2.5.2007 | 14:12
Hjólakaup
Í tilefni af því að margir eru að hugsa um hjólakaup vil ég minnast á tvennt:
Innanbæjar eru fjallahjól of þung og á of grófum dekkjum. Betri kaup eru í svokölluðu borgarhjóli (City-Bike) sem lítur svona út:
Gjarðirnar eru stærri og dekkin þynnri en á fjallahjóli. Engir demparar eru á hjólinu. Hjólið hentar betur til bæjaraksturs og er ódýrara.
Hitt sem ég vil nefna er, að það er ódýrt að taka hjól með sér heim frá Kaupmannahöfn. Flugleiðir taka 3000 kr fyrir hjólið og þyngd þess er ekki dregin frá farangursheimildinni.
Þar er mikið úrval af borgarhjólum og verðmunurinn borgar hæglega farmiðann.
Svo sakar ekki að skoða Kaupmannahöfn á nýja fararskjótanum.
PS: Hér er eldri grein um hjólreiðar í Reykjavík
Næst því að hjóla nakinn ... | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Hjólreiðar | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt 6.6.2007 kl. 10:47 | Facebook
Athugasemdir
Rakst á bloggið þitt á mbl.is. Myndir þú ekki telja að maður þyrfti að fá sér borgarhjól með fleiri en þremur gírum til að það nýtist við íslenskar aðstæður, þ.e.a.s. í brekkur? Sýnist reyndar að hjóli á myndinni sé með þónokkrum gírum. En er ekki líka nauðsynlegt að vera á fjallahjóladekkjum þegar það fer að snjóa til að komast um í snjóföl, í gegnum stöku skafla og slabb?
Magnús (IP-tala skráð) 2.5.2007 kl. 14:56
Jú alveg tvímælalaust! Þrír gírar duga ekki til.
Það er hægt að fá utanáliggjandi gíra eins og á hjólinu á myndinni. Þeir eru léttir og ódýrir en það þarf að þrífa þá á hverju vori.
Svo eru til 12 gíra lokuð gíranöf, sem eru dýrari, en þau þurfa ekkert viðhald. (Lokuð nöf voru bara til 3 gíra áður fyrr). Þau eru sennilega besta fjárfestingin fyrir þá sem vilja ekki þrífa hjólið sjálfir.
Kári Harðarson, 2.5.2007 kl. 15:06
Varðandi seinni spurninguna þína, þá hef ég ekki viljað kaupa fjallahjól fyrir vetrarakstur ennþá. Hinsvegar set ég nagladekk undir, þau breyta öllu.
Þá er ég öruggari á hjólinu en fótgangandi.
Kári Harðarson, 2.5.2007 kl. 15:11
Ég er að spá í að setja aðeins mjórri og sléttari dekk undir gamla Trekkinn, því ég býst við að nota hann 90% á malbiki, hinn möguleikinn er að fara hreinlega yfir í götuhjólið. Eða heldurðu að svona hjól væri betra?
Jón Ragnarsson, 2.5.2007 kl. 15:36
Mjórri og sléttari dekk gera mikinn mun, sérstaklega ef þú passar að hafa nóg loft í dekkjunum.
Ég þekki ekki gamla hjólið þitt - en ef það er stinnt og þú getur jafnhattað það þá er það sennilega ágætt
Demparar og sterklegir gafflar þyngja hjólin til muna, ég treysti mér amk. ekki til að lyfta fjallahjóli.
Kári Harðarson, 2.5.2007 kl. 16:01
Góðar ráðleggingar hjá þér Kári, og eldri grein þín er stórfín. Ég er bæði með götuhjól (racer) og fjallahjól, og ég get hreinlega ekki notað fjallahjól á malbiki eftir að hafa vanist hinu. Tek eftir því að fólk spyr oft út í það hvort að þessi litlu dekk þoli stígana og gangstéttir hér, og heldur að það þurfi hreinlega að vera á traktórsdekkjum allan ársins hring til að hjóla innanbæjar.
Raunin er hinsvegar sú að slétt dekk með réttum þrýstingi eru ekkert líklegri til að springa, en auðvitað verður að hafa augun hjá sér varðandi glerbrot og slíkt.
En þá að því með stígana: Ég hjóla mun frekar á götunni þar sem það er að mínu mati öruggara, þar sem það er mun minna mál að sjá fyrir hvað bílar muni gera, heldur en skokkarar með iPod, eða krakkar á línuskautum.. ég ber enn ör til að sanna það.
Einu göturnar sem ég hjóla ekki á er Miklubraut/Hringbraut, og Kringlumýrarbrautin. Þarf ekki að taka fram með Sæbrautina, þar sem stígurinn þar er greiðfærari okkur hjólamönnum. Einu skiptin sem ég hef orðið tæpur varðandi bíla, er þegar ég er að koma af gangstétt yfir götu, þar sem þeir búast ekki við manni.
Eitt í lokin, ef þú hjólar á götunni, hjólaðu þá Á götunni, en ekki í ræsinu. Ef þú hjólar í ræsinu, taka bílarnir nánast engan sveig, þar sem þeir skynja þig ekki sem fyrirstöðu. Hafður allavega 50 cm til hægri við þig í kantsteininn. Þannig hefuru smá rými til að beygja inní ef einhver er full nálægur. En almennt finnst mér Íslenskir ökumenn bara mjög tillitssamir við mann.
Hip 2b^2, 2.5.2007 kl. 21:15
Mjög gott innlegg í annars mjög lélega hjólaveröld mína. Hugsa að mörgum myndi bregða í brún ef ég færi nú að taka uppá því að klára það verk að skipta um slöngu á hjólinu mínu sem ég byrjaði á fyrir 2 árum síðan. En að öllu gríni slepptu takk fyrir þessa ábendingu !!
Svo er annað mál að ég er alveg til í að fara að hjóla aftur ef maður eignast svona assgoti fína bloggvini !!! Gummi Steingríms og co. ha ha ha ha
Bjartmar (IP-tala skráð) 3.5.2007 kl. 08:29
Veistu hvað þessi hjól kosta ca. þar og hér, og veistu um góðar hjólabúðir í Kph ? Fólk sem ég þekki og er búsett í DK. hefur keypt hjól hér því það var hagstæðara. Kannski vegna vsk. ég spáði ekkert í það þá.
Þóra Guðmundsdóttir, 3.5.2007 kl. 09:25
Ég keypti mitt hjól hjá Heino Cykler. Myndin á blogginu er af hjóli frá þeim sem kostar 36 þúsund kr. danskar eða 42 þúsund íslenskar.
Hlekkurinn á hjólið hjá Heino er: http://www.heino-cykler.dk/Cykler/Heino/Heino+-+Citybike+indvendige+gear.html
Það er hægt að fá ódýrari hjól hérna heima en ég legg ríka áherzlu á að góð hjól kosta pening.
Um hjól gildir að menn fá það sem menn borga fyrir. Ódýr hjól líta vel út í búðinni, en það er ekki hægt að stilla gíra og bremsur þannig að stillingin haldist lengi, þau eru þung og þau svigna undan átaki þegar maður stígur á pedalana.
Það má meta gæði reiðhjóls út frá afturgírnum. Þótt það séu margir hjólaframleiðendur eru frekar fáir gíraframleiðendur. Menn setja ekki fína gíra á léleg hjólastell.
Shimano eru lang algengastir, nánast eins og YKK rennilásar í gallabuxum
Ódýr hjól eru með Shimano Altus / Alivio / Sora / Tiagra gírum.
Þau betri eru með Deore / XTR / 105 / Ultegra gírum.
Þessi imbaregla mín hjálpar vonandi eitthvað.
Kári Harðarson, 3.5.2007 kl. 10:12
þegar ég vann sem hjólreiðasendill í London 1990-1992 þá kom eitt sinn morgun einn nýr sendill á stöðina á racer hjóli. Við hinir, sem vorum allir án undantekningar á fjallahjólum með monsterdekk, horfðum á hann í forundran og spurðum hvað hann ætti við með þessu. Hann hélt því fram að hann gæti hjólað mikið hraðar á þessu. Ekki lögðum við mikinn trúnað á það.
Um hádegisbilið sá ég hann í Whitehall með brotið framdekk og forundran og örvilnun í svip. Ójöfnurnar á götum Lundúnaborgar höfðu reynst hjólinu ofviða.
Varðandi Shimano gíra: Shimano CIS eru langódýrustu gírarnir, og næstum því þeir algengustu. Shimano Alivio þóttu með þeim betri fyrir rúmum 10 árum eða svo.
Elías Halldór Ágústsson, 3.5.2007 kl. 12:56
Bah, getur maður ekki leiðrétt klaufavillur eftirá? :>
Elías Halldór Ágústsson, 3.5.2007 kl. 12:57
Racer hjól er í hinum öfgunum. Það er rétt að dekk og gjarðir fyrir keppnishjól myndu ekki endast lengi í bænum.
Racer dekk eru 20 mm breið og eiga að pumpast í 130 pund. Þau henta engan veginn í bæjarakstur.
Eðlilegri dekkjabreidd væri 35 mm sem er pumpuð í 60 pund.
Þá er langt eftir að vera kominn á fjallahjóladekk sem eru 75 mm breið og pumpast í 40 pund.
Bifreiðaeigendur vita að dekk og dekkjaþrýstingur hafa mikil áhrif á bensíneyðslu.
Sömu lögmál gilda um hjóladekk og rúgbrauðseyðslu.
Kári Harðarson, 3.5.2007 kl. 13:37
Það skyldi þó aldrei vera að ég fái mér hjól eftir lestur þessa pistils...
Sigurjón, 4.5.2007 kl. 10:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.