Post mortem

Ég les að orðspor okkar hafi stórskaðast við bankahrunið. Ég held að skaðinn hafi verið skeður, við eigum þetta orðspor fyllilega skilið.  Ísland var orðið svo gegnsýrt af auðmagnshyggju að mér fannst merkilegast hvað lítið var haft orð á því.

Á meðan auðmennirnir tóku landið vorum við hin orðin þrælslunduð og andlega löt.  Margir rugluðu lánafyrirgreiðslum við góðæri.  Við afsöluðum okkur sjálfstæðinu.

Vonin um bata er að við lærum að skammast okkar og höldum ekki bara að heimurinn sé vondur við okkur.  Þegar ég heyri að Synfóníunni hafi verið vísað frá Japan og íslendingum úr búðum í Danmörku sárnar mér, en við eigum þetta fyllilega skilið.  Við þurfum ærlega tiltekt og gera upp við fortíðina.  Nú þurfum við einlæga iðrun, ekki þrælsótta.

Ég vil fá aðra en íslenska ráðamenn til að fara yfir hvað gerðist hér.

Hvers vegna gegndu fjölmiðlar ekki hlutverki sínu?  Af hverju voru helstu ráðamenn þjóðarinnar að þiggja flugferðir og aðra bitlinga frá þeim mönnum sem þeir áttu að hafa eftirlit með?

Af hverju var Alþingi íslendinga nánast hunzað í stjórnsýslunni? Af hverju fá ráðherrar að stjórna aðhaldslítið? Af hverju er hér verðtrygging lána en ekki launa? Af hverju var kvótinn gefinn auðmönnum?   Af hverju er hægt að einkavæða banka og gefa þeim svo óútfyllta ávísun á uppsafnaðan sparnað þjóðarinnar?  Hvers vegna voru aðvaranir erlendra nefnda og íslenskra hagfræðinga eins og Þorvaldar Gylfasonar að engu hafðar?

Erum við of lítil þjóð til að hafa sjálfstæði?  Er besta ástæðan til að ganga í Evrópubandalagið kannski sú að þá losnum við undan gömlu valdaklíkunum?

Ég er ekki viss um að Ólafur Ragnar og Davíð Oddsson eigi að vera hluti af framtíð Íslands, og ég vil ekki að þetta fólk fái sjálft að dæma í sínum málum.  Þeir sem stjórna umræðunni í fjölmiðlum munu fegra sinn málstað og ballið byrjar aftur.  Svo ég vitni í kollega minn, Úlfar Erlingsson:

 

  • Hvaða fjárhagslega ávinning hefur forsetinn fengið persónulega frá íslenskum auðmönnum, beint og óbeint?  Þar með talið stuðning í kosningabaráttu, ókeypis flugferðir, gistingu, o.s.frv.?
  •  Sama spurning hvað varðar hans nánustu fjölskyldu.  Hvaða hæfileikar aðrir en blóðtengsl réðu því að dætur hans og tengdafólk hefur sitið í stjórnum og yfirmannsstöðum hjá Baugi og öðrum auðmannafyrirtækjum?
  •  Afhverju var aftur svona nauðsynlegt að stöðva lög um eignaraðild auðmanna að fjölmiðlum landsins—af hverju var það verra afsal á valdi en t.d. lög um EES ?
  •  Má ekki fá að kaupa eitt eintak af óútgefinni bókinni um forsetann í óbreyttri útgáfu, þ.a. hægt sé að sjá hvað þar stóð?

Ef við fáum ekki svör við því hvers vegna lýðræðið virkar svona illa á Íslandi þá nenni ég ekki að taka til höndunum við uppbygginguna.

Nú er básunað yfir unga fólkið að við verðum öll að standa saman og byggja upp. Þeir sem segja það eru búnir að gera þetta sama unga fólk stórskuldugt með okurlánum og uppsprengdu húsnæðisverði.  Þeir stálu frá fortíðinni og framtíðinni.  Þeir eru búnir að eyðileggja möguleika útflutningsfyrirtækja á að byggja sig upp því hér fóru allir að vinna í banka í gullæðinu.

