Sjö fræ ofbeldis

Mahatma Gandhi gaf Arun, barnabarni sínu lista yfir það sem samfélög ættu að forðast ef ekki ætti að koma til ofbeldis.

Stephen R. Covey, höfundur "Seven habits of highly effective people" kom með eftirfarandi skýringar á hverri aðvörun um sig.

Gandhi_studio_1931

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Auður án vinnu

Hér er átt við þá sem fá eitthvað fyrir ekkert - þá sem sýsla með markaði og eignir til að þurfa ekki að skapa verðmæti eða vinna heldur sýsla með fólk og hluti fram og til baka. Í dag eru til starfsgreinar sem byggjast á því að skapa auð án þess að vinna, búa til peninga án þess að borga skatt, hagnast á styrkjum án þess að leggja neitt að mörkum til þeirra, eða njóta góðs af því að vera ríkisþegn eða starfa hjá fyrirtæki án þess að taka á sig ábyrgð eða áhættu.


Ánægja án ábyrgðar

Aðalspurning hinna vanþroskuðu, gráðugu og eigingjörnu hefur alltaf verið: Hvað fæ ég? Mun þetta gleðja mig, mun þetta láta mér líða vel? Margir vilja ánægju án ábyrgðar samviskulaust, þeir yfirgefa jafnvel maka og börn til þess að geta "bara verið þeir sjálfir". En sjálfstæði er ekki æðsta þroskastigið, það er bara lítið skref á leiðinni til samhjálpar sem er æðsta stigið. Að læra að gefa og þiggja, lifa óeigingjarnt, sýna tillitsemi og nærgætni, það er markmiðið.

Auglýsingar hvetja forstjóra til að njóta lífsins áhyggjulaust af því "þeir eiga það skilið" eða "þeir hafa unnið fyrir því" eða "þeir vilja það, svo því ekki að láta undan og gefa eftir?" Skilaboðin eru: þú ert búinn að ná takmarkinu. Nú þarftu ekki samvisku lengur. Í sumum auglýsingum eru sextugir menn með þrítugum konum á leið á ráðstefnur. Hvað varð um eiginkonurnar? Hvað varð um reglur samfélagsins sem segja að framhjáhald sé ekki í lagi?


Þekking án drenglyndis

Of lítil þekking er hættuleg en mikil þekking án drenglyndis er miklu hættulegri. Þeir sem safna þekkingu án þess að hafa þroskað sig sem manneskju eru eins og fullur krakki á sportbíl. Allt of oft gerist það í háskólum að menn útskrifast með hausinn fullan af þekkingu en ekkert brjóstvit.



Viðskipti án siðferðis

Ef við leyfum hagkerfum að þróast án siðferðilegrar undirstöðu munum við enda með siðlaust samfélag og fyrirtæki. Sérhver viðskipti eiga að fara fram þannig að kaupandi og seljandi fái það sem honum ber. Gullna reglan er að allir aðilar þurfa að njóta góðs af viðskiptunum og réttlætis þarf að hafa verið gætt.

Fólk lendir í vandræðum þegar það segir að yfirleitt stundi það siðleg viðskipti. Það þýðir að einhver hluti viðskiptanna sé ekki í lagi. Fólk er með baktjaldamakk, leynilíf sem það felur jafnvel fyrir sjálfu sér og útskýrir einhvern veginn að það sé undanþegið lögum guðs og manna.


Vísindi án manngæsku

Ef vísindin einblína á tækni og aðferðir enda þau sem árás á mannkynið. Tækni byggir á vísindum. Ef skilningur á tilgangi með jarðvistinni er ekki til staðar gera þau okkur fórnarlömb tækninnar. Við sjáum vel menntað fólk klifra upp metorðastiga vísindanna þótt þrep fyrir manngæsku vanti og stiginn halli upp að vitlausum vegg.

Langflestir vísindamenn sem nokkurntímann hafa verið til eru lifandi í dag og þeir hafa valdið sprengingu í tækni og vísindum. Við munum sjá fullt af tæknibyltingum en án manngæsku munum við ekki sjá framfarir fyrir mannkynið. Óréttlæti heimsins mun vera með okkur áfram.


Trúarbrögð án fórna

Ef við færum engar fórnir getum við verið virk í kirkjustarfi en samt óvirk í útbreiðslu fagnaðarerindins. Þá er ekki reynt að hjálpa fólki eða bæta úr vandamálum samfélagsins. Það kostar fórnir að þjóna öðru fólki, sérstaklega þarf að fórna sínu eigin stolti og fordómum.

Einu sinni fylgdist ég með hjónabandi þar sem erjurnar hljóðnuðu ekki. Mér varð þá hugsað að þetta fólk þyrfti að gefast upp gagnvart hvoru öðru og iðrast ef hjónabandið ætti að geta gengið. Þú getur ekki fundið fyrir samhug án þess að hafa auðmýkt. Stolt og eigingirni mun eyða sambandi manns og Guðs, manns og konu, manns og manns, sjálfs og sjálfs.


Stjórnmál án grunngilda

Án grunngilda er engin höfuðátt til að stefna að, ekkert til að treysta. Samfélög sem gera mikið úr stjórnmálamönnum en lítið úr grunngildum eru búin að gera viðkomandi mann að ímynd, markaðsvöru sem hægt er að selja og lítið annað.

Við sjáum stjórnmálamenn eyða milljónum í að byggja upp ímynd sína þótt hún sé grunn og innihaldslaus, til að kaupa atkvæði og fá embætti. Þegar þeim tekst það fáum við stjórnkerfi sem lýtur eigin lögmálum óháð hinum náttúrulegu sem ættu að vera við lýði, þau sem eru í stjórnarskránni, að allir séu skapaðir jafnir og með jafnan rétt til lífshamingjunnar.

Í kvikmyndinni "Boðorðin tíu" segir Móse við Faraó, "við viljum lúta Guðs lögum, ekki þér". Hann er að segja, "við munum ekki láta að stjórn manns sem styðst ekki við grunngildi". Í réttlátum samfélögum og fyrirtækjum eru náttúruleg grunngildi við lýði og jafnvel þeir hæstsettu verða að fylgja þeim. Enginn er yfir þau hafinn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

magnað.

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 16.4.2008 kl. 21:55

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Besta bloggfærsla sem ég hef séð. Takk fyrir.

Lára Hanna Einarsdóttir, 17.4.2008 kl. 03:18

3 Smámynd: Björn Heiðdal

Þessar fyrirsagnir eru nokkuð góðar en útskýringarnar ekki alveg eins.  T.d. í "Ánægja án ábyrgðar" er kvartað yfir gömlum körlum og ungum konum þeirra.  Hvort er Stephen á móti aldursmun eða framhjáhaldi.  Ef forstjórinn er síðan að halda framhjá með ritaranum sínum ber hann ábyrggð á að barna hana ekki og að eiginkonan komist að þessu.

Ef þú lest síðan "Trúarbrögð án fórna" þá skilur maður afhverju þessi forstjóri fer með viðhaldinu á ráðstefnur.  Hann nennir ekki að taka eiginkonuna með sem er sífellt að rífast við hann.

Svo ruglar Stephen saman sjálfstæði og frekju.  Segir að sjálfstæði sé ekki málið heldur samhjálp.  Ég segi að þú getur betur hjálpað öðrum ef þú ert þinn eigin herra.  Ímyndaðu þér bara hóp af sauðum á eyðieyju og ekkert pálmatré reyna að bjarga heiminum og þú skilur hvað ég á við. 

Björn Heiðdal, 17.4.2008 kl. 06:52

4 Smámynd: Einar Indriðason

Fínn pistill.  Svo mætti líka taka "dauðasyndirnar sjö", og skoða þær.  Sú sem kemur hvað sterkast upp í hugann hjá mér, er Græðgin!

Einar Indriðason, 17.4.2008 kl. 08:12

5 Smámynd: Kári Harðarson

Í "Seven habits" talar Covey um að ná stjórn á sjálfum sér fyrst, til að geta svp látið sambönd sín við annað fólk blómstra.

Ég skil hann þannig að maður eigi ekki að láta staðar numið þegar sjálfstæðinu er náð en byggja upp samfélag sjálfstæðra einstaklinga sem hjálpast að.

Ég held að hann sé fyrst og fremst á móti raðkvæni.  Stephen Covey er strangtrúaður maður og aðhyllist ekki afstæðishyggju.  Í hans hugarheimi eig gamlir bissnesskallar ekkert með að misnota ungar stúlkur þótt nútíminn reyni að segja "everything goes".

Kári Harðarson, 17.4.2008 kl. 09:39

6 Smámynd: Morten Lange

Fínn pistill og mjög þarft umræðuefni. Tek annars undir með Birni, en vil bæta við, til dæmis "trúabragðafræinu", þar sem trúabragð geti allveg eins verið lífsskoðun, sem innifelur líka trúleysi, húmanisma, já og hjá sumum kemur pólitisk sannfæring mjög nálægt því að vera lífsskoðun

 Trúarbrögð án grungilda, manngæsku eða sönnum  náungakærleika

Sem dæmi þá eru sumir svo sannfærðir um að þeir vita best, og að  þeirra hjápl sé um það bil það besta sem getur komið fyr noikkrun mann. Summir eru með besta guðin í lið með sér, aðrir kunna  á besta markaðskerfið eða tæknina. Þeir kunna að gleyma að reyna að setja sér í stað þess sem er verið að hjálpa, og gleyma að virða þeirra innnsæi og þekkingu. 

Morten Lange, 17.4.2008 kl. 12:19

7 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

"Hver sannindi eru sjálfvirk og innihalda eiginlegan styrkleika."

Mahatma.

Takk fyrir þetta Kári.

Svanur Gísli Þorkelsson, 17.4.2008 kl. 18:27

8 Smámynd: Sigurjón

Sæll Kári og takk fyrir góðan pistil.  Það er þörf á að hugleiða þetta allt endrum og eins.

Ég hins vegar hnaut aðeins við þessa ,,Trúarbrögð án fórna".  Ég er þeirrar skoðunar að fórnir hafi hreint ekkert með trú að gera.  Trúlausir eru alls ekki ólíklegri til að sýna af sér manngæzku, umburðarlyndi og iðrun þegar þeir hafa gert á e-s hlut.  M.ö.o. við þurfum ekki neina guði til að vera góð við hvert annað.  Ert þú því ósammála?

Skál! 

Sigurjón, 17.4.2008 kl. 18:47

9 Smámynd: Kári Harðarson

Sæll Sigurjón,  ég ákvað að þýða pistilinn athugasemdalaust.  Stephen Covey er kristinn maður og hans túlkun er góð.

Ég er sammála þér, það þarf ekki trúarbrögð til að vera góður.  Við getum verið sammála Covey ef við skilgreinum trú sem lífsgildi. 

Í mínum gildum felst að ég vil vera góður.  Hins vegar geri ég allt of lítið af því.  Ég skæli yfir væmnu sjónvarpsefni eða klappa sætum kisum í stað þess að standa upp úr sófanum og slá grasið hjá nágranna mínum sem er fatlaður, eða fara út í Melabúð fyrir gömlu konuna í næsta húsi.

Góðverk ættu að vera eins og hver önnur líkamsrækt.  Maður gæti sagt við "fórnarlamb" góðverksins: "taktu þetta ekki persónulega, ég er að sinna hlutverki mínu sem sannrar manneskju".

Kári Harðarson, 18.4.2008 kl. 09:03

10 Smámynd: Sigurjón

Góð nálgun hjá þér á góðmennsku!

Sigurjón, 18.4.2008 kl. 09:32

11 Smámynd: Óskar Þorkelsson

mjög góð færsla Kári.

Óskar Þorkelsson, 18.4.2008 kl. 10:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband