4.1.2008 | 10:16
Parísarhjólið
Hér er frétt utan úr heimi sem kom aldrei í fjölmiðla á Íslandi mér vitanlega:
15.júlí 2007 vöknuðu Parísarbúar við að 20.600 reiðhjól voru komin í hjólagrindur víðs vegar um borgina. Á 1.450 stöðum í borginni er nú hægt að nálgast reiðhjól og skila þeim aftur.
Leigan er mjög lág, nánast ókeypis. Tölva fylgist með því hversu mörgum hjólum er lagt á hverjum stað.
Hjólakerfið í París var sett upp eftir að góð reynsla var komin á sambærilegt framtak í borginni Lyon. Borgarlandslagið þar umbreyttist með tilkomu hjólanna en langflestir borgarbúar þar nýta sér þau.
Borgarstjóri Parísar gerir sér vonir um að það sama muni gerast þar og að borgin verði lífvænlegri fyrir vikið.
Könnun á ferðalögum innan Parísar var gerð þar sem borinn var saman ferðatími með bíl, leigubíl, hjóli og fótgangandi. Niðurstaðan var sú að ferðalag með reiðhjóli var iðulega fljótlegast.
Þetta er fljótlegra en strætó eða neðanjarðarlest, þetta er góð líkamsrækt og næstum ókeypis, sagði Vianney Paquet, 19 ára nemandi í lögfræði í Lyon.
Fyrirtækið sem sér um rekstur hjólanna heitir Cyclocity og er dótturfyrirtæki JCDecaux sem sér um strætóskýlin í Reykjavík. Það sér nú þegar um sambærilega hjólaþjónustu í Brussel, Vín, Cordoba og Girona. London, Dublin, Sydney og Melbourne eru að íhuga að taka upp þetta kerfi.
Kerfið þróaðist upp úr grasrótarhreyfingu í Amsterdam þar sem hippar gerðu við fullt af gömlum hjólum, máluðu þau hvít og skildu þau eftir víðs vegar um borgina. Hjólin urðu ónothæf vegna skorts á viðhaldi eða þeim var stolið en þau voru mjög vinsæl. Kerfið hjá Cyclocity byggist á sterklegum hjólum sem er læst í hjólagrindurnar og það þarf kreditkort til að losa þau. Fyrstu 30 mínúturnar eru ókeypis, síðan kostar næsti hálftíminn 100 kr.
Kerfið í París er það langstærsta sinnar tegundar og samkomulagið við JCDecaux er til tíu ára.
JCDecaux útvegar öll hjólin (1300$ stykkið) og byggir stöðvarnar fyrir þau. Hver stöð er með á bilinu 15 til 40 hjólastæði. París borgar fyrir kerfið með því að gefa JCDecaux aðgang að 1.600 auglýsingaskiltum víðs vegar um borgina sem JCDecaux er frjálst að selja auglýsingar á.
Mér finnst þetta vera ein af stórfréttum ársins 2007.
Heimild: Washington Post
Flokkur: Hjólreiðar | Breytt s.d. kl. 10:18 | Facebook
Athugasemdir
hey, vá !
Þetta er snilld..
Rakkst á þetta á forsíður mbl.is
Alveg hreint ótrúlegt að þetta skildi ekki fá meiri umfjöllun en þetta !
Einnig finnst mér þetta frábært :
"París borgar fyrir kerfið með því að gefa JCDecaux aðgang að 1.600 auglýsingaskiltum víðs vegar um borgina sem JCDecaux er frjálst að selja auglýsingar á."
Sammála að þetta sé stórfrétt !
Baldur Már (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 10:28
Frábært hjá Frökkum! Vissulega væri gaman að sjá þetta hér á landi á, en miðað við atgang veggjakrotara í miðborg Rvk. undanfarið, þá fyllist maður vonleysi...
Ásgeir Kristinn Lárusson, 4.1.2008 kl. 10:57
Af hverju ekki? Byrja á miðbænum, og stækka síðan út í hverfin. Kannski JCDecaux hafi áhuga á að færa út kvíarnar?
Jón Ragnarsson, 4.1.2008 kl. 12:19
Sniðugt. Þeir eru með sama fyrirkomulag hér heima nema þá eru það ekki hjól heldur strætóskýli.
Egill M. Friðriksson, 4.1.2008 kl. 12:52
Frábært. Samstíga með betri hjólreiðabrautum og tengingum í Reykjavík gæti þetta gert gagn í þeirri baráttu að draga úr óþarfari einkabílanotkun.
Úrsúla Jünemann, 4.1.2008 kl. 13:23
Ég veit að sambland reiðhjóla og strætisvagna er mjög sniðugt. Maður hjólar út á strætóstopp, skilur hjólið þar eftir, tekur strætó. Tekur annað hjól á stoppinu þar sem maður fer úr vagninum ...
Þetta leysir vandamálið að net strætisvagna hér er of gisið. Á 5 mínútum getur maður hjólað 1.5 km sem er meira en nóg til að fara út á strætóstopp hvaðan sem er í Reykjavík.
Kári Harðarson, 4.1.2008 kl. 13:42
Það flotta við þetta er að Parísarbúar hafa tekið hjólið ástfóstri, sumir meira að segja tekið sín gömlu út úr geymslunni, nú þegar það er orðið "kósher" að hjóla í borginni. Eitt sem ekki má gleymast er að samfara þessu tóku yfirvöld eina akgrein undir almenningssamgöngur og hjólin! Þannig að herpt er að bílnum þar sem það er hægt.
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 14:38
En frábært að vita af þessu þar sem ég er að fara að skreppa til Parísar í feb.
Takk fyrir gott innslag
Kristín (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 16:46
Magnaður Kári.
