2.6.2009 | 00:15
Aðallinn myrti Gústaf kóng
Fyrirsögnin kemur fyrir í lagi eftir Megas sem minnir okkur á hlutskipti Gústafs III Svíakonungs en hann var stunginn í bakið af manni sem var handarhöggvinn og hengdur um sama leyti og sárin drógu konunginn til dauða árið 1792. Morðinginn vildi halda því fram að kóngafjölskyldan sænska væri orðin rangeyg af úrkynjun. Svíar voru ekki meira ósammála morðingjanum en svo, að eftir aftökuna fluttu þeir inn nýjan kóng frá Frakklandi. Þaðan komu Bernadotte kóngarnir sem eru ennþá við lýði þar ídag. Svíar urðu ekki nýlenda frakka fyrir vikið.
Mér datt þetta í hug í tilefni af ESB umræðunni. Fjórflokkakerfið er okkar Kong Gustav. Sonur Davíðs og besti vinur voru settir í Hæstarétt, og sjálfur valdi hann sér embætti seðlabankastjóra -- sem hann gat ekki valdið. Fjórflokkakerfið leyfði þessi vinnubrögð.
Það voru vaxtahækkanir Davíðs sem drógu erlent lánsfjármagn til landsins og gerðu bönkum kleift að dansa hrunadansinn sem sökkti þjóðarskútunni. Bankamenn léku ruddalegan leik en samkvæmt reglunum og það var Davíð sem skrifaði þær. Ég get ekki samþykkt að Davíð hafi varað við eða verið valdalaus.
Davíð er enginn Neró - og Neró var víst ekki svo slæmur heldur . Hann var öflugur í slökkvistarfinu í Róm, en fékk harða útreið í sögubókunum og var sagður hafa spilað á fiðlu meðan Róm brann bara af því hann var tónelskur. Svona getur sagan verið grimm þegar andstæðingarnir fá að skrifa hana.
Ég segi Davíð það til einhvers konar hróss að jafnvel Mahatma Gandhi hefði ekki þolað átján ára valdasetu. Það er freistandi að fá sér kók án þess að borga þegar maður á að passa sjoppuna, þótt maður álíti sig strangheiðarlegan og ég held reyndar að menn gerist ekki betri en Davíð. Vandinn er bara hvað sjoppan er lítil og eftirlitslaus. Hér tíðkast að umbera afglöp í starfi sem myndu kosta sparkið í löndunum í kringum okkur.
Það er bara þannig þegar maður rekur litla sjoppu að innra eftirlit er oft ekki gott. Því ekki að flytja inn þá hluta stjórnkerfisins sem við virðumst ekki geta rekið sjálf? Mörg húsfélög velja að láta aðila út í bæ sjá um bókhaldið, mála húsið og snyrta lóðina. Þessir þjónustuaðilar verða ekki ekki sjálfkrafa eigendur að öllum íbúðum í húsinu eins og sumir andstæðingar ESB virðast halda.
Algengustu rökin gegn inngöngu í sambandið eru einhvers konar últra þjóðernishyggja og svo ótti við hið óþekkta. "Better the evil you know" segir enskt máltæki. Spurningin sem við þurfum að svara er: hversu "evil" má það verða áður en best er að taka stökk inn í óþekkta framtíð?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:16 | Facebook
Athugasemdir
Skemmtileg færsla og skynsamlegt innlegg. Sjálfur myndi ég kannski segja að það sé hægt að ganga lengra í að lýsa ókostum örsamfélags sem þarf að sinna öllum þeim fastakostnaði sem fylgir því að vera þjóðríki í nútímanum.
Það er annars ekki augljóst hvernig Íslandi og íslendingum myndi reiða af innan stærri heildar. Ágætir menn og fallegar konur, en mannasiðum nokkuð ábótavant. Evrópa er klúbbur og í klúbbi þurfa menna og konur að eiga sér félagahóp og bakland. Hér er mikilvægt að líta til þess að Ísland hefur ekki ræktað garð sinn gagnvart norðurlöndunum sérstaklega vel, og er að mörgu leyti utanveltu í samfélagi þeirra. Að mörgu leyti á Ísland margt sameiginlegt með löndum austur Evrópu, en landafræðilega, sögulega og menningarlega er það ólógískt.
Svo hvert skal halda í heiminum? Er Evrópa fyrir okkur, og við fyrir Evrópu? Kannski fyrir okkur. En ég veit að Evrópa er ekki fyrir ömmu mína, og líklega ekki fyrir foreldra mína.
Svo má ekki gleyma einu. Íslendingar vilja halda að þeir séu líkir Ameríkönum. Við vitum báðir að svo er ekki, amk. ekki nema í mjög þröngum skilningi. Þeir eru hins vegar líkari Ameríkönum en önnur lönd Evrópu (utan Bretlands amk.). Það er nokkuð verðmæt sérstaða sem hefur nýst landinu um langt skeið.
En gamla kerfið þarf að afnema. Á Íslandi er ríkisvald ekki þrískipt, og var síðast liðin 20 ár ekki einu sinni tvísktipt. Það var einmennt.
Andri (IP-tala skráð) 2.6.2009 kl. 02:28
Sæll Kári, þetta er athyglisverð hugleiðing. Ég vil samt benda á að við höfum nú þegar sett hluta af stjórnsýslunni í útvistun til ESB gegnum EES. Ekki losaði það okkur undan fjórflokknum, vanhæfinu og því öllu. Ég held að það sé mikill misskilningur að aðild að ESB lækni þetta. Við gætum því hæglega fengið það versta úr tveimur heimum. Brussel-bjúrókrata og íslenska fjórflokkinn óbreyttan í sandkassanum sínum. Hver segir að botninum sé náð - ha?
Kv.
Ólafur Eiríksson, 2.6.2009 kl. 12:41
Alveg sammála Ólafur, ég er mjög á báðum áttum með ESB aðildina sjálfur. Ég skoða kostina og gallana og er á báðum áttum.
Sumir í herbúðum andstæðinga við aðild eru ekki í neinum vafa. Þeir sjá enga kosti, bara galla og haga sér eins og fasistar eða jesúfrík, hrauna handvissir um eigið ágæti yfir alla sem eru ekki sammála þeim. Það liggur við að ég skrifi um kosti við aðild gagngert til að pirra þessar smásálir.
Kári Harðarson, 2.6.2009 kl. 13:56
"Það voru vaxtahækkanir Davíðs sem drógu erlent lánsfjármagn til landsins og gerðu bönkum kleift að dansa hrunadansinn sem sökkti þjóðarskútunni."
Það er rétt að hávaxtastefna Seðlabankans gerði Icesave-brjálæðið mögulegt; en EES var einnig forsenda í því máli (án þess að með því sé tekin heildarafstaða til þess samnings).
Hins vegar gerðu bankarnir ýmislegt á erlendri og innlendri grund sem Seðlabankinn gat illa ráðið við eða a.m.k. ríkisstjórn og aðrar stofnanir áttu eins að koma að; verðfalsanir á markaði gegnum tengd félög og gríðarleg skuldsetning erlendis tengdust ekki hávaxtastefnu Seðlabankans sérstaklega.
Varðandi ESB þá mætti þetta koma fram: Bandalagið er allt annar hlutur í dag en það var fyrir tæpum 60 árum þegar það var stofnað. Segjum sem svo að við göngum í klúbbinn á tilteknum forsendum í dag. Hvernig mun svo bandalagið hafa breyst eftir 20-30 ár? Ef við viljum vera gagnrýnin á vald og valdasamþjöppun almennt, þá hljótum við að vera gagnrýnin á ESB.
Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 2.6.2009 kl. 15:32
Þetta er ágæt tilvitnun hjá þér "að jafnvel Mahatma Gandhi hefði ekki þolað átján ára valdasetu". Það var mikil framsýni hjá stofnendur BNA þegar þeir settu sér stjórnarskrá að forseti gæti ekki setið lengur en 2 kjörtímabil eða 8 ár. Að vísu sat Rooswelt lengur en það voru stríðstímar, ægilegasta styrjöld allra styrjalda til þessa geisaði, heimsstyrjöldin síðari. En það er greinilega hægt að komast fram hjá flestu, jafnvel stjórnarskrám, það sjáum við í því sem er að gerast í Rússlandi. Pútín kom fram eins og hvítþveginn engill og sagðist að sjálfsögðu heiðra stjórnarskrána, fór ekki á framboð til forseta eftir 8 ár, fór í næsta herbergi og gerðist forsætisráðherra og setti vin sinn Medvedev í forsetastólinn. Ætlar greinilega að koma aftur og sitja þá í 8 ár. Hvernig valdið spillir sjáum við greinilega í Bretlandi, Mjög margir, þar á meðal jafnaðarmaður eins og ég, höfðu mikla trú á Tony Blair þegar hann leiddi breska Verkamannaflokkinn til valda. Síðan gerðist hann dindill Bush í Íransstríðinu, og nú er hvert hneykslismálið að kollsteypa Verkamannaflokknum breska. Ég er sammála því sem að framan kemur fram að það hefur ekki verið þrískipting valds á Íslandi undanfarin ár, tæplega tvískipt. Það er miður að umræðan um stjórnlagaþing og nýja stjórnarskrá hefur nánast horfið með öllu (hvar er Borgarahreyfinfin?). Það er vissulega næsta óviðráðanleg vandamál sem stjórnvöld, ríkisstjórnin , er að glíma við. En þessi vandamál mega ekki grafa þetta eitt mikilvægasta verkefni okkar eftir hrunið, að smíða nýja stjórnskipan og þá skulum við ekki gleyma Vilmundi Gylfasyni. Hugmyndir hans um beint kjör framkvæmdavaldsins og að ráðherrar sitji ekki á þingi, er ekki full ástæða til að hefja þá umræðu til vegs og virðingar?
Já hvað um Evrópusambandið? Ég er þess fullviss að við eigum að sækja um aðild og sjá hvort samningar tekast. Eflaust er vafi í hugum allra hvort okkur farnist betur inni en úti, ég hef þá trú að okkur farnist betur inni í ES og þar er eitt mesta hagsmunamálið að geta tekið upp alvörumynt, fá stöðuleika í peningamálum, lægri vexti og lægri verðbólgu. Ég býst við að við munu þurfa að borga vexti og jafnvel búa við nokkra verðbólgu en sé hún sú sama og í okkar aðalviðskiptalöndum þá vegnar okkur mun betur. En fyrst er að sjá hvað út úr aðildarviðræðum kemur, ef samningar takast mun þjóðin kveða upp sinn úrskurð.
Það versta sem ég býst við að út úr þessu komi er að þá munum við ekki framar fá að éta grillaða hrefnu eða súrsað rengi.
Sigurður Grétar Guðmundsson, 2.6.2009 kl. 16:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.