Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007
23.7.2007 | 15:59
Frægðin kallar!
Ég mun sjá um þáttinn "Á sumarvegi" á Rás 1, núna á fimmtudaginn, 26.júlí.
Þátturinn verður sendur út kl.1315 og aftur kl.1900 sama dag.
Ég ákvað að misnota ekki tímann til að segja hlustendum hvað betur mætti fara á eyjunni, heldur reyna að vera svolítið skemmtilegur, spila músík og svoleiðis. Sigríður Pétursdóttir, sem sér um þættina, sagði að minnsta kosti að sér hefði ekki leiðst að lesa handritið hjá mér.
Mér datt í hug að ef einhver hefði gaman að blogginu hjá mér gæti sá hinn sami viljað kveikja á útvarpinu.
Kveðja, Kári
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
16.7.2007 | 15:36
Meira um tollinn: Svar til Guðbjörns
Sæll Guðbjörn,
Þú gafst mér nóg að huga um. Nú sit ég á sólbjörtum eftirmiðdegi og reyni að svara þér lið fyrir lið, paragraf fyrir paragraf. Það sem þú skrifaðir er í innfelldum texta hér að neðan.
Gaman að sjá að fleiri en ég hafa gaman af tollamálum. Ég gat ekki orða bundist þegar ég sá af hve lítilli þekkingu var fjallað um tollamál og starfsmenn tollsins í þessu bloggi og athugasemdum þess.
Það er slæmt þegar menn tala um eitthvað af of lítilli þekkingu, ég er sammála því. Þótt innviðir tollsins séu flóknir og hægt sé að vera mörg ár að kynnast þeim, þá er grunnhugmyndin að baki tollheimtu einföld og allir geta haft skoðun á henni.
Margir eru kveðnir í kútinn á þeirri forsendu að þeir séu ekki nógu miklir sérfræðingar. Mér leiðist það og svara yfirleitt ég get þekkt egg frá fúleggjum þótt ég kunni ekki að verpa þegar ég lendi í þeirri stöðu.
Í versta falli kemst upp um vankunnáttu og misskilning sem er þá hægt að leiðrétta eins og þú reynir að gera í þínum skrifum. Allir græða að lokum.
Það kann að vera að ástæða þess að ég er svona viðkvæmur fyrir þess sé að ég er formaður Tollvarðafélags Íslands, auk þess sem ég gegni stöðu yfirmanns hjá tollstjóra. Ég vil hins vegar taka skýrt fram að þessa grein skrifa ég ekki í umboði tollyfirvalda eða Tollvarðafélagsins, heldur er um sjálfstæða skoðun mína að ræða.
Mér hefur aldrei sinnast við starfsmann hjá tollinum. Allir sem ég hef séð í vinnu þar hafa verið iðnir og samviskusamir. Ég hef aldrei séð þá misnota aðstöðu sína eða vera dónalega við mig eða þá sem ég var með. Ég held að starfsmenn tollsins séu að minnsta kosti jafn miklir heiðursmenn eins og starfsmenn lögreglunnar. Gæðafólk virðist veljast þangað.
öllum er heimill innflutningur til Íslands, nema að sjálfsögðu ef um innflutningsbann eða takmarkanir sé að ræða á varningnum. Ef þér finnast reglurnar of flóknar gerir þú líkt og þúsundir íslenskra fyrirtækja og einstaklinga: þú kaupir þér aðstoð tollmiðlara.
Ég veit að ég get keypt mér aðstoð tollmiðlara, en þeir eru einmitt sérfræðingarnir sem ég vísa til í mínum upphaflegu skrifum. Mér finnast reglurnar ekki flóknar. Hins vegar er tímafrekt og kostnaðarsamt fyrir mig og aðra sem vilja flytja inn vörur að framfylgja þeim.
Ég hef svo gaman af dæmum: Ef Akureyringar bæðu alla ökumenn sem þangað kæmu að tína allt út úr bílnum, sýna þeim og setja inn í hann aftur, væri það mjög einföld beiðni að þeirra hálfu. Framkvæmdin myndi samt leggja alla umferð til bæjarins niður.
Drífðu þig endilega til London og taktu með þér nokkrar ,,pallettur af klementínum og seldu ódýrt ég kem að kaupa af þér ekki málið!
Ástæðan fyrir því að ég panta ekki pallettu með matvörum til landsins er að á þeirri pallettu yrðu tugir mismunandi vörutegunda og mikil vinna færi í að gera grein fyrir þeim öllum. Persónulega vil ég panta "bland í poka".
Ég veit að ég gæti komið pallettu til landsins ef hún innihéldi bara eina vörutegund eins og þú stingur uppá. Þá þyrfti ég að selja öðrum það sem á pallettunni er og stofna mína eigin verslun. Ég þyrfti að leggja 120% á vöruna á pallettunni til að hafa upp í kostnað við að koma vörunni í gegnum toll og borga tollana. Ég gæti ekki keppt við Bónus og Krónuna í því umhverfi.
Hvað boð og bönn eða takmarkanir varðar,þá styðjast slíkar innflutningstakmarkanir og bönn við lög og reglugerðir. Því er við Alþingi að sakast, því lögin eru sem alþjóð veit sett af Alþingi en ekki stjórnvöldum. Alþingi ákvarðar jafnframt heimildir framkvæmdavaldsins til setningar reglugerða og annarra reglna.
Að sakast við stjórnvöld á borð við tollstjóra (tollverði), sem einungis sinna skyldu sinni og framfylgja lögunum er ekki sanngjarnt. Þegar tollverðir eða aðrir starfsmenn tollstjóra tollflokka eru þeir einnig að framfylgja landslögum. Tollskráin er viðhengi eða viðauki við tollalögin og hefur lagagildi. Þegar tollstarfsmenn tollflokka eru þeir einungis að flokka varning í réttan tollflokk, þannig að rétt gjöld séu greidd í ríkissjóð og rétt leyfi liggi fyrir við innflutning (fyrir hvoru tveggja eru sem sagt lög sem fyrr segir).
Alveg sammála. Þetta er verkefni fyrir Alþingi og það er alls ekki við starfsmenn tollsins að sakast.
Íslendingar hafa hvorki komið sér upp her né járnbrautum. Við höfum látið okkur stærri þjóðir um að leika sér með dáta og lestarteina. Ég held því fram að tollgæsla hefði átt að fara í sama flokk. Hún sé of kostnaðarsöm fyrir svona litla þjóð og hana hefði aldrei átt að taka upp.
Hún var kannski réttlætanleg þegar örfáir aðilar fluttu inn tóbak, salt og mjöl en nú skipta vörutegundir þúsundum og pappírsvinnan hefur blásið út samkvæmt því. Fyrirbæri eins og iPod eru flóknari og erfiðara að skilgreina en tunnu af brennivíni eða sekk af mjöli. Er iPod tölva, upptökutæki eða sjónvarp? Er ekki nær að hætta að reyna að svara því, og taka upp flatan virðisaukaskatt í staðinn?
Tollskráin (Harmonized System) er notuð í yfir 200 löndum um allan heim og er gefin út af Alþjóðatollastofnuninni (World Customs Organization WCO). Aðalmarkmið WCO og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (World Trade Organization WTO) sem er aðal samstarfsaðli WCO og ekki þekkt fyrir að standa í vegi fyrir alþjóðaviðskipum er að auðvelda og auka heimsviðskiptin.
Ef menn vilja á annað borð hafa tollamúra er sjálfsagt að vera í WCO og nota skrána þeirra, ég er alveg sammála því. Hinsvegar vil ég engan múr.
Tollskráin er einmitt tæki til að auðvelda viðskipti landa á milli, en ekki leið til hindrunar viðskipta landa á milli. Þegar ég sem tollari sé tollskrárnúmer, þá veit ég annaðhvort hvaða vara er á bak við númerið eða ég fletti því upp.
Tollskráin er einnig mikilvæg fyrir hagtölur, en með númerunum er hægt að fylgjast með inn- og útflutningi á öllum varningi. Innflutnings- og útflutningsaðilar og stofnanir hins opinbera geta þannig fylgst með heildar-innflutningi í ákveðnum tollskrárnúmerum. Þetta nýtir sér heill her af fólki í þjóðfélaginu, bæði hjá fyrirtækjum og ríkisstofnunum. Íslendingar eru t.d. með eigin númer á alls kyns fisktegundum og öðru sem aðrar þjóðir hfa ekki og nýtir þær upplýsingar sem tollyfirvöld veita til margra hluta. Kalifornía hefur ekki áhuga á að flokka loðnu og síld í mismunandi tollflokka eða löngu og karfa eða þorsk, en í staðinn hafa þeir áhuga á ýmsum cítrus-ávöxtum s.s.: klementínum, satsúmum og tangerínum.
Ég er sammála, að það gæti verið gaman og gagnlegt að fylgjast með því sem fer til og frá landinu.
Mætti ekki hugsa sér að stærri kaupmenn og heildsalar skiluðu yfirlitsskýrslum til hagstofunnar um sín viðskipti, án þess að öll vara færi í gegnum nálarauga tollembættis? Það er hægt að mæla umferðarþunga eftir hraðbraut án þess að stoppa hvern einasta bíl og telja í honum farþegana.
Ef ég panta varahlut í gamla hjólið mitt tel ég ekki að ég eigi að útfylla skýrslu um málið, eða borga gjöld. Vinnan fyrir mig réttlætir ekki ágóðann fyrir ríkið. Meðalhófs er ekki gætt. Ég myndi eyða 2 klst að óþörfu til að ríkið hagnist um nokkra hundraðkalla. Mínir tveir klukkutímar eru miklu verðmætari en svo.
Þetta er kjarni málins fyrir mér. Í flestum öðrum löndum myndi ég panta varhlutinn frá einhverjum innanlands af því landið væri nógu stórt til að ég þyrfti ekki að flytja neitt inn sjálfur. Ísland er ekki nógu stórt til að vera land í hefðbundnum skilningi. Þess vegna kemur hér upp einokun, aftur og aftur.
Ef lönd eru nógu stór, þá er innflutningur til þeirra í svo stórum skömmtum að tollafgreiðsla er hverfandi lítill hluti af kostnaði við innflutninginn. Ég myndi ekki setja mig á móti því að tollafgreiða tugi tonna af klementínum. Öðru máli gegnir þegar mánaðarneysla á öllu landinu nær ekki upp í hundrað kíló á mánuði. Tekur því þá að fylla út sérstakt eyðublað? Hver borgar eyðublaðið, prentun þess, útfyllingu og yfirferð? Neytandinn, í formi hærra vöruverðs!
Tollarar ákveða því ekki að í dag fari ,,i-pod í þennan flokk og á morgun fari hann í annan tollflokk. Sé slíkt gert er það lögbrot, sbr. umfjöllun mína á undan, og það á að kæra til tollstjóra og síðan til ríkistollanefndar.
Á okkar dögum er vöruúrval það fjölbreytt að einföld skrá getur ekki innihaldið allar mögulegar vörutegundir, ekki frekar en flokkunarkerfi líffræðinga ræður við hverja nýja flugu og skriðdýr sem menn rekast á inni í skógi. Líffræðingar nota starfsævina til að skrifa lærðar greinar um nýju dýrin sem þeir finna og í hvaða flokk þeir velja að setja þau.
Starfsmenn hjá tollinum hljóta að lenda í þessu sama reglulega.
Þegar sjónvörp komu fyrst á markað, sem voru hönnuð til að tengjast tölvu hlýtur að hafa komið kostnaðarsamt hik á starfsmenn tollsins. Það þurfti að búa til nýjan vöruflokk: tölvuskjáir. Sú vinna hefði verið óþörf ef menn hefðu bara flutt inn skermana án þess að spyrja hvort þeir væru flugur eða skriðdýr.
Viljirðu hins vegar lækka gjöldin þarftu að tala við hið háa Alþingi hér að neðan er 77.gr. stjórnarskrárinnar okkar, svo þetta sé á hreinu:Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu
Veldi tollsins er sem sagt ekkert þegar að ákvörðunum um gjöld kemur eða varðandi tollflokkun þar ræður blákaldur lagatextinn.
Aftur sammála, ég veit að þetta eru landslög.
Hvað lokakaflann hjá þér varðar, Kári minn, þá finnst mér leiðinlegt að valda þér vonbrigðum, því sama ,,skrifræðisóskapnaðinn er að finna í tollamálum innan ESB og einnig bölvaða tollskrána sorry!
Allir virðast sammála því, að í ESB sé gífurlegt skrifræði. Ég ætla ekki að halda öðru fram. Hitt er svo annað mál, að ef við göngum í ESB verðum við hluti af stórri heild og kostnaðurinn af öllu skrifræðinu dreifist á miklu fleiri þegna.
Ef það gerist ekki við inngönguna í ESB, þá vil ég ekki ganga inn heldur leita annara leiða til að losna við tollembættið.
Hvers vegna er ég að þessu?
Ég bjó í Norður-Karolínu í Bandaríkjunum í átta ár. Þar vandist ég því að geta pantað vörur með póstverslun, hvaðan sem var innan Bandaríkjanna. Þau eru opinn markaður með þrjúhundruðmilljón manns og engar hindranir innvortis.
Ég keypti tölvuna mína frá fylki sem var lengra í burtu frá Karolínu en Reykjavík er frá Tyrklandi. Engin tollafgreiðsla. DHL kom með tölvuna mína heim næsta dag og sendingarkostnaður var innifalinn í verðinu sem var auglýst í póstlistanum. Ímyndið ykkur hvort þetta veitti ekki tölvubúðinni í bænum samkeppni ! Hún þurfti að keppa við mörgþúsund aðrar verslanir!
Norður Karolínubúar eru miklu fleiri en Íslendingar, en þeir þurfa ekki að reka tollembætti. Þeir þurfa ekki að kosta rekstur embættisins, og það sem skiptir miklu meira máli: Þeir þurfa ekki að borga óbeinan kostnað við að allar innflutningsskýrslurnar séu fylltar út.
Við Íslendingar þurfum að verða svona. Við eigum að geta orðið fylki í ESB. Ef það er ekki hægt, verðum við að leita annara leiða. Við verðum að losna við þessa múra. Ég hef einu sinni kynnst því að vera laus við þá og ég þoli ekki að hafa þá í mínu lífi aftur.
Neytendamál | Breytt s.d. kl. 16:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
13.7.2007 | 10:50
Breytum tollalögunum eins og ef við værum að ganga í Evrópusambandið.
Ef tollakerfið yrði einfaldað gæti hver sem er flutt inn vörur.
Ef mér líkaði ekki verðið í búðum gæti ég farið í verslunarferð til Englands og láta senda mér heim nokkrar pallettur.
Eins og ástandið í tollamálum er núna, þarf her af sérfræðingum til að stunda innflutning. Tollskráin er mörghundruð blaðsíður og gerir greinarmun á Klementínum, Satsúmum og Tangerínum.
Tollarar eru í dómarahlutverki og ekki er hægt að áfrýja: Er iPod tölva, upptökutæki eða plötuspilari? Í dag er hann upptökutæki og í hæsta mögulega tollflokki, enda kostar hann þrefalt á við öll önnur lönd. Tollurinn gæti breytt þessu með einu pennastriki, slíkt er veldi hans.
Við borgum fullorðnum mönnum laun fyrir að viðhalda þessum skrifræðisóskapnaði. Ég tími því ekki. Breytum tollalögunum eins og ef við værum að ganga í Evrópusambandið.
Matvæli dýrust á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
11.7.2007 | 22:25
Gangstéttar eru ekki hjólastígar
Besta ástæðan til að kaupa fjallahjól hér er bágt ástand á gangstéttum borgarinnar.
Hér eru reiðhjól sem eiga það sameiginlegt að henta ekki á Íslandi vegna þess að hér eru ekki hjólastígar.
Svona hjól er kallað "Rekki" á íslensku eða "Recumbent" á ensku. Hraðamet á reiðhjóli eru slegin á svona grip.
Vöruflutninga-hjól:
"Den sorte jernhest" er vel útfærð nútíma útgáfa af Kristjaníuhjólinu:
Þetta hjól gæti hentað utanbæjar:
Hjólreiðar | Breytt s.d. kl. 22:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
11.7.2007 | 14:44
Gullegg og gæsaeigendur
Ég fer á kajak með tjald og svefnpoka við óbyggðar strendur á sumrum. Þekkst hefur að menn veiði sér í soðið utan kvóta þegar þannig stendur á.
Þegar ég renndi færi í sjó og dró upp þorsk varð mér um. Þetta var svo auðvelt og fiskurinn var svo góður.
Mér varð hugsað hvílík forréttindi það væru að hafa lyklana að þessu forðabúri og mega skammta sér úr því.
Ég þurfti að snúa aftur í bæinn og vinna fyrir mér með hyggjuvitinu, en ég gat alveg hugsað mér að verða eftir þarna. Ég sá að náttúran gefur það sem mennirnir selja. Af hverju ekki ég?
Það eru forréttindi að hafa aðgang að landsins gæðum. Ég get ekki almennilega vorkennt þeim sem hafa haft þau.
Sumir Arabar eru farnir að hugsa hvað gerist þegar olían klárast. Ekki veit ég hvað þeir fara að sýsla en heimsbyggðin mun alla vega ekki vorkenna þeim þegar þar að kemur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.7.2007 | 09:47
Nú er glatt hjá nördahjörtum
Það er ekki á hverjum degi sem ég sé jafn vel gert og skemmtilegt forrit:
Stellarium getur sýnt stjörnuhimininn í miklum gæðum, hvar sem er á jörðinni og hvenær sem er ársins. Það er hægt að nota forritið sem stjörnukíki og skoða pláneturnar og tunglin snúast kringum þær.
Forritið skýrir líka vel hvers vegna sólin sest ekki á Íslandi á sumrin.
Forritið er ókeypis og til fyrir Macintosh, Linux og Windows. Náið í forritið hér.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 09:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.7.2007 | 20:02
Solidarnosc
Um hjólaviðgerðir
Þegar ég var táningur vann ég í hjólabúð.
Einu sinni kom sending af hjólum með gallaða gíra. Ég sá það ekki strax, þetta var ekki augljós galli.
Ég var samt farinn að sjá mynstrið þegar tíu - tólf kúnnar voru búnir að koma út af þessu. Þeir borguðu allir möglunarlust fyrir nýja gíra og héldu að þetta væri þeim að kenna.
Nú var ég farinn að sjá hvað var í gangi og hefði ekki átt að taka við peningunum heldur endursenda brotnu gírana til framleiðandans. En ég "bara vann þarna" og pældi ekki mikið í þessu.
Allir sem fengu hjól úr þessari sendingu borguðu fyrir viðgerð að lokum.
Um neytendasamtök
Fólk sem er ekki í samtökum og deilir upplýsingum sín á milli er ekki í aðstöðu til að sjá mynstur eða vinna sameiginlega að sínum málum. Það er dæmt til að vera misnotað, jafnvel af þeim sem eru varla að reyna.
Það skiptir ekki máli hver misnotar. Málið er að illa upplýst fólk lætur misnota sig. "There is a sucker being born every minute" átti P.T.Barnum að hafa sagt. "A fool and his money are soon parted" segir enskur málsháttur.
Á Íslandi er jarðvegurinn frjór fyrir misnotkun. Hraust neytendasamtök væru merki um sterka grasrót og virkt lýðræði. Því miður eru þau álíka sterk hér og félag esperantista (fyrirgefið, esperantistar!)
Í Íslandsklukkunni var Jón Hreggviðsson var troðinn í skítinn af dönskum yfirvöldum en lofaði samt sinn danska kóng í hástert, fastur í sínu fari - þangað til hann kom til Kaupmannahafnar og sá með eigin augum hallirnar sem höfðu verið reistar á kostnað íslendinga. Þá óskaði hann að hann hefði drepið kóngsins böðul.
Um afleiki
Brotnir gírar og hátt lyfjaverð eru hjóm hjá því að selja sameignir þjóðarinnar, stofnanir, land og orku fyrir slikk. Ég veit ekki hvort við erum að því, ég er ekki nægilega upplýstur!
Lenape indjánar seldu Manhattan eyju til Hollendinga árið 1626 fyrir 24 dollara. Það er fyndin og skemmtileg tilviljun að Wall Street skuli standa þar í dag og sýnir hvað kaupmenn á eyjunni hafa haft gott viðskiptavit í gegnum árin.
Menn hafa gert mikið grín af indjánunum fyrir þetta en ég er viss um að indjánarnir töldu sig vera að gera góð kaup út frá þeim upplýsingum sem þeir höfðu.
Eignaréttur var ekki vel skilgreint hugtak hjá þeim. Indjánunum fannst landið ekki vera eitthvað sem hægt væri að selja. Þeir væru eiginlega að plata hvíta manninn því hvernig gæti nokkur maður átt land?
Menn hafa líka bent á að 24$ væru orðinn ágætur peningur í dag ef indjánarnir hefðu ávaxtað þá. Á 5% ársvöxtum væru þeir orðnir tveir milljarðar bandaríkjadala. Á 10% vöxtum væru þeir 80 kvadrilljón bandaríkjadalir (80,000,000,000,000,000 dalir) sem er meira en allir peningar í heiminum. Eru ekki vaxtavextir magnað fyrirbæri? Lántakendum er hollt að hafa það í huga.
Indjánarnir höfðu ekki um margar sparileiðir að velja og mér vitanlega eiga þeir ekki 80 x 10 í 15.veldi dollara í dag.
Ég vona að íslenskur almenningur eigi ekki of mikið sameiginlegt með Lenape indjánum fyrir 375 árum sem voru þó spurðir, og þeir ákváðu verðið.
Mikið af þeim nýja auði sem ég sé í dag kemur til af því menn "með glöggt auga fyrir tækifærum" hafa lært að meta til fjár það sem var ómetanlegt áður, hvort sem er sameiginlegt landssvæði, fiskveiðilendur, bankar eða burðarnet símans.
Gott hjá þeim! Ef þeir hafa hagnast á okkar kostnað er það okkur að kenna fyrir að sofna á verðinum - eða hafa aldrei vaknað almennilega síðan við fengum sjálfstæðið.
Erum við að selja landið í skiptum fyrir útigrill og jeppa? Ég hreinlega veit það ekki.
Um blogg
Ég finn fyrir pirringi hjá mörgum sem blogga, þeir eru að agnúast út í samfélagið. Það er gott, því samskiptaleiðir eru þá amk. opnar og menn tala um það sem betur má fara. "Guði sé lof það svíður" var mamma vön að segja þegar ég fékk sár. Það er hættulegra ef allt er dofið.
Getur blogg leitt af sér eitthvað uppbyggilegra en þus? Getur verið að netið eigi eftir að valda varanlegri breytingu á uppbyggingu lýðræðis? Verðum við upplýstari en Lenape indjánar fyrir 375 árum?
Það þarf meira en flottar tölvur til að fá virkt lýðræði og neytendameðvitund og ríkisstjórnin mun ekki vinna vinnuna fyrir okkur. Við fáum þá ráðamenn sem við eigum skilið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.7.2007 | 11:39
Nú er góður tími til að berjast
Ég bloggaði um sjöfalt lyfjaverð fyrr á vorinu.
Við það tækifæri sendi ég tölvupóst til lyfjaverðsnefndar og til neytendasamtakanna. Þau sendu svo fyrirspurn áfram til Actavis.
Hvorki Actavis né Lyfjaverðsnefnd svöruðu póstunum einu né neinu. Að vísu eru bara liðnar þrjár vikur, kannski er ég óþolinmóður?
Ég er persónulega sannfærður um að þeir sem bera ábyrgðina hafa ekki hugsað sér að gera neitt í málunum að óbreyttu.
Þessi þjónusta Aðalsteins Arnarsonar er vissulega á gráu svæði núna, en aðeins þangað til lyfjaeftirlitið leyfir honum að senda lyfin hingað.
Come on ! Þetta er Íslendingur, í Svíþjóð. Af hverju ætti hann ekki að geta sent okkur lyf?
Það er ekki það sama, að opna fyrir allan lyfjainnflutning frá öllum löndum, eða leyfa viðurkenndum aðilum á öðrum norðurlöndum að senda hingað lyf.
Lesið Íslandsklukkuna, þið Jónar Hreggviðssynir, og berjist svo fyrir ykkar eigin sjálfstæði!
Sendið lyfjastofnun póst og biðjið um að Aðalsteini verði leyft að senda hingað lyf. Það hafa ekki allir efni á að borga fimm þúsund krónur fyrir lyf sem á að kosta sjöhundruð.
Sendu lyfjastofnun kurteisa en ákveðna ábendingu hér ef þú hefur skoðun á málinu og bentu öðrum á að gera hið sama. Það er tjáningarfrelsi hér síðast þegar ég vissi.
Kveðja, Kári
Býður ódýrari lyf á netinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.7.2007 | 16:59
Hverjir gera heiminn betri?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.7.2007 | 10:20
Einkarekið - ríkisrekið
Það er erfitt að sjá mynstur á bak við það, hvað er einkarekið og hvað er ríkisrekið núorðið.
Opinbert | Einkarekið |
Strætó | Einkabíll, leigubíll |
Bókasafn | Videóleiga |
HÍ,HA, Hólar | HR, Bifröst |
Sundlaug | Líkamsræktarstöð, Hestaleiga |
Reiðufé | Visa, Mastercard |
RÚV | Stöð 2, Bylgjan |
Spítali | Apótek, Tannlæknar |
ÁTVR | Tóbaksbúð (sjoppa) |
Lögregla, Tollur | Securitas |
Tryggingastofnun | Sjóvá, VÍS |
Íbúðarlánasjóður | Glitnir |
Sér einhver mynstur? Eina mynstrið sem ég sé er Gamalt / Nýtt.
Allt sem ríkið sér um er gamalt, einkageirinn sér um allt nýtt. Er þetta rétt hjá mér?
Er ríkið að úreldast ?
Bloggar | Breytt 4.7.2007 kl. 23:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)