3.4.2007 | 20:57
Óþarfa ánauð II
Adam og Eva voru ekki með nafla svo ekki stunduðu þau naflaskoðun. Þau höfðu engan að heimsækja, ekkert videó og afi kom aldrei í heimsókn, hvað þá að hann passaði Kain og Abel.
Það eina sem hjónaleysin höfðu var epli sem á stóð "Ekki éta mig". Þau áttu aldrei séns í þá freistingu. Ekki er vitað hvernig Kain eignaðist börn eftir að hafa drepið bróður sinn...
Svo komu kynslóðir af kóngum sem voru hver öðrum andstyggilegri. Jobsbók, orðskviðirnir og Davíðssálmar eru ágæt lesning, en þess á milli rennur út í fyrir bókarhöfundum. Móses leiddi lýðinn áfram og hvílíkur lýður!
Guð gamla testamentisins er mislyndur og frátekinn fyrir Guðs útvöldu þjóð sem er ekki Íslendingar heldur Gyðingar sem voru sannfærðir um að allir aðrir færu til fjandans. Afar óviðkunnaleg heimspeki.
Nýja testamentið er miklu betra. Ég kann mjög vel við Jesú og er sammála honum í næstum öllu. Ég er viss um að hann hafi verið til, Rómverjar staðfesta það í skrifum sínum. Ég trúi bara ekki á hann frekar en ég trúi á poppstjörnur, drauga eða jólasveina.
Ég held að Jesú hafi farið í austur frá Palestínu, kynnst Búddisma og fært hann í búning sem var nágrönnum hans skiljanlegur. Það útskýrir hvers vegna hugsanir Jesú eru svo upp á kant við allt sem á undan er gengið í Biblíunni -- enda var hann krossfestur. Mér hefur alltaf fundist fyrri bókin draga þá seinni verulega niður.
Það er hægt að lifa andlegu lífi án trúar og öfugt. Skipulögð trúarbrögð eru eins og fótboltaáhorf en andlegt líf er eins og að stunda reglulega hreyfingu. Þetta tvennt fer oft saman en ekki alltaf. Í þessari samlíkingu eru trúarofstækismenn eins og fótboltabullur. Hvað hafa þær með íþróttir að gera?
Það kemst enginn í form með því að horfa á fótbolta og mennirnir verða ekki góðir með því einu að mæta í messur. Trúaðir og trúlausir þurfa að vinna með sig andlega því höfuðsyndirnar eru lestir sem allir þurfa að reyna að sigrast á.
Ég hafði mitt trúleysi út af fyrir mig og brosti þegjandi þegar einhver gaf sér að ég væri trúaður. Núorðið segi ég að ég trúi ekki. Fyrir því eru tvær ástæður.
Í fyrsta lagi hafa árásir trúarofstækismanna á turna, borgir og lönd gefið misvitrum mönnum veiðileyfi á lýðræðið sem ég met mikils.
Í öðru lagi ýta mörg trúarbrögð undir þá hugmynd að betra líf bíði hinum megin og ekki þurfi að passa upp á náttúruna því hún sé gjöf Guðs til mannanna til að fara með eins og þeim sýnist. Sumir ganga svo langt að hlakka til heimsenda. Ég vil ekki umbera vitleysuna í þannig fólki.
Enginn má halda að trúarbrögð séu það sama og andleg sjálfsrækt.
Þjóðkirkjuna ætti að skilja frá ríkinu. Hún segist vera órjúfanlegur hluti af sögu og menningu landsins. Það er rétt, hún verður alltaf hluti af sögu Íslands. Það væru mistök að afneita henni í sögubókunum. Það er þó ekki rökrétt að álykta að hún þurfi þess vegna að vera innbyggð í lýðveldið áfram.
Á páskum er haldið upp á að dagurinn er orðinn lengri en nóttin og að vorið er að koma. Páskarnir eru eldri en dagatalið. Þess vegna eru þeir alltaf haldnir á fyrstu helgi eftir fullt tungl eftir jafndægur á vori og færast til í dagatalinu. Kanínurnar og eggin eru frjósemistákn. Sögurnar um engilinn sem myrti börn Egypta og um innreið Jesú í Jerúsalem komu seinna.
Páskarnir eru ekki bara fyrir trúaða. Ég get líka sagt: Gleðilega páska!
PS: Ég er í góðum félagsskap
Meginflokkur: Trúmál og siðferði | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt 6.6.2007 kl. 10:53 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir stórgóða skemmtun. Las pistilinn upphátt svo fleiri fengju notið og varð að gera hlé hvað eftir annað af því að við hlógum svo mikið. Takk fyrir skemmtunina og GLEÐILEGA PÁSKA!
IGG , 3.4.2007 kl. 22:03
Gamla testamentið heillar mig alltaf meira og meira... það er svo mikill kærleikur í því líka, Jesús færði það bara á æðra plan. Gyðingdómur er stórkostleg trú, og enginn að reyna að "converta" öðrum þar, einsog við þekkjum úr sögu kristninnar og Islam enn meira... en takk fyrir skemmtilegan pistil
halkatla, 4.4.2007 kl. 15:17
Mjög góður pistill.
Fræðingur, 4.4.2007 kl. 18:17
Sæll nafni.
Þetta er sá albezti pistill sem ég hef lesið hér í blogheimum og þó víðar væri.
Hafð beztu þakkir fyrir góða skemmtun.
Kveðja,
Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 6.4.2007 kl. 09:40
Takk fyrir virkilega skemmtilegan pistil...held að ég geti líka tekið undir flest ef ekki allt sem þú nefnir.
Georg P Sveinbjörnsson, 8.4.2007 kl. 19:46
Ég er þér hjartanlega sammála. Fyrst að páskarnir eru búnir segi ég; gleðilegt vor!
Svanur Sigurbjörnsson, 10.4.2007 kl. 16:48
Góður pistill! Oft eru þeir andlegastir sem segjast ekki vera trúaðir og vilja ekki kenna sig við ákveðin trúarbrögð
Margrét St Hafsteinsdóttir, 13.4.2007 kl. 00:07
Góður pistill! Oft eru þeir andlegastir sem segjast ekki vera trúaðir og vilja ekki kenna sig við ákveðin trúarbrögð
Margrét St Hafsteinsdóttir, 13.4.2007 kl. 00:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.