Eigum við núna að fara að standa saman? Ekki sá ég að nýríka fólkið borgaði kennurum og hjúkrunarfólki mannsæmandi laun. Hvar var samstaðan þá?

 forest_fire_hr.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þrælsóttinn við valdamenn hjaðnar um stundarsakir.  Þegar skógareldar hafa geisað falla gömul tré en lággróðurinn fær að njóta sín.

Reynum að nota tímann sem gefst til að laga til. Í næsta góðæri verður Reykjavík vonandi mannvæn og falleg og venjulegt fólk fær kaupmátt og tíma með börnunum sínum, ekki okurlánafyrirgreiðslur . Annars er það ekki góðæri heldur byrjun á öðru fylleríi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Villi Asgeirsson

Frábær færsla. Hiitir beint í mark. Vonandi verður þetta til þess að við verðum betri þjóð. Fylgstu endilega með blogginu mínu. Ég vonast til að geta komið með eitthvað skemmtilegt í dag eða á morgun sem þú mátt alveg taka þátt í.

Villi Asgeirsson, 16.10.2008 kl. 08:44

2 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

góð færsla. amen

Brjánn Guðjónsson, 16.10.2008 kl. 11:03

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

góð færsla .. mjög svo.

Óskar Þorkelsson, 16.10.2008 kl. 11:37

4 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Þetta er vel mælt og hittir beint í mark. Góð samlíking, þetta með skógarbruna.

Úrsúla Jünemann, 16.10.2008 kl. 12:39

5 Smámynd: Haukurinn

Vel mælt.

Ég hef sjálfur einmitt verið að velta þessu sama fyrir mér síðustu misseri. Það er, hvernig hægt sé að básúna samstöðu þegar allt er komið í þrot eða hvernig við eigum nú öll að vinna saman til að rétta hlut okkar allra - þegar flest okkar misstu alfarið af öllum þessum uppgangi og ríkidæmi.

Sem sagt hreinn og beinn kapítalismi þegar allt rýkur upp en afturhald til jafnaðarmennsku þegar allt heila klabbið sekkur til móts við botninn. Fyrir: 'Sumir á, sumir á, sumir á Rolls Royce - aðrir á, aðrir á, aðrir á stígvélum'. Eftir: 'Sameinaðir stöndum vér - sundraðir föllum vér'.

Ég verð að viðurkenna að þetta skilur eftir biturt eftirbragð, en veldur samt þeirri vænlegu þróun að við sem Íslendingar verðum að taka afstöðu til hverskonar samfélag það er sem við kjósum.

Svo maður sé svolítið skáldlegur - og steli frá engilsaxnesku vinum okkar - þá er alltaf dimmast rétt fyrir dögun. Við munum standast þessa þolraun - og vonandi verða sterkari eftir á.

Haukurinn, 16.10.2008 kl. 12:59

6 identicon

Svo lengi sem engin breyting verður a stjórnarskrá og (tri)hrossin framkvæmdar-löggjafar- og dómsvald, fær að leika lausum hala, verður engin varanleg breyting a þessu.

The outlaw (IP-tala skráð) 16.10.2008 kl. 17:17

7 identicon

Þessi samlíking með skógareld er mjög góð. Því hættan er eftir svona skógareld sem nú geisar er hvernig veðrið verður eftir eldin? verður beitt á græðlingin svo við uppskerum landeyðingu. Eða sem ég óska nú, a'ð landið fái logn og stöðugleika til þess að jafna sig, lesist esb og evra.

Hvað svo er stærsta spurninginn núna.

Magnús Bjarnason (IP-tala skráð) 16.10.2008 kl. 17:53

8 identicon

Góður og glöggskyggn, að vanda.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 16.10.2008 kl. 17:59

9 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Frábær pistill. Eins og talað út úr mínu hjarta.

Það er ferlegt að æðsti embættismaður okkar sem á að vera sameiningartákn þjóðarinnar skuli vera svona innvíklaður í þetta. Maður saknar Viggu sárt þessa dagana.

Greta Björg Úlfsdóttir, 16.10.2008 kl. 22:08

10 Smámynd: Bjarni G. P. Hjarðar

Og hvað gerir þú í því?

Bjarni G. P. Hjarðar, 16.10.2008 kl. 23:27

11 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Bjarni, ég vona alla vega að fyrir næstu kosningar verði sá flokkur sem mig fýsir mest að kjósa búinn að fá betur á hreint það sem fældi mig frá því að kjósa hann, það er að segja ESB.

Það sem ég vildi þó helst af öllu sjá væri nýtt afl vel menntaðs ungs fólks með nýjar og ferskar hugmyndir um það hvernig eigi að stjórna þessu þjóðfélagi. Því miður er þó allt útlit fyrir að það verði svo önnum kafið að vinna til að hafa í sig og á næstu árin að það megi ekkert vera að því að sinna slíku.

Varðandi forsetann þá er einsýnt að það verður að fara að leita að hæfu fólki sem vill bjóða sig fram í embættið. ÓRG situr ekki áfram, svo mikið er víst. Í rauninni finnst mér að hann ætti að láta af embætti fljótlega, en það er sjálfsagt borin von að svo verði. Slíkt er ekki vaninn í þessu þjóðfélagi okkar.

Greta Björg Úlfsdóttir, 17.10.2008 kl. 05:10

12 Smámynd: Stefán Jónsson

Vel mælt Kári. Ég get einmitt ekki séð að við eigum á nokkurn hátt skilið að fá samúð og/eða hjálp frá öðrum þjóðum. Það er í raun aðdáunarvert hvað Norðmenn hugsa hlýlega til okkar, án þess að við eigum það skilið. Ég veit að þeim sárnaði mjög ruddaleg framkoma okkar í Smugunni um árið.

Við ein komum okkur í þessi vandræði og það er okkar að vinna okkur út úr þeim. Og því minni hjálp sem við fáum frá öðrum, því betra. Feitur þjónn er nefnilega ekki mikill maður, barður þræll er mikill maður.

Stefán Jónsson, 17.10.2008 kl. 23:23

13 identicon

Sæll Kári

Spurningarnar til Ólafs eru kannski réttlætanlegar, en ég tel þó að menn séu að leita langt yfir skammt með því að leita að sökudólgi þar - en hann endurspeglaði klárlega tíðarandann sem er honum til skammar.

Davíð Oddson var forsætisráðherra þegar bankarnir voru einkavæddir, Geir Haarde var fjármálaráðherra á sama tíma. Fjármálaeftirlitið svaf algerlega á verðinum sem og opinberar stofnanir, á meðan bankamenn seldu 100% öruggar vörur sem voru ekki samkvæmt innihaldslýsingu. Davíð, sem bankastjóri seðlabankans, var í oddastöðu til að takmarka vöxt bankanna til dæmis með bindiskildu, en í staðinn var hún snarlækkuð að ósk bankanna.

Það versta við þetta tímabil er að lánsfé varð jafnverðmætt og lausafé, sem kom keðjuverkun verðhækkana af stað, og eftir sitja margir með bíl, sófa, sjónvarp, þvottavél á raðgreiðslum og 110% erlend lán fyrir allt of stóru húsnæði...

Það fyndna er að nú eru önnur fyrirtæki komin í Meistaradeildina, Össur, Marel, Actavís, Fiskútflutningsfyrirtæki... Þessi fyrirtæki hurfu í 30 milljarða ársfjórðungsuppgjörum banka og fjármálafyrirtækja. Allt efnahagskerfið var sniðið að þörfum fjárstreymisisn. Nú eiga alvöru fyrirtækin að fá viðlíka fyrirgreiðslu og fjármálafyrirtækin fengu! Í ljós kom að þær miklu skatttekjur sem bankarnir greiddu á þessum tíma eru allar horfnar í súginn sem stórfelldar skuldbindingar ríkissins vegna starfsemi bankanna.

Er ekki líka kominn tími á að Álfyrirtækin fari að skila raunverulegum tekjum í landið, skatttekjur upp á 1-2 milljarða á ári frá Alcoa er smánarleg upphæð. Og öll vitum við að kárahnjúkavirkjun er varla rekin á núllinu. Hækkum raforkuverð og látum þessi fyrirtæki borga fullan skatt rétt eins og önnur fyrirtæki í landinu.  

kv. Ármann

Ármann (IP-tala skráð) 18.10.2008 kl. 10:10

14 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Bæði Davíð og Ólafur eiga að víkja.

Davíð á klárlega að segja af sér.

Ólafi væri sæmst að gera það, en ætli hann fái ekki að lafa áfram fram að næstu kosningum. Þá verðum við að fá ópólitískan forseta.

Við höfum áður haft pólitískan forseta, en Ásgeir frændi minn held ég að hafi alltaf gætt fyllsta hlutleysis þegar kom að stjórnmálum.

Greta Björg Úlfsdóttir, 18.10.2008 kl. 14:06

15 Smámynd: Guðmundur Gunnarsson

Það á að fara ofaní saumana á þessu makalausa fjármálaferli öllusaman, en hver á að gera það? Ég býst við að flestir séu sammála um að pólitíkusarnir séu ekki réttu mennirnir og hvað þá menn sem þeir tilnefna. Er ekki kominn tími til að þjóðin láti sjálf til sín taka, annað hvort með fundahöldum, undirskriftalistum nú eða á blogginu og tilnefni sjálf þá menn sem hú treystir til að gera þessi mál upp .

Guðmundur Gunnarsson, 21.10.2008 kl. 16:27

16 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Þetta er mjög erfitt í svona litlu þjóðfélagi þar sem allir þekkja alla og allir eru skyldir öllum eða eru skólasystkin eða Guð má vita hvað. Ætli það væri ekki réttast að hafa ættfræðinga með í hópnum?

Margir eru nú að reyna að skapa umræður hér á moggablogginu, maður veit ekki hvaða áhrif slík skrif og umræður hafa...það getur svo sem verið að það hafi eitthvað að segja, að minnsta kosti held ég að sumir þingmenn lesi blogg...svo myndast kannski þrýstihópar upp úr þessu. Kannski á fólk eftir að skipleggja sig betur og þjappa sér saman. Ég held að það væri betra að hópar sameinuðust og einbeittu sér að vissum málefnum, svo sem mómælunum gegn stjórn Seðlabankans, í stað þess að hafa þetta almennt og hrópa út og suður, það kemur aldrei neitt út úr því held ég. (En alla vega er það þó betur en að hver sitji í sínum eldhúskrók og tuði, það er glatað). Og ég held að þessi skrif okkar séu til þess fallin að vekja fólk til meðvitundar um að standa saman, ræða málin og spyrja spurninga, gera kröfur um að fá svör við því sem úrskeiðis fór.

Þó álít ég að nú þessa dagana verði fólk að gefa ríkisstjórninni svigrúm til að leysa þetta mál sem er allra brýnast, að tryggja það að peningamarkaðurinn fari aftur í gang. Annars hrynur hér allt eins og spilaborg. Bjarga því sem bjargað verður.

Annars erum við alls ekki svo illa stödd hér. Þó bankakerfið sé hrunið þá er það álit manna að staða atvinnuveganna sé býsna sterk, þrátt fyrir allt þó einstök fyrirtæki muni rúlla, svo fremi sem hægt verður að tryggja það að hjólin snúist eðlilega/fari að snúast. En auðvitað er ansi margt sem þarf að skoða upp á nýtt, það blasir við. Að sumu leyti finnst mér spennandi tímar framundan, það er að segja að fylgjast með hvernig að uppbyggingunni verði staðið. Eins og fuglinn Fönix sem rís úr öskunni).

Hins vegar líst mér ekki á að DO sé leyft að ráða áfram í S.Í. samanber síðustu fréttir um að krafist sé endurveðsetninga (held ég það heiti) strax á morgun. Og eins að hann geti skammtað fyrirtækum gjaldeyri eftir geðþótta.

Greta Björg Úlfsdóttir, 21.10.2008 kl. 16:50

17 Smámynd: Sylvía

góður pistill...ég hef misst allt álit á íslendingum og hef ekkert þjóðarstolt. Þannig er það.

Sylvía , 28.10.2008 kl. 11:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband