29.1.2008 | 15:18
Reykt síld og fonduepartý
Á ensku er reykt síld kölluð "Red herring".
Hundar voru þjálfaðir til refaveiða með því að kenna þeim að eltast við slóð eftir reykta síld sem hafði verið dregin yfir fjöll og firnindi.
Síðan þurfti að kenna þeim að eltast ekki lengur við síldarslóðir heldur slóðir eftir refi. Þegar menn elta vitlausa slóð er því talað um "Red Herring" á ensku.
Umræðan um veikindi Ólafs borgarstjóra er "Red Herring", hún er á vitlausri slóð.
Nú er ekki talað um annað en illa meðferð spaugstofumanna á Ólafi og sennilega fær hann ómaklegt fylgi vegna þess að sumum finnst að maður eigi að vera góður við minni máttar.
Sjálfstæðismenn hefðu ekki getað beðið um betri villu því hún beinir sjónum manna frá réttu spurningunni: Eiga Ólafur og Vilhjálmur að vera borgarstjórar?
Löglega geta þeir krafist þess, rétt eins og sá sem tekur fram úr öðrum í umferð og bremsar snögglega að tilefnislausu getur krafist fullra bóta vegna aftanákeyrslu. Löglegt en siðlaust.
Það var siðleysið sem krakkarnir mótmæltu á pöllunum. Vonandi var það ekki örvæntingaróp áður en lýðræðisneistinn var slökktur í þeim.
Ég veit ekki hvort Ólafur getur orðið góður borgarstjóri en ég veit að hann hafði ekki fylgi og það ætti að vera brot á einhverjum lögum.
Ég vil ekki að Vilhjálmur verði borgarstjóri, því ég treysti honum ekki eftir REI málið. Sennilega braut hann ekki lög þá, en ég hélt að það væri augljóst að hann ætti að halda sig til hlés eftir það axarskaft.
Vilhjálmur tapaði minni tiltrú fyrst þegar ég spurði á kosningafundi hvað hann ætlaði að gera í umferðarmálum í borginni. Hann svaraði: Íslendingar hafa valið einkabílinn og það er mitt hlutverk að hjálpa þeim að komast hindrunarlaust milli staða. Annars keyra þeir bara í gegnum íbúðahverfin og það væri verra.
Í þessum anda á að byggja mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Það finnst mér gamaldags.
Í fyrsta lagi finnst mér ótækt að fólk komist upp með að kaupa hús í úthverfi á lágu verði og fá svo niðurgreiddar samgöngur fyrir einkabílinn sinn inn í bæ. Hvaða heimtingu á fólk á því að komast fljótt í vinnuna þegar það kaupir húsnæði útí rassgati? Og það á kostnað þeirra sem búa við Miklubraut. Hvaða hvatning er þá fyrir fólk að haga sér ekki eins og hálfvitar þegar það kaupir hús?
Ég veit um konu sem fer úr Vesturbæ Reykjavíkur í miðbæ Hafnarfjarðar á einkabíl til þess að láta klippa köttinn sinn. Ef menn eins og Villi halda áfram að malbika verður konan farin að láta klippa köttinn í Keflavík.
Meiri steinsteypa niðrí bæ kallar bara á meiri umferð. "Build it and they will come".
Í öðru lagi finnst mér mislæg gatnamót ekki eiga heima inní miðborgum heldur í útjaðri þeirra. Þau eru risastór og ljót og klippa borgarhverfi í sundur eins og ferkílómeters stórt geimskip sem brotlendir. Þessi mynd gæti verið af nýju gatnamótunum.
Ætlar einhver að segja að þetta sé fallegt? Geta nýju gatnamótin orðið fallegri?
Gamli góði Villi sagði í kosningabaráttu sinni að hann hefði búið í sama húsinu í Breiðholti í tugi ára. Það hefur kosti og ókosti. Ef hann hefði eytt einhverjum tíma erlendis hefði hann kannski myndað sér aðrar skoðanir á einkabílisma og væri tilbúinn að læra af mistökum annara þjóða.
Þegar Vilhjálmur segir "mislæg gatnamót" finnst mér ég vera staddur í fortíðinni. Hann gæti alveg eins sagt: "Höldum Fondue partý?"
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.2.2008 kl. 14:01 | Facebook
Athugasemdir
Get ekki verið meira sammála þér, félagi. Góð greining, eins og alltaf.
Ingvar Víkingsson (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 20:26
Ég tek undir þetta með þér og finnst reyndar að þetta mannvirki sem setja á þarna niður í Kringlumýri og að landið undir flugvellinum verð ekki nýtt, vera mjög slæmt mál. Stefnan í skipulagsmálum í Rvk. hefur verið fólgin í því að þenja borgina út sem felur í sér að þörfin fyrir bíla eykst og við sóum kolefnisorku að óþörfu. Skipulagið felur í rauninni í sér þjóðhagslegar byrðar. Eflaust má halda því fram að þetta mannvirki þarna niðri í Kringlumýri verði ætlað að leysa úr umferðarhnútum og þá væntanlega í leiðinni auka lífsgæði þeirra sem nota bifreiðar. Ég held reyndar að ástæðan fyrir umferðarteppum sé ekki léleg umferðarmannvirki, miklu frekar að orkan (bensín/olía) er of ódýr. Maður/kona sem er reiðubúin að sitja í 30 til 40 mín. umferðarteppu á hverjum degi, segir mér bara að orkan er of ódýr. Hækka bensínið og þá leysast umferðarvandamálin og hugsanlega þurfum við þá ekki þetta fyrirbæri í Kringlumýri.
Ég held að skipulagsmál hér hljóti í framtíðinni að snúast um það að þétta byggð, nota svæði sem lækka samfélagskostnað (eins og flugvöllinn) til bygginga og byggja upp í loftið. Þá eigum við að reyna að nýta í eins miklu mæli og unnt er innlenda orkugjafa, sérstaklega rafmagn í almenningssmgöngur og nota rafmagnslestir í úthverfin.
Hagbarður, 29.1.2008 kl. 20:30
Góður pistill.
Bergur Thorberg, 30.1.2008 kl. 08:46
Þakka pistilinn -við þurfum að veita þessum mislægu pólitíkusum mun meira aðhald - almenningur verður að láta meira til sín taka í skipulagsmálum og málum er varða framtíð okkar og barna okkar. Þetta er borgin OKKAR og hér lifum við og hrærumst og viljum VIÐ hafa skoðanir og áhrif á framtíð OKKAR? Svo finnst mér að sameina þurfi öll sveitarfélögin á Höfuðborgarsvæðinu.
Ásgeir Kristinn Lárusson, 30.1.2008 kl. 09:02
Takk fyrir þennan pistil, ég er hjartanlega sammála þér. Mislæg gatnamót í miðbænum eru algjört steypa og færa vandamálin bara yfir á næstu gatnamót . Hvað vilja þessir mislægu stjórnmálamenn búa til mikið af mislægu rugli? Ég vil ekki að mínir skattpeningar fara í meira malbik en nú þegar er í Reykjavík. Á meðan flestir bílstjórar geta ekki skipulagt sig betur og draga úr óþörfum akstri, sérlega á álagstímum þá er þeim ekki vorkunn að sitja fastir í umferðateppu.
Ég vil frítt í strætó, forgangsakreinar fyrir almenningssamgöngur og betra skilyrði fyrir gangandi og hjólandi fólk.
Úrsúla Jünemann, 30.1.2008 kl. 11:34
Það er ekki lausn að loka augunum og fresta.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 30.1.2008 kl. 14:14
Heimir, ég er ekki viss í minni sök. Það getur verið að mislæg gatnamót verði borgarprýði ef þau eru mjög vel útfærð. Gömlu gatnamótin eru engin smásmíði heldur. Mér þykir samt líklegra að nýju gatnamótin verði ljót.
Það getur líka verið að þau valdi ekki aukningu á umferð. Mér þykir samt líklegra að þau verði umferðaraukandi.
Það er alveg handvíst að mislæg gatnamót kosta tugi milljarða og að þau verða aldrei fjarlægð aftur.
Ég tel að þeir sem vilja fá þau eigi að færa rök fyrir þeim.
---
Ennfremur: Ég hef sætt mig við minni íbúð af því ég vil búa miðsvæðis. Hvað á ég að taka þátt í miklum kostnaði svo þeir sem búa langt í burtu komist fljótt í vinnuna ?
Eftir þessi mislægu gatnamót, hvað þá? Hvað ætlum við að greiða götu einkabílsins mikið í viðbót? Fyrir hvað mikinn pening? Hvað kostar hraðlest til Keflavíkur og hvað kosta mislæg gatnamót? Hvort er betri nýting á fjármunum?
Ég óska einnig eftir umræðu um það. Ekki bara endalaust meiri einkabíla af því bara, án þess að staldra nokkurn tímann við.
Kári Harðarson, 30.1.2008 kl. 14:56
Ég mundi vilja sjá flugvöllinn fara til Keflavíkur. Við þyrftum þá að hafa góðar almenningssamgöngur milli Keflavíkur og Reykjavíkur. Hraðlest gæti verið einn af kostunum sem ætti að skoða í því samhengi. Hún gæti mögulega leyst einhverjar umferðarteppur milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, með stoppum í m.a. Hafnarfirði og Kópavogi. Þetta finnst mér vera kostur sem mætti skoða vandlega, með tilliti til kostnaðar og samfélagslegra áhrifa á samgöngur almennt.
Það er annað í þessu, að það yrði hægt að selja lóðir í Vatnsmýrinni (ef ríki og borg eru eigendur að þeim) til að fjármagna hluta kostnaðar við þær almenningssamgöngur sem til þyrfti að kosta vegna flugvallar í Keflavík. Þar með væri hægt að þétta byggðina í Reykjavík og fleiri hugsanlega búið nærri miðbænum.
Þetta er í það minnsta ein nálgun, til lausnar þessara mála, sem vert er að ræða.
Sveinn Atli Gunnarsson, 30.1.2008 kl. 23:27
Lestirnar til Keflavíkur yrðu tvær. Ein væri Non-stop Reykjavik - Keflavík en hin myndi stopppa á leiðinni. Í kringum þau stopp myndu myndast þéttbýliskjarnar. Vatnsleysuströnd yrði mjög ákjósanlegt úthverfi Reykjavíkur.
Fólk í Keflavík gæti sótt vinnu í Reykjavík á 20 mínútum.
Það er þröngsýnt að sjá bara hvaða vandamál leysast en ekki hvaða nýir möguleikar verða til. Það var bara þörf fyrir eina tölvu á Íslandi þegar ég var strákur.
Það er engin þörf fyrir lest til Keflavíkur í dag en hver veit?
Kári Harðarson, 31.1.2008 kl. 08:05
Góður pistill, takk fyrir mig.
Kolgrima, 31.1.2008 kl. 19:54
Góður pistill, nema þetta með fonduepartíið. Fondue er nefnilega í uppáhaldi á heimilinu síðan seytjánhundruð og súrkál.
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 1.2.2008 kl. 15:49
Sammála, Fondue er ágætt, það er bara svolítið gömul tillaga þegar einhver spyr hvaða veitingar eigi að bjóða gestunum uppá.
Stundum eru gamlar tillögur fínar. Kannski eru mislæg gatnamót einmitt málið þarna. Ég myndi bara vilja fá almennilega umræðu fyrst, ekki fyrirfram ákveða að hafa mislæg gatnamót.
Kári Harðarson, 1.2.2008 kl. 21:44
Hvaða heimtingu á fólk á því að komast fljótt í vinnuna þegar það kaupir húsnæði útí rassgati?
Málið er "barnið vex en brókin ekki" þannig að ef eitthvað er í rassgati er það gamli miðbærinn í Reykjavík, hann hentaði kaupstað fyrir óralöngu en ekki stórri borg.
Gamli bærinn á að varðveitast sem slíkur en þungamiðja vinnu og skóla á að vera í miðri borg, það styttir allar vegalengdir og léttir á umferð.
Sturla Snorrason, 9.2.2008 kl. 18:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.