Ríkur, fátækur

Sá ríki og sá fátæki:  Blanda af mismunun og lágum launum er eitur
fyrir alheimsvæðinguna

(Þýtt úr Economist).

Þeir sem smíða húsgögn í verksmiðjum bæjarins Galax í Virginíu misstu
störf sín á síðasta ári þegar bandarískar verslanir fóru að kaupa inn
frá Kína.  Á hinum enda í sama bransa missti Róbert Nardelli
forstjórastarfið í síðasta mánuði þegar Home Depot búðin (eins konar
Byko í Bandaríkjunum) ákvað að skipta honum út fyrir undirmann hans.
Hann og verkamennirnir eiga lítið annað sameiginlegt. Nardelli fékk
210 milljón dollara í bætur vegna uppsagnarinnar. Bætur til
verkamannanna voru svo lélegar að þær mátti túlka sem persónulega
móðgun.

Svona ganga kaupin um gervallan ríka heiminn í dag.  Síðan 2001 hafa
laun verkamanns í Bandaríkjunum staðið í stað, þótt framleiðnin hafi
tvöfaldast. Hins vegar hafa forstjórar sem hittast nú í Davos í Sviss
í næstu viku bætt laun sín úr fjörtíufjöldum launum verkamanna fyrir
20 árum í hundraðogtíuföld laun þeirra í dag.

Þetta eru sólskinsdagar alheimskapítalismans.  Blanda tækni og
hagrænnar samræmingar hefur skapað óviðjafnanleg auðæfi.  Á síðstu
fimm árum hafa menn séð hagvöxt sem hefur aldrei sést áður.  Í Kína
framleiðir hver verkamaður fjórum sinnum meira en hann gerði á
8.áratugnum.  Hundruðir milljóna manna frá þriðja heims löndum hafa
bæst í hóp verkamanna og hundruðir milljóna munu bætast í þeirra hóp á
næstunni.

Allt þetta bætir hag mannskyns ómælanlega mikið.  En hlutdeild
verkamanna í þjóðarframleiðslu hefur fallið niður í sögulega lægð þótt
arðsemin hafi aldrei verið meiri.  Herra Nardelli og vinir hans í
tekjuhæsta prósenti mannkyns - eða kannski prómilli? - hafa fengið
bróðurpartinn af arðsemi alheimsvæðingarinnar. Allir aðrir, bæði í
verkamannastétt og miðstétt berjast áfram í daglega lífinu og horfa
uppá brottrekstra og hagræðingar -- þeir eru ekki eins glaðir.

Ótti við bakslag er viðvarandi.  Stephen Roach, hagfræðingur hjá
Morgan Stanley hefur talið tuttuguogsjö ný frumvörp um tollavernd gegn
Kína á bandaríska þinginu síðan 2005.  Þótt flestir bandaríkjamenn
segist styðja frjáls viðskipti við útlönd vilja fleiri en helmingur
þeirra verja fyrirtæki fyrir erlendri samkeppni þótt það kosti minni
hagvöxt.  Fulltrúadeild bandaríkjaþings er farin að tala um það í
alvöru að hækka lágmarkslaun, í fyrsta skipti í áratug. Jafnvel Japan
er hrætt við ójöfnuð, stöðnun í launum og að missa störf til Kína.

Hvað á að gera við þessa eiturblöndu?  Ef alheimsvæðing stendur og
fellur með atkvæðum þegna sem trúa ekki lengur að þeir græði neitt á
henni, þá er tímaspursmál þar til múrar rísa gegn alþjóðlegum
viðskiptum.

Ef allur arðurinn af alheimsvæðingunni fer til eins prósents af
þjóðinni og enginn gerir sér lengur vonir um að fá að bætast í þann
hóp, eru þá þeir sem skapa arðinn (sic) komnir í hættulega stöðu?

Hræðslan magnast og flestir kenna alheimsvæðingunni um allan pakkann.
Hins vegar er tæknin líka að drepa niður störf í lágstétt og miðstétt
og gæti líka skýrt aukinn launamun og stöðnun launa. Fólk virðist samt
vilja tæknina en það hafnar alheimsvæðingunni, hvort sem hún birtist í
formi erlendrar samkeppni eða erlends vinnuafls.

Hagfræðingar hafa ekki gert upp hug sinn, hvort þeir telji ójöfnuðinn
tilkominn vegna tækni eða alheimsvæðingar.  Stór hluti þeirra telur
ástæðuna vera þær milljónir sem hafa bæst í raðir verkamanna um allan
heim. Ef þeir hafa rétt fyrir sér ætti tæknin að hjálpa til að auka
framleiðni verkamanna og að endingu laun þeirra.  Hinn hlutinn svarar
því til að tækni hækki ekki laun manna strax heldur fari ágóðinn fyrst
um sinn til fjármagnseigenda, launamenn muni fá eitthvað að lokum.
Þeir benda á einhver dæmi um launahækkanir í hinum vestræna heimi og
segja að það sé byrjunin á því sem koma skal.

Í reynd er erfitt að skera úr um hvort veldur, því tæknivæðing og
alheimsvæðing eru svo samantvinnuð.  IBM er farið að þjónusta
viðskiptavini sína frá Indlandi, sumir starfsmenn þjónustuvera taka á
sig launalækkun vegna hótana um að annars fari starfið þeirra úr
landi.  Frá sjónarhóli ráðamanna skiptir ástæðan ekki máli.

Í fyrsta lagi má ekki snerta gæsina sem verpir gulleggjum.  Há laun
stjórnenda eru nauðsynleg til að fá hæfustu stjórnendurna, segja menn.

Það má ekki heldur bæta fórnarlömbum alheimsvæðingar skaðann, því það
er ómögulegt að setja niður fastar reglur um hver missir vinnu og laun
vegna hennar.

Sama gildir um verndarstefnu, menn vita ekki lengur hvaða svæði þarf
að verja fyrir öðrum svæðum.  Það eru ekki lengur ákveðnar
starfsgreinar sem berjast í bökkum vegna alheimsvæðingar.  Frjáls
viðskipti hafa alltaf bitnað á einhverjum sem hafa svo viljað fá vernd
þótt allir aðrir tapi á henni.

Bág kjör vegna alheimsvæðingar eru svo illa skilgreind að það er
tilgangslaust að reyna að hafa bein áhrif á þau.  Verndarstefnu
stjórnvalda yrði mætt með gagnkvæmri tollavernd erlendis frá. Þótt
verkamenn græddu eitthvað til skamms tíma myndu þeir tapa sem
neytendur, og vissulega til lengri tíma litið.

Mótsögnin er því sú, að eftir því sem fleiri upplifa ógn af
alheimsvæðingu, því minna getur ríkistjórn gert fyrir þá með því að
taka upp verndarstefnu.

Ef tollavernd hjálpar ekki, hvað þá með að nota skattakerfið?  Sumir
segja að tekjujöfnun gegnum skatta gæti minnkað ójöfnuðinn og aukið
stuðning kjósenda við alheimsvæðinguna. Þessum tveim röksemdum þarf að
svara hvorri fyrir sig.

Blaðið hefur lengi haldið því fram, að hreyfanlegt þjóðfélag sé betra
en jafningjaþjóðfélag : mismunun má þola ef góðu fólki er hampað og
þjóðfélagið er í framför sem  heild.  Áratugum saman hefur bandaríska
hagkerfið sýnt fram á þetta.

Engu að síður er pláss fyrir umræðu, hversu agressíf skattastefnan
skuli vera og hversu mikil hjálp er í boði frá hinu opinbera.
Samfélagið ætti þó að bíða eftir ótvíræðum sönnunum um að "samingurinn
milli ríkra og fátækra" sé farinn úr gildi áður en stórar breytingar
eru gerðar á skattakerfinu.  Þetta gæti verið spurning um tímabundinn
ójöfnuð á tímum örra breytinga. 

Besta leiðin til að gera alheimsvæðingu þolanlegri er sú sama og er
notuð til að fást við aðrar breytingar í þjóðfélögum, þám. breytingar
vegna tækniframfara. Markmiðið ætti að vera, að hjálpa fólki að skipta
um störf. Það þýðir að verkalýðsfélög mega ekki flækjast fyrir og lög
og reglur hins opinbera verða að ýta undir fjárfestingar.
Menntakerfið þarf að gefa fólki menntun sem gerir það hreyfanlegt í
starfi.  Það þarf að aðskilja heilsutryggingar og eftirlaun frá
stöðugildum svo fólk tapi ekki réttindum þótt það skipti um störf. Að
síðustu þarf að aðstoða dyggilega þá sem missa vinnuna, bjóða upp á
þjálfun og aðstoð við að leita að nýrri vinnu.

Ekkert af ofantöldu er ódýrt í framkvæmd eða fljótlegt.  Samfélag sem
græðir á alheimsvæðingu á þó betri möguleika á að finna peninga til að
koma þessum stefnumálum í framkvæmd.  Fjármagnseigendur og
stjórnmálamenn sem hittast í Sviss í næstu viku ættu að íhuga hvernig
hægt er að hjálpa bæjarbúum í Galax í Virginíu, en þeir ættu líka að
vera hugrakkir og verja alheimsvæðingarferlið, sem getur á endanum
orðið öllum til góðs þótt tímabundin áhrif þess geti verið svo
grimmileg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband