9.7.2007 | 09:47
Nú er glatt hjá nördahjörtum
Það er ekki á hverjum degi sem ég sé jafn vel gert og skemmtilegt forrit:
Stellarium getur sýnt stjörnuhimininn í miklum gæðum, hvar sem er á jörðinni og hvenær sem er ársins. Það er hægt að nota forritið sem stjörnukíki og skoða pláneturnar og tunglin snúast kringum þær.
Forritið skýrir líka vel hvers vegna sólin sest ekki á Íslandi á sumrin.
Forritið er ókeypis og til fyrir Macintosh, Linux og Windows. Náið í forritið hér.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 09:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.7.2007 | 20:02
Solidarnosc
Um hjólaviðgerðir
Þegar ég var táningur vann ég í hjólabúð.
Einu sinni kom sending af hjólum með gallaða gíra. Ég sá það ekki strax, þetta var ekki augljós galli.
Ég var samt farinn að sjá mynstrið þegar tíu - tólf kúnnar voru búnir að koma út af þessu. Þeir borguðu allir möglunarlust fyrir nýja gíra og héldu að þetta væri þeim að kenna.
Nú var ég farinn að sjá hvað var í gangi og hefði ekki átt að taka við peningunum heldur endursenda brotnu gírana til framleiðandans. En ég "bara vann þarna" og pældi ekki mikið í þessu.
Allir sem fengu hjól úr þessari sendingu borguðu fyrir viðgerð að lokum.
Um neytendasamtök
Fólk sem er ekki í samtökum og deilir upplýsingum sín á milli er ekki í aðstöðu til að sjá mynstur eða vinna sameiginlega að sínum málum. Það er dæmt til að vera misnotað, jafnvel af þeim sem eru varla að reyna.
Það skiptir ekki máli hver misnotar. Málið er að illa upplýst fólk lætur misnota sig. "There is a sucker being born every minute" átti P.T.Barnum að hafa sagt. "A fool and his money are soon parted" segir enskur málsháttur.
Á Íslandi er jarðvegurinn frjór fyrir misnotkun. Hraust neytendasamtök væru merki um sterka grasrót og virkt lýðræði. Því miður eru þau álíka sterk hér og félag esperantista (fyrirgefið, esperantistar!)
Í Íslandsklukkunni var Jón Hreggviðsson var troðinn í skítinn af dönskum yfirvöldum en lofaði samt sinn danska kóng í hástert, fastur í sínu fari - þangað til hann kom til Kaupmannahafnar og sá með eigin augum hallirnar sem höfðu verið reistar á kostnað íslendinga. Þá óskaði hann að hann hefði drepið kóngsins böðul.
Um afleiki
Brotnir gírar og hátt lyfjaverð eru hjóm hjá því að selja sameignir þjóðarinnar, stofnanir, land og orku fyrir slikk. Ég veit ekki hvort við erum að því, ég er ekki nægilega upplýstur!
Lenape indjánar seldu Manhattan eyju til Hollendinga árið 1626 fyrir 24 dollara. Það er fyndin og skemmtileg tilviljun að Wall Street skuli standa þar í dag og sýnir hvað kaupmenn á eyjunni hafa haft gott viðskiptavit í gegnum árin.
Menn hafa gert mikið grín af indjánunum fyrir þetta en ég er viss um að indjánarnir töldu sig vera að gera góð kaup út frá þeim upplýsingum sem þeir höfðu.
Eignaréttur var ekki vel skilgreint hugtak hjá þeim. Indjánunum fannst landið ekki vera eitthvað sem hægt væri að selja. Þeir væru eiginlega að plata hvíta manninn því hvernig gæti nokkur maður átt land?
Menn hafa líka bent á að 24$ væru orðinn ágætur peningur í dag ef indjánarnir hefðu ávaxtað þá. Á 5% ársvöxtum væru þeir orðnir tveir milljarðar bandaríkjadala. Á 10% vöxtum væru þeir 80 kvadrilljón bandaríkjadalir (80,000,000,000,000,000 dalir) sem er meira en allir peningar í heiminum. Eru ekki vaxtavextir magnað fyrirbæri? Lántakendum er hollt að hafa það í huga.
Indjánarnir höfðu ekki um margar sparileiðir að velja og mér vitanlega eiga þeir ekki 80 x 10 í 15.veldi dollara í dag.
Ég vona að íslenskur almenningur eigi ekki of mikið sameiginlegt með Lenape indjánum fyrir 375 árum sem voru þó spurðir, og þeir ákváðu verðið.
Mikið af þeim nýja auði sem ég sé í dag kemur til af því menn "með glöggt auga fyrir tækifærum" hafa lært að meta til fjár það sem var ómetanlegt áður, hvort sem er sameiginlegt landssvæði, fiskveiðilendur, bankar eða burðarnet símans.
Gott hjá þeim! Ef þeir hafa hagnast á okkar kostnað er það okkur að kenna fyrir að sofna á verðinum - eða hafa aldrei vaknað almennilega síðan við fengum sjálfstæðið.
Erum við að selja landið í skiptum fyrir útigrill og jeppa? Ég hreinlega veit það ekki.
Um blogg
Ég finn fyrir pirringi hjá mörgum sem blogga, þeir eru að agnúast út í samfélagið. Það er gott, því samskiptaleiðir eru þá amk. opnar og menn tala um það sem betur má fara. "Guði sé lof það svíður" var mamma vön að segja þegar ég fékk sár. Það er hættulegra ef allt er dofið.
Getur blogg leitt af sér eitthvað uppbyggilegra en þus? Getur verið að netið eigi eftir að valda varanlegri breytingu á uppbyggingu lýðræðis? Verðum við upplýstari en Lenape indjánar fyrir 375 árum?
Það þarf meira en flottar tölvur til að fá virkt lýðræði og neytendameðvitund og ríkisstjórnin mun ekki vinna vinnuna fyrir okkur. Við fáum þá ráðamenn sem við eigum skilið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.7.2007 | 11:39
Nú er góður tími til að berjast
Ég bloggaði um sjöfalt lyfjaverð fyrr á vorinu.
Við það tækifæri sendi ég tölvupóst til lyfjaverðsnefndar og til neytendasamtakanna. Þau sendu svo fyrirspurn áfram til Actavis.
Hvorki Actavis né Lyfjaverðsnefnd svöruðu póstunum einu né neinu. Að vísu eru bara liðnar þrjár vikur, kannski er ég óþolinmóður?
Ég er persónulega sannfærður um að þeir sem bera ábyrgðina hafa ekki hugsað sér að gera neitt í málunum að óbreyttu.
Þessi þjónusta Aðalsteins Arnarsonar er vissulega á gráu svæði núna, en aðeins þangað til lyfjaeftirlitið leyfir honum að senda lyfin hingað.
Come on ! Þetta er Íslendingur, í Svíþjóð. Af hverju ætti hann ekki að geta sent okkur lyf?
Það er ekki það sama, að opna fyrir allan lyfjainnflutning frá öllum löndum, eða leyfa viðurkenndum aðilum á öðrum norðurlöndum að senda hingað lyf.
Lesið Íslandsklukkuna, þið Jónar Hreggviðssynir, og berjist svo fyrir ykkar eigin sjálfstæði!
Sendið lyfjastofnun póst og biðjið um að Aðalsteini verði leyft að senda hingað lyf. Það hafa ekki allir efni á að borga fimm þúsund krónur fyrir lyf sem á að kosta sjöhundruð.
Sendu lyfjastofnun kurteisa en ákveðna ábendingu hér ef þú hefur skoðun á málinu og bentu öðrum á að gera hið sama. Það er tjáningarfrelsi hér síðast þegar ég vissi.
Kveðja, Kári
![]() |
Býður ódýrari lyf á netinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.7.2007 | 16:59
Hverjir gera heiminn betri?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.7.2007 | 10:20
Einkarekið - ríkisrekið
Það er erfitt að sjá mynstur á bak við það, hvað er einkarekið og hvað er ríkisrekið núorðið.
Opinbert | Einkarekið |
Strætó | Einkabíll, leigubíll |
Bókasafn | Videóleiga |
HÍ,HA, Hólar | HR, Bifröst |
Sundlaug | Líkamsræktarstöð, Hestaleiga |
Reiðufé | Visa, Mastercard |
RÚV | Stöð 2, Bylgjan |
Spítali | Apótek, Tannlæknar |
ÁTVR | Tóbaksbúð (sjoppa) |
Lögregla, Tollur | Securitas |
Tryggingastofnun | Sjóvá, VÍS |
Íbúðarlánasjóður | Glitnir |
Sér einhver mynstur? Eina mynstrið sem ég sé er Gamalt / Nýtt.
Allt sem ríkið sér um er gamalt, einkageirinn sér um allt nýtt. Er þetta rétt hjá mér?
Er ríkið að úreldast ?
Bloggar | Breytt 4.7.2007 kl. 23:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.7.2007 | 14:17
Um góða hönnun
Ég kom í Glyptotek herra Karlsbergs í Kaupmannahöfn í síðustu viku.
Þetta er með fallegustu söfnum sem ég hef komið á og ekkert er þar til sparað enda hangir Karlsberg ekki á horriminni.
Á klósettinu var hurðunum læst svona:
Þarna má greinilega sjá að hurðin er læst því krókurinn úr hurðinni læsir sér í vegginn.
Handþurrkurnar voru geymdar svona:
Þetta er bara hola í veggnum með stálrimlum fyrir framan. Ekkert mál að taka sér þurrku, maður fær ekki óumbeðinn búnka af þeim niður á gólf og það er augljóst hvort þær eru að verða búnar.
Nú færi ég mig yfir í sumarhús í Skagafirði. Þetta er hurðin á klósettinu. Fljótt, er hún læst eða ekki?
Ég veit það ekki heldur, best að snúa lyklinum aftur til að vera viss.
Hér er ísskápurinn. Hvernig er hann opnaður?
Maður á að pilla í hurðina, hægra megin frá, ekki vinstra megin frá. Það er engin leið að sjá það.
Þetta er þvottavélin. Er hún kveikt?
Rétt svar er "Nei". Ég hélt að merkið (I) þýddi kveikt. Núna er hún kveikt:
Hér er gufugleypirinn. Hvar er kveikt?
Ekki hægt að sjá það. Nú opna ég hann:
Gefstu upp? OK. Innstungan hægra megin er í alvörunni tveir rofar:
Sérðu núna hvernig hún virkar? Ekki ég heldur. Á vinstri rofanum stendur 1,2,3 á þeim hægri stendur L,M,T. Hvað skyldi það þýða? Letrið sést ekki á myndinni því það er skrifað hvítt á hvítu.
Svona var klósettið þegar við komum að því:
Takkinn fer ekki upp af sjálfsdáðum og vatnið hafði runnið sólarhringum saman. Það er svolítið fyndið því þessi hönnun er gerð til að spara vatn, litla sturt og stóra sturt.
Litlir hlutir safnast saman og gera lífið verra en það þarf að vera. Það er alltaf tími til að spyrja sig "er þetta góð hönnun?" þegar maður stendur út í búð.
Tölvur og tækni | Breytt 3.7.2007 kl. 09:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.6.2007 | 11:50
Svar við gátunni - og hvað má læra af henni
Spurt var:
Hver um sig borgaði 100 - 10 = 90 kr.
Þrisvar 90 eru 270 kr.
270 plús 20 sem þjónninn tók í þjórfé gera 290 kr.
Það vantar samt 10 kr uppá 300, hvað varð um þær?
Svar:
Vissulega borguðu gestirnir 3 x 90 = 270.
En af hverju að leggja svo 20 krónurnar við sem þjónninn tók í þjórfé? Þær eru þegar inni í þessum 270 krónum. Réttara er að segja:
270 - 20 kr. í þjórfé eru 250 kr. sem er það sem veitingastaðurinn fékk.
Samtalan þarf ekki að ná 300 kr. því það er ekki það sem maturinn kostar.
Af þessu má læra að vera ekki að eltast við útreikninga hjá fólki sem er ekki að reikna út það sama og þú. Ekki hafa minnimáttarkennd gagnvart þeim sem þykjast kunna stærðfræði.
Sumir segja að strætó sé rekinn með tapi. Er ekki vegakerfið rekið með tapi líka ? Ríkið borgar vegina en bærinn borgar strætó. Ef vegirnir væru verðlagðir rétt hefðu strandflutningar ekki lagst af.
Kveðja, Kári
PS: Strætó er hins vegar alltaf tómur en það er allt annað mál..
Gátur | Breytt 3.7.2007 kl. 09:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.6.2007 | 16:43
Auglýsing um auglýsingar
Neytendamál | Breytt 3.7.2007 kl. 09:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.6.2007 | 14:13
Alltaf gaman af gátum...
Þrjár manneskjur fara á veitingastað og skipta kostnaðinum sem er 300 milli sín svo hver um sig borgar 100 kr.
Þjónninn tekur 300 en sér svo að það voru gerð mistök, maturinn kostaði bara 250 kr.
Hann getur ekki skipt 50 í þrennt og endurgreitt svo hann borgar sjálfum sér 20 í þjórfé og endurgreiðir hverjum gesti 10 kr.
Gott og vel.
Hver um sig borgaði 100 - 10 = 90 kr.
Þrisvar 90 eru 270 kr.
270 plús 20 sem þjónninn tók í þjórfé gera 290 kr.
Það vantar samt 10 kr uppá 300, hvað varð um þær?
Svarið kemur seinna...
Gátur | Breytt 3.7.2007 kl. 09:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.6.2007 | 11:52
Um þotuhreiður og glysið sem safnast í þau
Gamla Tempelhof flugstöðin í Berlin er líkust aðalbyggingu Háskóla Íslands. Hún er eins og virðulegt musteri og endurspeglar tíma þegar flugið var ennþá kraftaverk og dæmi um hverju mannsandinn getur áorkað.
Brautryðjendur gáfu okkur kraftaverkið en möppudýr og tækifærissinnar eru í óða önn að gera lítið úr því.
Ég sit og skrifa í vél Iceland Express á leið til Íslands frá Danmörku. Flugið sjálft kostaði 18 þúsund en flugvallaskatturinn í Leifsstöð bætir 7 þúsund ofaná miðann minn.
Þar sem upphaflega stóð bárujárnsskúr við ameríska flugbraut er nú svæði sem er eins og Kringlan eða Smáralind í umfangi og reksturinn á því virðist kosta sitt.
Það styttist í að maður þurfi að vera mættur þremur tímum fyrir þriggja tíma flug. Nýja vegabréfið mitt inniheldur nú lífssýni til að fullnægja þrálátri öryggisþörf Bandaríkjamanna. Ég borgaði fimmþúsund fyrir vegabréfið og ég vona að Bandaríkjamenn krefji mig ekki um enn fullkomnara vegabréf allt of fljótt.
Á vellinum eru Íslendingar vanir að kaupa sínar myndavélar og vasadiskó því annarsstaðar á eyjunni er verðið alltof hátt. Fyrir ferðina fór ég því á vefinn www.dutyfree.is og ætlaði að sjá verð á nerdaleikföngum. Ég sá hvergi verð á myndavélum lengur svo ég sendi tölvupóst og fékk að vita að búðin Elko væri komin með einkaleyfi á græjusölu á vellinum.
Elko rekur verslunina með lágvöruverðssniði, þarna eru krakkar að afgreiða og áherslan á að selja mikið magn. Þetta er alveg eins og að koma inn í þeirra verzlanir í bænum.
Af hverju er bara Elko úti á fríverslunarsvæðinu að selja myndavélar? Hvar er Hans Petersen og allir hinir? Flugvöllurinn skapar einokun sem er alls ekki nauðsynleg eða náttúruleg.
Ég pældi ekkert í þessu meðan gamla ríkisbúðin var þarna í denn, mér fannst þetta bara vera eins og ÁTVR, svona góð gamaldags ríkiseinokun sem maður hefur vanist frá blautu barnsbeini. Núna er enginn ríkisbragur á vellinum lengur, þetta er bara nakin einokun í risastórri eftirlíkingu af Kringlunni.
Ég má ekki taka með mér vatnsbrúsa eða naglaklippur inn í þessa innkaupaparadís vegna þess að ég gæti verið að smygla sprengiefni. Ég reyndi forðum að smygla skyri og soðnu spaghetti í stampi með pestó sósu út á en það var gert upptækt þótt ég byðist til að éta "sprengiefnið" á staðnum.
Gefum okkur að þetta sé heiðarleg tilraun til að auka öryggi í flugi. Þá skil ég ekki hvernig hægt er að halda verslunarsvæðinu á flugvellinum öruggu.
Vinnustaðurinn er á við hálfa Kringluna. Hvernig er með mannaráðningar?
Inn á svæðið er mokað tonnum af varningi og mat sem flugfarþegar eiga að kaupa. Heilu gámarnir af DVD spilurum, kexi, klámblöðum og vindlingum fara inn á svæðið. Er verið að röntgen gegnumlýsa alla sendiferðabílana?
Má bjóða þér að leita að naglaklippum og hættulegum varningi í sendiferðabílunum sem koma inn á svæðið frá eftirtöldum fyrirtækjum?
- 66Norður
- Bistro Atlantic
- Blue Lagoon
- Cafe Europa
- Cafe International
- Elko
- Epal
- Eymundsson
- Fríhöfnin ehf.
- Inspired by Iceland
- Kaffitár
- Landsbankinn
- Leonard
- Optical Studio
- Panorama Bar
- Rammagerðin
- Saga Boutique
- Securitas
- Skífan
- Verzlun 10-11
Ég get ímyndað mér hvernig er að vera terroristi þarna.
Ætli sé hægt að búa til sprengju úr tíu lítrum af 80% rommi? Ég get keypt það á vellinum og farið með út í vél. Hvað með haug af Lithium rafhlöðum fyrir fartölvur, þær eru víst slæmar með að springa og fást í Elko, ætli ég geti gert sprengju úr þeim? Kannski er það of mikil fyrirhöfn, ég lauma sprengjunni bara í næstu sendingu af peysum í 66Norður búðina, eða í rakakrembrúsa frá Blue Lagoon. Magnesíum er víst eldfimur málmur og er notaður í gleraugnaspangir. Svo getur verið að brauðhnífurinn sem liggur á borðinu hjá Cafe Europa sé nýtilegur í eitthvað.
Ég held ég þurfi ekki að þusa frekar, allir sjá að þessi leit að naglaklippum er fáránleg niðurlæging til að geta svo selt fólki þessar sömu naglaklippur þegar inn á völlinn er komið.
Ef mönnum er alvara með þessum öryggismálum ættu flugfarþegar að labba inn á mjög lokað svæði eftir vopnaleitina. Þar væru bara klósett og lögregluþjónar með útprentaðan lista frá Bush að leita að stressuðum mönnum með vefjarhetti og svartar bækur í litlu broti. Kannski lítil ríkisrekin veitingasala.
Leifsstöð er ekkert einstök, svona eru margir flugvellir. Undarlegt sambland af reglum sem eru svo fáránlegar að maður hristir hausinn á leiðinni um völlinn, og svo gróðabraski hjá þeim sem notfæra sér þessar undarlegu reglur til að komast í einokunar-verslunarrekstur.
Þegar hjarðir af möppudýrum renna saman á alþjóðavettvangi verður útkoman oft grátbrosleg, sérstaklega ef Bandaríkjamenn fá að ráða ferðinni.
Þegar maður kemur svo vatnsflösku- og naglaklippulaus inn á verslunarsvæðið er ekki hægt að fá kranavatn því á klósettunum rennur volgt forblandað handþvottavatn. Eina leiðin er að kaupa sér vatnsflöskur í búðunum þar. Ég er ekki svo mikill samssærissinni að halda að þetta sé vísvitandi gert til að auka vatnssölu, sennilega er þetta yfirsjón.
Kostnaðurinn við að nota þessa stöð er að verða all verulegur hluti af flugferð. Það þarf að borga ríflega fyrir bílastæði þarna úti í auðninni, í kringum þrjúþúsund krónur fyrir langa helgarferð. Svo þarf að borga flugvallarskatt, sjöþúsund á mann. Það er aðgöngumiðinn inn á verslunarsvæðið. Svo þarf að kaupa mat og drykk á stöðinni því hann fylgir ekki með í flugmiðanum lengur, og ekki má maður koma með mat að heiman því hann gæti verið sprengifimur.
Svo bætist við kaupæðið sem rennur á veikgeðja sálir (þar á meðal mig) því það þarf að nota möguleikann til að kaupa á meðan hægt er. Reyndar sýnist mér verðið þarna ekki sérlega hagstætt lengur. Kannski þarf að leggja vel á núna til að borga uppbygginguna sem hefur átt sér stað þarna upp á síðkastið. Það væri kaldhæðni ef farþegar byrja að bera draslið í gegnum stöðina í stað þess að kaupa það þar.
Þegar ég kem út í flugvél heldur æðið áfram. Ég horfi á flugfreyjurnar stunda sölustarfsemi á brennivíni, ilmvötnum, heyrnartólum, moggum og samlokum alla flugferðina. Meira að segja vatnið kostar.
Maður kemst ekki á klósettið fyrir þessum útspýttu elskum. Hvernig ætli gangi að komast út í neyðarútgangana fyrir litlu pylsuvögnunum þeirra ef í harðbakka slær? Það er grátlegt til þess að hugsa að samkvæmt lögum eru flugfreyjur um borð til að tryggja öryggi farþega.
Dyrnar til flugmanns eru harðlæstar. Það er engin hætta á að litlir krakkar slysist lengur til að verða hugfangnir af flugi með því að heimsækja flugmanninn eins og ég fékk að gera þegar ég var lítill.
Það er niðurlægjandi að fljúga í dag og mér finnst sölumennskan vera komin út í öfgar.
Ég ætla að enda á uppbyggilegum nótum.
Hugmynd #1: Hvernig væri að gera allt flugvallarsvæðið að fríverzlunarsvæði og hafa háskólann þarna?
Nemendur gætu búið á svæðinu, fengið mjög ódýran mat, drykk, skólabækur og aðrar nauðssynjar á námsárunum, og kannski unnið hjá fyrirtækjum sem væru í tengslum við skólann og sem gætu geymt hráefni og fullunna vöru á tollfrjálsu svæði. Svæðið gæti orðið Hong Kong okkar íslendinga.
Hugmynd #2: Gegn framvísun farmiða má fá toll og virðisaukaskatt fellda niður í verzlunum í Reykjavík, þar á meðal í ÁTVR.
Þá væri ekki lengur nauðsynlegt að fara með vörurnar út í vél og fljúga með þær milli landa. Frjáls samkeppni væri milli búða í bænum og engin fríhöfn nauðsynleg. Flugvöllurinn fengi að vera eins og BSÍ eða lestarstöð, ekki verzlunarmiðstöð.
Hugmynd #3: Hvernig væri að taka þessa sömu "ströngu" öryggisgæslu upp við helstu umferðarmannvirki? Miklubraut má sprengja með flutningabíl hlöðnum sprengiefni og því þarf að takmarka aðgang inn á brautina.
Leitað væri í öllum bílum og farmur væri bannaður (en það væri hægt að kaupa gos og samlokur í sérstökum verslunum sem væru reknar við brautina með sérleyfi frá ríkinu). Einkabílisminn myndi leggjast af og allir færu að hjóla
Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.7.2007 kl. 09:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)