3.3.2008 | 13:03
Tímanna tákn
Einu sinni voru skilti á knæpum sem á stóð "Ekki hrækja á gólfið". Þessi skilti voru ekki sett upp að ástæðulausu, fólk hlýtur að hafa hrækt á gólfin. Sama gildir um skiltin "ekki pissa framhjá" og "ekki setja bakpokann á barborðið". Öll endurspegla þau kúltúrinn á staðnum.
Mér datt þessi skilti í hug þegar ég kom á vinnustað þar sem gildi fyrirtækisins höfðu verið skrautskrifuð og innrömmuð svo gestir og gangandi gætu kynnt sér þau: "Við tölum hljóðlega á opna svæðinu". "Við tölum ekki illa um viðskiptavinina". Við leitumst við að vera í fararbroddi. Frumkvæði, áræðni og hraði". Ég man ekki hvernig þau voru nákvæmlega. Þessi skilti eru í tísku núna. Sennilega hafa starfsmennirnir verið neyddir á vinnufundi þar sem þessi gildi voru sett saman í hópefli. Nokkrum vikum síðar kom einhver með skrautskrifað skjalið innrammað og hengdi upp.
Þetta minnir mig svolítið á barnaheimili. Þar eru handklæði krakkanna merkt og skilti segir að allir eigi að raða skónum upp að vegg. Gott og blessað.
Ég trúi að svona gildi sé ekki hægt að tileinka sér með því að lesa þau heldur verði að "lifa" þau með því að læra þau af sér reyndari starfsmönnum. Ég man eftir frásögn þar sem ungur maður sagðist hafa verið óánægður með að vera settur í klósettþrif þegar hann byrjaði. Yfirmaður kom að honum og sagði að klósettið væri ekki nógu vel þrifið en svo fór yfirmaðurinn líka á fjóra fætur í jakkafötunum og þreif klósettið sjálfur til að sýna stráknum hvernig það væri gert. Strákurinn gleymdi þessu vitaskuld aldrei. Svona lærir fólk kúltúr á vinnustað, ekki með skiltum.
Á vinnustöðum eins og Taco Bell og Domino's er mikið rennerí af ungum krökkum sem vinna ekki lengi á sama stað enda ekki um framabraut að ræða og launin lág. Þess vegna er reynt að ala krakkana upp með svona skiltum.
Bandaríkjamenn í miðstétt trúa því margir ennþá að ameríski draumurinn sé innan seilingar. Þeir vinna um helgar með laptop, eyða hálfri vikunni á flugvöllum tjóðraðir við atvinnuveitandann með "Blackberry" síma og eyða eigin peningum í sjálfshjálparbækur sem eiga að kenna þeim að verða betri starfsmenn og heita "Seven habits of highly effective road warriors" eða þvíumlíkt. Þeir trúa því ennþá að launaleyndin sé fyrir þá sjálfa af því þeir séu með svo góð laun að vinnufélagar þeirra megi ekki vita það.
Ég er skeptískari. Atvinnuöryggi og laun í miðstétt í vestrænum ríkjum hefur farið niður á við og peningar hafa safnast á færri hendur. Ég upplifi þessi skilti því sem hræsni. Fyrir mér endurspegla þau það að atvinnurekendur reikna með renneríi af starfsfólki sem tekur því ekki að kenna verklag með gömlu aðferðunum. Þessi "Gilda og skilta" kúltúr kemur svo til Íslands með sjálfshjálpar bókunum amerísku sem virðast vera lesnar í viðskiptafræðideildum eins og alvöru kennslubækur.
Er kannski kominn tími á svona skrautskrifuð skilti sem kenna atvinnurekendum hvernig eigi að umgangast starfsfólk? "Við ráðum ekki fólk í vinnu án þess að endurmennta það og rekum það svo þegar það er kulnað í starfi. Við hækkum launin í samræmi við verðlag. Við rekum ekki konur þegar þær verða óléttar".
Mýtan um nýja vinnustaðinn er bara mýta. Hún er hentug tálsýn fyrir þá sem ráða. Starfsfólk ætti að hugsa sjálfstætt og leyfa ekki atvinnurekendum að taka af sér réttindi sem það tók forvera þeirra áratugi að berjast fyrir undir því yfirskini að "nýji vinnustaðurinn breyti öllu".
Flokkur: Neytendamál | Facebook
Athugasemdir
orð í tíma töluð Kári ! góður pistill að vanda frá þér.
Óskar Þorkelsson, 3.3.2008 kl. 13:55
vel mælt. ég er mjög þakklátur fyrir að vinna á vinnustað sem er laus við þetta leikskólasyndrome. á mínum vinnustað eru flestir álíka klikkaðir og taka lífinu hæfilega alvarlega. enda mórallinn í toppi. á 'langri' ævi hef ég komist að því að slíkt gildir ekki minna en launatékkinn, ef ekki meira.
