26.9.2007 | 13:24
Lagað til í stofunni.
Þegar ég man fyrst eftir mér var bara einn takki notaður á útvarpinu og það var "On/Off-Volume". Það voru líka "FM/AM" og "Tuning" takkar en þeir söfnuðu ryki því tækið var alltaf stillt á einu stöðina og það var Útvarp Reykjavík. Málin hafa flækst síðan.
Í stofunni er myndlykill frá Símanum tengdur við sjónvarpið og videotækið, og svo er magnari, geislaspilari, fjarstýrðar gardínur og gamall myndvarpi einhversstaðar enda eru fjarstýringarnar orðnar sjö á stofuborðinu.
Ég er spenntur fyrir því að fækka fjarstýringunum aðeins. Í fyrsta lagi langar mig að kaupa geislaspilara sem getur tekið upp, og losna þar með við videotækið. Það eina sem stöðvar mig er að háskerpuvæðingin er ekki komin í geislaspilarana ennþá. Mér hrýs hugur við að kaupa nýjan geislaspilara sem spilar ekki "Blue-Ray" eða "HD" diska.
Geislaspilarakaup eru því í bið.
Í öðru lagi myndi ég vilja fá nýtt sjónvarp sem getur tekið beint á móti stafrænu efni og geta hætt að nota myndlykilinn. Þá væri ég þar með búinn að losna við tvær fjarstýringar. Þetta þarf ég að skýra aðeins.
Mér finnst mikilvægt að einfalda tækjareksturinn í stofunni, ekki flækja hann. Ég vil geta kveikt á sjónvarpinu og stillt beint á hvaða stöð sem er án þess að kveikja á myndlykli og stilla sjónvarpið á hann.
Nýir myndlyklar nota allir sama staðal til að taka á móti mynd, og sá staðall heitir "DVB" eða Digital Video Broadcast". Það er ekkert að því að setja þennan staðal inn í sjónvarpið sjálft enda eru flest ný sjónvörp með stafina "DVB" á framhliðinni. Það er bara ekki alveg nóg.
Myndlykillinn er nefnilega líka lykill, að því leyti að í honum er "smart" spjald sem síminn útvegar, og án spjaldsins neitar lykillinn að afrugla þær rásir sem eru læstar. Þessar rásir myndi nýja DVB sjónvarpið ekki birta.
Sum ný sjónvörp eru með rauf fyrir spjaldið. Spjöldin sem síminn notar heita "Conax" og þeim er stungið í millistykki sem er kallað "Conditional Access Module" og raufin heitir "Common Interface". Þessu millistykki er svo troðið í raufina í sjónvarpinu. Ég hef bara ekki ennþá séð sjónvarp með "Common Interface" og "DVB" á framhliðinni sem mig langar til að kaupa því þau eru ekki mörg.
Sjónvarpskaup eru því líka í bið.
Nýji geislaspilarinn með upptökunni þyrfti helst líka að vera með rauf fyrir spjöldin því ég vil geta stillt videóið á upptöku án þess að stilla myndlykil sérstaklega. Það er ekkert smáræðis flækjustig samfara því að reyna að taka upp efni úr sjónvarpi í gegnum myndlykil eins og staðan er í dag.
Eins og þetta sé ekki nóg, þá myndi ég vilja koma sjónvarpinu í stofunni á internetið því þar er fullt af góðu sjónvarpsefni. Þar þyrfti PC tölvu í hillu með þráðlausri mús, og lyklaborði og ég veit ekki hvað. Ég þyrfti helst að leggja snúru frá ADSL þangað inn - svo vil ég helst ekki fá Windows XP í stofuna því það þarf sífellt að vera að snýta því og skeina.
Það mál er því líka í bið...
Ég á mér draum um að á veggnum í stofunni verði einn skermur og á stofuborðinu verði ein fjarstýring. Mikið vildi ég að einhver kæmi með þessa lausn á markað.
Flokkur: Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 13:59 | Facebook
Athugasemdir
Æ, Kári - þú ert svo skemmtilegur elsku vinur.
Kveðja,
Greppur Torfason (IP-tala skráð) 26.9.2007 kl. 13:55
Takk sömuleiðis!
Ég er dáldið að gera grín að sjálfum mér, ég get verið að nerdast á sama tíma og ég sé tilgangsleysi þess að pæla í þessu. Ég vil ennþá vita hvað skammstafanirnar þýða en ég opna ekki veskið.
Raunverulegi draumurinn er sá að lífið sé svo skemmtilegt að ég vakni einn góðan veðurdag við að hafa ekki kveikt á sjónvarpinu í nokkur ár.
Kári Harðarson, 26.9.2007 kl. 16:50
Ég er búinn að liggja með höfuðið í bleyti yfir svipuð vandamáli. Ég er nýfluttur til útlanda og íbúðin heima á Íslandi er í útleigu með öllum græjum. Nú á ég engar græjur og þarf að byrja upp á nýtt. Flestallt sem ég horfi á er hægt að sækja á netinu. Ég nota síðu sem heitir giganews.com til að kaupa aðgang að spegluðu Usenet eða fréttahópum (gamla góða). Svo nota ég newzbin.com til að leita að skjölum sem hafa verið send á fréttahópa og nota svo eitthvert newsgroup forrit sem styður NZB XML staðalinn til að sækja skrárnar.
Ég festi kaup á LCD sjónvarpsskjá frá Philips á Amazon.co.uk í gær. Tækið á að koma á morgun og reynslunni samkvæmt á það að standast. Amazon.co.uk er frábært hérna úti - það þarf ekki að bíða eftir tollinum og borga aukagjöld sem ég kann ekki einu sinni nöfnin á.
Ég ætla svo að tengja fartölvuna mína við imbakassann og spila beint af fartölvunni því hún ræður við flest allt þ.á.m háskerpi 720 línu myndefni.
Undir sjónvarpinu sitja Creative T20 hátalarar sem kostuðu ótrúlega lítið miðað við hljómgæði. Við þá er tengt Airport Express sem iTunes kann að senda hljóð um innranetið til afspilunar. Svo ef fólk er með Linux kassa heima hjá sér er gaman að setja upp mt-daapd (heitir nú Firefly Media Server) sem talar við iTunes.
Síðast en ekki síst er ég að pæla í því að kaupa mér Xbox360. Félagi minn í vinnunni er búinn að gera skriptur sem breyta vídjófælum í eina vídjósniðið sem XboX360 vill lesa. Með þessu móti þarf ekki lengur að drösla fartölvunni að sjónvarpinu í hvert sinn sem maður vill horfa á sjónvarpið. Öllu er hlaðið á harðan disk í XboX360 og einfalt mál að velja úr Media Library fídusnum.
Draumatækið er lítið Linux box með háskerpu video útgangi eins og Apple TV. Tækið þarf að vera með Samba möppu sem maður getur hent öllu á risastóran og uppfæranlegan harðan disk(bónus ef það styður symlink og getur lesið beint yfir netið með Samba). Svo er fjarstýrt viðmót á tækinu þar sem auðvelt er að velja vídjófæl eða tónlist til að spila. Apple TV er mjög svipað þessu nema hvað að þar er allt lokað og bara eftir höfði Apple.
Jökull (IP-tala skráð) 26.9.2007 kl. 17:02
Ég veit ekki hvernig hægt er að fækka tækjunum, en ég veit hvernig fækka á fjarstýringunum.
http://www.logitech.com/index.cfm/remotes/universal_remotes/devices/372&cl=us,en
Þessi universal fjarstýring er forrituð gegnum USB tengi og hefur aðgang að gagnagrunni með stýrikóðunum og það sem best er. Þú getur búið til aðgerðir sem senda marga kóða á einum takka.
Horfa á MTV gæti því kveikt á sjónvarpinu, afruglaranum og græjunum, stillt á réttar rásir og hækkað í ákveðinn styrk.
Og það al besta er unisversal off takki sem setur allt á standby áður en þú rífur strauminn.
Þetta er næstbesta fjarstýring í heimi á eftir tv-b-gone http://tvbgone.com/ en hún er fyrir allt annan markhóp
Spörri (IP-tala skráð) 27.9.2007 kl. 12:52
Ég kannast við þetta, ég fékk allsherjar fjarstýringu frá Logitech, mig minnir að hún hafi heitið Harmony 888. Hún þekkti ekki stöðuna sem tækin voru í, og svo vantaði nokkur tæki í gagnagrunninn sem fylgdi henni. Hún og videotækið skildu aldrei hvort annað og ekki gardínurnar heldur.
Ég skilaði henni til Elko sem tók við henni með glöðu geði.
Kári Harðarson, 30.9.2007 kl. 16:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.