11.6.2007 | 10:37
Stafrænt útvarp
DAB (Digital Audio Broadcast) útvarpsstöðvar senda út í hljómgæðum sem jafnast á við geisladiska, enda eru þær stafrænar. Útsendingarnar eru miklu minna viðkvæmar fyrir suði og truflunum en gamla FM útsendingin.
Um 500 milljón manns hafa keypt útvörp sem geta tekið við þessum útsendingum. Fimmtíu slíkar útvarpsstöðvar eru í London einni.
BBC sendir út með þessari tækni.
Danska útvarpið sendir tólf opnar stöðvar út með þessari tækni, og sjö áskriftarstöðvar til viðbótar.
Stöðvarnar geta bæði sent út frá venjulegu sendimastri en einnig um gerfihnött og því væri hægt að hlusta á þær uppi á hálendinu.
Þessar útvarpsstöðvar hafa ekki orðið vinsælar í Bandaríkjunum en grein í blaðinu Economist segir frá því að nú sé annar staðall að verða vinsæll og heitir sá staðall "HD Radio" (Hybrid Digital Radio).
Hann gerir venjulegri útvarpsstöð kleift að bæta stafrænu útsendingunni við þá FM útsendingu sem þegar er til staðar, án þess að sækja um nýjar senditíðnir.
Skrýtin blanda
Umræða um stafræn útvörp hefur ekki farið fram á Íslandi frekar en umræða um breiðtjaldsútsendingar sjónvarps eða háskerpu útsendingar. Það er skrýtið því við erum vön að eltast við nýjustu dellurnar.
Við kaupum háskerpu flatskermana en getum ekki horft á þá í háskerpu. Við kaupum flottustu sportbílana en eigum engar hraðbrautir.
Við erum til skiptis í framtíðinni og fortíðinni.
Athugasemdir
Ef ég man rétt eru Svíar hættir tilraunum með DAB útvarp. Peningar út um gluggann... En hvers vegna nær þetta ekki fótfestu ? Finnst okkur kannski manneskjulegra (hlýlegra) þrátt fyrir allt að hlusta á útvarpið í gegnum netið, með takmörkuðum hljóðgæðum og suði ?
Lana Kolbrún Eddudóttir (IP-tala skráð) 11.6.2007 kl. 18:28
"Við kaupum háskerpu flatskermana en getum ekki horft á þá í háskerpu. Við kaupum flottustu sportbílana en eigum engar hraðbrautir."
Þessi málsgrein kveikti á perunni um löngu gleymdar umræður..
Það eru takmörk fyrir því hvað mannsaugað greinir mikla skerpu/liti. (ekki satt?)
Myndu samt framleiðendur skjáa halda áfram að auka gæðin, bara til þess að hinn venjulegi neytandi haldi áfram að borga meira og meira fyrir tækni sem hann getur ekki séð, en er samt til staðar?
LindaThorsteins (IP-tala skráð) 11.6.2007 kl. 22:13
Gamli sjónvarpsstaðallinn var 640 x 480 upplausn. Flestir geta séð að hann nægir ekki þegar sjónvarpið er orðið stærra en 30 tommur. Nýju staðlarnir sýna góða mynd fyrir amk. 50 tommu sjónvörp.
Ef neytendur láta 50 tommur duga á heimilin þá duga nýju staðlarnir.
Það komu geisladiskar á markaðinn með meiri tóngæði en CD en þeir seldust ekki.
Shell tekst samt að selja V-Power bensín
Kári Harðarson, 12.6.2007 kl. 09:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.