálfir haga sér ekki betur getum við litlar kröfur gert.

Steinarr Kr. , 22.5.2010 kl. 22:17

5 Smámynd: Morten Lange

"Leyfa ekki rafmagnsreiðhjól [sem eru meira eins og vespur] .. á stígum og gangstéttum"   ætti að standa þarna fyri ofan hjá mér..

Morten Lange, 22.5.2010 kl. 23:51

6 Smámynd: Jóhannes Birgir Jensson

Banna hjólreiðar á gangstéttum já? Þar með væri útséð að ég treysti mér í hjólatúra með ungum dætrum nú og í nánustu framtíð ef að göngu- og hjólastíganetið er einhver staðar rofið.

Jóhannes Birgir Jensson, 25.5.2010 kl. 14:46

7 Smámynd: Kári Harðarson

Ástæðan fyrir því að ég vil banna hjólreiðar á gangstéttum er að undirstrika að reiðhjól eru farartæki sem þurfa öðru vísi götur en gangandi fólk og það dugar ekki að geyma þau í sömu skúffu í kerfinu.

(Af svipuðum ástæðum langar mig að leggja niður fríhöfnina í Leifsstöð, en það er önnur saga).

Best þætti mér ef aðstæður til hjólreiða í vegkanti yrðu svo gerðar svo góðar að hjólafólk myndi ekki sjá neina ástæðu til að fara upp á gangstétt, nema börn sem eru að læra að hjóla.

Kári Harðarson, 26.5.2010 kl. 11:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband