Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007
28.2.2007 | 14:40
Vista heillar ekki
Windows Vista er eitt skref enn eftir slóð sem við ættum að hætta að fylgja.
Ég fékk nýja PC vél í vinnunni í þessari viku en hún er samt með Windows XP. Tölvudeildin á mínum vinnustað hefur ákveðið að kaupa ekki Vista og ég er feginn.
Samt er ég nýungagjarn að eðlisfari og búinn að lesa stafla af greinum um nýja stýrikerfið. Eftir bið ina eftir arftaka XP veldur Vista vonbrigðum. Það er engin nýhugsun í Vista, bara meira af því sama. Engin bylting.
PC Tölvur voru bylting á sínum tíma af því þær voru "Personal", ekki fjölnotenda þar sem margir þurftu að samnýta sömu vél á sama tíma.
Nú er öldin önnur. Í stað þess að margir samnýti eina tölvu getur einn maður verið með margar tölvur.
Ég er með gögn á þremur PC tölvum núna, þar af samnýti ég eina vélina með þrem öðrum. Of mikill tími fer nú í að afrita gögn á milli vélanna þriggja sem halda allar að þær séu einar í heiminum, millifæra skrár og "Bookmarks" og "Preferences, uppfæra "service packs" og vírusvarnir o.s.frv.
Windows byggði á þeirri hugmynd að PC tölvan væri altari sem er heimsótt af notandanum. Þessi hugmynd er úrelt. Núna vil ég tölvur út um allt og ég vil ekki þurfa að þjónusta þær. Tölvur þurfa að hverfa inn í bakgrunninn og verða viðhaldsfríar.
Ég vil geta valið skjal á gemsanum mínum og sent það á prentara á kaffihúsinu þar sem ég sit.
Ég bíð eftir "stýrikerfi" sem hefur verið hannað frá grunni á dögum Internetsins. Windows með sín C drif og registry hlýtur að deyja drottni sínum. Mig grunar að næsta "stýrikerfið" verði frá Google.
Vista sagt hamla skilvirkni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt 6.3.2007 kl. 12:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
27.2.2007 | 15:18
Lýðræði og regluverk
Enginn vill lýðræði í alvöru. "Lýður" þýðir skítapakk. Vilja ekki flestir fá stjórnendur sem eru viðkunnalegt fólk með svipaðar skoðanir og þeir sjálfir?
Reyndar treysti ég ekki sjálfum mér og mínum líkum til að stjórna miklu. Allir eru með sína litlu persónulegu sýn á raunveruleikann og hann er svo miklu stærri og flóknari en nokkuð eitt okkar.
Svo eru flestir menn gallagripir. Ef þeir geta ekki einu sinni hætt að reykja eða grennt sig, hvernig geta þeir þá stjórnað öðrum eins og guðir?
Trúbadorinn Paul Kelly söng:
Little decisions
are the ones I can make
Big resolutions
are so easy to break
I don't want to hear about your
Big decisions
Ég er sammála honum. Venjulegir menn ættu ekki að taka of stórar ákvarðanir.
Í ljósi þess að menn eru ákaflega breyskir og yfirleitt ófærir um að taka stórar ákvarðanir, verandi náskyldir öpum, þá hefur mér sýnst satt að þeir stjórni best sem stjórna minnst. Þegar menn vilja setja reglur sem aðrir eiga að fara eftir er best að hafa þær sem einfaldastar.
Dæmi um hið gagnstæða:
Ónefndur ráðherra setti skatt á tóma geisladiska. Peningarnir áttu að fara í að borga tónlistarmönnum sem eiga hugsanlega tónlist sem yrði hugsanlega brennd á þessa diska. Það er hægt að brenna bíómyndir og forrit á diska en forritarar og kvikmyndagerðarmenn fá ekki pening úr þessum sjóði. Mér vitanlega er þessi skattur innheimtur ennþá.
Þarna finnst mér N.N. leika almætti. Jafnvel Guð og jólasveinninn í sameiningu væru ekki færir um að kíkja á alla geisladiskana á landinu og sjá hvað var brennt á hvern disk og koma svo niður um strompinn hjá öllum hlunnförnu tónlistamönnunum með glaðning sem væri útdeild sanngjarnt.
Annað dæmi. Hér er sýnishorn úr tollskránni sem er 526 síður:
0805 Sítrusávextir, nýir eða þurrkaðir:
0805.1000 --- Appelsínur
0805.2000 --- Mandarínur (þar með taldar tangarínur og satsúmur);
klementínur, wilkingávextir og áþekkir blendingar sítrustegunda
[0805.4000 --- Greipaldin, þar með talin pómeló
--- Sítrónur (Citrus limon, Citrus limonum) og súraldin
(Citrus aurantifolia, Citrus latifolia):
0805.5001 --- --- Sítrónur
0805.5009 --- --- Annað
0805.9000 --- Aðrir
Þegar ég les tollskrána spyr ég mig: Hverju voru þessir menn að reyna að stjórna? Var tilganginum náð? Hvað kostar að framfylgja þessum reglum? Hvers vegna þarf ríkisstjórn Íslands að gera greinarmun á Sítrónum og Satsúmum? Líf hvers verður betra?
Hér er sýnishorn úr þriðju Mósebók sem mér finnst vera mjög sambærilegt rit:
Þegar einhver vill færa Drottni matfórn, þá skal fórn hans vera fínt mjöl, og skal hann hella yfir það olíu og leggja reykelsiskvoðu ofan á það. Og hann skal færa það sonum Arons, prestunum, en presturinn skal taka af því hnefafylli sína, af fína mjölinu og af olíunni, ásamt allri reykelsiskvoðunni, og brenna það á altarinu sem ilmhluta fórnarinnar, sem eldfórn þægilegs ilms fyrir Drottin. En það, sem af gengur matfórninni, fái Aron og synir hans sem háhelgan hluta af eldfórnum Drottins. Viljir þú færa matfórn af því, sem í ofni er bakað, þá séu það ósýrðar kökur af fínu mjöli olíublandaðar og ósýrð flatbrauð olíusmurð.
En sé fórnargjöf þín matfórn á pönnu, þá skal hún vera ósýrt brauð af fínu mjöli olíublandað. Þú skalt brjóta það í mola og hella yfir það olíu; þá er það matfórn. En sé fórn þín matfórn tilreidd í suðupönnu, þá skal hún gjörð af fínu mjöli með olíu. Og þú skalt færa Drottni matfórnina, sem af þessu er tilreidd. Skal færa hana prestinum, og hann skal fram bera hana að altarinu. En presturinn skal af matfórninni taka ilmhlutann og brenna á altarinu til eldfórnar þægilegs ilms fyrir Drottin. En það, sem af gengur matfórninni, fái Aron og synir hans sem háhelgan hluta af eldfórnum Drottins.
Ég ímynda mér að mennirnir sem skrifuðu textann hafi verið andlega skyldir mönnunum sem skrifuðu tollskrána.
Er þetta ekki fullmikil stjórnsemi?
Það þyrfti að setja amk. ein lög í viðbót: Lög og reglugerðir sem ekki er hægt að sjá hvaða áhrif muni hafa (til góðs eða ills) eða hvernig á að framfylgja, fari beint í ruslafötuna.
Neytendamál | Breytt 6.6.2007 kl. 11:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.2.2007 | 11:07
Ó reiðhjól glatt þú rennur utan stanz
Pabbi hafði sennilega rétt fyrir sér þegar hann sagði að við hefðum aldrei átt að breyta Reykjavík úr bæ í borg. Þegar maður heldur að maður búi í borg breytast væntingar manns.
Borgir innihalda milljónir af fólki, þær eru háværar og maður tekur neðanjarðarlestir í þeim. Þær bjóða upp á þúsundir af veitingastöðum, risastór söfn og óperur.
Reykjavík er ekki borg, hún ætti að vera bær. Bæir eru huggulegir með grænmetistorgi og gönguleiðum og hjólastígum og fólk hittist og spjallar.
Ég hef átt heima í bæjum, þeir eru frábærir. Ég hef verið í borgum þær eru líka frábærar á sinn hátt, amk. í nokkra daga í senn. Reykjavík er hvorki bær né borg af því þegar við héldum að Reykjavík ætti að vera borg hættum við að passa upp á bæjarbraginn. Við höfum samt ekki náð því að vera borg ennþá. Einu borgareinkennin sem við höfum fengið eru umferð sem gæti sómt sér í London.
Núna síðast skárum við Reykjavík í sundur með styztu hraðbraut sem ég hef séð en hún skiptir Reykjavík jafn örugglega og gljúfrið sem sker Kópavog og kemur í veg fyrir að miðbærinn þar fái sál.
Ég er á hjóli. Ég hef verið það síðan ég var tólf ára. Kannski er ég svona hrifinn af hjólum af því ég þurfti að bíða svo lengi eftir því fyrsta. Kannski hefur það ekkert með málið að gera en ég ætla ekki að sálgreina mig hér.
Ef maður á gott hjól, þá verður það hluti af manni og maður líður um eins og í þessum góðu draumum þegar mann dreymir að maður sé að fljúga. Ef hjólið er ekkert sérstakt, heldur einhver bykkja gerist þetta hins vegar ekki.
Það þurfa nokkur atriði að koma saman fyrst: maður þarf að vera kominn í sæmilegt form og það tekur viku eða tvær. Maður þarf líka að vera í fötum sem þrengja ekki að á vitlausum stöðum og vindurinn má ekki næða niður hálsmálið á manni. Þegar maður hefur lært þetta finnst manni reiðhjólið vera sniðugasta uppfinning síðan hjólið var fundið upp.
Ég sé strax hvort ég mæti reyndum hjólamanni. Þeir óreyndu eru á hjóli sem var aðeins of ódýrt og það heyrist hátt í gírunum af þeir eru ekki alveg stilltir. Þeir óreyndu eru á dekkjum sem eru aðeins of stór og jeppaleg og yfirleitt rúlla ég fram úr þeim þótt ég sé ekki að pedala af því þeirra hjól rúlla svo illa. Svo sé ég þetta fólk ekkert aftur. Ég hugsa samt stundum hvað það var mikil synd að fólkið fékk svona ranga hugmynd um þennan frábæra fararskjóta. Ódýr hjól eru ekki þess virði.
Þegar ég var tólf ára var árið 1976. Þá hjólaði ég á götunni og fór létt með það, bílarnir voru svo fáir. Ég hugsaði ekki um að ég væri "hjólreiðamaður", ég var bara á hjóli.
Síðastliðin ár hef ég fengið pólitíska meðvitund um að ég tilheyri "flokki hjólreiðamanna". Best hefði mér þótt að hjóla bara áfram en nú þarf ég víst að berjast fyrir tilveru minni því að okkur er þrengt.
Fyrst fjölgaði bílunum. Svo var samþykkt illu heilli að leyfa hjólreiðar á gangstéttum. Þá hætti ég að geta spanað um bæinn á fullri ferð og þurfti að þræða ósléttar steinsteypustéttar eftirstríðsáranna sem hefur ekki verið viðhaldið. Í þeim eru staurar á stangli þar sem enginn staur hefði nokkurn tímann átt að vera og ef maður passar sig ekki ræðst einn þeirra á mann. Stéttar voru aldrei ætlaðar fyrir hjólreiðar.
Stéttarnar eru að batna. Þær eru samt engir hjólastígar. Hjólastígar væru með malbiki og myndu líkjast venjulegum umferðargötum, bara miklu mjórri. Við eigum nú þegar einn svona stíg í kringum borgina og hann er frábær, ég þakka mikið fyrir hann. Ég nota hann í "útivist". Það er þegar maður hreyfir sig af samviskubiti af því maður hefur ekki hreyft sig.
Ef maður hjólar bara þarf maður ekki "útivist" eða "rækt", málið sér um sig sjálft. Ég nota hjólið sem farartæki, ég vil fara allt á því. Þá er þessi eini stígur kringum borgina yfirleitt ekki í leiðinni. Mín daglega ferð er meðfram Hringbrautinni.
Færslu Hringbrautarinnar var lokið frekar fljótt hvað bílistana varðaði en hjólastígurinn meðfram henni var harðlokaður 15 mánuði í viðbót. Leiðirnar báðum megin voru ófærar jafnvel reyndum mönnum á fjallabílum allan þann tíma.
Kaldhæðnin í þessu er að yfirvöld meina vel. Þessi stígur meðfram brautinni er ágætur núna og reyndar betri en áður en Hringbrautin var færð. Ég óttast bara að svona framkvæmdir geta gert út af við eina kynslóð hjólamanna. Á meðan Hringbrautin var færð sá ég fólk gefast upp á hjólinu og setjast upp í bíl. Aðgerðin heppnaðist en sjúklingurinn dó.
Ég var einmitt að reyna svo mikið að fá vinnufélaga mína til að prófa að hjóla þegar ósköpin dundu yfir, það var nefnilega "hjólað í vinnuna" átakið og ég skráði kollega mína til keppni. Það varð hálf útþynnt.
Þó ekki væri styrjaldarástand í vegalagningum eru margir með ástæður til að hjóla ekki.
Það eru þeir sem keyptu sér hús meir en fimm kílómetra frá vinnunni. Þeir ættu sennilega ekkert að reyna að hjóla, ég óska þeim farsæls bifreiðarekstar og vona að bensínverðið sligi þá ekki á komandi árum. Hér verð ég að skjóta inn að það er bíll á heimilinu en hann er ekki notaður í smásnatt inní bænum. Reykjavík er lítil en Ísland er stórt og ég veit hvar takmörk mín liggja hjólalega séð.
Svo er það fína fólkið. Það er svo vel klætt og vel til haft, og reiðhjól eru svo nördaleg. Hjól gætu aldrei gengið fyrir þetta fólk, það vorkennir mér af því ég mæti í anorakk og pollabuxum og segir: "Mikið ertu hress að nenna þessu".
Ég hef búið í ameríku og í köben og þar hugsaði ég ekkert út í þetta. Hér líður mér eins og útlendingi í mínu eigin landi. Ég vil hjóla en er eins og frík á götum Reykjavíkur. Mig langar að segja eins og John Merrick í fílamanninum: "I am not an Animal!" Íslendingar eru svo mikið fyrir að klæða sig pent að mér getur blöskrað. Girlie men!
Næsti hópur er sá sem segir að hér sé svo vont veður. Það get ég leiðrétt. Þegar maður er í réttu fötunum og í smá formi sér maður að veðrið er stórfínt. Flestir sem stunda einhverja útivist vita þetta.
Það var miklu kaldara í frostþokunni í köben, og það var verulega erfitt að hjóla í 40 stiga hita í ameríku. Hér er næstum því perfekt hjólaveður allan tímann. Það er svona vika á ári sem ég stelst í jeppanum eða tek strætó. 1/52 er ekki slæmt hlutfall.
Vissir þú að hér má taka hjól með sér í strætó og það kostar ekkert aukalega? Í köben borgar maður sérstaklega fyrir hjólið.
Nú er bara einn hópur eftir. Það er sá sem segir mér að það sé óðs manns æði að hjóla hér. Þá setur mig hljóðan og það er líka þess vegna sem ég skrifa þetta bréf. Ég ætla ekki að sannfæra neinn um að elska hjólreiðar eins og ég geri, en ég vil biðja ykkur hin að taka ykkur smá taki.
Það eruð þið sem keyrið á harðakani út úr hringtorgum yfir gangbrautir án þess að gefa stefnuljós.
Þið sem leggið bílunum á gangstéttirnar til að vera ekki fyrir hinum bílunum. Þið eruð fyrir mér!
Þið sem vinnið við lagfæringar á vegum. Þið mokið holu og setjið hauginn á miðjan hjólastíg og þær fær haugurinn að dúsa mánuðum saman.
Svo eruð það þið sem hannið gangstéttir og hjólastíga en hjólið aldrei sjálf. Þegar einhver býr til lausn án þess að skilja verkefnið verður útkoman yfirleitt ekki góð. Í gamla daga hönnuðu karlmenn eldhús sem konur unnu í. Það voru leiðinleg eldhús. Þannig eru margir hjólastígar hér. Það er augljóst að samtök hjólafólks voru ekki höfð með í ráðum.
Fjármunum er varið í dýrar lausnir (t.d. brýr yfir Hringbraut) í stað þess að leysa brýnni mál - hver ákveður hvar á að nota peningana?
Ég ákvað birta þennan pistil vegna þess að ég sé, að ríkistjórnin ætlar að nota alla vegagerðarpeningana sína (okkar) til að greiða götu einkabílsins.
Einkabíllinn býr nú til vandamál hraðar en hann leysir þau. Vetnisbílar eru vísindaskáldskapur ennþá. Reiðhjólin eru hér í dag og þau eru lausn.
Hvílík hræsni að tala um vetnisbíla á tyllidögum og geta svo ekki haft einfalda hluti eins og hjólabrautir á fjárlagaáætlun. Svei ykkur!
Hjólreiðar | Breytt 6.6.2007 kl. 11:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
20.2.2007 | 20:57
Glitnir og ég
markaðsherferðar Sjóvár sem endurgreiðir á hverju ári pappírsávísun í
pósti fyrir að vera trúfastur viðskiptavinur.
Við það tækifæri sá ég markaðsherferð Glitnis, "Eigðu afganginn". Ef
maður skráir sig hækka þeir öll útgjöld sem eru greidd með debetkorti
upp í næsta hundrað, fimmhundruð eða þúsund og setja mismuninn á
sérstakan sparnaðarreikning.
Ég hugsaði með mér að þetta væri ekkert fyrir mig. Konan í útbúinu
sagði að þetta væri fyrir fólk sem ætti erfitt með að spara en ég
kannaðist ekki við að vera sú manntegund.
Sama dag var hringt í mig frá Glitni og spurt hvort ég þekkti til
þessarar markaðsherferðar. Ég sagði "nei takk, þú hlýtur að sjá í
tölvunni hjá þér að ég á ekki í vandræðum með að spara".
Hún sagði "já, ég sé þú átt þarna X milljónir á lélegum vöxtum". Ég
sagði "já ég hef einmitt verið að velta fyrir mér hvort ég gæti ekki
fengið betri vexti og hvað getur þú boðið mér?" Það besta var 11%. Ég
sagðist geta fengið rúm 12% hjá S24 en takk fyrir símtalið.
Tvennt pirrar. Í fyrsta lagi erum við búin að vera rúm 20 ár í
viðskiptum við Glitni (áður Íslandsbanka (áður Iðnaðarbanka)).
Þeir ættu að hringja í rétta viðskiptavini með svona sparnaðarhugmynd
sem er í hreinskilni sagt lúserhugmynd og ætluð fyrir lúsera.
Í öðru lagi hefur Glitnir ekki hringt til að benda okkur á að við
værum með peninga á lélegri ávöxtun hjá þeim.
Eitt hefur pirrað mig við Glitni öll árin: Ég er með debetreikning
sem býður bara 4,7% vexti, svo þar getur maður augljóslega ekki geymt
peninga. Ef ég versla með debetkorti eru peningarnir teknir af þessum
reikningi svo ég þarf alltaf að vera að "fylla á hann". Ef hann fer
undir núllið borgar maður himniháa vexti og svo FIT sektir fljótlega
eftir það.
Til að forðast þessi óþægindi er ég farinn að versla með kreditkorti
þótt það stríði gegn mínu uppeldi að fá lán að óþörfu.
Hvers vegna er ekki hægt að vera með einn reikning á góðum vöxtum og
binda debetkortið við hann. Ég bara spyr? Ég spurði Glitni að þessu
þegar hann hét ennþá Íslandsbanki en fékk að vita að þetta væri bara
svona.
Mig langar með viðskiptin í útibú á landsbyggðinni. Þeir hafa kannski
tíma til að fylgjast með reikningunum mínum. Vill einhver mæla með
einu slíku?
Neytendamál | Breytt 6.6.2007 kl. 11:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.2.2007 | 10:27
Grillið mitt og gjaldmiðlarnir
Ég var mjög ánægður með fyrsta grillið okkar - en það var lítið og
brennarinn í því var allt of nálægt kjötinu.
Allt sem á því var steikt þurfti stöðuga gjörgæslu og varð yfirleitt
brennt að utan og hrátt að innan, og það var ef vel gekk!
Fyrirvaralaust gat gosið upp eldur í því og ég þurfti að rjúka frá
gestunum til að taka bitana af hálf kolaða.
Ég var ótrúlega tregur að kaupa nýtt af því ég hélt að mikill hiti
þýddi gott grill. Ég lét loks tilleiðast í fyrra og við keyptum stórt
"Broil King" grill.
Þetta var bylting. Lykillinn að góðri grillun er nefnilega ekki að
hafa logsuðuhita eina stundina og slökkva undir þá næstu. Nei,
lykillinn er jafn, hægur hiti. Ég var ótrúlega tregur að ná þessu.
Mér dettur þetta í hug þegar ég heyri menn monta sig af íslensku
krónunni og hæfileikum hennar. Hér rýkur efnahagslífið upp og verður
viðbrennt eitt árið og er hrátt í gegn það næsta. Það getur verið að
íslenskum ráðamönnum finnist þeir vera grillmeistarar þar sem þeir standa
yfir krónunni út á svölum, en þetta er ill meðferð á góðu kjöti.
Kjötið í samlíkingunni er íslendingar. Ein kynslóð kemur út
"ofsteikt" því hún keypti hús og jarðir meðan þau voru ódýr, næsta
kynslóð verður "hrá" því hún neyðist til að taka á okurvöxtum lán
fyrir húsunum sem kynslóðin á undan byggði.
Ísland er nú land tækifæranna fyrir þá sem eru tækifærissinnaðir. Þeir
sem vilja gera plön fram í tímann tapa í svona árferði.
Ég legg til að okkar velmeinandi grillmeistarar verði neyddir til að
kaupa grill sem heldur hægum jöfnum hita. Grillið í þeirri samlíkingu
er Evran.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 11:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.2.2007 | 10:10
Hverfur undan myrkrið svarta
Hér er mynd sem ég gerði fyrir nokkrum árum.
Á henni er dálkur fyrir hverja viku í ári og lína fyrir hverja
klukkustund í sólarhring. Af henni má lesa með beinum hætti hvenær
sólarupprás og sólsetur er í hverri viku ársins.
Myndina gerði ég með forriti sem heimsótti vefmyndavél Esso í
Laugardal á klukkustundarfresti í heilt ár. Í fullri upplausn er
myndin 400 Megabæti.
Mér datt í hug að þið gætuð haft gaman af, því nú birtir með hverjum
degi og gaman að vera til.
PS: Smellið á myndina tvisvar til að fá hana í réttri upplausn.
Tölvur og tækni | Breytt 6.6.2007 kl. 11:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.2.2007 | 23:21
Hvað er í sekknum?
Hér er mynd af hunangs grísakótilettum frá Goða:
Undir nafninu stendur grís, salt og vatn, E450 (saltpétur), E301 (C
vítamín) og E250 (natríum nítrat) en ekkert hunang.
Lög um matvæli númer 93 frá 28.júní 1995:
11. gr. Óheimilt er að hafa matvæli á boðstólum eða dreifa þeim þannig
að þau blekki kaupanda að því er varðar uppruna, tegund, gæðaflokkun,
samsetningu, magn, eðli eða áhrif.
Ég er bara hellisbúi en ætti ekki að vera hunang? Hvað þýðir nafnið?
Svo er búið að sprauta vatni í kjötið. Hvað má sprauta miklu? Í
Bretlandi er það 5% en ég finn ekki lög um það hér.
Rauðvínslegið lambalæri frá Borgarnes kjötvörum inniheldur bara
papríku og salt og er því saltkjöt samkvæmt minni kokkabók. Þú verður
seint drukkinn af soðinu af því.
Má rækjusalat vera með einni rækju eða verða þær að vera fleiri?
(Það eru náttúrulega engin börn í barnaolíu en það er öðruvísi).
Með lögum skal land byggja og með ólögum eyða - en - erum við of fá til að
framfylgja lögum?
Neytendamál | Breytt 6.6.2007 kl. 11:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.2.2007 | 10:11
Tíminn og þú
Árið er hringferð jarðar um sólu, mánuðurinn hringferð tungls um jörð en
dagurinn hringferð jarðar um sjálfa sig.
Vikan (svarið sem ég vildi fá) er ekki háð himintúnglum heldur er hún gamall
verkalýðssamningur milli faraós og ráðinna starfsmanna við pýramídaviðhald,
vatnsveitur og önnur tilfallandi störf. Faraó var frumkvöðull í
mannauðsstjórnun. Hjá honum áttu menn að vinna sex daga en halda frí þann
sjöunda.
Biblían sagði seinna að Guð hefði haft sama vaktaplan. Sennilega var það
skrifað til að skapa jákvætt andrúmsloft á vinnustað gyðinga og sýna þeim hverju
hægt væri að koma í verk með góðri tímastjórnun.
Margir kvarta undan tímaskorti. Þetta er bull. Þeir hafa allan tímann í
heiminum. Það má halda því fram að við séum öll í hinu eílifa núi og að tíminn
sé tálsýn.
Flestir eru bara að reyna að gera of mikið. Þeir borða aðeins of mikið og þeir
vilja líka meiri tíma. Tími er peningar svo tímaskortur er bara útgáfa af
græðgi.
"Todo" listinn er önnur ástæða fyrir kvörtunum hjá fólki. Því hættir til að
hrúga öllu á hann þangað það er orðið sannfært um að það muni ekki hafa tíma til
að lifa. Fyrirmyndar tímastjórnandi ætti væntanlega að byrja listann sinn:
1. Koma út úr mömmu 2. orga.
Listinn myndi enda: N-1. segja eitthvað spaklegt N.Deyja.
Það verður eitthvað á todo listanum þegar þú deyrð og eins gott að sætta sig við
það. Notaðu hann því fyrir hluti sem þú vilt gera, ekki sem áminningu um hvað
þú ert lélegur pappír.
Nákvæmar klukkur komu nýlega til sögunnar. Klukkur voru ekki gerðar nákvæmar
fyrr en járnbrautafélög þurftu að samræma lestarferðir yfir heimsálfur.
Núna er fólk farið að leika járnbrautalestir hverja einustu mínútu í lífi sínu.
Það er kannski hagkvæmt fyrir þjóðfélagið en ég veit ekki hvort það hámarkar
lífshamingjuna hjá einstaklingnum.
Ég legg til að menn noti Mán-Fös fyrir fyritækið sem þeir vinna hjá, Lau fyrir
fyrirtækið sem þeir reka sjálfir, þ.e. heimilið, en taki sunnudaginn frá fyrir
sjálfa sig. Ef sunnudeginum er eytt í Smáralind (hvort sem er í innkaup eða
afgreiðslustörf) er það vísbending um að hægja á sér.
Trúmál og siðferði | Breytt 6.6.2007 kl. 11:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.2.2007 | 10:36
Frjáls innflutningur á ráðamönnum ?
Í gær sat ég athyglisvert málþing sem var haldið af "Viðskiptaráði" en
það heitir nemendafélag viðskiptafræðinema í Háskólanum í Reykjavík.
Þingið hét "Krónan eða Evran". Á því töluðu fjórir: tveir lektorar í
HR, framkvæmdastjóri verðbréfasviðs Landsbankans og hagfræðingur
samtaka iðnaðarins.
Þingið var mjög fræðandi - ég hefði viljað sjá Ríkissjónvarpið taka
það upp og senda út. Málið varðar alla og er of viðamikið til að
afgreiða í stuttum fréttaskotum.
Það sem ég tók með mér heim eftir þetta þing er, að Íslendingar eru
misleitur hópur. "Eigum við að taka upp evruna" fær mismunandi svör
eftir því hverjir "við" erum.
Ég á ekki kvóta eða jörð eða útflutningsfyrirtæki og ég rek ekki
ráðuneyti eða seðlabanka.
Ég er í hagsmunahópnum "matarinnkaupandi, húsnæðislánaafborgandi,
hugbúnaðarsemjandi og verðandi flatskjáfjárfestir". Fyrir minn hóp
sýnist mér svarið vera "já, göngum í ESB og tökum upp evruna".
Málið er rammpólítískt. Bankafulltrúi mun hafa aðra skoðun á málinu
en ég, og við höfum báðir rétt fyrir okkur. Menn verða því að mynda
sér sjálfstæða skoðun. "Við íslendingar" hefur enga merkingu.
Við flytjum nú inn nammi, fjármagn og verkamenn. Það ætti ekki að
vera stórt stökk fyrir þjóðina að flytja ráðamennina inn frá Brussel.
Þessir íslensku mega alveg við svolítilli samkeppni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 11:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.2.2007 | 10:11
Fyrstu húsakaupin okkar úti í Bandaríkjunum
personal finance". Bókin fylgdi námsmannaáskrift að Wall Street
Journal árið 1994 og innihélt góð ráð fyrir þá sem væru að byrja að
búa. Við keyptum fyrsta húsið okkar í Bandaríkjunum það ár.
Ég var þá með byrjunarlaun tölvunarfræðings í Norður Karolínu, 42þús$
á ári, sem voru 262.500 kr í mánaðarlaun miðað við núverandi gengi á
dollar. Big Mac kostaði 75 krónur og lítrinn af bensíni kostaði 19
krónur. Viku innkaup fyrir þrjá (matur, vín, bjór, bleyjur) kostuðu 7
þúsund krónur.
Bókin sagði að hefð væri að borga 10% hússins úr eigin vasa og
90% með láni sem byðust venjulegu fólki á 8,5% óverðtryggt eða 4,5%
verðtryggt þegar bókin var gefin út.
Í kaflanum um húsakaup var rætt um afborganir og matarkaup og skatta
en svo stóð samantekið: "As a rule, you can afford to buy a home that
costs 2 1/2 times your annual income", semsagt 2,5 sinnum árslaunin.
Bókin sagði líka að bankar tækju fólk í greiðslumat og viðmiðunin væri
að fólk ætti ekki að borga meira en 28% af brúttó mánaðartekjum í
afborganir og tryggingar af húsinu, annars yrði láni synjað skv.
reglum flestra banka.
Við keyptum 190 fermetra einbýlishús fyrir 112 þúsund dollara sem væru
8,4 milljónir króna á núverandi gengi.
Árslaunin mín voru 42 þúsund og 2,5 sinnum það voru 105 þúsund dollarar
svo við vorum rétt yfir upphæðinni sem blaðið mælti með að kaupa
fyrir.
Ef hjón með sitthvorar 300 þúsund í mánaðarlaun ætluðu að fylgja
þessari reglu í sínum fyrstu húsakaupum í dag ættu þau að kaupa hús
sem kostar 300.000 * 2 * 12 * 2.5 eða 18 milljónir.
Ég veit ekki hvað 190 fermertra einbýlishús kostar í Reykjavík en það
eru víst engar 18 milljónir. Ekki vildi ég vera að kaupa mitt fyrsta
hús, svo mikið er víst.
Neytendamál | Breytt 6.6.2007 kl. 11:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)