Mennning og ómenning

Menning

Ég kíkti á vefmyndavél sem er staðsett í Reykjavík meðan ég drakk morgunkaffið  hér í Rennes. Mér fannst drungalegt að rýna út í  myrkrið og rigninguna í gegnum  linsuna og ég varpaði öndinni léttar þegar ég gekk út í sólbjartan morguninn og  settist á hjólið. Hér skín sól og hér er logn og hitinn er í kringum tíu gráður.  Íslenskt sumar.

Ég hljóp í eina klukkustund í hádeginu og fékk mér svo samloku með  vinnufélögunum. Það urðu tímamót því samræðurnar stöðvuðust eitt augnablik og  einn vinnufélagi sagði: "Kári, þú ert farinn að tala á frönsku" - á frönsku.  Ég  varð upp með mér og sagði, "Takk, ég reyni".

Það er eins og hella hafi farið frá eyrunum og ég get fylgst með samræðum fólks,  og afgreitt erindi mín í síma.  Þetta er ofsalega gaman.

Hér er svo mikla menningu að sækja, líka fyrir nerda.  Frakkar hafa alist upp  við verkfræðileg stórvirki Rómverja, brýr og vatnslagnir.  Napóleon horfði á  þessi mannvirki og ákvað að verkfræðingar væru það verðmætasta sem þjóð gæti  átt. Þessa gætir enn í dag.  Það er engin tilviljun að Airbus þotur koma héðan, tölvunet á öll heimili áður en Internetið var fundið upp,  háhraðalestir sem ná 574 km hraða, svo ekki sé talað um verkfræðiviðundrið,  Parísarturninn. 

Í Rennes eru margar búðir sem selja teiknimyndasögur og ævintýraspil og líkjast  búðinni Nexus í Reykjavík.

Þegar ég kem inn í bókabúðirnar hér sé ég gífurlega spennandi bækur um allt  milli himins og jarðar, siglingafræði, kajaka, ferðabækur um allan heim,  þær  hafa ekki verið þýddar og ég hef ekki getað látið mig dreyma um að lesa fyrr en  núna.


Ómenning

Þegar ég hjólaði heim úr vinnunni áðan kom ég við í stórmarkaðinum við  bílaplanið þar sem heitir Place Hoche.  Þar var ölóður strákur við innganginn  sem reyndi að fá alla þá sem gengu inn í búðina til að slást við sig. Fólk var  dauðhrætt.  Ég sá starfsmennn búðarinnar á hlaupum inni.

Ég fann hjartað slá örar, ég fann fyrir gamalgróinni hræðslu og reiði, því ég  ólst upp á drykkjuheimili.  Mig langaði mest til að berja hann niður enda er ég  orðinn stór strákur núna - en ég ákvað að nota hinn innganginn á búðinni.

Á meðan ég var inni heyrðust hróp úti fyrir og svo sírenur.  Þegar ég kom út lá  strákurinn rænulítill og kjökrandi í breiðu af glerbrotum með alblóðugt höfuð  því dreyrinn lak úr augnbrúninni.  Þessi ógnandi óvætt var orðin að kjökrandi  barni.

Þrír lögreglubílar og sjúkrabíll stóðu fyrir framan búðina og hópur af  lögreglumönnum horfði á strákinn liggja meðan einn tók skýrslu af tveim ungum  mönnum sem virtust hafa gert það sem ég var að hugsa um að gera þegar ég kom.  Mikið var ég feginn að hafa ekki tekið þennan slag, útlendingurinn.

Þessir ólánsmenn eru iðulega við búðina.  Þeir eru dökka hliðin á  drykkjumenningu Frakka og þeir hanga fyrir utan stórmarkaðina af því brennivínið  er selt ódýrast þar.  Þeir eru jafn ómissandi hluti af stórmarkaði í borg eins  og flugurnar sem stikna á tilþessgerðum tækjum sem hanga fyrir ofan kjötborðið.

Ég er sannfærður um að þeir sem vilja vín í verslanir heima hafa ekki hugsað  málið til enda og þeir sjá heiminn ekki eins og hann er.

Glansinn af þeirri breytingu færi jafn hratt og af lakkinu á nýrri bíldruslu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: steinimagg

Það er alveg ótrúlegt að menn sem eru komnir alla leið á Alþingi  skuli ekki vera þroskaðri og ábyrgðafyllri.

steinimagg, 12.11.2007 kl. 21:54

2 identicon

Ég heimsótti Frakkland í fyrsta skipti fyrir rúmri viku og sakna þess strax, þ.e. þeim hluta þess sem á meira skylt við fyrri hluta færslu þinnar en þann seinni. Kaflinn um ómenninguna er aftur á móti gott innlegg í áfengissöluumræðuna. Það er ekki allt gull sem glóir.

Bjarni Þór Sigurbjörnsson (IP-tala skráð) 12.11.2007 kl. 23:35

3 Smámynd: Rúnar Már Bragason

Get ekki betur séð en þú sért að lýsa sömu menningunni, enda ekki til í mínum huga orðið ómenning. Báðar lýsingarnar eiga við franskt þjóðlíf alveg eins og utangarðsfólkið sem hangir niðir í Austurstræti er hluti af íslensku þjóðlífi. Menning er lýsing á samskiptum hjá hópi fólks og gildismatið gott eða vont á ekki við.

Hins vegar er innleggið gott í þá umræðu um skort á verkfræðingum á Íslandi og afleiðingar auðveldari aðgangs að víni. Danir hafa farið illa út úr því að auðvelda aðganginn og drykkjuvandamál í landinu sífellt að aukast.

Rúnar Már Bragason, 13.11.2007 kl. 00:19

4 Smámynd: Kári Harðarson

Ég skil hvað þú ert að fara.   Menning er allur pakkinn.  Mér datt samt ekki menning í hug þegar ég sá strákinn, hann var eins og einhver steinaldarmaður, hrópin varla mennsk lengur.

Kári Harðarson, 13.11.2007 kl. 00:40

5 Smámynd: Jón Ragnarsson

"Ég kíkti á vefmyndavél sem er staðsett í Reykjavík meðan ég drakk morgunkaffið  hér í Rennes. Mér fannst drungalegt að rýna út í  myrkrið og rigninguna í gegnum  linsuna og ég varpaði öndinni léttar þegar ég gekk út í sólbjartan morguninn og  settist á hjólið. Hér skín sól og hér er logn og hitinn er í kringum tíu gráður.  Íslenskt sumar."

 Nú ertu bara að svekkja okkur. Er von að Íslendingar séu þunglyndir og fýldir?!?

Jón Ragnarsson, 13.11.2007 kl. 09:41

6 Smámynd: Kári Harðarson

Ég er líka að svekkja sjálfan mig, ég kem heim 15.desember og lízt ekkert á myrkið.

PS: Þetta er myndavélin :  http://217.151.160.182/home/homeJ.html

Kári Harðarson, 13.11.2007 kl. 09:49

7 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ha, ha, ég kom heim frá Prag í gær, já í myrkrið, en úr 0° í +10°, frekar spes upplifun...vanalega hefur maður skolfið við heimkomu, en ekki núna...Ísland í nóvember er ekki alvont...

Greta Björg Úlfsdóttir, 16.11.2007 kl. 09:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband