11.5.2009 | 11:07
Spennandi tímar
Þó nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til að búa til sérstakar tölvur til að lesa bækur. Bóksalinn Amazon virðist loksins hafa gert það svo vel sé, með tölvunni "Kindle". Hún er með skjá sem er mjög læsilegur í dagsbirtu og rafhlöðurnar endast í viku.
Nú er önnur kynslóð þessarar tölvu að koma á markað, Kindle DX.
Skjárinn er í A4 stærð og mjög læsilegur, enda notar hann blek en ekki kristalla eða ljósadíóður. Tölvan er mjög þunn:
Það sem mér finnst fréttnæmast sem kennara, er að Princeton háskóli er farinn í samstarf við Amazon um að gefa skólabækur út fyrir lesarann. Aðrar háskólaútgáfur fylgja væntanlega í kjölfarið.
Lesarinn fæst ennþá bara í Bandaríkjunum en kemur vonandi einhvern tímann út á skerið. Kennslubækur á Íslandi hafa verið dýrar, þær geta vonandi lækkað hressilega þegar hægt verður að niðurhala þær yfir netið. Þær eru líka níðþungar og geta valdið nemendum hryggskekkju þegar þeir troða fleiri en tveim í bakpokann, annað vandamál sem leysist væntanlega einnig.
Nýji lesarinn getur birt PDF skjöl svo kennarar geta dreift lesefni til nemenda án þess að ljósrita. Ég sé fyrir mér að geta loksins hætt að nota pappír.
Venjulegur reyfari kostar 9.99$ fyrir lesarann í bandaríkjunum þegar þetta er skrifað. Það er athyglisvert að hann er ekki tengdur við Internetið heldur notar hann GSM kerfið til að ná í bækur, og tekur hvert niðurhal um eina mínútu. Það er því ekkert til fyrirstöðu að kaupa bók þótt maður sé utan netsambands.
PS: Þessir skjáir eru á leið í fleiri tæki. Hér er nýtt úr sem notar svona skjá sem bakgrunn og breytir útliti úrsins eftir smekk eigandans þann daginn (bæði úrin eru sömu tegundar en mismunandi stillt):
Flokkur: Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 11:30 | Facebook
Athugasemdir
"Það sem mér finnst fréttnæmast sem kennara, er að Princeton háskóli er farinn í samstarf við Amazon um að gefa skólabækur út fyrir lesarann."
- En ekki hvað? Núna geng ég með ca. 1 tonn af geisladiskum í nokkura gramma, 80 GB ipod. Af hverju var þetta ekki LÖNGU komið fyrir bækur?
Óskar P. Einarsson (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 11:39
Vil vekja athygli Óskars og Kára, bloggvinar míns, á því að án e-ink tækninnar hefði ekki verið hægt að nota Kindle. Hún gerir það að verkum að hægt er að lesa á skjáinn í dagsbirtu, þetta litla atriði hamlaði lengst af þróun lestækja. Enn er e-ink enn framleitt í of litlu magni til að drífa verð á þessum tækjum niður. Ástæðan fyrir því að lestæki hafa ekki náð útbreiðslu er einkum sú að fyrir er mjög góð og fremur ódýr tækni við að dreifa upplýsingum sem heitir prentlist og felst í að letureiningum er raðað niður á prentplötur og síðan þrykkt með bleki á pappír. Önnur útbreidd leið til að gera fólki kleift að lesa texta eru tölvur sem til eru á hverju heimili. Fyrri gerð Kindle var ekki með Adobe möguleikum sem stórskerti notkunarmöguleika hennar, enda nota flestir Adobe-hugbúnaðinn við að læsa og lesa skjöl. Helsti keppinautur Kindle, Sony Reader, notar annað format en Kindle og til eru lesarar með enn öðrum formötum, þannig að það er enn langt í land með að einhvers konar niðurstaða náist í þróun lestækja. Og Kári, Kindle fæst ekki í búðum, aðeins á Amazon, þannig að þú pantar hann bara þar ef þig langar í hann. Ekki samt fara að hlaða inn höfundarrétarvörðu efni nema innan ramma gildar samaninga!
Kristján B. Jónasson, 11.5.2009 kl. 15:17
Kári. Hef kynnt mér þessi mál ágætlega og hef verið að bögglast með nafnið á þessari græju. Lesari eða lestæki er eitthvað skrýtið. Þessar græjur eru ekki almennilega tölvur (ekki í samanburði við hefðbundnar tölvur a.m.k.) og getur skapað rugling. Hvernig lýst þér á að nota skjábók eða lesbók um græjuna og rafbók um það sem maður hleður niður á hana?
Og Kristján. Mér finnst þú full neikvæður?? Amazon setti Kindle á markað með sérstöku stýrikerfi og gefur bækurnar sínar út á sérstöku sniði en fyrir þá sem lesa mikið er þetta snilld. Ég væri alveg til í að eiga t.d. Plastic Logic skjábókina og hlaða niður á hana öllum skólabókunum mínum, opna hana á hverjum morgni og fá nýjasta Moggann, Fréttablaðið, NY Times og Herald Tribune svo eitthvað sé nefnt. Ég tala nú ekki um að kippa henni með í ferðalög stútfullri af indælu lesefni... Framtíðin færir mér svo Gestgjafann mánaðarlega sem og Veiðimanninn o.s.frv. Ég veit reyndar að ég fæ ekki litaskjá alveg strax en fái ég skólabækurnar og dagblöðin þá er ég til...
Helga Sigrún Harðardóttir, 12.5.2009 kl. 00:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.