8.12.2008 | 10:56
Sushi uppí tré
Köttur húkir á grein í tré fyrir utan gluggann okkar á þriðju hæð hér í Frakklandi og mjálmar án afláts.
Í garðinum búa þrír kettir, tveir sem eru í lagi og svo þessi. Hinir nota tréð til að komast upp á þak á annari hæð á húsinu á móti en þessi þriðji köttur, sem heitir Sushi, er ekki eins vel gefinn og þeir vilja ekkert með hann hafa. Hann hljóp upp trjábolinn á föstudagsmorgninum en gleymdi að taka hægri beygjuna upp á þak, hljóp áfram upp og situr nú hærra en nokkur nær.
Kötturinn er í laufkrónunni fyrir ofan...
Hann er búinn að vera þar í þrjá daga þegar þetta er skrifað. Slökkviliðið kemst ekki inn í portið með stigabíl og kettir eru ekki hátt á forgangslista hjá þeim. Ég veit ekki hvort ég þyrði þrjár hæðir upp stiga sem hallar að grönnu tré þótt ég vissi hvar ég ætti að fá hann lánaðan.
Kjartan sonur minn vill sprauta köttinn niður með vatni og grípa í lak. Ég held að það væri besta aðferðin. Hann benti líka á að þetta myndi enda einhvern veginn, við höfum aldrei séð kattabeinagrind uppi í tré. Maður væri farinn að taka eftir þeim ekki satt?
Konan mín segir að þetta sé Darwinslögmálið í framkvæmd og að þessi köttur sé móðgun við aðra ketti, eins og til dæmis köttinn okkar sem heitir Kismundur og myndi aldrei gera svona lagað.
Þegar ég sagði kollega mínum að kötturinn okkar héti Kismund spurði hann hvort hann væri skírður í höfuðið á trommuleikaranum í "The Who"? Það tók mig nokkra stund að skilja að nafnið á Keith Moon er borið fram eins og Kismund á frönsku. Prófið að bera nafnið fram með frönskum hreim nokkrum sinnum...
Kismundur
Mér datt í hug að ef Sushi lifir þetta af ætti hann að fá nýtt nafn, "General Motors" eftir fyrirtækinu sem er búið að koma sér í ógöngur og vill nú að bandaríska þjóðin bjargi sér. Mér fannst ekki fráleitt að þjóðin legði í púkkið þangað til ég hugleiddi hvenær mig hefði síðast langað í amerískan bíl. Svarið er "Aldrei". Hvernig þeir geta framleitt þessa kagga með hernaðarnöfnum eins og "Charger", "Fury", "Spitfire", "Stealth" og "Viper" ár eftir ár án þess að mig langi í einn einasta er mér hulið. Mikið vona ég að þessi fyrirtæki fái að deyja svo nýjar hugmyndir komist á teikniborðið.
Athugasemdir
æ greyið litla, ég átti einu sinni tiltullega ekki vel gefinn kött sem elti fugla uppí tré (lengst uppá topp) og hékk þar svo meðan fuglarnir flugu hringinn í kringum hann og gogguðu í hann, en hann hafði rænu á að koma sér niður aftur og hlaupa dauðhræddur inní hús þarsem beið hans kóngameðferð. Vonandi fær Sushi góðar móttökur þegar hann kemst aftur niður úr trénu!
og Kismundur rokkar
p.s þetta er nú dáldið hneyksli samt að slökkviliðið sinni ekki frumskyldunni, þ.e.a.s að ná litlum kisum niður úr trjám...
halkatla, 8.12.2008 kl. 11:04
hann kemur niður á 4 degi.. það er sá tími sem kettir geta lifað án vatns...
Óskar Þorkelsson, 8.12.2008 kl. 13:05
Ræfillinn. Þrír dagar uppi í tré er nú langur tími, meira að segja fyrir heimskan kött. Er ekki hægt að leggja spýtu frá hæðinni út á greinina sem hann gæti klöngrast á upp að húsinu, þ.e.a.s. ef hann hefur vit á því
, 8.12.2008 kl. 17:40
Við vorum úti í klukkustund áðan að mana köttinn niður með dýnum undir trénu og mat, ekkert gekk. Hann kemur niður á endanum...
Kári Harðarson, 8.12.2008 kl. 20:54
Kettinum var bjargað af slökkviliðinu fyrir kortéri. Slökkviliðsmaður fór upp með 10 metra stiga og stakk kettinum í poka, skilst mér, ég fæ að sjá myndir af þessu í dagslok. Kötturinn hljóp beint inn í eldhús og var snöggur að enda verið orðinn þyrstur og svangur.
Sólarhringarnir urðu nákvæmlega þrír hjá honum.
Kári Harðarson, 9.12.2008 kl. 08:48
pfiff.. hann hefði komið niður í dag... 4 dagar er það sem kettir þola
Óskar Þorkelsson, 9.12.2008 kl. 11:36
Kveðja til Kismundar,hann er laglegur og góður köttur.Mér finnst reyndar að hann eigi að heita Kristmundur,já eða bara Guðbrandur.
Magga (IP-tala skráð) 19.12.2008 kl. 00:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.