Bylgjur eru bestu skinn

Í framhaldi af þessu banni ætti þá að hætta með útsendingar útvarps og sjónvarps.  Þær bylgjur hafa farið í gegnum okkur frá fæðingu og útskýra örugglega að miklu leyti hvers vegna sum okkar voru bólugrafin sem unglingar.   Að minnsta kosti útskýra þær skoðanir okkar á stjórnmálum í dag. 

Í alvöru talað held ég að það sé lítill munur á útvarpsbylgjum og ljósbylgjum.  Þær hafa lægri tíðni en ljósbylgjur en eru að öðru leyti ósköp svipaðar.   Þær geta í mesta lagi hlýjað manni ef það er mjög mikið af þeim.   Þess vegna er svona hlýtt út í sólinni á sumrin.

Mannkynið þróaðist undir stöðugu bylgjuregni frá sólinni og geimnum.  Við erum vön þessu.   Þetta er ótti við hið ósýnilega.

 chickenhypo


mbl.is Þráðlaust net burt úr skólum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér datt í hug að þú gætir haft gaman af því að lesa þessa grein: http://www.eldoradosun.com/Archives/01-06_issue/Firstenberg.htm

Dóra (IP-tala skráð) 15.11.2007 kl. 09:31

2 Smámynd: Kári Harðarson

Takk!

Ég einfaldaði mína skoðun kannski fullmikið.  Ég er hræddur við sumar bylgjur.

Bylgjur eru til í mörgum lengdum.  Ljósið er ein ákveðin bylgjulengd.  Röntgen og útfjólublátt ljós er styttri bylgjulengd en í sýnilegu ljósi meðan útvörp og gemsar nota lengri bylgjur.

Ástæðan fyrir því að við sjáum ljósið, þessa einu bylgjulengd, er að sólin sendir svo mikið af henni hingað niður og augun þróuðust því til að nýta hana.  Það er meira myrkur á öðrum bylgjulengdum, mætti segja.

Bylgjulengdir verða hættulegar ef þær eru nógu stuttar, samanber útfjólubláa og röntgengeisla, því bylgjur verða orkumeiri eftir því sem þær eru styttri.  Vísindamenn segja að þær séu meira "jónandi".

Ég hef alltaf gert ráð fyrir að eftir því sem bylgjur lengjast verði þær minna skaðlegar.  Ég held það vegna þess að þessar bylgjur hafa alltaf komist til jarðar og við höfum þróast í skininu af þeim.  Styttri bylgjur en sýnilegt ljós eru frekar stöðvaðar af lofthjúpnum og því framandlegar lífi á jörðinni.

Útfjólublátt ljós er aðeins styttri bylgjulengd en sýnilegt ljós og það er fyrsta bylgjulengdin sem maður fer að hafa áhyggjur af.  Það er útfjólubláa ljósið sem gerir okkur brún en það eru varnarviðbrögð líkamans.

Allar bylgjur sem eru notaðar fyrir þráðlaus net og gemsa eru lengri en ljósbylgjur.  Þess vegna óttast ég ekki þó ég gangi um bjartan dal, svo ég umorði Davíðssálm.

Kári Harðarson, 15.11.2007 kl. 13:00

3 Smámynd: Kári Harðarson

Nógu mikið af einhverju getur skemmt, venjulegt sýnilegt ljós getur brennt úr manni augun ef maður horfir í sólina.  Sólin er enginn smá bylgjusendir enda sendir hún 700 Wött á  hvern fermetra jarðarinnar á sólskinsdegi.

Gemsamöstur senda út á miklu minni styrk og bjarminn af öllum sendum sem senda dreift í allar áttir minnkar í 2.veldi eftir því sem fjarlægðin eykst svo ekki eru wöttin mörg sem hlýja meðalmanni.  Fólk sem byr á efstu hæð undir gemsasendi gætu fengið allt að 1 Watt á fermetra til að hita húsnæðið, en það nægir ekki til að hægt sé að lækka í ofnunum (sem senda innrauðar bylgjur, lengri en ljósbylgjur).

Sennilega er samt ekki sniðugt að setja hausinn alveg upp að mjög sterkum örbylgjusendi því ef hann er nógu sterkur stiknar hausinn eins og í örbylgjuofni.   Varðandi gemsa sem senda út á 2 Wöttum: Myndi ég þora að setja 2W peru upp að hausnum?  Já sennilega.

Kári Harðarson, 15.11.2007 kl. 13:20

4 identicon

Ignoramusar heimsins

Sælir eru fáfróðir, því þeir halda alltaf að þeir hafi rétt fyrir sér.

Eins og Kári segir eru bylgjur einar og hinar sömu hvort sem þær birtast sem ljós, hiti, örbylgjur eða útvarpsbylgjur. Þær eru aðeins á mismunandi tíðni.

Sum tíðnisvið geta skaðað ef næg orka er fyrir hendi: Sterk gammageislun (mjög há tíðni) getur skemmt erfðaefni og valdið krabbameini. Sama getur útfjólublátt ljós gert við húðina, en slík geislun dregur ekki langt inn í líkamann. Fyrir alla geislun gildir ennfremur sú regla að að er uppsafnað magn hennar sem gildir þegar skaðsemi eða áhætta er metin.

Tíðnisvið á þráðlausum netum er kringum 2,4 GHz, og farsímar eru óðum að leggja undir sig tíðnissvið þar í grenndinn.

Að sitja heilt skólaár í skólastofu með WiFi-sendi jafnast á við að vera í farsímanum í nokkrar mínútur.

Guðmundur Löve (IP-tala skráð) 15.11.2007 kl. 15:22

5 Smámynd: Kári Harðarson

Það er ákveðin nútíma geðveiki að viljia banna hluti þangað til fullvisa er fengin um að þeir séu skaðlausir.

Bílar og brennivín hefðu örugglega verið bönnuð með þessum rökum, en sennilega líka osturinn og brauðið því bæði innihalda undarlega gerilsveppi.  Hvenær er maður viss um að eitthvað sé algerlega skaðlaust ?

Nútíminn virðist þrífast á hræðslu, við terrorista og plágur.  Samsæri við hvert fótmál.  Svona hefur stemningin verið á miðöldum þegar nornir voru brenndar á báli...

Kári Harðarson, 15.11.2007 kl. 15:49

6 Smámynd: Jónas Björgvin Antonsson

Sammála Kári. Hræðslan selur - besta söluvara heims, sennilega. Og það skemmtilega er að hver á sín endalok, þrátt fyrir allt rausið. Það verður ekkert flúið.

En aftur að söluvörunni hræðslu. Hver man t.d. eftir S.A.R.S. í dag? Það var "undanfari" fuglaflensunnar. Fjölmiðlar gerðu mikið úr þessum ógnvaldi og sinnuleysi Kínverja (sem bentu réttilega á að þar sem fórnarlömb SARS næðu ekki prómilli af fórnarlömbum venjulegrar flensu þar í landi að þá væri þetta ekki í sérstökum forgangi). Svo kom í ljós að SARS var bara "bóla" - ef hægt er að nota það orð. Það var bara ekkert varið í þetta dæmi.

Stuttu síðar kom fuglaflensan... smátt og smátt... óljósar fréttir um nýja ógn. The rest is history. Ég bíð spenntur eftir næsta faraldri (frétta).

Annars finnst mér myndin með þessu innleggi alveg frábær - segir margt.

Svo er grein á blogginu mínu, Kári, sem þú hefur eflaust áhuga á.

J# 

Jónas Björgvin Antonsson, 15.11.2007 kl. 16:00

7 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Kári/aðrir!  Ég er með tvær tölvur á heimilinu og eitt sjónvarp í þráðlausu sambandi (einhvers konar rádar undir borðinu hjá mér).  Getur þetta geislamagn fræðilega skipt einhverju máli?  Skiptir máli hvort kveikt er á tækjunum eða hvort maður situr í beinni línu milli tækja.  Ég er með lítil börn. Þið virðist vita allt um þetta á þessari síðu!!! gaman væri ef þið kommenteruðuð á þetta!! kv. B

Baldur Kristjánsson, 15.11.2007 kl. 17:06

8 Smámynd: Kári Harðarson

Sæll Baldur, 

Gömlu sjónvarpslamparnir voru í raun hættulegastir því í þeim er 24 Kílóvolta háspenna aftast sem kastar rafeindum sem losna af glóandi vír fram á skerm með fosfór sem glóir í rafeindahríðinni.

Ef spennan í slíkum lampa er hækkuð nógu mikið byrja rafeindirnar að kastast af svo miklu afli að þær fara í gegnum fosfórinn og glerið,  skermurinn er í raun orðinn röntgenlampi.

Þess vegna var fólki ekki ráðlagt að sitja of nálægt sjónvörpum í gamla daga.

Röntgengeislar eru líka rafsegulbylgjur en bylgjurnar eru miklu styttri en útvarpsbylgjur, eða um  30 Petaherz sem er rúmlega milljón sinnum hærri tíðni en gemsar sem senda út á Gigahertz tíðnum.  Sýnilegt ljós er þarna í miðjunni, á þúsund sinnum lægri tíðni en röntgenbylgjur.

Röntgen hættan á ekki við um nýju flatskermana enda eru þeir ekki með katóðu, anóðu og háspennu á milli heldur eru ósköp saklausar ljósaperur á bakvið þá.

Bein lína milli tækja skiptir engu máli því sendarnir geisla í allar áttir jafnt, það myndast ekki nein geislunargöng milli þeirra eða þvíumlíkt.

Ef augu okkar gætu séð útvarpssendingu myndi þetta líta út eins og vasaljós sem kastar bjarma um alla íbúðina.  Ljósið væri ekki bjart.  Ástæðan fyrir því að loftnetin í tölvunum geta "séð" bjarmann af þessu ljósi er að það er svo mikið myrkur í íbúðinni (á þessari ákveðnu bylgjulengd).

Í myrkri verða jafnvel lítil ljós björt. Vonandi skýrir þetta eitthvað.

Kári Harðarson, 15.11.2007 kl. 17:27

9 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Góð umræða. Það má eflaust finna eitthvað háskalegt í þeirri tækni sem við umvefjum okkur en mér finnst ég vera búin að heyra einum of oft ,,Úlfur, úlfur" til að nenna að lífa í eilífum ótta og tortryggni. Nóg af alvöru-vandamálum.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 16.11.2007 kl. 00:06

10 Smámynd: Kári Harðarson

Oft fer óttinn líka með smá þekkingu.

Venjulega eru það vísindamenn sem vara heiminn við þegar hættan hefur verið raunveruleg, hnattræn hlýnun, tóbaksreykingar.  Þarna er því öfugt farið, vísindamenn hafa aldrei fundið neina hættu og þá segja þessir fuglar: "hún er örugglega þarna, haldið áfram að leita!"

Kári Harðarson, 16.11.2007 kl. 07:28

11 Smámynd: Morten Lange

Ágæt umræða hér, og ég tek að mestu undir með þér Kári, en þeir sem telja sér hafa þekkingu get líka  stundum verið of kokhraustir. Til dæmis sérfræðingar í kjarnorku sem segja að þetta er ekki neitt hættuleg. Tæknin er alltaf að batna, Nútima orkuver eru ekki eins og Tsjernobyl, Three Mile Island eða Barsebäck, og "bráðum" fáum við  allherjarlausnin samrunatækni ( fusion-tokamak)  

En þessi sömu menn eru svo kannski á öðrum vettvangi á því að mikilivægt sé að stöðva eða hafa hemil kjarnorkuumsvif Írana.

Í raun er synd hvernig umræðan um fréttir sem bloggarar setja inn athugasemdir við splundrast. 

Mér fannst vanta hér það að sum tiðnisvið geta hafst áhrif vegna þess að þeir smellpassa við eitthvert efni.  Eins og bent er á í  færlsu bofs og athugasemdum við hana.

Jón Finnbogason segir í sinni færslu um fréttina að bara 6 færslur finnast í  google um "Norgs Miljøvernforbund". Hmm Ég fann  38 þúsund og Wikipedia-grein um samtökin.  Jón leyfir ekki athugasemdir og þess vegna fannst mér við hæfi að benda á það hér. 

Hræðsluáróðurinn  er mjög slæm, og sumir eru á því að hræðsla sé notaður til þess að stjórna okkur "þegnana". En væru fjölmiðlar til í að fjalla um þetta mál (til dæmis) og ræða ef ekki væri hægt að tengja þessu við hræðslu ?  Ég hræddur um ekki.

Morten Lange, 16.11.2007 kl. 13:39

12 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Ruling with fear er staðreynd.  Sjáið ruglið með vökva um borð í flugvélum.  Þyrfti fleiri lítra af viðkomandi hættulegum vökva og nær alla flugferðina inni á klósetti í vélinni til að hægt væri að búa til sprengju.  Samt sitjum við uppi með það að það er tekið af okkur nokkurra millilítra naglalakksglas í leit.  Álíka rugl og þetta með hættulegu geislana.

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 16.11.2007 kl. 14:01

13 Smámynd: Kári Harðarson

Ég er sammála þér um kokhrausta vísindamenn.    Fólk hefur dáið af því vísindamenn tóku of stórt upp í sig.  Það er samt óhætt að segja að rafsegulbylgjur hafi verið mikið rannsakaðar sl. 150 ár.  Það eru minni og minni líkur á að eitthver eiginleiki þeirra finnist  sem við vissum ekki um.  Ef 150 ára rannsóknir eru ekki nóg, veit ég ekki hvenær við eigum að taka "nýja" tækni í notkun.

Nokkur orð um samhljóm bylgna og efnis:

Örbylgjur ná samhljóm við vatnsmólekúl og láta þau titra, þess vegna hitna þau.  Þú þarft 800 Watta sendi í litlum kassa til að ná fram svo miklum áhrifum að vatn sjóði í örbylgjuofni.  Ef sendirinn er minni eða fjarlægðin er meiri verður hitinn að sama skapi minni.

Það má bera bylgjur í örbylgjuofni  saman við innrauðu bylgjurnar í bakarofni ofni.  Innrauðu bylgjurnar í bakarofni eru þær sömu og streyma frá vatnsofninum í stofunni, bara meira af þeim og þjappaðar á minna svæði.  Ég vil sitja hjá ofninum í stofunni en ekki inni í bakarofninum í eldhúsinu.  Spurning um magn.

Innrauðar bylgjur ná samhljóm, ekki við mólikúl heldur við atómin inní hverju mólekúli.  Reglan er að styttri bylgjur ná samhljóm við minni og minni hluti, eins og sópransöngkona  sprengir glas með því að hitta á tóninn sem glasið titrar á.

Kári Harðarson, 16.11.2007 kl. 14:05

14 Smámynd: Kári Harðarson

Ég held að nerdum ofbjóði umræðan um hættuna við rafsegulbylgjur því þær hafa verið svo  mikið rannsakaðar svo rosalega lengi.  

Þetta væri eins og að segja við bónda að ostur sé hættulegur.

Mér finnst sennilegra að mörgum ofbjóði hraði nútímans og finnist gemsamöstur ekki prýða gaflinn á blokkinni í næsta húsi.  Mamma mín þolir t.d. ekki ljósið inn um gluggann frá möstrunum sem lýsa upp KR völlinn.   Það er rafsegulbylgjugeislun sem hægt er að mæla í pirringi móður minnar.

Kári Harðarson, 16.11.2007 kl. 14:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband