Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008
22.4.2008 | 13:02
Trackmania Nations
Hér er ókeypis Windows leikur sem ég rakst á. Það er langt síðan ég hef séð jafn flottan og skemmtilegan leik sem kostar ekki neitt.
18.4.2008 | 10:41
Gamli miðbær, nýji miðbær
Ég veit að gamli miðbærinn er að drabbast niður. Ég man líka að Kringlan var kölluð nýji miðbærinn.
Hér eru loftmyndir úr Google Earth af báðum þessum miðbæjum, báðar myndirnar eru teknar úr sömu fjarlægð og sýna því jafn stóran flöt.
Ég veit í hvorum miðbænum ég vil vera ....
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
16.4.2008 | 21:35
Sjö fræ ofbeldis
Mahatma Gandhi gaf Arun, barnabarni sínu lista yfir það sem samfélög ættu að forðast ef ekki ætti að koma til ofbeldis.
Stephen R. Covey, höfundur "Seven habits of highly effective people" kom með eftirfarandi skýringar á hverri aðvörun um sig.
Auður án vinnu
Hér er átt við þá sem fá eitthvað fyrir ekkert - þá sem sýsla með markaði og eignir til að þurfa ekki að skapa verðmæti eða vinna heldur sýsla með fólk og hluti fram og til baka. Í dag eru til starfsgreinar sem byggjast á því að skapa auð án þess að vinna, búa til peninga án þess að borga skatt, hagnast á styrkjum án þess að leggja neitt að mörkum til þeirra, eða njóta góðs af því að vera ríkisþegn eða starfa hjá fyrirtæki án þess að taka á sig ábyrgð eða áhættu.
Ánægja án ábyrgðar
Aðalspurning hinna vanþroskuðu, gráðugu og eigingjörnu hefur alltaf verið: Hvað fæ ég? Mun þetta gleðja mig, mun þetta láta mér líða vel? Margir vilja ánægju án ábyrgðar samviskulaust, þeir yfirgefa jafnvel maka og börn til þess að geta "bara verið þeir sjálfir". En sjálfstæði er ekki æðsta þroskastigið, það er bara lítið skref á leiðinni til samhjálpar sem er æðsta stigið. Að læra að gefa og þiggja, lifa óeigingjarnt, sýna tillitsemi og nærgætni, það er markmiðið.
Auglýsingar hvetja forstjóra til að njóta lífsins áhyggjulaust af því "þeir eiga það skilið" eða "þeir hafa unnið fyrir því" eða "þeir vilja það, svo því ekki að láta undan og gefa eftir?" Skilaboðin eru: þú ert búinn að ná takmarkinu. Nú þarftu ekki samvisku lengur. Í sumum auglýsingum eru sextugir menn með þrítugum konum á leið á ráðstefnur. Hvað varð um eiginkonurnar? Hvað varð um reglur samfélagsins sem segja að framhjáhald sé ekki í lagi?
Þekking án drenglyndis
Of lítil þekking er hættuleg en mikil þekking án drenglyndis er miklu hættulegri. Þeir sem safna þekkingu án þess að hafa þroskað sig sem manneskju eru eins og fullur krakki á sportbíl. Allt of oft gerist það í háskólum að menn útskrifast með hausinn fullan af þekkingu en ekkert brjóstvit.
Viðskipti án siðferðis
Ef við leyfum hagkerfum að þróast án siðferðilegrar undirstöðu munum við enda með siðlaust samfélag og fyrirtæki. Sérhver viðskipti eiga að fara fram þannig að kaupandi og seljandi fái það sem honum ber. Gullna reglan er að allir aðilar þurfa að njóta góðs af viðskiptunum og réttlætis þarf að hafa verið gætt.
Fólk lendir í vandræðum þegar það segir að yfirleitt stundi það siðleg viðskipti. Það þýðir að einhver hluti viðskiptanna sé ekki í lagi. Fólk er með baktjaldamakk, leynilíf sem það felur jafnvel fyrir sjálfu sér og útskýrir einhvern veginn að það sé undanþegið lögum guðs og manna.
Vísindi án manngæsku
Ef vísindin einblína á tækni og aðferðir enda þau sem árás á mannkynið. Tækni byggir á vísindum. Ef skilningur á tilgangi með jarðvistinni er ekki til staðar gera þau okkur fórnarlömb tækninnar. Við sjáum vel menntað fólk klifra upp metorðastiga vísindanna þótt þrep fyrir manngæsku vanti og stiginn halli upp að vitlausum vegg.
Langflestir vísindamenn sem nokkurntímann hafa verið til eru lifandi í dag og þeir hafa valdið sprengingu í tækni og vísindum. Við munum sjá fullt af tæknibyltingum en án manngæsku munum við ekki sjá framfarir fyrir mannkynið. Óréttlæti heimsins mun vera með okkur áfram.
Trúarbrögð án fórna
Ef við færum engar fórnir getum við verið virk í kirkjustarfi en samt óvirk í útbreiðslu fagnaðarerindins. Þá er ekki reynt að hjálpa fólki eða bæta úr vandamálum samfélagsins. Það kostar fórnir að þjóna öðru fólki, sérstaklega þarf að fórna sínu eigin stolti og fordómum.
Einu sinni fylgdist ég með hjónabandi þar sem erjurnar hljóðnuðu ekki. Mér varð þá hugsað að þetta fólk þyrfti að gefast upp gagnvart hvoru öðru og iðrast ef hjónabandið ætti að geta gengið. Þú getur ekki fundið fyrir samhug án þess að hafa auðmýkt. Stolt og eigingirni mun eyða sambandi manns og Guðs, manns og konu, manns og manns, sjálfs og sjálfs.
Stjórnmál án grunngilda
Án grunngilda er engin höfuðátt til að stefna að, ekkert til að treysta. Samfélög sem gera mikið úr stjórnmálamönnum en lítið úr grunngildum eru búin að gera viðkomandi mann að ímynd, markaðsvöru sem hægt er að selja og lítið annað.
Við sjáum stjórnmálamenn eyða milljónum í að byggja upp ímynd sína þótt hún sé grunn og innihaldslaus, til að kaupa atkvæði og fá embætti. Þegar þeim tekst það fáum við stjórnkerfi sem lýtur eigin lögmálum óháð hinum náttúrulegu sem ættu að vera við lýði, þau sem eru í stjórnarskránni, að allir séu skapaðir jafnir og með jafnan rétt til lífshamingjunnar.
Í kvikmyndinni "Boðorðin tíu" segir Móse við Faraó, "við viljum lúta Guðs lögum, ekki þér". Hann er að segja, "við munum ekki láta að stjórn manns sem styðst ekki við grunngildi". Í réttlátum samfélögum og fyrirtækjum eru náttúruleg grunngildi við lýði og jafnvel þeir hæstsettu verða að fylgja þeim. Enginn er yfir þau hafinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
15.4.2008 | 10:57
Detroit
Ég var keyrður niður á hjólinu í morgun. Ég kom eftir aðalbraut en hjólastígurinn meðfram verður að gangbraut yfir hliðargötu og þar beið risapickup sem hafði lagt ofan á gangbrautinni og beið eftir að komast út í bílaumferðina. Þegar ég hjólaði fyrir hann ákvað hann að renna sér af stað inn á bílagötuna, yfir mig og hjólið. Pannan undir bílnum er nú merkt málningu eftir hjólið.
Fyrir náð og miskunn stoppaði ökumaðurinn snögglega og ég og hjólið sluppum með skrámur. Meðfylgjandi myndir eru ekki af slysstað en þær sýna svipaðar aðstæður.
Þessi umferðarmannvirki eru ekki í lagi og þau verða það ekki fyrr en fólk sem vinnur við gerð þeirra veit eitthvað um hjólreiðar.
Hjólreiðar | Breytt s.d. kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
13.4.2008 | 22:44
Kjúklingar Hr. Schrödingers
Ef maður labbar inn í hús með tólf egg, kemur ungunum á legg og ræktar þar til tugþúsundir kjúklinga tísta í kringum hann, hendir þeim svo öllum í kvörn svo úr verður blóðug kássa og ekkert verður eftir nema tólf egg, sem hann labbar með út aftur, er hann þá vondur maður? Hann byrjaði og endaði jú með jafn mörg egg?
Maður situr á eyðieyju undir þessu klassíska kókóshnetutré þegar annan mann rekur til hans með tösku fulla af peningum. Ef kókóshnetan er það eina verðmæta á eyjunni, hvað ætti tréið þá að kosta? Á maðurinn sem fyrir er að selja?
Þessi dæmi duttu mér í hug þegar ég hugsaði um góðæri undanfarinna ára og hvernig milljarðar urðu til úr engu og urðu að engu. Sumir segja að það sé allt í lagi, þetta hafi aldrei verið alvöru peningar.
Þessi árekstur raunverulegra verðmæta og ímyndaðra er mér hugleikinn þessa dagana. Ég veit ég er dottinn í heimsspekinördadraumóra, en það er erfitt að skrifa á öðrum nótum þegar svona óraunverulegir atburðir eru að gerast í þjóðfélaginu, og svo eru peningar mjög afstætt hugtak þegar allt kemur til alls - eða hvað?
Svoleiðis afstæðishyggja er mér ekki að skapi. Ég tel að tíminn sé peningar og að þar af leiði að peningar séu tími og þegar milljarðar tapist hafi tími glatast og þar af leiðandi mannslíf. Vandinn er að peningarnir sem urðu að engu voru ekki í eigu sömu manna og eignuðst peninga úr engu.
Það er mér viðbjóðslegt að taka raunveruleg verðmæti, og mæla þau með sömu mynt og spilasjúkir menn nota við leiki sína. Ég get ekki vanist því.
Þótt ég sé ekki trúaður held ég að biblían hafi byggt á biturri reynslu af mannlegu eðli þegar hún andskotaðist út í okurlán -- hún gerir það á þó nokkrum stöðum. (Fæstir vita af andstyggð biblíunnar á okurlánum þótt flestir hafi lesið um hatur hennar á samkynhneigðum. Hvers vegna ætli það sé?)
Ég var eitraður á blogginu fyrir rúmu ári og ropaði súrum ropum um það sem myndi gerast, hrun krónunnar, fólk sem myndi hneppast í lánafangelsi og arðrán þeirra sem myndu eignast íslenskar auðlindir, en nú þegar þetta hefur allt gerst verð ég hálf kjaftstopp. Hvað getur maður sagt?
Ögmundur gagnrýnir ástandið í blaðinu í dag og bendir á hvernig burgeisar hafa sagt sig úr lögum við þjóðina eftir að hafa "keypt af henni kókóshneturnar". Hann hefur rétt fyrir sér en hefur engar patentlausnir frekar en ég, skaðinn er skeður.
Ég óttast að þetta ástand verði verra áður en það verður betra, skaðinn er svo mikill. Ísland skuldar alveg hrikalega mikið og mér er nokk sama hvort það er ríkið eða þegnarnir því ríkið, það er við? Við höfum ekki byggt upp iðnað sem skyldi undanfarin ár ef frá er talið eitt álver á austurlandi. Sterka krónan hefur valdið því að þekkingarfyrirtækin sem hér tórðu fyrir hótuðu allan tímann að flytja en það sem verra var, engin ný slík urðu til. Hér verður kynslóð af ungu fólki sem skuldar meira en hún á, húsnæði þess mun falla um 30% meðan afborgarnir þess aukast í takt við óðaverðbólguna. Sameiginleg verðmæti hafa verið einkavædd og arðurinn er kominn í erlendar sumarhallir.
Þegar við réttum úr kútnum þurfum við að hafa lært eina lexíu. Peningar eru ekki afstæðar stærðir og það má ekki láta eins og þeir séu það, þótt bankastarfsmenn láti þannig þegar þeir fara á flug.
Hér er dæmi í lokin fyrir ungu kynslóðina: Ef ungir krakkar keyptu hús á 100% láni fyrir 50 milljónir um áramótin og það kostar 44 milljónir í næstu viku á sama tíma og verðbólgan hækkaði lánið í 55 milljónir og iPod kostar fimmtán þúsund (20 þúsund eftir fall krónunnar), hvað töpuðu krakkarnir þá mörgum iPoddum? Svar: 977 stykkjum. Eða hvað, er þetta allt bara abstrakt?
11.4.2008 | 09:24
Tölvuvæðing sem mætti klára
Símaskráin var mikið þarfaþing á árum áður og náði að trosna á hornunum áður en sú næsta var gefin út. Ef menn báðu fallega og borguðu fyrir fengu menn "götuskrána" en það var símaskrá sem var raðað eftir heimilisföngum. Hún var aðeins í eigu útvaldra af því forráðamenn álitu að hana væri hægt að misnota til að ónáða fólk. Núna er hægt að fletta upp á heilu íbúðargötunum þökk sé "http://www.ja.is" en ég veit ekki til þess að nein klögumál hafi komið upp út af þeirri breytingu.
Bifreiðaskráin
Fyrst að óttinn reyndist ástæðulaus vil ég leggja til að bifreiðaskráin verði líka gefin frjáls. Í dag hafa aðeins bílaumboð og fleiri útvaldir aðgang að henni. Hægt er að sækja um áskrift en hún kostar formúu. Samt er hún í almannaeign. Rökin fyrir að hún er lokuð eru sennilega þau sömu og vegna götuskrárinnar fyrir tuttugu árum.
Ef bílaskráin yrði opnuð gæti ég hringt í manninn sem leggur ólöglega upp á gangstétt eða lokar innkeyrslunni hjá mér, eða er ljóslaus í umferðinni, eða skellti hurðinni á frakkann sinn og keyrir með lafið í drullunni.
Síminn
Þegar einhver hringir í mig í gemsa ætti nafn og heimili viðkomandi að birtast, ekki bara númerið. Síminn er með símaskrána svo af hverju sendir hann mér ekki upplýsingar um þann sem hringir?
Heimilissíminn er orðinn svo úreltur að ég veit ekki af hverju hann fær að vera í sambandi heima. Hann er að vísu með númerabirtingu, en hann sýnir ekki nöfn þeirra sem hringja og viðmótið í honum er algerlega úrelt. Ég spái heimilissímanum ekki langra lífdaga úr þessu.
Póstaðgangur
Eitt gæti bjargað heimilissímanum og það væri ef hægt væri að fá einhverskonar heimasíma sem gæti lesið og skrifað tölvupóst. Mamma mín er orðin of gömul til að reka einkatölvu enda er hún strandaglópur á upplýsingahraðbrautinni. Hefur þú reynt að senda áttræðri manneskju tölvupóst nýlega? Ætti bærinn eða ríkið kannski að gera eitthvað fyrir þetta fólk?
Ég þarf stundum að senda fólki pappírspóst í umslagi en þá þarf ég sjálfur að prenta hann, stinga honum í umslag og fara á næsta pósthús en þau eru orðin ótrúlega fá í Reykjavík. Hvers vegna get ég ekki sent tölvupóst til póstsins og beðið hann að prenta póstinn fyrir mig og senda hann til viðtakanda?
Á sama hátt gæti pósturinn opnað pósthólf fyrir gamalt fólk þar sem tölvupóstur til þess væri prentaður og borinn í hús til þeirra. Vitaskuld yrði póstsían að vera öflug til að ruslpóstur yrði ekki borin þannig út. Hann gæti líka leigt út þessa póstlestrarsíma sem ég skrifaði um áðan.
Sjálfsalar
Ég trúi varla að sjálfsalar taki ekkert annað en klink enn þann dag í dag. Ef ég vil kaupa samloku í skólanum þarf ég að nota debetkort til að taka út seðla í hraðbankanum sem ég fer svo með í sjálfsala sem gefur mér klink sem ég sting svo í samlokusjálfsalann. Ef ein þessara véla virkar ekki fæ ég enga samloku.
Kassanótur
Atlantsolía sendir mér tölvupóst með kvittun í hvert skipti sem ég kaupi hjá þeim bensín. Það er svo miklu þægilegra en þessi stömu kassastrimlar sem dofna eftir nokkra mánuði og ómögulegt er að setja í skipulegt bókhald. Ég vil að fleiri api þessa nýbreytni eftir Atlantsolíu. Ég myndi vilja fá kassanótuna frá Krónunni, Bónus, Melabúð o.s.frv. til að geta fylgst með vöruverði.
Verðskrár
Enn þann dag í dag tíðkast að íslensk fyrirtæki kaupa heilsíðu auglýsingar til að kynna vörur en birta engin verð. Ég þykist vita að það sé vegna prúttmenningarinnar sem hér ríkir. Góðu kúnnarnir fá góðu verðin og þeir vita hverjir þeir eru. Þetta ætti að vera ólöglegt, og ennfremur ætti að vera hægt að nálgast verð á heimasíðum fyrirtækja svo neytendur geti gert verðsamanburð áður en þeir fara í bæinn til að versla. Hvað kostar iPod? Hvar er hann ódýrastur? Það ætti ekki að þurfa viku vinnu hjá neytendasamtökunum til að komast að því.
---
Það er rannsóknarefni útaf fyrir sig hvers vegna tölvubyltingin virðist vera búin í bili. Ég bíð eftir því að sjálft lýðræðið verði gert skilvirkara með aðstoð netsins. Miðað við litlu málin sem eru óleyst er ég ekki vongóður um stóru málin.
Neytendamál | Breytt s.d. kl. 09:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
9.4.2008 | 15:58
Reykjavíkurborg
er skjögra um götur og torg.
Hér eru dólgar og dækjur
með dýrslega hegðan og org.
Mörg eru svínin er sitja
að sumbli hér í vorri borg.
Þeirra æ vandræðin vitja
er valda oss trega og sorg.
Hér eru búðarmenn barðir
menn bíta hvern annan og slá.
Rustarnir vandræðum varðir
svo venja sig glæpalíf á.
Hér úir og grúir af götum
á gangséttar bílum lagt er.
Svæðunum grænu við glötum
og gröndum því fegursta hér
Rusl fyllir götur og garða
en glerbrot og veggjakrot smá
hér menjar og minnisvarða
mannvirkin lítil og há.
Borgartún bankarnir fylla
og byggingarlistin þar dvín.
Víða mun spákaupmanns- spilla
speglahöll fagurri sýn.
Miðbæjarhreysin og hrófin
svo hrörleg mjög eru að sjá.
Og þykk liggur skíta-skófin
í skotum og strætunum á.
Kringlur menn keppast að reisa
og kaupa sig leiðanum frá.
Af Nesinu nýríkar þeysa
Nadíur Porsche-jeppa á.
Spillingin röftum hér ríður
í Ráðhúsi Tjarnar við hlið.
Mönnum þar sárast það svíður
að sitja ei kjötkatla við.
-- Höfundur: Vandráður Torráðsson
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.4.2008 | 11:09
Sófasett á hjólum
Reiðhjól voru úr stáli. Núna eru þau úr áli, koltrefjum og jafnvel títan. Hjól sem vógu 8 kíló í gamla daga voru fokdýr og viðkvæm en sú þyngd þykir ekkert merkileg lengur. Vökvadiskabremsur eru að verða algengar og fjórtán gíra viðhaldsfríir öxlar líka.
Reiðhjólapartar ganga á milli hjólastella. Einn hjólaframleiðandi getur notað gíra, stýri og gjarðir frá mörgum sérhæfðum framleiðendum sem framleiða parta fyrir margar hjólategundir. Ég held að það sé skýringin á því hvað þróunin hefur verið mikil í hjólabransanum.
Bílar eru hins vegar alltaf úr stáli. Nýju efnin hafa lítið breytt þeim enda virðist bransinn vera fram úr hófi íhaldsamur. Einn og einn hlutur er úr plasti og áli en bílar hafa aldrei verið hannaðir aftur frá grunni miðað við nýju efnin.
Mér skilst að bílabransinn kunni ekki að fjöldaframleiða úr áli ennþá. Vélmennin sem púnktsjóða stálþynnurnar virka ekki á ál. Það er hægt að lasersjóða álið en verksmiðjurnar hafa ekki fjárfest í tækjunum til þess. Þar að auki er ál fimm sinnum dýrara í innkaupi en stál og því þyrfti bíll sem væri smíðaður úr áli að endast eitthvað. Þegar maður sér áldósahaugana út í Sorpu er erftitt að trúa því að ál sé dýrt, en samt er það svo.
Bílar í dag eru ekki hannaðir til að endast. Þeir eru eins og risastórar einnota umbúðir. Þess vegna má ekki vanda of mikið til neins, bíllinn þarf helst að ganga úr sér jafnt.
Þessi einnota hugsun kemur í veg fyrir að nýjar lausnir séu skoðaðar, held ég, samt er mikið í húfi. Ef bíll sem vegur 1200 kíló væri smíðaður úr áli myndi hann vega 400 kíló enda er ál þriðjungur af þyngd stáls miðað við styrk. Bíllinn myndi fara úr 9 lítra bensíneyðslu í 3 lítra giska ég á, ef kraftur er jafn og massi sinnum hröðun.
Það væri gaman ef bílabransinn væri svolítið eins og tölvu eða hjólabransinn. Maður gæti keypt húsið sér, vélina sér og sófasettið líka. Vélar gætu farið undir húdd á mismunandi húsum og fimm sæta sófasettin gætu gengið á milli líka. Ég væri þá búinn að fjárfesta í álhúsi fyrir nokkrum árum, og væri að kaupa diesel hybrid vél til að skipta út gamla bensínrokknum. Leðursætin í bílnum væru tuttugu ára gömul úr gamla bílnum hans pabba.
Það er ósennilegt að bílabransinn vilji skoða svona lausnir þegar hann getur rukkað 30 þúsund krónur fyrir einn lykil með þráðlausri fjarstýringu í krafti þess að allir varahlutir og þjónusta bjóða upp á einokun gagnvart þeim sem keypti bílinn.
Sennilega þarf bylting í þessum málum að koma frá annari átt. Kannski bílabúð Benna og álversmenn ættu að fara í þróunarverkefni saman?
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 11:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
4.4.2008 | 09:22
Um ritstuld
Næst þegar ég fer yfir verkefni nemanda og sé að hann hefur stolið því frá öðrum mun ég kalla þjófinn inn á skrifstofu og hann mun segja að þetta sé alsiða á Íslandi. Mér mun verða svarafátt eftir uppákomuna í H.Í.
Þegar ég fór í háskóla í Bandaríkjunum voru allir nýnemar sendir á sérstakt námskeið um ritstuld og hvað kæmi fyrir þá sem stunduðu hann við skólann. Þegar ég kom vissi ég varla hvað orðið þýddi og ég geri ráð fyrir að ekki allir íslendingar hafi hugleitt hversu skaðlegur ritstuldur er.
Ritstuldur heitir "Plagiarism" á ensku:
Within academia, plagiarism by students, professors, or researchers is considered academic dishonesty or academic fraud and offenders are subject to academic censure. In journalism, plagiarism is considered a breach of journalistic ethics, and reporters caught plagiarizing typically face disciplinary measures ranging from suspension to termination. Some individuals caught plagiarizing in academic or journalistic contexts claim that they plagiarized unintentionally, by failing to include quotations or give the appropriate citation.
Hér er meira um ritstuld:
Cheating in academia has a host of effects on students, on teachers, on individual schools, and on the educational system itself.
Academic dishonesty also creates problems for teachers. In economic terms, cheating causes an underproduction of knowledge, where the professor's job is to produce knowledge.[59] Moreover, a case of cheating often will cause emotional distress to faculty members, many considering it to be a personal slight against them or a violation of their trust. Dealing with academic misconduct is often one of the worst parts of a career in education, one survey claiming that 77% of academics agreed with the statement "dealing with a cheating student is one of the most onerous aspects of the job."[60]
Academic misconduct can also have an effect on a college's reputation, one of the most important assets of any school. An institution plagued by cheating scandals may become less attractive to potential donors and students and especially prospective employers. Alternately, schools with low levels of academic dishonesty can use their reputation to attract students and employers.
Ultimately, academic dishonesty undermines the academic world. It interferes with the basic mission of education, the transfer of knowledge, by allowing students to get by without having to master the knowledge.[61] Furthermore, academic dishonesty creates an atmosphere that is not conducive to the learning process, which affects honest students as well.[62] When honest students see cheaters escape detection, it can discourage student morale, as they see the rewards for their work cheapened. Cheating also undermines academia when students steal ideas. Ideas are a professional author's "capital and identity", and if a person's ideas are stolen it retards the pursuit of knowledge.[63]
Þökk sé "copy og paste" er ég búinn að skrifa heila blogg grein á fjórum mínútum, en ég ætla ekki að eigna mér textann. Góðar stundir.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 09:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
1.4.2008 | 10:00
Sheldon Brown er dáinn
Þessi frábæri maður hefur haldið úti ágætri vefsíðu fyrir þau okkar sem þykir vænt um reiðhjól, viljum gera við þau sjálf og vita allt um þau.
Ég var að frétta af andláti hans úr M.S. sjúkdómnum. Ég fékk sting í hjartað og gerði mér þá grein fyrir því að þessi maður var farinn að skipta mig máli. Hann gerði mitt líf aðeins betra.
Kíkið endilega á vefsíðuna hans, hún er alfræðiorðabók fyrir hjólafólk.
R.I.P.