19.10.2007 | 15:48
Er breiðband Símans á útleið?
Fyrir nokkrum árum lagði Síminn Breiðbandið í götuna til mín og í kassa í kjallaranum. Ég lagði loftnetssnúru áfram upp í loftnetsdreifikerfi hússins og hef verið með myndlykil frá Símanum tengdan við þessa snúru.
Breiðbandið er ljósleiðari sem liggur um bæinn en flest hús eru tengd honum með venjulegri loftnetssnúru því búnaðurinn sem breytir ljósmerkinu í sjónvarps og símamerki er hafður í kössum á götuhornum. Það þótti ekki svara kostnaði að leggja ljósleiðarann alla leið í hvert hús.
Nú er Landssíminn byrjaður að bjóða upp á "Video on Demand" (VOD) þjónustu en aðeins fyrir þá sem nota ADSL myndlykla, en þeir eru tengdir við gömlu símasnúruna, ekki nýju loftnetssnúruna.
Ég beið rólegur og bjóst við að uppfærsla á breiðbandslyklunum væri ekki langt undan til að geta séð heimabíó með þeim. Svo leið og beið.
Nú er Síminn líka byrjaður að bjóða á háskerpu útsendingar (HD) en aftur, aðeins fyrir þá sem eru með ADSL myndlykla.
Því spurði ég þjónustuver Símans: Hvenær kemur Video-on-demand og Háskerpa fyrir notendur Breiðbandsins? Svarið frá þjónustuverinu var: það eru engin áform um að bjóða þá þjónustu á Breiðbandinu.
Ég álykta að myndlykillinn á Breiðbandinu sé að fara sömu leið og Betamax videótækin. Tímabært að leggja nýja snúru inn í stofu.
Smá hártogun í lokin: það er dáldið óskírt hvað Breiðbandið er í raun og veru. Ég fletti upp "Hvað er breiðbandið" á heimasíðu Símans og fæ þetta svar:
Breiðbandið var fyrst tekið í notkun þann 6. febrúar 1998 og hófst þá dreifing á sjónvarps- og útvarpsefni með einfaldri tengingu inn á loftnetskerfi heimilanna. Nú er komið að því að ljósleiðaratenging til heimila er orðinn raunhæfur kostur og því verður Breiðbandið nú uppfært í ljósnet og verður þannig eitt helsta gagnaflutningskerfi fyrir sjónvarp, útvarp, tölvur og síma. Þetta mun þó taka nokkur ár þar sem ljósleiðaratengingar kalla á nýjar innanhússlagnir á þeim heimilum sem vilja nýta sér þær.
Þarna stendur hvenær það var tekið í notkun og að dreifing á sjónvarps og útvarpsefni fari fram um það, en ekki hvað það er. Ef Breiðbandið er ljósleiðarakerfi símans, þá er breiðband símans náttúrulega ekki á útleið, en ef það er loftnetskerfi og myndlyklar tengdir því, þá er svarið já, þeir eru á útleið.
Ef til stendur að leggja ljósleiðara alla leið inn í stofu til mín og tengja myndlykil beint við hann, tekur vart að bíða eftir því og betra að byrja að undirbúa komu ADSL myndlykils.
Athugasemdir
Ég vinn við Sjónvarpsþjónustu Símans og kannast því við málið. Breiðband Símans er ljósleiðaranet að mestu leyti. Það var byrjað að leggja það um haustið 1994 og á þeim tíma var engin raunhæf tæknilausn til fyrir FTTH eða ljósleiðara í heimahús. Eina tæknin sem studdi sjónvarsþjónustu til heimila byggði á kóaxkerfum og því endaði Breiðbandið í lítilli kóaxsellu út frá götuskápum þannig að hægt væri að þjóna heimilunum. Því var og er Breiðbandið ígildi kapalsjónvarpskerfis.
Á tímabili leit líka út fyrir að kóxinn yrði notaður í gagnvirkum netum og myndi þvi nýtast fyrir IPTV og VoD þjónustu. En með mikilli þróun í ADSL tækni og aukinnni notkun á ljósleiðurum til heimila varð hann undir og nú ljóst að kóaxkerfin eru á úleið þó það taki mörg ár. Það er líka ljóst IPTV og Ethernetlausnir eru orðnar ofaná þó einhver byrjunarvandamál séu þar ennþá.
Eins og fyrr segir er Breiðbandið hannað sem ljósnet og því þarf aðeins að breyta tengingunum inn á heimilin, aftengja kóaxinn og tengja fíberinn. Það er þó fyrirsjáanlegt að þetta tekur mikinn tíma því það þarf að fara inn til hvers og eins notenda og skipta út búnaði og ráðleggja eða aðstoða við að breyta innanhússlögnum. Þetta þarf að gerast í með samþykki og velvilja áskrifendanna og því þarf að taka góðan tíma í þetta.
Tryggvi Guðmundsson (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 16:47
Takk Tryggvi!
Ef ég fæ ADSL hjá Símanum, liggur þá koparþráðurinn frá húsinu mínu alveg niður í símstöð, eða endar þráðurinn í götuskápnum og merkinu þar breytt í ljósmerki?
Ef svo er, ætti burðargetan að vera þó nokkur og hægt að veðja á ADSL næstu árin.
Ef ekki, er þá rör frá húsum sem hægt er að draga ljósleiðara í eða þarf að plægja leiðina aftur út í götuskáp?
Kári Harðarson, 19.10.2007 kl. 16:58
Púkinn var að fá bréf inn um lúguna hjá sér um að "á næstu dögum" yrði haft samband vegna lagningar ljósleiðaratengingar alla leið inn í hús, þannig að hlutirnir eru greinilega á hreyfingu. Samt er bara örstutt síðan Orkuveitan lagði breiðbandið inn í húsið, ásamt nýjum vatnslögum, með öllu því veseni sem því fylgdi.
Það er líka búið að leggja ljósleiðara inn í sumarbústað Púkans í Kópavoginum, og þar stendur appelsínugulur leiðarinn upp úr gólfinu inn á salerni, en það mun víst ekki vera búið eð tengja neitt við hinn endann ennþá.
Púkinn, 19.10.2007 kl. 17:45
ADSL kerfið byggir alltaf á koparþráðum sem ná til stöðva. Ennþá er engin samtenging milli Breiðbandsins og koparkerfisins. Stærsti hluti Breiðbandsins er með ljósleiðara samhliða kóaxinum inn í húsin. Það er bara elsti hluti þess sem ekki er með ljósleiðara alla leið inn. Í þeim tilfellum þar sem ekki er lagnaleið fyrir ljósleiðara frá götuskáp að heimili verður hægt að leysa málið með VDSL, það er 40-50Mbps tenging til hvers notenda sem dugar t.d. fyrir ágætis gagnatenginu og 6 samtíma sjónvarpsrásum (eða 3 HD rásum). Síðan má þróa þá tengingu áfram því yfirleitt eru 5 koparpör inn á hvert heimili frá götuskáp.
Tryggvi Guðmundsson (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 19:18
Takk aftur, Tryggvi!
Þá er bara að vona að ljósleiðari er í boxinu niðri í kjallara. Ef hann er það, þá er hægt að setja "Router" í kjallarann og Ethernet um allt hús.
Ef ekki, þá er ADSL á gamla koparnum næsta skrefið þangað til VDSL verður í boði.
Á maður að spyrja þjónustuverið hvort ljósleiðarinn er til staðar í viðkomandi húsi eða stelst maður til að kíkja í boxið sjálfur, eða er þetta ekki tímabært af því ekkert er á hinum enda ljósleiðarans ennþá?
Kári Harðarson, 19.10.2007 kl. 22:34
Ég myndi nú ekkert vera halda ofaní mér andanum á meðan ég biði eftir Símanum, Kári. Ef þeir eru jafn röskir í ljósleiðaradeildinni og þeir eru í sjónvarpsþjónustunni, þá verður ljósleiðari í Melana ekki kominn fyrr en á næsta árþúsundi. Svona í samhengi, þá er ég búinn að bíða síðan í síðasta mánuði eftir manni til að skipta út myndlyklinum mínum - svolítið sem tekur ekki nema 5 mínútur. Þeir hefðu meira að segja geta sparað sér manninn ef þeir hefðu bara rænu á því að leyfa fólki að stinga honum í samband sjálfu - en, onei.
Það kannski sést að ég er að breytast í bitran gamlan mann hvað þessa fyrirtækjanefnu varðar.
Ég myndi frekar skoða Gagnaveitu Reykjavíkur til að fá ljósleiðara. Þeir virðast þó vera að gera eitthvað...
Þór Sigurðsson, 20.10.2007 kl. 00:00
Sæll Þór,
Mér vitanlega var hægt að skipta um myndlykilinn sjálfur. Ég hef sótt og skilað nokkrum lyklum fyrir mig og mömmu mína. Ég er mjög umburðarlyndur gagnvart Símanum, þvi ég hef góða reynslu af honum sjálfur.
Þegar ég bjó í Danmörku missti ég símasambandið heima hjá mér. TeleDanmark sagði mér í rúma viku að eitthvað væri að símtækinu mínu, tölvan þeirra segði að línan væri góð. Á níunda degi fékk ég símsamband aftur, skýringin var brotinn vír í götukassanum. Engin afsökun og enginn afsláttur þann mánuðinn.
Þetta var á þeim tíma þegar GSM var ekki komið og við vorum heimilissímalaus í 9 daga. Þetta kalla ég slæma þjónustu! Ég hef aldrei lent í sambærilegur hjá Símanum.
Kári Harðarson, 20.10.2007 kl. 07:46
Ég get nú ekki sagt að síminn sé að standa sig
Það var lagður ljósleiðari , svo að segja um hlaðið um hjá mér fyrir mörgum árum áður en síminn var seldur.
Hann var lagður upp á Skáneyjarbungu þar sem sjónvarps og GSM sendarnir eru, í Reykholt þar sem símstöðin er og langleiðina upp í Húsafell.
Í dag eru sendingarnar frá RÚV svo lélegar að ég er farin að horfa á RÚV í gegnum Gervihnött.
Eina sem síminn býður upp á er ISDN tenging sem mjög fáir nýta sér
Í dag eru lítil fyrirtæki búin að setja upp örbylgjusenda um allan Borgarfjörð fyrir ofan ljósleiðarann sem ég held að sé ekkert notaður og með því móti fáum við viðunandi samband.
Gallinn við örbylgjusambandið er að það vill detta út í vondum veðrum.
Það voru mikil mistök að selja dreifikerfið með símanum. Við sveitalubbarnir fáum aldeilis að kenna á því.
Ef það hefði ekki verið fyrir áræði og dirfsku nokkurra heimamanna að koma upp þessu örbylgjusambandi væri Borgarfjörðurinn nánast netsambandslaus
Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 20.10.2007 kl. 12:47
Sæll Kári,
Ef þú ert í Vesturbænum þá veit ég að Gagnaveita Reykjavíkur er búin að leggja ljósleiðara í götuna hjá þér (eða mjög líklegt - hægt að hafa samband og spurja). Sjálfur er ég að starfa hjá Vodafone og höfum við verið í miklum tengslum við GR síðan við byrjuðum að bjóða upp á ljósleiðaratengingar. Miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið þá er biðtími eftir ljósleiðara frá GR mun styttri heldur en hjá Símanum. Því miður er þó Vesturbærinn ekki á skipulagi yfir tengingu ljósleiðara í hús á þessu ári en það gæti gerst 2008. Mæli allavega með að fylgjast með þeim!
Egill M. Friðriksson, 20.10.2007 kl. 13:27
Sæll Kári,
Það var hægt að skipta út breiðbandslyklunum sjálfur, en eftir að þeir komu með sjónvarp yfir ADSL, og myndlykla með HDMI-tengi (sem nýtist mér ekkert á gamla 28" túpuhlunkinum mínum), þá varð það að "sérfræðiþjónustu" að stinga rafmagninu í samband.
Persónulega finnst mér þetta út úr kú. Ég er búinn að starfa sem techie í næstum tvo áratugi og á stundum finnst mér framkoma tæknifyritækja vera svolítið í ætt við bóndann sem reyndi að kenna beljunni sinni að mjólka...
Ég tel mig vera þolinmóðan, enda hef ég skilning á því þegar mikið er að gera þá getur ýmislegt farið úrskeiðis. En $íminn hirðir glaður mína peninga án þess að láta mig fá nokkuð í staðinn. Það finnst mér súrt og þar hef ég ekki endalausa þolinmæði.
Ég þykist þó vita að þú ert þolinmóðari en ég :)
En kannski maður eigi bara að gerast örlagatrúar og líta á þetta sem svo að ég eigi ekkert að vera að glápa á ídjót-boxið á meðan ég er í skóla ? ;)
Mánuður er samt of mikið...
Þór Sigurðsson, 20.10.2007 kl. 15:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.