Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008
8.8.2008 | 09:43
Myndavélakaup eru erfið
Ég gaf henni eftirfarandi heilræði:
- Veldu þrjár vélar sem þér finnast fallegar og fara vel í hendi. Skrifaðu módel númerin niður.
- Lestu um þær á http://www.dpreview.com, undir "camera database", efst til vinstri á síðunni.
- Farðu svo aftur í Elko og kauptu þá vél sem fékk besta umfjöllun - eða láttu frænku þína í Bandaríkjunum kaupa hana fyrir þig.
Ég er með öðrum orðum að segja að dpreview er mjög góð síða fyrir þá sem eru að leita sér að myndavél.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 09:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
7.8.2008 | 01:30
Kifaru og Seglagerðin
Ég hef aðgang að forláta tjaldi sem er hannað með indjánatjöld að fyrirmynd og rúmar auðveldlega tíu manns en pakkast samt jafn lítið og dúnpoki. Ég mæli með þessu tjaldi, framleiðandinn er í Colorado í Bandaríkjunum og heitir Kifaru (http://www.kifaru.net).
Eftir veðurátök kom rifa í toppinn á tjaldinu svo ég hringdi í framleiðandann. Konan í símanum skoðaði mynd af tjaldinu sem ég hafði sent í tölvupósti og sagði að þessi tjalddúkur hefði verið notaður við framleiðsluna fyrir átta árum. Hún hafði svo samband aftur og sagðist hafa fundið gamla dúkinn inn á lager og gráa efnið sem er notað við reykháfsopið.
Hún sagðist ætla að senda mér bæði efnin í pósti mér að kostnaðarlausu og hún gerði það. Við áttum huggulegt spjall í símanum og ég sendi henni fleiri ljósmyndir frá kajakferðum með tjaldið í þakkarskyni.
Næst fór ég í Seglagerðina úti í Örfirisey og sýndi þeim rifuna og spurði hvort þeir gætu gert við hana með efninu sem ég hafði meðferðis frá Kifaru. Konan í afgreiðslunni sagði að viðgerðin myndi kosta að minnsta kosti 10 þúsund krónur en annars væri ómögulegt að gefa verðmat fyrirfram.
Ég afþakkaði og spurði hvort hún gæti selt mér nylonþráð svo ég gæti saumað tjaldið sjálfur? Hún sagði nei, þau ættu bara stór kefli fyrir saumavélarnar. Ég spurði hvort hún gæti gefið mér 1-2 metra og svarið var "Nei".
Næst spurði ég hvort hún ætti lím svo ég gæti límt efnið á sinn stað áður en ég saumaði það? Hún sýndi mér túbu og sagði að hún kostaði 1.500 krónur. Þar með þakkaði ég fyrir og kvaddi.
Þetta sama tjaldlím fann ég í 66Norður fyrir 600 krónur.
Nylon bandið hirti ég af flugdrekakefli og svo saumaði ég tjaldið sjálfur úti í góða veðrinu og var snöggur að.
Þetta eru ólíkar sögur, af viðskiptum mínum við konurnar hjá hinu ameríska Kifaru fyrirtæki og hjá hinni íslensku seglagerð.
Ein skýring sem ég hef á þessu framferði er að í ameríska fyrirtækinu fari saman völd og ábyrgð. Ég hafði á tilfinningunni að konunni stæði alls ekki á sama hvernig hún skildi við mig. Ég yrði að fá lausn minna mála. Ég hef heyrt að í Wal-mart megi starfsfólk taka völdin í eigin hendur til að kúnninn fari glaður út úr búðinni. Samt vinna tugþúsundir hjá Wal-mart. Þetta hlýtur því að fara eftir hugarfari í fyrirtækinu en ekki stærð þess.
Það getur verið að konan hjá Seglagerðinni sé að framfylgja stefnu fyrirtækisins. Hennar markmið sé að rukka alla sem koma um tíu þúsund krónur að minnsta kosti, annars séu þeir eyðsla á tíma og ekki kúnnar sem er þess virði að eltast við. Ég virði líka þá stefnu en ég syng samt lof Kifaru og ekki Seglagerðarinnar.
5.8.2008 | 10:39
Prósentuleikur
Hér er smá ókeypis kennsla í prósentureikningi.
Evran kostaði 90 krónur um áramót en kostar nú 126 krónur.
Það eru margar leiðir við að segja þetta í prósentum. Ein er að segja að krónan hafi lækkað um 28.6%:
(126-90) / 126 = 0.286
Önnnur leið við að segja þetta er að hún haldi eftir 71.4% af upphaflegum kaupmætti sínum:
90 / 126 = 0.714
Þriðja leiðin sem er kannski meira sjokkerandi er að segja að evran hafi hækkað um 40% :
(126-90) / 90 = 0.40
Svo er hægt að sleppa prósentunum en taka dæmi: íslendingur sem var með 400 þúsund í laun í janúar er með 285 þúsund í laun núna ef hann ætlar að eyða laununum í Evrópu.
400 * 90 / 126 = 285
Ef hann ætlar að kaupa eitthvað þar sem kostaði 400 þúsund um áramót kostar það hann núna 560 þúsund:
400 * 126 / 90 = 560
Er ekki stærðfræði skemmtileg?
----
Illugi Gunnarsson sagði eftirfarandi í viðtali í viðskiptakálfi Fréttablaðsins 23.júlí:
Staðan er erfið. [..] Við munum ekki geta leyst þann vanda með því að stefna að upptöku annars gjaldmiðils, eðli vandans er einfaldlega þannig. Ég tel að reynt hafi verið að koma því inn hjá þjóðinni að til sé einföld sársaukalaus leið út úr vandræðunum og þá verði allt í himna lagi. Það finnst mér vera mikill ábyrgðarhlutur.
Ég er sammála því að núverandi vandi leysist ekki með upptöku evrunnar. Ég held ekki að evrusinnar haldi það almennt. Ég hef viljað taka evruna upp áður en góðærið byrjaði og ég mun vilja það eftir að kreppan líður hjá. Mig langar að segja hvers vegna:
Í góðærinu varð krónan mjög sterk. Íslenskir bankar tóku erlend lán og endurlánuðu íslendingum á hærri vöxtum af því þeir hafa einokunaraðstöðu hér á landi. Einokunin felst í því að ég get ekki verið með Visa kort frá erlendum banka og fengið launin mín greidd á reikning þar. Ef við hefðum haft evru hefði fólk verið í viðskiptum við erlenda banka og fengið sömu vexti og aðrir evrópubúar. Íslensku bankarnir hefðu ekki hagnast ótæpilega á þessum lánainnflutningi og vaxtamismun.
Ef íslendingar komast í venjuleg bankaviðskipti hjá erlendum bönkum myndi verðtrygging á lánum líka tilheyra liðinni tíð. Ég fæ ekki verðtryggð laun eða vöruverð, af hverju ættu bankarnir að fá verðtryggð lán? Verðtryggingin er slæm hugmynd því hver er hagur bankanna af því að aðstoða stjórnvöld við að halda verðlaginu stöðugu ef öll þeirra útlán eru verðtryggð?
Verslanir á Íslandi nutu líka góðs af sterku gengi krónunnar en létu neytendur ekki njóta ágóðans. Kunningi minn sem flytur inn vörur og selur sagði mér að þegar best lét hefði hann getað lagt 150% á vöruna áður en hann seldi hana. Han setti næstum því allan hagnaðinn af sterkri krónu í eigin vasa meðan viðskiptavinir héldu áfram að borga óbreytt verð. Hann hefði getað lækkað vöruverð en hann langaði meira í einbýlishús og jeppa. Kúnnunum var sama um arðránið, þeir höfðu ekkert verðskyn.
Ef krónan hefði ekki verið, hefðu neytendur getað borið saman verð í evrum hér við verð í evrum í Evrópu og fengið þannig miklu betra verðskyn. Þeir hefðu líka getað pantað vöruna sjálfir fram hjá íslenskum kaupmönnum með lítilli fyrirhöfn því tollurinn verður ekki sú risavaxna hindrun sem hann er ef við göngum í bandalagið.
Ég hef bloggað um það áður að land sem telur 300 þúsund sálir átti ekki að reisa svona stóra tollmúra því fastakostnaður við tollafgreiðslu er of hár. Hvað myndi það kosta ef akureyringar stöðvðuðu hvern einasta bíl sem keyrði inn á Akureyri og tollflokkuðu allt sem í honum er? Það gera Íslendingar við allan inn og útflutning fyrir þetta litla samfélag.
Íslendingar hafa opnað landið fyrir erlendu vinnuafli og erlendu fjármagni. Bankar, verslunarrekendur og verktakar hafa notið góðs af því. Það er kominn tími til að venjulegt launafólk njóti þess líka.
Andstæðingar segja að ef evran yrði tekin upp þyrftu íslendingar í fyrsta skipti að kynnast launalækkunum. Mér er nokk sama. Innkaupakarfan sem kostaði 9 þúsund um áramótin kostar 16 þúsund núna. Er það ekki launalækkun?
Andstæðingar umræðu um evrópubandalagsaðild segja að við munum afsala okkur einhvers konar sjálfstæði ef við göngum í bandalagið. Ég segi að við höfum þegar glatað efnahagslegu sjálfstæði, við ráðum ekkert við krónuna. Hvað annað sjálfstæði varðar vitum við ekki hvað við erum að tala um fyrr en viðræður við bandalagið hefjast.
Völdin á Íslandi nú eru hjá handfylli af ríkustu einstaklingum landsins. Það eru nokkrar fjölskyldur sem eiga hér verslanirnar, tryggingarfélögin og bankana og forseta landins er boðið í þotuferðir til að kaupa tryggð hans. Hvers konar valddreifing er það? Er þá ekki alveg eins gott að ganga í evrópusambandið?
Viðskipti og fjármál | Breytt 7.8.2008 kl. 19:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)