Brjánn Guðjónsson, 3.3.2008 kl. 18:55
Er nokkuð laust starf á þínum vinnustað, Brjánn?
Lára Hanna Einarsdóttir, 3.3.2008 kl. 23:24
Launatékkinn er í 2. sæti þegar ég er að sækja um störf...
Jón Ragnarsson, 4.3.2008 kl. 11:39
Sennilega góð lífsspeki, Jón. Þeir sem gefa frá sér frelsi í von um öryggi munu fá hvorugt. (Man ekki hver sagði það).
Kári Harðarson, 4.3.2008 kl. 11:57
The man who trades freedom for security does not deserve nor will he ever receive either.
Benjamin Franklin
Jóhannes Birgir Jensson (IP-tala skráð) 4.3.2008 kl. 14:42
Þetta er skrambi góður pistill - mér fannst þetta: Ekki tala illa um viðskiptavininn! reyndar mjög fyndið. Það er ótrúlega margt að breytast á vinnumarkaði og virðist gerast aðallega á forsendum atvinnurekendanna. Hef reyndar verið ljónheppin með vinnukaupendur (mér leiðist orðið ,,vinnuveitandi") því þeir sem hafa keypt mína vinnu hafa ekki verið á þessu skiltastigi, en þá kemur annað inn, eins og til dæmis þegar fyrirtækið sem þú vinnur hjá er selt tvisvar á sama hálfa árinu. Því fylgir umrót og raskanir og ekki allt til hins betra þrátt fyrir góðan vilja. En svo er auðvitað hægr að ráða sig hjá erfiðasta aðilanum: Sjálfum sér, eins og við sjálfstætt starfandi gerum. Aldrei raunverulegt frí en rosalegur sveigjanleiki.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 4.3.2008 kl. 15:23
Flottur pistill, þetta er svo sannarlega rétt hjá þér.. Sem betur fer hafa sum fyrirtæki haft "vit á því" að snúa af þessari braut "rennerís" af ungu fólki og snúið sér að því að ráða eldri, man eftir nýlegri auglýsinu þar sem lámarksaldur var 35 ára.
En það er hverju orði sannara að ekki er hægt að kenna allt af bókum, reynsla úr skóla lífsins er ekki síðri.
Og ekki síst að tölvupóstar, SMS og skriflegar tilkynningar koma aldrei í stað mannlegara samskipta.
Kveðja,
Ómar Pétursson, 4.3.2008 kl. 23:04
Takk fyrir frábæran pistil.
Margt af því sem kemur fram hjá þér er því miður staðreynd. Íslendingar hafa ekki heldur alltaf verið barnanna bestir sé litið til samskipta vinnuveitenda og vinnufólks.
Þegar ég lærði viðskiptafræði í H.Í. með áherslu á stjórnun og stefnumótun voru sjálfshjálparbækur ekki lesnar eins og alvöru kennslubækur, en við nemendurnir litum einnig í slíkar flugvallar bókmenntir eins og við kölluðum þær.
Í náminu lærði maður að ef fyrirtækið leggur áherslu á að hafa starfsmenn í forgrunni myndarinnar eru meiri líkur en minni á að fyrirtækið nái að eflast og dafna meðal annars vegna áhugaverðari upplifunar starfsmanna á sínum vinnustað.
Í grein í Morgunblaðinu í dag 4. mars, bls. 25, bendir Ragnar Önundarson viðskiptafræðingur á að einn banki njóti þess í dag í lægra áhættuálagi að hann lítur til samfélagsins með nokkru víðara sjónarhorni en hinir bankarnir á Íslandi og benti á að galgopar á einkaþotum með alls slags oflæti hafi séð til þess að traustið erlendis á þeirra bönkum sé horfið.
Jón Ágúst Ragnarsson (IP-tala skráð) 4.3.2008 kl. 23:31
Að athugasemd Jóns Águsts : Hvaða eini banki ætti þetta að vera, sem "lítur til samfélagsins með nokkru víðara sjónarhorni en hinir bankarnir á Íslandi" ? Mér dettur í hug sparisjóðir, en þeir teljast vist ekki sem bankar.
Að vera svona að þykjast segja eitthvað áhugavert, en láta það ósagt, finnst mér jaðra við dónaskap, og sérstaklega þegar "ábyrgir menn" standa í þessu.
Ég las grein Ragnars og varð engu nær. Hann virðist vera forstjóri kreditkorta/MasterCard (engir alnafnar í þjóðskrá, sýnist mér ). Það er ekki eins og kreditkortafyrirtæki hafa ýtt undir því að fólk taki meiri lán, og etv meira en þeir ráða við :-) ( Eða hitt þó heldur !)
Morten Lange, 5.3.2008 kl. 16:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.