Þessi frétt hefur greinilega ratað ofan í ruslafötur hjá íslenskum fjölmiðlum.
Hvað um það, þetta er frábær hugmynd og gæti pottþétt virkað í mörgum bæjarfélögum hér heima.
Hvar eru "grænu" borgarfulltrúar Reykjavíkur nú?
Lesið þessa frétt sem Kári hefur grafið upp og komið með sambærilegt útspil og frakkar!
Er að horfa þessa stundina á umferðarsultu fyrir utan Vínbúð í Skeifunni þar sem risavaxnir jeppar og pallbílar troðast yfir gangstéttir bara til að komast leiðar sinnar. Færi nú eitthvað friðsamlegar fram ef þessir einstaklingar (og já það er bara einn í hverjum bíl) væru á svona frönskum hjólum með bjórinn sinn í körfunni :)
Góða helgi..
Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 17:20
Parísarfarar athugi, að til að geta nýtt sér þjónustuna þarf krítarkort með örgjörva (avec pus), allavega var það krafan sl. sumar.
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 17:56
Frábær hugmynd!
En er rétt hjá mér að þetta hafi líka verið gert í Danmörku og Hollandi?
Greta Björg Úlfsdóttir, 4.1.2008 kl. 22:38
Í Kaupmannahöfn eru í boði "City-Bike" hjól. Þau eru mjög frumstæð til að tryggja að þeim sé ekki stolið.
Hjólin í París eru með gírum og innbyggðum díóðuljósum að framan og aftan sem blikka alltaf þegar hjólið er á ferð. Svo er karfa framan á. Flott hjól.
Kári Harðarson, 5.1.2008 kl. 13:48
Sá svona í Brussel, þetta er bara snilli.
steinimagg, 5.1.2008 kl. 19:19
Flott hjá þér að skrifa pistill um Vélib' , Kári !
Mjög gaman að sjá moggin birta útdrátt á "staksteina-síðunni" hjá sér. Var reyndar að spá í að blogga um þetta sjálfur, að þessi frétt vantaði í erlendum fréttayfirlitum frá árinu.
Þetta snýst nefnilega ekki bara um París, heldur vilja menn í stórborgum "alsstaðar" gera þetta. Þegar eru reyndar svoleiðis kerfi, en minni í sniðum starfrækt í amk. 60 borgum í Evrópu, auk Beijing. Langflest eru hátækni lausnir, eða þriðjukynslóðar kerfi fyrir almenningshjól, líkt og í París. Eftir að menn sáu hversu vel tókst til í París, í sumar, og fram eftir haustinu, hafa borgarstjórar viða af flykkst til Parísar og heitið að skoða þessu vandlega. Eða eins og Der Spiegel segir :
Þegar verkfallið í samgöngum stóð sem hæst í París í haust, annaði kerfið ekki eftirspurnin, eins og kom fram í Reuters-frétt á mbl.is. Blaðamenn mbl.is fannst mun áhugaverðari að segja frá hið skrýtna, en hið mikilvæga, og völdu að taka fram að sumir notuðu hlaupahjól í verkfallinu :-) Enda var sennilega ekki eytt miklum tíma í að horfa á Reuters myndbandið þar á bæ.
International Herald Tribune sögðu frá því að fjöldi leiga á dag jukust frá 90.000 í 175.000 upp á hvern dag í verkfallinu, og reyndar að skortur var á stæðum til að skila hjólum í miðborginni að morgni til.
Fyrstir af stað af stórborgum BNA verður sjálf höfuðborgin, Washington DC, með opnum í mars eða apríl 2008, þó að hjólin verða miklu mun færri þar en jafnvel í Ósló. Tulsa, Oklahoma virðist þegar komin með 75 hjól í þriðju kynslóðar kerfi fyrir almenningshjól.
Allir höfuðborgir á Norðurlöndunum fimm hafa einhverskonar ódýr eða ókeypis almenningshjól, nema Reykjavík. AFA JCDecaux hafa að sjálfsögðu áhuga á að gera svoleiðis líka hér í Reykjavík. En borgin heldur spilin þétt að sér, og skorta sennilega trú á að hægt sé að gera slíkt hér.
Samkvæmt yfirliti sem ég fann á blogginu Bike-sharing blog, (RSS straumur á blogginu hjá mér) er borgin Drammen í Noregi, sem er minni en Reykjavík, nær toppnum v. flestu almenningshjólin á íbúa, í sætinu á eftir París og þremur öðrum borgum í Frakklandi. Í Drammen eru um 5 almenningshjól á þúsund íbúa. París hefur 10 almenningshjól á 1000 íbúa.
Borgin Þrándheimur er mun hæðóttari en Reykjavík, upplífir þónokkuð af roki, rigningu og snjóí, en hefur verið með ódýr almenningshjól til margra ára. Ferðamenn elska svoleiðis tilboð, því þetta gefur meiri frelsi í og nálægt miðborgum en bíl og strætó, maður er fljótur í förum og maður upplífir borgin allt öðruvísi. Sláumst í för með "La vélorution" !
Morten Lange, 6.1.2008 kl. 11:27
Gleðilegt árið gott fólk!
Gaman að sjá að "aðrar borgir" eru að taka þetta upp... því ef ég man rétt var svona system í henni Árborg fyrir einhverjum sumrum síðan. Að vísu voru hjólin blá en alveg ókeypis
Þorsteinn Gunnarsson, 6.1.2008 kl. 13:36
Skemmtileg grein. Mun setja þig í bookmarks hér eftir..
Sigfús (IP-tala skráð) 11.1.2008 kl. 15:38
Magnað - við munum skoða þetta vel í hjólahópnum.
Dofri Hermannsson, 12.1.2008 kl. 15:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.