Hinn upplýsti

Ég er hrifinn af Búddhisma.  Nú kann einhver að segja að ég hafi  nýverið bloggað að ég tryði ekki. 

Búddhismi er ekki trúarbrögð heldur  tillaga mjög merkilegs manns um það hvernig best er að lifa lífinu.  Búddhamúnkar eru ekki að dýrka Búddha heldur vilja þeir reyna að fylgja hans fordæmi.

Ég hef haft mjög gott af því að kynnast kenningum Búddha þótt ég sé ekki búinn að raka á mér hausinn og fjárfesta í kufli.

Búddha benti mönnum sem vildu vera göfugir á að feta lífsleið sem fæli í sér átta  meginhugmyndir. (The eightfold noble path)

Það er hægt að gera margt vitlausara á netinu en að sækja eitt megin rit búddista sem er á PDF formi hér.

Víetnamski búddamúnkurinn (Thich) Nath Hanh sem er samtíðarmaður okkar (hann er áttræður),  hefur sett þessar hugmyndir fram sem  fimm verkefni sem menn ættu að taka sér fyrir hendur.
nhat hanh

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Framsetning hans er mjög aðgengileg.  Ég ákvað að þýða orð Nath Hanh í staðinn fyrir að horfa á sjónvarpið eftir fréttir.  Hann minnist á neyslu svo ég er ekki að fara langt frá mínum  venjulegu umræðuefnum.


Fyrsta verkefni

Ég veit að tortíming lífs veldur þjáningum og því hef ég ákveðið að  vera umhyggjusamur og læra að vernda líf manna, dýra, plantna og  jarðar. Ég ætla ekki að drepa, né láta aðra drepa, og ég mun aldrei  samþykkja dráp í heiminum, með hugsunum mínum eða atferli mínu.


Annað verkefni

Ég veit að misnotkun, þjóðfélagslegt óréttlæti, rán og kúgun valda  þjáningum og því hef ég ákveðið að rækta með mér ást og umhyggju og  vinna að velferð manna, dýra, plantna og jarðar. Ég hef ákveðið að  vera gjafmildur og deila tíma mínum, orku og efnum með þeim sem eru  þurfandi í raun. Ég hef ákveðið að stela ekki og eiga ekki það sem  ætti að tilheyra öðrum. Ég mun virða eigur annarra, en ég mun hindra  aðra í að græða á þjáningum manna eða annara dýra á jörðinni.


Þriðja verkefni

Ég veit að óábyrg kynhegðun veldur þjáningum og því hef ég ákveðið að  temja mér ábyrgð og læra leiðir til að vernda öryggi og heilindi  einstaklinga, para, fjölskyldna og þjóðfélagsins. Ég hef ákveðið að  taka ekki þátt í kynferðislegum athöfnum sem fela ekki í sér ást né  skuldbindingu. Ég ætla að viðhalda hamingju minni og annara með því að  virða mínar skuldbindingar og þeirra. Ég mun gera allt í mínu valdi  til að vernda börn frá kynferðislegri misnotkun og fyrirbyggja að pör  og fjölskyldur leysist upp vegna óbyrgrar kynhegðunar.


Fjórða verkefni

Ég veit að kærulaust tal og skeytingarleysi gagnvart því sem aðrir  segja veldur þjáningum og því hef ég ákveðið að temja mér að tala af  ástúð og hlusta einbeitt á það sem aðrir segja til að færa þeim gleði  og hamingju og frelsa þá undan þjáningum. Ég veit að orð geta veitt  hamingju eða þjáningu og því hef ég ákveðið að tala af sannsögli og  velja orð sem byggja upp sjálfsöryggi, von og gleði. Ég er staðráðinn  í að dreifa ekki fréttum sem ég veit ekki hvort eru sannar og að  gagnrýna og dæma ekki hluti sem ég veit ekki mikið um. Ég mun forðast  að segja orð sem valda sundrung og sundurþykkju eða valda upplausn  fjölskyldna og samfélags. Ég mun reyna af fremsta megni að sætta og  leysa allar deilur, hversu smáar sem þær eru.


Fimmta verkefni

Ég veit að taumlaus neysla veldur þjáningum og því hef ég ákveðið að  rækta heilsuna, bæði líkamlega og andlega, fyrir sjálfan mig,  fjölskylduna og samfélagið með því að vera meðvitaður um át mitt,  drykkju og aðra neyslu. Ég ætla að neyta aðeins þess sem viðheldur ró,  velsæld og gleði í líkama mínum, og meðvitund minni, meðvitund  fjölskyldu minnar og samfélags. Ég ætla ekki að nota áfengi eða aðra  vímugjafa eða innbyrða eitur hvort sem það er sjónvarpsefni, blöð,  bíómyndir eða samtöl. Ég geri mér grein fyrir því að ef ég skemmi  líkama minn og sál með eitri svík ég forfeður mína, foreldra, samfélag  mitt og komandi kynslóðir. Ég ætla að vinna að umbreytingu ofbeldis,  hræðslu, reiði og óreiðu í sjálfum mér og þjóðfélaginu með því að  stjórna neyslu minni. Ég skil að rétt neysla er forsenda þess að  breyta sjálfum mér og samfélaginu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón

Fimmta verkefnið er athyglisvert og á vel við á Vesturlöndum.

Sigurjón, 2.6.2007 kl. 00:16

2 Smámynd: halkatla

þetta er alger snilld - en hérna Sigurjón, þú verður að hætta að vera fyrri til en ég og alltaf svona rammsammála mér! nei bara grín.

ég myndi segja að búddismi hljómi mjög skynsamlega í alla staði. 

halkatla, 2.6.2007 kl. 01:15

3 identicon

Ætli Búddhismi verði ekki það sem stendur upp úr eftir x tíma, trúarbrögð geta eiginlega ekki lifað af í menntuðum og upplýstum heimi.

DoctorE (IP-tala skráð) 2.6.2007 kl. 12:47

4 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Alltaf jafn gaman að lesa hugleiðingar þínar. 

Ég horfði á heimildamynd í fyrradag sem heitir The secret.  Myndin fjallar um mátt jákvæðrar hugsunar og áhrif þess temja sér jákvætt hugarfar Alltaf. 

Mjög merkileg mynd og vekur þenkjandi fólk til umhugsunar 

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 3.6.2007 kl. 13:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband