Hvernig ég hætti að reykja

Það er til örugg leið til að hætta að reykja og hún er að deyja úr krabbameini.  Allir hætta að lokum.

Það er valkostur að hætta, maður verður ekki að gera það.

Ég sagði sjálfum mér lengi að ég reykti svo lítið að það skipti ekki máli.  Þegar reykingar urðu félagslega óvinsælar prófaði ég nikótín tyggjó en án þess að hafa ætlað að hætta að reykja.

Konan mín nauðaði í mér að hætta þessu, og á undarlegan hátt notaði ég það sem afsökun til að taka ekki ábyrgð á sjálfum mér.

Þegar hún hætti að skipta sér af,  fann ég að þetta var ekkert nema mitt vandamál og ég yrði að leysa það.  Þá fyrst fór ég að taka á því.


Ég áttaði mig á því að ég hafði verið eins og krakki sem var ekki tilbúinn að horfast í augu við staðreyndir og að þessi ósiður yrði að fara. 

Ég sagði vini mínum sem er sálfræðingur að ég reykti til að slaka á.

Hann sagði mér að nikótín væri örvandi efni og ég væri alls ekki að fá neina slökun úr rettunni.  Það væri bara athöfnin, að fara út fyrir húsvegg og kveikja í sem fæli í sér slökun.

Hann lagði til að ég fengi mér bara venjulegt tyggjó og kaffibolla undir húsveggnum í staðinn. 

Þegar ákvörðunin var tekin reyndist þetta ekkert mál.  Fráhvarf vegna nikotíns var hverfandi og fór á þremur dögum.  Viljinn til að reykja var farinn áður en ég drap í.

Ég fæ mér ennþá kaffi og tyggjó og tek pásur en ég læt retturnar eiga sig.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: LKS - hvunndagshetja

Ég reyndi í ca 12 ár að hætta að reykja og gekk á með ósköpum, hætta-falla-hætta-falla, þangað til ég beitti sjálfa mig hælkrók og narraði mig frá tóbakinu. Það gerðist svona: Ég vildi hætta að reykja en vissi að þá yrði ég of stressuð til að ljúka lokaritgerðinni. Svo ég bannaði sjálfri mér að hætta að reykja fyrr en ég væri búin með ritgerðina. Það bæði hjálpaði mér að klára ritgerðardrusluna og byggði upp hvílíka tilhlökkun til að hætta að reykja að ég sprakk á limminu og hætti að reykja 3 dögum áður en lokaeintak var tilbúið og búið að hljóta náð hjá kennaranum. Síðan eru liðin 8 ár og ég hef ekki tekið svo mikið sem einn smók. En það var sko ekki auðvelt, ég var með nyggjó í ca 18 mánuði. Eftir að ég hætti að jórtra það, langar mig aldrei í sígarettu, en stundum dreymir mig um að fá mér nyggjó og kaffi meððí...

LKS - hvunndagshetja, 7.6.2007 kl. 23:27

2 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ég hætti fyrir þremur og hálfu ári á hnefanum eins og Þrymur. Fyrsta mánuðinn fannst mér ég berjast við löngunina á 10 sekúndna fresti. svo fór þetta að lagast!

Haukur Nikulásson, 8.6.2007 kl. 11:39

3 Smámynd: Jón Ragnarsson

Sem betur fer byrjaði ég aldrei, var samt tæpur í gaggó. Man eftir þegar við strákarnir í bekknum héngum á bak við skóla með sígó. Einn daginn hugsaði ég bara: "Glætan að ég nenni að standa í þessu helvíti!"

Jón Ragnarsson, 9.6.2007 kl. 00:24

4 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Það reyndist mér erfitt að hætta að reykja. Svo erfitt að ég elgg í að byrja aftur.

Reyndar var ég ekki í rettunum, heldur harðari efnum. Pípu og vindlum.

Jón Halldór Guðmundsson, 10.6.2007 kl. 21:23

5 Smámynd: Sigurjón

Ég reykti frá því á fyrsta ári í menntaskóla (desember 1993) og þá helzt pípu (byrjaði að reykja pípu) og vindla.  Sígaretturnar tóku fljótt við, enda minna vesen að reykja þær.  Sumarið 2004 ákvað ég að skipta aftur í pípuna, því ég ímyndaði mér að það yrði svo mikið vesen að ég myndi hætta því að lokum.

Þetta fór ekki betur en svo, að mér fannst bara gott að reykja pípuna aftur og þó ég reykti mun minna en áður (og með minni tilkostnaði), var þetta ekki skref í áttina að hætta.

Í febrúar 2005, þegar ég var á síðustu önn í Háskólanum í Reykjavík, veiktist ég nokkuð illa og var rúmliggjandi í 5 daga og gat að sjálfsögðu ekki reykt á meðan.  Á sjötta degi ætlaði ég út að reykja, en fannst það bara vont og bankaði tóbakið úr pípunni og hef ekki snert það síðan.

Reyndar var svolítið freistandi daginn eftir að fara út á svalir og kveikja í einni, en ég lék á mig.  Þannig var mál með vexti að ég var vanur að kveikja á katlinum og hita mér vatn í te.  Meðan ketillinn hitaði vatnið, fór ég út á svalir og reykti eitt hnoð í pípunni.  Þegar ég vildi hætta, fór ég í stofuna sem fyrr, en beygði áður en ég kom að svalahurðinni, dró fram Atlasinn og stúderaði hann fyrir S. - Ameríkuferðina mína sem ég fór í um haustið.  Þetta svínvirkaði og hef ég ekki reykt síðan og sakna þess hreint ekki neitt.

Skál! 

Sigurjón, 12.6.2007 kl. 21:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband