28.5.2007 | 13:20
Monní monní
Einhvern tímann las ég í frjálshyggjumálgagni, að ríkið ætti að gera sem minnst. Það ætti að sjá um hermennsku, menntun og seðlaprentun. Allt annað ætti einkageirinn að sjá um.
Ef þetta er rétt þá erum við komin langt hér á landi. Við erum ekki með her svo ekki sér ríkið um þann hluta. Og sífellt færri nota gjaldmiðil ríkisins.
Ég er farinn að borga fyrir eina pylsu með Visakortinu. Fyrst eftir að ég flutti til Íslands fannst mér þessi notkun á Visa fyndin, en ekki lengur. Ég er farinn að kalla 50 og 100 kr peningana "borgarpólettur" vegna þess að ég nota þá mest í stöðumæla. Flestir aðrir taka Visa.
Í skólanum þar sem ég vinn eru þrír sjálfsalar hlið við hlið. Sá fyrsti tekur Visa og Debetkort og gefur mér íslenska peningaseðla. Sá við hliðina á tekur við seðlum og lætur mig hafa borgarpólettur (klink). Sá síðasti tekur við klinkinu og selur mér samloku.
Ef ein þessara véla er ekki í stuði þegar ég mæti með Visa kortið fæ ég enga samloku. Þarna eru seðlar og mynt ríkins orðnir óþarfir milliliðir í viðskiptum mínum við Sóma ehf.
Danir voru hatrammir á móti innleiðingu Visakortsins og fundu í staðinn upp eigið kort, Dankortið. Dankortið er þeim eiginleikum gætt, að notkun þess kostar neytendur engin færslugjöld, danir líta svo á, að sparnaðurinn sem bankarnir fá með því að þurfa ekki að meðhöndla klink og seðla eigi að nægja þeim, þeir eigi því færslugjöldin ekki inni hjá neytendum.
Þessi umræða fór ekki fram að neinu marki hér og neytendur borga því færslugjöld beint í formi afnotagjalds Visa, og óbeint vegna þess að kaupmenn borga fyrir hverja Visa færslu og láta viðskiptavinina vitaskuld borga það á endanum.
Það er erfitt að sjá hver kostnaður er af notkun Visa en mér sýnist hann geta verið allt að 2,5% af upphæð færslu plús 280 kr.
Sjá gjaldskrá hér
Þegar við borgum nærri allt með Visa er þetta orðið jafngildi verulegs virðisaukaskatts sem rennur óskiptur til bankanna.
Visa er komið til að vera. Mér finnst við ættum að klára þetta ferli sem hefur verið í gangi síðan Visa kom til Íslands árið 1983.
Við ættum að taka upp rafræn viðskipti og hætta með seðla og skiptimynt. Mér finnst synd að borga fyrir útgáfu seðla og klinks með skattinum og borga svo aftur í formi færslugjalda Visa.
Frekar vildi ég sleppa við annan hvorn þessara kostnaðarliða. Að vísu kostar prentun og myntslátta "aðeins" um 150 milljónir á ári, en meðferð seðlanna í verslunum og bönkum kostar mikla handavinnu.
Ég legg til að ríkið semji við Visa og Mastercard um að taka að sér þetta hlutverk, eftir að umræða hefur farið fram um það, hver á að bera kostnaðinn af færslunum. Í dag er þetta einfaldlega ekki rætt þótt Samkeppnisyfirlitð sé lítið hrifið af ástandinu, sjá hér:
Í norrænu skýrslunni er farið vandlega yfir greiðslukerfi og hreyfanleika neytenda auk þess sem fjallað er um greiðslukortakerfin. Það er skoðun samkeppnisyfirvalda á Norðurlöndum að tveimur fyrrnefndu þáttunum beri að veita forgang í stefnuskrám ríkisstjórna á Norðurlöndum til þess að greiða fyrir þróun í átt til aukinnar samkeppni, neytendum til hagsbóta.
Fyrst ég er farinn að tala um peningamál þá eru hér tvö atriði sem ég vil skrifa niður:
Rafrænn kassastrimill.
Ég myndi vilja fá rafrænt eintak af kassastrimlinum þegar ég fer í verslun. Mér finnst mjög þægilegt að fá tölvupóst frá Atlantsolíu með sundurliðun á innkaupum, í hvert skipti sem ég kaupi bensín.
Þessi tölvupóstur kemur í staðinn fyrir prentun á kvittun þegar ég fylli á tankinn. Ef fleiri tækju þennan sið upp yrði miklu auðveldara að færa heimilisbókhald.
Skýringar á bankayfirlitum.
Mér finnst skrýtið að skýringar á bankayfirlitum skuli ennþá vera sex stafa langar, og stundum vantar þær algerlega.
Netbanki Glitnis leyfir mér að slá inn tvær skýringar með hverri færslu. Sú langa er fyrir mig, en sú stutta er sú sem berst móttakanda greiðslu. Hún er aðeins sex stafa löng og því ónothæf fyrir nokkurn texta. Svona hefur hún samt verið síðan Reiknistofa bankanna var stofnuð fyrir grilljón árum.
Engin skýring birtist á yfirlitinu mínu þegar bankinn minn borgar Visa skuldina mína með því að taka hana af launareikningnum mínum. Ég sé bara risastóru upphæðina sem er með ekki með skýringu og hugsa "já hún". Fleiri færslur birtast svona óboðaðar og óútskýrðar.
Ef ég fæ reikning ætlast ég til að hann sé sundurliðaður. Bankarnir ættu ekki að leyfa sér að fjarlæga pening af reikningum viðskiptavina án þess að setja skýringartexta á færsluna.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt 6.6.2007 kl. 10:43 | Facebook
Athugasemdir
Ég er sammála þér með rafræna kassastrimla. Best væri að færslurnar kæmu á stöðluðu formi sem viðhengi með póstinum sem hægt væri að setja sjálfkrafa inn í heimilisbókhald. Flokka þarf þó færslurnar eftir samræmdu flokkakerfi.
Best væri að miðlæg netþjónusta safnaði upp þessum upplýsingum þar sem hægt væri að sjá sundurliðuð útgjöld, t.d. eftir útgjaldaflokkun Hagstofunnar.
Einhverjir bankar hafa boðið þjónustu í þessa átt en hún byggðist á flokkunarkerfi sem miðaðist við þarfir kortafyrirtækja auk þess að sundurgreina ekki ef fleiri en einn hlutur var borgaður með sömu kortfærslu.
Ég er sammála því að skýringar sem fylgja með færslum í bankayfirlitum eru mjög takmarkaðar miðað við það sem hægt ætti að vera að gera. Gallinn er sá að allir bankar á Íslandi nota Reiknistofu bankanna fyrir þessa hluti þannig að það virðist ekki vera neinn samkeppnishvati til að gera betur.
Finnur Hrafn Jónsson, 28.5.2007 kl. 18:19
Ef viðskipti af öllum toga eiga að vera kortavædd eigum við þá að gefa börnum debetkort í vöggugjöf?
Stundum finns mér tækniæði landans ganga fulllangt!
Illugi Másson (IP-tala skráð) 29.5.2007 kl. 22:25
Ég var að bíða eftir þessari athugasemd. Ég er sammála því að tæknivæðingin gengur fulllangt - mér finnst bara að við ættum að ræða meira um hana í staðinn fyrir að láta hana koma fyrir okkur.
Við erum búin að Visa væðast anzi mikið, án þess að umræða hafi farið fram um framtíð seðla og klinks. Af hverju er bara til einkarekinn rafrænn gjaldmiðill, ekki ríkisrekinn?
Það er erfitt að sjá mynstur á bak við það, hvað er einkarekið og hvað er ríkisrekið núorðið.
Sér einhver mynstur? Eina mynstrið sem ég sé er kannski Gamalt <-> Nýtt
Kári Harðarson, 30.5.2007 kl. 10:26
Til að svara spurningunni þá myndi ég stofna bankareikning fyrir nýfætt barn frekar en láta það fá seðla og klink.
Debetkort, kreditkort og peningaseðlar eru ekki verðmæti heldur ávísun á verðmæti. Það er því alltaf verið að biðja um "abstract hugsun" hjá þeim sem fær þetta í hendur.
Fullorðnu fólki gengur erfiðlega að halda sig á mottunni í peningaeyðslu þegar greiðslukort eru annars vegar og börn eiga ennþá erfiðara með þau.
Mér finnst vanta rafrænan greiðslumiðil sem sýnir með skermi hvað handhafi á mikinn pening. Það er kosturinn við seðla og klink sem er ekki til staðar við greiðslukort, að þegar maður er búinn með seðlana eru peningarnir búnir
Flestir eiga skerm og smartkort í vasanum í dag sem mætti nota í þetta og það er gemsinn. Ég hef oft velt fyrir mér hvers vegna símafélögin fara ekki í samkeppni við bankana.
Barn sem fær gemsa í hendur getur fengið innistæðu á gemsann. Því ekki að versla fyrir hana úti í sjoppu? Gemsinn myndi sýna hversu mikill peningur er eftir.
Kári Harðarson, 30.5.2007 kl. 10:36
Já, en Kári. Það er svo gaman að telja peningana...
Sigurjón, 30.5.2007 kl. 18:24
Sæll Kári Það er ýmislegt sem þarf að huga að í þessu sambandi.
Meðal annars eftirfarandi
Alfreð Jónsson (IP-tala skráð) 15.6.2007 kl. 13:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.