Íslenskur Celsius

Við gengum í sund áðan, konan mín og ég. Við vorum bæði í stuttbuxum og sammála um að það væri hlýtt. "Samt er bara fimmtán stiga hiti úti" sagði konan mín. "Það er vegna þess að íslenskar fimmtán gráður eru hlýrri en útlendar tuttugu gráður" sagði ég.

Þegar við bjuggum í Bandaríkjunum féll hitinn niður í tuttugu gráður í Október og það var merki um að haustið væri að koma. Þá fórum við í síðbuxur og sokka, og ekki langt í að við færum í peysu.

Í framhaldi af þessu datt mér í hug að íslendingar ættu að taka upp íslenskar Celsius gráður rétt eins og íslenska krónu. Þá getum við haldið hitastiginu á Íslandi stöðugu í tuttugu og fimm gráðum og hér verður virkilega eftirsóknarvert að búa. Ef veturinn er erfiður breytum við genginu á íslensku celsiusgráðunni sem því nemur.

Ég er sannfærður um að ef við værum komin með íslenskar gráður myndum við alls ekki vilja hætta að nota þær, því ef þær væru lagðar niður kæmi í ljós að á Íslandi væri frekar kalt.

Á sama hátt er rétt að vilja ekki Evru því hún myndi lækka laun og leiða í ljós að hér eru þau ekkert sérstök. Þá er betra að trúa því að við séum með há laun en hér sé allt svo dýrt.

standard-weather-thermometer.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

skemmtilega orðuð kaldhæðni kári :)

Óskar Þorkelsson, 1.8.2008 kl. 00:00

2 Smámynd: Einar Indriðason

Ehum... Hér þarf að passa sig aðeins... því víst er um það, að augu sumra "foringjanna" beinast ekki í Celsíus átt, heldur í Fahreinheit-átt, og það viljum við síður, við almennur lýðurinn.

Einar Indriðason, 1.8.2008 kl. 01:01

3 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

snilld Kári

Brjánn Guðjónsson, 1.8.2008 kl. 03:07

4 Smámynd: Villi Asgeirsson

Miðað við gengi krónunnar og þá líka gráðunnar, væri meðalhitastig á Íslandi komið vel yfir suðumark.

Villi Asgeirsson, 1.8.2008 kl. 08:42

5 identicon

Virkilega vel skrifað hjá þér, Kári. Þetta útskýrir af hverju ég hjólaði í bæinn í síðbuxum en klæddur Hawaiiskyrtu í dag - nógu hlýtt fyrir létta skyrtu en of kalt fyrir stuttbuxur (enda með suðrænt blóð í æðum og nafn á pappírum).

Feður Ástríks og Steinríks hittu naglann á hausinn þegar þeir sögðu Rómverjana vera klikk. Spurning hvor er klikk, Íslendingurinn eða allir hinir.

Evran, hinn mikli jafnari gerði nefnilega það sem nýkrónan gerði gömlu krónunni, þegar þessu var skellt á hagkerfið:

Allt dýrara nema laun manna.

Við vitum nú þegar að við erum með lág laun. En við trúum því ekki fyrr en við sitjum í súpunni að lengi getur vont versnað. Ég held að engin ástæða sé til að ætla að Evran færði okkur annað en hækkað verðlag á neysluvöru því að það er ekki krónan heldur einokun flutninga, fákeppni og regluveldi í kringum inn og útflutning sem heldur hagkerfinu okkar í heljargreipum.

Eins og á tímum verslunarstríða (enska öldin) og einokunar (17. - 18. öld)

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 2.8.2008 kl. 05:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband