Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007
13.2.2007 | 10:55
Háskerpusjónvarp
Ég er mikill unnandi náttúrulífsmynda og hef verið það síðan
Jón O. Edwald talaði inn á þær í gamla daga.
Ég kem mér því vel fyrir þegar BBC þættirnir "Planet Earth" koma
á skjáinn á mánudögum.
Ég sé á vefnum, að þættirnir eru teknir upp í háskerpu (HDTV)
enda ætlaðir fyrir nýju sjónvarpstækin sem landsmenn hafa
sumir verið að kaupa.
Þetta er í fyrsta skipti sem mig langar að sjá háskerpu
útsendingu því þættirnir væru vafalítið enn tilkomumeiri
í meiri myndgæðum.
Þættirnir eru einnig teknir upp í breiðtjaldsformi (16:9)
sem danska ríkissjónvarpið er farið að senda út í fyrir þó nokkru síðan.
Nú spyr sá sem ekki veit: Hvenær skyldu útsendingar í breiðtjaldsformi
hefjast, og hvenær skyldu eigendur háskerputækja fá að njóta
einhverra útsendinga fyrir þau?
Tölvur og tækni | Breytt 6.6.2007 kl. 11:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.2.2007 | 15:07
Hvers vegna hindrar ríkisvaldið duglega bændur í að framleiða meira?
Í grein eftir Bolla Héðinsson sem var birt 7.feb í Viðskiptablaðinu er spurt:
Við hljótum að spyrja okkur hvaða nauðsyn sé talin á því að bændur sem stunda mjólkurframleiðslu þurfi að búa við það kerfi að kaupa sér kvóta af öðrum bændum til að framleiðsla þeirra njóti þeirra opinberu styrkja sem aðrir framleiðendur njóta. Hvers vegna þarf að stýra mjólkurframleiðslu yfirleitt með kvótasetningu og styrkjum?
Hvers vegna mega mjólkurbændur ekki framleiða eins og þeir vilja án afskipta ríkisvaldsins og láta neyslu þjóðarinnar, og möguleika til útflutnings, ráða því hversu mikið selst af framleiðslu þeirra? Spyr sá sem ekki veit.
Ef einhver man hvers vegna aðrar reglur eru látnar gilda um bændastéttina og framleiðslu hennar, heldur en um aðrar atvinnugreinar, þá væri ekki úr vegi að sá hinn sami rifjaði það upp. Ekki ætti að nægja að segja þetta hefur alltaf verið svona og þetta tíðkast annarsstaðar og taka það sem góða og gilda skýringu.
Með sama hætti eiga ráðamenn að svara því hvers vegna þurfi að hafa opinber afskipti af framleiðslu kindakjöts og því hversu mikið er framleitt til innlendrar neyslu annars vegar og til útflutnings hins vegar. Hvers vegna þurfa sauðfjárbændur að vera seldir undir kvóta settan af opinberum aðilum um þann fjölda fjár sem þeim er gert mögulegt að hafa á jörðum sínum? Því skyldu ekki hin almennu lögmál atvinnugreina um framleiðslu einnig gilda um sauðfjárrækt og að bændur ákvarði umfang hennar sjálfir, m.v. jarðnæði og vinnuframlag? Markaðurinn fyrir afurðirnar, hvort heldur hann er innan lands eða utan, er fyllilega fær um að gefa bændum til kynna hversu mikið borgi sig fyrir þá að framleiða.
Ég get ekki orðað þetta betur sjálfur. Ég sé engin rök fyrir þessari miðaldahugsun.
Þetta eru ekkert nema dreggjar af fimm ára áætlunum sem hefðu átt að líða undir lok þegar Berlínarmúrinn féll.
Neytendamál | Breytt 6.6.2007 kl. 11:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
12.2.2007 | 13:07
Pliff, um pliff, frá pliffi, til pliffs
Ég er búinn að búa til nafnorðið "pliff" sem samheiti yfir
smáuppákomur, sem eru hver um sig ekki merkileg, en sameinast um að
gera lífið verra en það gæti verið.
Pliff er þegar ég tek í útihurðina í vinnunni. Hún er með handföng
sem eru svo ýtileg að sjá en svo á maður að toga. Ég ýti því alltaf
fyrst og toga svo. Daginn eftir endurtekur sagan sig af því ég er
eins og ég er.
Frosin bílhurð um vetur var dæmi í gamla daga. Það kostaði nokkrar
mínútur á hverjum morgni að sprauta lásaspray og púa svolítið til að
komast inn. Mikið var gott að fá fjarstýrðar samlæsingar.
Sumir dagar eru fullir af pliffi -- iðulega eru það dagarnir sem fara
í að eltast við dyntina í Windows tölvum. Maður fer heim brúnaþungur
og veit ekki almennilega af hverju.
Oft þarf bara einhvern sem staldrar við í hita og þunga dagsins og
segir "þetta væri hægt að gera betur" til að bæta líf allra.
Sá sem setti strokleður á blýantsendann hefur sparað mörgum leit eftir
strokleðri. Hann ætti að fá aðalstign og eyju í Breiðafirði.
Hinn sem raðaði tölunum 0..9 öfugt á símana ætti að fá sendan reikning
upp á þá milljarða sem hann hefur kostað samfélög jarðarbúa.
Líklega ættu menn samt ekki að reyna að halda bókhald um slík smáatriði.
Stundum er það álíka greindarlegt og að reyna að reikna út: Hvað eru mörg Eric
Clapkíló í einum Eric Clapton ?
Tölvur og tækni | Breytt 6.6.2007 kl. 11:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.2.2007 | 11:09
Íbúðin mín er eins og bíll...
Ég velti stundum fyrir mér hvað fólk kaupir mikið af aukahlutum þegar
það kaupir bíl en fær sér enga fyrir íbúðina.
Bíllinn er keyptur með rafmagnshita í sætum, sjálfvirkum vinnukonum
með regnskynjara, rafmagnsrúðum, leðursætum, rúðupissi, rafmagns
hliðarspeglum og þjófavörn og fleiru og fleiru.
Íbúðir gætu verið með fjarstýrðri samlæsingu, einum taka sem slekkur /
kveikir á öllum ljósunum, rafmagnsgardínum, gluggum sem hægt er að
opna og loka með fjarstýringu, hituðum leðursófa í stofunni og
innbyggðum steríógræjum í vegg í öllum herbergjum.
Innbyggt þjófavarnakerfi og brunaboði sem slekkur á eldavélinni og
lokar öllum hurðum ef hann finnur brunalykt gæti sparað 40 milljónir á
einu bretti.
Heima hjá okkur eru rafmagnsstýrðar gardínur frá Sólar gluggatjöldum
(get mælt með þeim). Þær kostuðu næstum ekkert meira en þessar
venjulegu með böndunum en samt furða allir gestir sig á þessari
merkilegu nýung þótt þeir eigi bíl með öllum aukahlutum.
Bíllinn endist bara í nokkur ár. Góð leðurhúsgögn fara á haugana
þegar bílnum er hent. Íbúðir endast miklu lengur en bílar svo hvaðan
kom þessi þessi naumhyggja allt í einu?
Neytendamál | Breytt 6.6.2007 kl. 11:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.2.2007 | 16:17
Athyglisverðir tímar
spurður af hverju frægð hans stafaði. Hann svaraði:
Elsti bróðir minn er svo fær að hann sér sjúkdómseinkennin
áður en sjúklingurinn kennir sér meins. Frægð hans hefur ekki
borist út fyrir hverfið.
Næstelsti bróðir minn getur læknað mein á meðan þau eru ennþá
smásár. Hróður hans hefur ekki borist út fyrir heimaborg
okkar.
Ég reyni að lækna sjúkdóma þegar sjúklingarnir koma til mín
sárkvaldir, ég stilli kvalirnar og geri þeim lífið bærilegra.
Þeir breiða frægð mína út.
Ég er draumóramaður, en í mínum draumaheimi ynnu ráðamenn vinnuna sína
svo vel að þeirra yrði nærri aldrei minnst. Við læsum um tónleika og
leikhús af því stjórnmálin væru varla fréttnæm.
Þorgerður Katrín var mikið í blöðunum um daginn af því hún lofaði
Háskóla Íslands þremur milljörðum króna. Ég samgleðst Háskóla
Íslands, en ég hefði verið ánægðari ef Alþingi hefði skapað viðunandi
rekstrargrundvöll fyrir skólann (og aðra skóla) með vel gerðum lögum
svo þessi áberandi góðgerðarstarfsemi Þorgerðar hefði ekki þurft að
verða fréttamatur.
Gömul kínversk bölvun hljómar svona: "May you live in interesting
times". Ég vona að sá dagur muni koma að við Íslendingar lifum ekki á
svona athyglisverðum tímum af því kjörnir ráðamenn vinna vinnuna sína
af ráðvendni og í hljóði.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 11:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.2.2007 | 11:26
Bensín eða rafmagn?
Toyota Prius bíllinn er farinn að sjást á götum hér. Hann er
rafmagnsbíll að hluta til, því í honum eru bæði bensínvél og
rafmagnsmótor sem samanlagt gera bílinn sæmilega sprækann og
eyðslugrannan.
Priusinn er ekki hægt að setja í hleðslu. Honum er eingöngu ætlað að
ganga fyrir bensíni og því eru rafgeymar bílsins hlaðnir af
bensínmótornum þegar hann er í gangi.
Chevrolet Volt bíllinn er væntanlegur. Hann gengur skrefinu lengra en
Prius því dekkjunum er eingöngu snúið með rafmagni. Bíllinn þarf því
ekki gírkassa og mismunadrif. Í honum er bensínljósavél sem getur
hlaðið geymana á langkeyrslu - en hún er ekki alltaf nauðsynleg því
það er hægt að stinga bílnum í hleðslu. Eftir sex tíma er hægt að
keyra 64 km áður en kveikja þarf á ljósavélinni.
Sú fjarlægð dugir langflestum reykjvíkingum til að þurfa ekki bensín
nema þegar þeir bregða sér úr bænum.
Þessi bíll ætti að henta vel fyrir íslenskar aðstæður. Ég bíð
spenntur eftir jeppaútfærslu, þvi fjórir rafmagnsmótorar eru góð
uppskrift að léttum fjórhjóladrifsbíl.
Eins og stendur verður bíllinn fokdýr útaf rafhlöðunum (og hann er
ljótur) en vonandi stendur bæði til bóta.
Grein um Volt bílinn
Ef ameríkanar eru tilbúnir að skipta yfir í rafmagn, þá ættu
íslendingar miklu frekar að vera það, því hér er jú bensínið dýrt og
rafmagnið ódýrt miðað við Bandaríkin eða hvað?
Ég komst að því mér til mikilla vonbrigða að verð á Kílówattstund til
heimila hér er miklu hærra en í Bandaríkjunum, þótt við þurfum ekki að
búa til rafmagn með olíu eins og Bandaríkjamenn gera. Ef
raforkuframleiðslan er ódýr hér, þá sé ég engin merki þess.
Ef við viljum verða í fararbroddi í umhverfismálum í framtíðinni þá
ættum við að búa í haginn fyrir meiri og ódýrari raforkusölu til
heimila. Við skulum ekki selja alla orkuna sem við getum framleitt
fyrirfram til álvera á undirverði.
Neytendamál | Breytt 6.6.2007 kl. 11:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2007 | 16:01
Einkavæðing fyrir hvern ?
dettur mér í hug þegar ég heyri frá boðberum einkavæðingar.
Fyrirtæki í einkarekstri leggja allt að mörkum til að sinna hlutverki
sínu því annars deyja þau. Það er lykilinn að framtakssemi þeirra.
Vandamálið er bara að hlutverk þeirra númer eitt er að skila hagnaði.
Það er ekki víst að fyrirtækið þurfi að gera vel við neytendur eða
nokkra aðra til að ná því marki. Oft verður hagnaðurinn mestur þegar
neytendur kveljast mest.
Dæmi um mistök í einkavæðingu á Íslandi finnast nú í fiskveiðum,
innflutningi, fjölmiðlarekstri, dreifingu á lyfjum og matvöru.
Það er hægt að búa til umhverfi þar sem einkaframtak er til góðs.
Ameríkanar eru frægir fyrir einkaframtak. Færri vita um hinar
fjölmörgu stofnanir og lög sem hafa byggst upp á löngum tíma og
tryggja að allt fari vel fram. Réttur neytenda er mjög mikill í
Bandaríkjunum og þeir kunna að nota hann.
Margir neytendur hér kunna ekki að gæta hagsmuna sinn, enda aldir upp
við ríkiseinokun. Það tekur tíma að breyta hugarfari og ekki við
ráðamenn að sakast.
Hins vegar er nærri ómögulegt fyrir upplýsta neytendur að standa á
rétti sínum. Maður beinir ekki viðskiptum sínum annað þegar enginn er
samkeppnisaðilinn.
Ef íslendingar hafa ekki bolmagn til að reka með sóma stofnanir eins
og neytendastofu og samkeppniseftirlit þá eru þeir ekki tilbúnir að
beisla þá firnakrafta sem losna úr læðingi með einkaframtakinu.
Svo ég noti amerískt myndmál: "If you can't run with the big Dogs,
stay on the Porch".
Neytendamál | Breytt 6.6.2007 kl. 11:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2007 | 17:06
Greinalestur með gagnrýnum augum
lesandans.
Hér er því listi yfir helstu rökleysur sem menn geta búist við að sjá
á prenti. Hafið þær í huga næst þegar þið setjist við greinalestur.
1. Gegn manninum (Ad Hominem)
Dæmi: Hannes Hólmsteinn segir að við eigum að bursta tennur. Hannes
Hólmsteinn er úr stuttbuxnaliði Davíðs. Þess vegna eigum við ekki að
bursta tennur.
2. Ásökun með samanburði
Dæmi: Jón Baldvin segir að bilið milli ríkra og fátækra sé að aukast.
Kommúnistar segja þetta líka. Þess vegna er Jón Baldvin ekkert nema
kommúnisti.
3. Alhæfing
Dæmi: Allir nauðgarar eru karlmenn. Jói er karlmaður. Þess
vegna er hann nauðgari.
4. Að gefa sér það sem á að sanna
Dæmi: Ef Halldór Laxness skrifaði biblíuna, þá er hann ansi góður
höfundur. Halldór Laxness er ansi góður höfundur. Þess vegna
skrifaði hann biblíuna.
Annað dæmi: Ef sjálfstæðismenn komast að í borgarstjórn verður gert
hreint í borginni. Borgin er þrifaleg. Þess vegna eru sjálfstæðismenn
í borgarstjórn.
5. Að álykta út frá bjöguðu úrtaki
Dæmi: Samkvæmt könnun á viðskiptavinum í Gallerí kjöt er fátækt ekki
til á Íslandi.
6. Hálfur sannleikur
Dæmi: Eins og allir vita þá er illu best aflokið svo skellum okkur
þessvegna í að byggja álver.
7. Alhæfing í fljótfærni
Dæmi: Gott lag í útvarpinu áðan, þetta hlýtur að vera frábær stöð.
8. Áhrifagirni út frá eftirminnilegri sögu
Dæmi: "Ég ætla að selja mótorhjólið og kaupa Volvo". "Ekki gera það,
vinur minn missti báða fætur í slysi í Volvo, vertu áfram á
mótorhjóli".
9. Hringferð í röksemdafærslum
Dæmi: Biblían segir að Guð sé til og hún lýgur ekki af því hún er Guðs
orð svo Guð hlýtur að vera til.
10. Höfðað til hefða
Dæmi: Við höfum alltaf styrkt landbúnað. Þess vegna eigum við að
halda því áfram.
11. Að gefa sér orsakatengsl ef hlutir gerast samtímis
Dæmi: Alltaf þegar ég sofna í skónum vakna ég með hausverk. Ég er
ekki frá því að svefn í skóm valdi hausverk.
12. A gerist undan B, þess vegna veldur A B
Dæmi: Aldrei hafa fleiri farið í framhaldsnám og glæpir halda áfram að
aukast. Menntun veldur glæpum.
13. Hála brautin
Dæmi: Ef við lækkum tolla á landbúnaðarvörum koma allir sem eru
búsettir á landsbyggðinni til Reykjavíkur og umferðin mun verða
óbærileg. Þess vegna skulum við ekki hugsa um að lækka tolla.
14. Ályktun út í loftið (Ignoratio Elenchi)
Dæmi: Ég ætti ekki að borga sekt fyrir að keyra of hratt. Af hverju
eruð þið í löggunni ekki að eltast við stórhættulega dópista og
barnaníðinga?
15. Höfðað til afleiðinganna
Dæmi: "Bankafulltrúi, telur þú að húsnæðisverð hækki áfram"? (Það væri
gott fyrir bankana). "Já, ég held það hækki áfram".
16. Strámaðurinn (Straw man)
Dæmi: Jói segir: "Mér finnst ekki að börn eigi að geta hlaupið
fyrirvaralaust út á götu". Siggi: "Mér finnst þú andstyggilegur að
vilja læsa börn inni í myrkum kompum allan daginn". (Var Jói að segja
það?)
Annað dæmi: Borgarstjórinn: "Ef við bætum gatnakerfið minnka
umferðartafir". Andstaðan: Þið sjálfstæðismenn ætlið að breyta
Reykjavík í Detroit. Er ykkur skítsama um umhverfið?
17. Ályktað út frá heimsku
Dæmi: Það er ekki hægt að smíða skip úr stáli, stál sekkur í vatni.
Skip á að byggja úr tré.
Annað dæmi: Hjólreiðar ganga aldrei í Reykjavík, hér eru meiri
brekkur og verra veður en í nokkurri hjólaborg (bæði arfavitlaust).
18. Höfðað til hégóma
Dæmi: Ég hef mjög einfaldan smekk. Ég vel aðeins það besta.
Herragarðurinn. (Ef þú kaupir ekki föt þar ertu smekklaus).
Annað dæmi: Íslendingar borða SS pylsur. (Ef þú borðar ekki SS pylsur
ertu föðurlandssvikari).
19. Höfðað til fáránleika
Dæmi: Ef þróunarkenningin er rétt þá voru landnámsmennirnir apar!
Ætli þeir hafi ekki róið hingað með fótunum?
20. Höfðað til fjöldans
Dæmi: Meirihluti Dana reykir, svo reykingar geta varla verið
skaðlegar.
Annað dæmi: Komdu til Mývatns. 100 milljón mýflugur geta ekki haft
vitlaust fyrir sér.
21. Höfðað til ofbeldis
Trúðu á Guð -- ef þú gerir það ekki ferð þú til HELVÍTIS!
22. Ályktað út frá óskhyggju
Hagfræðingurinn Irving Fisher sagði að hlutabréf hefðu náð hámarki og
að menn ættu að venjast þessu nýja framtíðarverði bréfanna, nokkrum
vikum áður en markaðurinn hrundi 1929.
Hér er æfingadæmi í lokin: Hvað er að þessari röksemdafærslu?
Á tíu sekúndna fresti fæðir kona barn. Það verður að finna þessa konu
og stöðva hana!
PS: Allar þessar rökleysur og fleiri má lesa betur um á:
http://en.wikipedia.org/wiki/Logical_fallacy
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 11:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.2.2007 | 15:55
Nafn með rentu?
Þetta er billegt skot hjá mér en... hefur einhver velt fyrir sér hvað nöfn stjórnmálaflokkanna eiga oft illa við?
- Framsóknarflokkurinn verður seint frægur fyrir framúrstefnulegar hugmyndir.
- Það þarf ekki sjálfstætt hugsandi fólk til að kjósa sjálfstæðisflokkinn, hann er eiginlega "sjálfgefni valkosturinn".
- Samfylking virðist ekki geta fylkt sér um eitt né neitt.
- Frjálslyndir eru ekki beinlínis frjálslyndir í garð útlendinga.
Eini flokkurinn sem ég get ekki baunað svona á er Vinstri grænir :)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 11:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.2.2007 | 11:54
Að evra eða evra ekki
eins og það er auglýst af bönkunum í Fréttablaðinu.
Hann sagði strax: "Kannski við hjónin ættum að taka milljón og setja
í reikning hjá íslenskum banka. Við getum ekki tapað á því. Þótt
verðbólgan ykkar fari af stað þá eru lánin samt verðtryggð".
Þetta eru skiljanleg viðbrögð. Hann sá strax hagnaðarvonina, eins og
svo margir aðrir útlendingar hafa gert. Svo er ísland líka vestrænt
lýðræðisþjóðfélag svo ekki er áhættan mikil. Ekki fer landinn að
flaska á því að borga skuldirnar?
Viðhorf vinar míns og annara útlendinga með sparifé í handraðanum er
ástæðan fyrir því að gengi krónunnar helst í 69kr/$ í stað 158kr/$
eins og Economist telur að hún ætti að verðleggjast á.
Við höfum skipt út gamla óvini okkar, verðbólgunni fyrir nýjan óvin,
lánabólguna. Þegar íslendingar treysta sér ekki til að borga af
fleiri lánum munu útlendingar hætta að kaupa krónuna og hún mun
falla, verðbólgan fer aftur af stað í sinni upphaflegu mynd.
Ef við tökum upp Evruna munum við þurfa að taka timburmennina út
strax, svo það er skiljanlegt að margir hagsmunaaðilar vilji ekki sjá
það gerast.
Ég vona að lesandinn geri sér grein fyrir að ólíkir aðilar hafa
ólíka hagsmuni í þessu máli.
Best er illu aflokið: Ég vil að íslendingar taki upp evruna, til þess
að milliliðir hætti að maka krókinn í lánaveitingum og þjóðin læri að
spara og semja um mannsæmandi laun í stað þess að velta stöðugt stærri
vandamálapakka inn í framtíðina.
Ef íslendingar tækju upp evruna núna kæmi í ljós að við gætum ekki
sparað af því við erum láglaunaland í reynd. Amerísku þættirnir
"Friends" og "Seinfeld" sýna fólk borða úti á veitingastöðum daglega.
Ameríkanar geta í raun og veru leyft sér þetta, þetta er ekki
kvikmyndabrella.
Ég sæi í anda venjulega íslendinga leyfa sér þetta hér heima. Eins og
stendur eru fínu veitingastaðirnir í Reykjavík fyrst og fremst
heimsóttir af milliliðunum sem selja okkur lánin og matinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 11:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)