21.10.2008 | 13:21
Hitaveitan og fleiri vitlausar hugmyndir
Ég var að tala við mér eldri manneskjur sem sögðu mér í óspurðum fréttum að hitaveitan á Íslandi hefði ekki verið almennilega kláruð fyrr en í olíukreppunni 1973.
Ég hafði í einfeldni minni gefið mér að strax og fyrsti hitaveituofninn í Reykjavík hitnaði upp úr 1930 hefðu menn strax séð ljósið og drifið í að leggja veituna um allt.
Af þessu megum við læra í dag, að við eigum ekki að bíða eftir að olían verði allt of dýr og óaðgengileg til að venja okkur af því að ofnota hana. Getum við ekki notað þessa kreppu til að gera ráðstafanir sem minnka þörf okkar fyrir hana? Getum við ekki unnið vinnu sem þarf að vinna og sem kostar ekki mikið erlent fjármagn? Við getum lagt hjólastíga, kannski byggt hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla. Hraðbrautirnar í Bandaríkjunum og Þýzkalandi voru byggðar upp á krepputímum. Getum við ekki notað tímann núna í svipuð verkefni?
Ef við lítum á kreppuna núna sem tækifæri, þá getum við kannski minnst hennar með hlýhug seinna og talað um hana sem tíma þegar Ísland varð betri staður til að búa á.
Nú er líka góður tími til að minnka þörf okkar fyrir erlent fjármagn og byggja upp þekkingu á Íslandi með því að innleiða opinn hugbúnað hjá opinberum stofnunum. OpenOffice og Linux kosta hvorki evrur né dollara. Útseld vinna við uppsetningar og þjónustu á hugbúnaðinum er í höndum íslendinga. Ég held að ríkið geri margt vitlausara til að spara erlendan gjaldeyri.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.10.2008 kl. 10:34 | Facebook
Athugasemdir
Kári, svakalega ertu ungur! Svona öllu gríni sleppt, þá var olíukynding á Seltjarnarnesi allt fram til 1974 eða svo. (Ég man ekki ártalið.) Þar nú er aðaldælustöð Seltirninga stóð áður einbýlishús úr timbri, sem eyðilagðist í ketilsprengingu í kringum 1970, en hún varð einum að bana. Í Reykjavík var fólk sem neitaði að taka inn hitaveitu og var ennþá með olíukyndingu og í nágrannabyggðlalögum var olíukynding reglan. Á landsbyggðinni var almennt olíukynding.
Það var haft eftir Al Capone, þegar áfengisbannið var sett á í Bandaríkjunum, að þá fyrst hefðu tækifærin skapast. Er það ekki bara málið, að þegar einar dyr lokast, þá opnast aðrar. Ég leyfi mér að hugsa, þegar eitthvað tækifæri hefur gengið mér úr greipum, að það bíði mín þá bara eitthvað betra. (Ég er að vísu ekki búinn að fylla upp í risagatið, sem fall Landsbankans myndaði í fjárhagsáætlun mína, en er sannfærður um að það gerist fljótlega. Ef einhvern vantar ráðgjafa/sérfræðing í stjórnun upplýsingaöryggis, áhættu eða rekstrarsamfelllu, þá er netfangið oryggi@internet.is )
Marinó G. Njálsson, 21.10.2008 kl. 16:59
Það átti að standa:
..Þar sem nú er aðaldælustöð..
Marinó G. Njálsson, 21.10.2008 kl. 17:01
Tek undir þetta Burt með Microsoft
Inn Með Linux
Kveðja
Æsir (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 20:23
Mjög góð hugmynd hjá þér Kári nú er lag og tækifæri til að breyta fleiru en bara peningamálunum
Gylfi Björgvinsson, 22.10.2008 kl. 10:44
Einmitt.
Guðrún Markúsdóttir, 24.10.2008 kl. 21:19
Ég er alveg á því að við eigum að búa okkur undir alheimskreppu. Hlustaði á Jóhannes Björn í Silfri Egils, hann segir að mikil hætta sé á að svo fari verði ekki gripið til réttra aðgerða.
Ef til slíkst kemur þá er gott fyrir okkur að huga að því að verða sem mest sjálfbær bæði um orku og matvæli, örugglega fleira í þeim pakka sem ég hirði ekki um að telja upp.
Ég man eftir því þegar ég átti heima við Langholtsveginn 1965 að þá kom olíubíll með olíu á kyndinguna. Það þurfti að hringja og panta og svo kom bíllinn og dældi.
Greta Björg Úlfsdóttir, 26.10.2008 kl. 21:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.