22.1.2009 | 09:31
Hvers vegna ég hætti að mótmæla í gær
Bankar eru ekki venjuleg fyrirtæki. Ef þeir verða peningalausir þurfa seðlabankar og á endanum ríkisstjórnir að hlaupa undir bagga.
Ég vissi þetta og ég hélt að Davíð Oddssson og fjármálaeftirlitið vissu þetta líka. Þótt ég hefði haft ýmigust á spillingu og bruðli fyrir hrunið hélt ég að bankarnir væru tryggðir innbyrðis, með erlendum tryggingum eða öðru.
Það að þjóðin skyldi vera ábyrg fyrir óráðssíu bankanna lít ég á sem handvömm Davíðs og fjármálaeftirlitsins. Þess vegna verður Davíð að segja af sér sem og aðrir formenn Seðlabanka og fjármálaeftirlits. Þetta tel ég vera augljóst.
Ríkisstjórnin hefur ekki neytt þá til að fara og því verður hún sjálf að fara. Ég get ekki skilið hvers vegna ríkisstjórnin hefur ekki tekið til hendinni, ég óttast mest að hún vilji ekki sjá hvað kemur undan teppinu því hún eigi sitthvað í því sjálf.
Ég er líka hættur að treysta Geir Haarde, ég held að hann sé kominn í einhverja sjálfheldu en að stolt hans komi í veg fyrir að hann viðurkenni vanmátt sinn. Í Kastljósi í gær sýndist mér Steingrímur vorkenna Geir sem virtist vera í einhvers konar leiðslu. Þetta var sárt að sjá.
Það var út af þessu sem ég mætti loksins í mótmælin í gær og stóð á Austurvelli milli 16-19. Ég vil að þessu stjórnleysi fari að ljúka.
Hitt get ég alls ekki sætt mig við, og það er að lögreglumenn verði fyrir meiðslum. Þegar ég sá að skríll hafði blandað sér saman við mótmælendur og kastaði grjóti að lögreglu gat ég ekki látið sjá mig þarna lengur.
Ef einhverjir í mótmælendahópnum telja sig hafa myndugleika til þess, mega þeir reyna að hafa stjórn á þessum minnihlutahópi sem veit sennilega ekki um hvað mótmælin snúast en er kominn á staðinn til að skemmta sér yfir skálmöldinni sem aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar hefur skapað.
Þangað til mun ég mótmæla setu ríkisstjórnarinnar með öðrum leiðum því hver dagur sem rennur upp með sama fólki í fjármálaeftirliti og seðlabanka er mér andstyggilegur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:41 | Facebook
Athugasemdir
Friðsamir mótmælendur mega ekki láta ofbeldisfull snýkjudýr eyðileggja mótmælin og málstaðinn. Ef þú hættir að mæta á mótmælin ertu að setja mótmælin í hendurnar á skríl og vitleysingum. Nú er enn meiri ástæða fyrir friðsama mótmælendur að fjölmenna á mótmælin og láta þessa fáu vitleysinga hverfa í fjöldann.
Ekki gefast upp.
Svartagall, 22.1.2009 kl. 09:48
Ég er sammála þér.
Fyrst hvað varðar skrílinn. Það er þarna ungmenna hópur sem vill atgang við lögreglu. Þar er innibyggð reiði sem ekki finnur sér annan farveg. Það sem mér þykir miður hjá þér er að þú ætlir að láta þennan tiltölulega smáa hóp koma í veg fyrir að þú mætir og mótmælir. Við erum mörg sem mætum þarna daglega og mótmælum á friðsaman hátt, lögreglan áttar sig á því, stendur álengdar og lætur ekki ögra sér á meðan skynsamt fólk er á staðnum; sama má segja um skemmdarvarga, á meðan jón íslendingur er á staðnum er allt með tiltölulegum friði og spekt. Fyrst eftir að hinn almenni, friðsami borgari er farinn skapast ófremdarástand - vera þín og annarra álíka er því til að dempa ástandið og koma í veg fyrir ofbeldi.
Þá að aðalinntaki skrifa þinna. Allt ástandið er á ábyrgð hins endanlega valds sem við veitum umboð á fjögurra ára fresti - Alþingi. Seðlabanki, Fjármálaeftirlit og allar stofnanir og nefndir ríkisins eru starfandi í umboði Alþingis. Ef að þú ert ósáttur við Davíð Oddson í stjórn Seðlabankann er við Alþingi, þ.e. meirihluta þann er styður ríkisstjórnina að sakast.
Lifðu heill og lifi byltingin.
Þór Ludwig Stiefel TORA, 22.1.2009 kl. 09:51
Stundum er ekki nóg að mótmæla heldur þarf að framkvæma. Mitt innlegg er ekki grjót heldur framboð til formanns.
P.S. Gott að þú ert ekki horfinn af blogginu.
JBJ (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 10:15
Nei, ekki hætta að mótmæla. Látum ekki ofbeldisseggi ræna mótmælunum og bjarga þannig stjórninni. Stjórnin vill einmitt að mótmælin snúist upp í ofbeldi svo venjulegt grandvart fólk eins og við hætti að mótmæla og það fái sinn "vinnufrið".
Stjórnvöld geta hunsað og stjórnað ofbeldisseggjum, en hún er lafhrædd þegar millistéttin kemur á göturnar. Ekki gefast upp. Mótmælum áfram friðsamlega.
Valtýr (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 10:20
Ef friðsamir mótmælendur láta sig hverfa, þá sigrar ofbeldi ríkisstjórnarinnar.
María Kristjánsdóttir, 22.1.2009 kl. 12:07
Höldum áfram að mótmæla og stoppum óeirðarseggina af. Og höldum í vonina, það er stutt eftir.
Úrsúla Jünemann, 22.1.2009 kl. 12:17
Tek undir með þeim sem hér hafa tjáð sig. Það er ótækt að hætta að mótmæla vegna fárra. Löggan er heldur ekki stikkfrí frá valdníðslu og óþarfa valdbeitingu - sé t.d. ekki að það hafi verið neitt tilefni til táragass í gær nema ef helst væri fámenni lögreglunnar og það er ekki gild ástæða. En við látum það ekki stoppa okkur heldur. Höldum bara okkar striki með ofbeldislaus mótmæli.
Katrín Anna Guðmundsdóttir, 22.1.2009 kl. 13:33
Þetta er rétt hjá ykkur. Ég á að fara aftur niður í bæ. Mér er meinilla við að ganga milli lögreglunnar og skríls, en það er sennilega það sem þarf að gera.
Kári Harðarson, 22.1.2009 kl. 14:28
Heljarmenni eins og þér ætti ekki að verða skotaskuld út því að bregða hlífiskildi fyrir "our finest", Kári!
Flosi Kristjánsson, 22.1.2009 kl. 15:12
Kári minn, gott ad sjá ad thú ert búinn ad rétta úr kútnum og kominn á bloggstjá aftur. lestu thetta blogg og fardu svo aftur nidur á Austurvöll á morgun - ég kemst ekki, viltu ekki fara fyrir mig alla vega?
http://baldvinj.blog.is/blog/baldvinj/entry/780621/
Regina Hardardottir (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 11:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.