Seven habits of highly effective countries

Margir sem andmæla inngöngu í evrópusambandið benda á að það muni jafngilda uppgjöf sjálfstæðis.

Mér dettur í þessu sambandi í hug bókin "Seven habits of highly effective people". Fyrstu ávanarnir sem höfundur vill að lesandinn tileinki sér ganga út á að verða sjálfstæð manneskja.

Höfundur telur að fólk eigi að:

  • Taka frumkvæði í stað þess að kenna öðrum um, bera ábyrgð á sínu lífi.
  • Setja sér markmið en til þess þarf að hafa lært að þekkja sín grunngildi í lífinu.
  • Forgangsraða, svo allur tíminn fari ekki í hluti sem virðast aðkallandi en skipta engu máli í hinu stóra samhengi.

Þessir fyrstu þrír hlutir snúa að því að manneskjan þroski sjálfa sig og standi á eigin fótum. Það má kalla þennan part sjálfstæðisbaráttu. Svo þegar sjálfstæðinu er náð er hægt að mynda bandalög við aðra fullvalda einstaklinga.

Liðir 4..7 hafa því með annað fólk að gera.

  • Finndu leiðir til að ná þínum markmiðum þannig að aðrir nái sínum markmiðum líka. Ef þín hugmynd um velgengni kostar aðra þjáningar ertu ekki á réttri leið. (Útrásarvíkingarnir flöskuðu þarna).
  • Reyndu að skilja aðra áður en þú byrjar að segja þeim frá þínum væntingum og vera með tilætlunarsemi, þá muntu ná betri árangri. Byrjaðu t.d. samtal með "hvernig hitti ég á þig?" en ekki bara "gerðu X fyrir mig".
  • Deildu verkefnum á þá sem eru betur færir um að leysa þau en þú. Notaðu hrós og hvatningu og njóttu þannig góðs af því þegar allir gera það sem þeir gera best.
  • Haltu þér í þjálfun, andlega og líkamlega. Farðu á námskeið. Farðu í frí. Endurskoðaðu markmiðin í lífinu reglulega. Ekki gera bara "bissness as usual" þangað til þú brennur út og þekkir ekki sjálfan þig.

Þeir sem vilja heilbrigð samskipti við aðra þurfa að vera orðnir heilbrigðir einstaklingar sjálfir.  Þetta passar vel við þá visku sem kennd er í tólf sporunum í AA og Al-Anon.

Þeir sem eru styttra komnir á þroska/sjálfstæðisbrautinni eru oft hræddir við að stofna til sambanda við aðra því þeir óttast um eigið sjálf.  Það er hluti af persónulegum þroska að byrja að treysta öðrum.

Íslendingar þurfa að hafa náð þangað áður en þeir ganga til viðræðna um náin samskipti því þeir mega ekki meðvirklast og gefa eftir í prinsipp málum. Kannski erum við ekki orðin nógu sjálfstæð til að geta umgengist aðrar þjóðir sem jafningjar?

Athugum með inngöngu í bandalagið, en höfum okkar markmið á hreinu áður. Það er veruleg hætta á að við semjum af okkur ef við göngum til viðræðna án þess að þekkja okkur sjálf og hvað við viljum.

Persónulega langar mig í bandalagið af því ég vil geta:

  • unnið í öðrum löndum
  • geymt mín verðmæti í öruggum gjaldmiðli.  (Það er öruggt að krónan á sér enga framtíð og að við þurfum myntbandalag, bara spurning hvaða gjaldmiðill kemur í stað  hennar).
  • átt viðskipti við aðra banka og tryggingarfélög en starfa hér
  • flutt sjálfur inn vörur án tollahafta og útrýmt þannig fákeppni í verslun
  • laðað hingað erlend fyrirtæki sem útvega spennandi störf
  • losnað við gömlu valdaklíkurnar á Ísland en fengið í staðinn nýjar og spennandi erlendar valdaklíkur :)


Ég óttast að ef við göngum í bandalagið muni:

  • vandalausir flytja arð úr landi (skaðinn þegar skeður)
  • vandalausir hagnast af útgerð en flytja arðinn úr landi (skaðinn þegar skeður)
  • íslendingar kafna í ólögum sem henta ekki hér (hef ekki dæmi um slík lög -- mun  EB banna kæstan hákarl?)

Semsagt:  Ef við erum jafn frábær þjóð og við þykjumst (þóttumst) vera, þá eigum við að ganga til viðræðna.  Ef við eigum einhver óútkljáð mál hér heima væri þó farsælla að afgreiða þau fyrst.  Það má þó engan tíma missa, því margir (þar á meðal ég) vilja ekki búa í  sjúku meðvirklaþjóðfélagi sem er ekki fært um eðlileg samskipti við aðrar þjóðir.

 

 


Hvenær er nýtt nýtt ?

Það virðist vera lögmál að atvinnugreinar sem eru búnar að koma sér vel fyrir eiga erfitt með nýsköpun.  Stór hópur fólks áleit græjurnar á næstu mynd vera gott úrval:

ghettoblaster-family_738061.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Framleiðendunir voru Sony, Pioneer, Panasonic, Akai, "the usual suspects".  Ef þú hefðir spurt þessi fyrirtæki hefðu þau öll sagst vera sérfræðingar á sínu sviði og vita allt um hljómflutningstækni og þarfir notenda.

Það þurfti tölvufyrirtæki til að koma af hliðarlínunni með nýja hugsun:

newipods.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég nefni þetta bara sem dæmi um að stundum borgar sig að losna við gömlu valdaklíkurnar og hleypa nýrri hugsun að. 

Sjálfstæðisflokkurinn heldur því fram að hann sé sérfræðingur í að stjórna landinu enda mikill reynslubolti. Ég gef lítið fyrir reynslu sjálfstæðisflokksins.  Ég held að reynsla hans sé að verða honum ansi mikill fjötur um fót.  Ég er ekki að segja að við eigum að kjósa í næstu viku, en þegar við kjósum skulum við skipta almennilega út og hleypa ferskum vindum að.

 

 

 


Ræða Þorvalds Gylfasonar í Háskólabíói

Stjórnmál og viðskipti eru óholl blanda. Íslenzkt efnahagslíf var lengi gegnsýrt af stjórnmálum. Helmingaskipti voru reglan, kaup kaups. Einkavæðingu banka og ríkisfyrirtækja var ætlað að uppræta þá skipan. Markmið einkavæðingarinnar var að skerpa skilin milli stjórnmála og viðskipta til að dreifa valdi á fleiri og hæfari hendur.

Ríkisstjórnin brást þessu ætlunarverki líkt og gerðist nokkrum árum fyrr í Rússlandi. Hún tók sjálfa sig fram yfir fólkið í landinu. Hún afhenti ríkisbankana mönnum, sem voru handgengnir stjórnarflokkunum og höfðu enga reynslu af bankarekstri. Í höndum þeirra uxu bankarnir landinu yfir höfuð á örfáum árum og vörpuðu með leynd þungum ábyrgðum á þjóðina. Seðlabankinn, ríkisstjórnin og Fjármálaeftirlitið höfðust ekki að. Stíflan brast.

Seðlabankinn vanrækti að byggja upp gjaldeyrisvarasjóð til að vega á móti erlendri skammtímaskuldasöfnun bankanna. Þrákelkni ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans fyrir hönd krónunnar í nafni sjálfstæðrar peningastjórnar hefur nú í reyndinni teflt fjárhagslegu sjálfstæði landsins í tvísýnu um sinn.

Seðlabankinn og ríkisstjórnin skiptust ekki á nauðsynlegum upplýsingum í aðraganda kreppunnar og halda áfram að elda grátt silfur. Ríkisstjórnina brestur þor til að skipta um áhöfn í Seðlabankanum, þótt bankastjórnin hafi hvað eftir annað gert sig seka um alvarleg mistök, sem hafa ásamt öðru svert álit Íslands í útlöndum.

Bankastjórnin er vís til að eyða láninu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og öðrum í misráðna tilraun til að hífa gengi krónunnar upp fyrir eðlileg mörk í framhaldi af gengisfölsunarstefnu bankans undangengin ár. Bankastjórnin verður að víkja frá án frekari tafar. Fyrirhugaður flutningur Fjármálaeftirlitsins aftur til Seðlabankans herðir enn á kröfunni um, að bankastjórnin víki. Það vekur von, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur krafizt þess að fá að gera öryggisúttekt á Seðlabankanum.

Hrun bankakerfisins og veik viðbrögð ríkisstjórnarinnar við hrapinu afhjúpa hyldjúpa bresti í innviðum íslenzks samfélags. Þessar dauðadjúpu sprungur, sem ættu að vera á allra vitorði, hafa stjórnmálaöflin þó aldrei fengizt til að viðurkenna, hvað þá heldur til að fylla.

Upphaf ófaranna má rekja til upptöku kvótakerfisins, þegar stjórnmálastéttin kom sér saman um að afhenda útvegsmönnum ókeypis aðgang að sameignarauðlind þjóðarinnar. Þessi rangláta ákvörðun, sem allir flokkar á þingi báru sameiginlega og sinnulausa ábyrgð á, skerti svo siðvitund stjórnmálastéttarinnar, að þess gat ekki orðið langt að bíða, að aðrar jafnvel enn afdrifaríkari ákvarðanir sama marki brenndar sæju dagsins ljós. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur úrskurðað, að kvótakerfið hefur leitt af sér mannréttindabrot, en ríkisstjórnin lætur sér samt ekki segjast, ekki enn.

Hví skyldu menn, sem víluðu ekki fyrir sér að búa til nýja stétt auðmanna með ókeypis afhendingu aflakvóta í hendur fárra útvalinna, hika við að hafa svipaðan hátt á einkavæðingu banka og annarra ríkisfyrirtækja? Varaformaður Framsóknarflokksins auðgaðist svo á einkavæðingu Búnaðarbankans, að hann gerði sér lítið fyrir og keypti þjóðarflugfélagið (og lét skipa sjálfan sig seðlabankastjóra í millitíðinni, en hann hafði að vísu ekki efni á láglaunabaslinu þar nema skamma hríð). Framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins gerðist einnig milljarðamæringur við einkavæðingu Landsbankans, og enginn spurði neins, enda voru fjölmiðlarnir flestir komnir í hendur eigenda bankanna. Formaður Sjálfstæðisflokksins lét skipa sjálfan sig seðlabankastjóra og lét bankaráðið umsvifalaust hækka laun sín upp fyrir laun forseta Íslands með kveðju til Bessastaða. Áður hafði hann skammtað sér konungleg eftirlaun úr vasa almennings. Kvótakerfið varðaði veginn inn í sjálftökusamfélagið.

Nú býst ríkisstjórnin sjálf til að rannsaka tildrög bankakreppunnar. Við þurfum enga hvítþvottarbók frá ríkisstjórninni. Betur færi á skipun erlendrar rannsóknarnefndar, eins konar sannleiks- og sáttanefndar, með erlendum sérfræðingum. Við þörfnumst slíkrar nefndar til að endurheimta traustið, sem við þurfum að geta borið hvert til annars, og traust umheimsins. Farsæl samfélagsþróun útheimtir, að sagan sé rétt skráð og öllum hliðum hennar til haga haldið.

Bankakreppa á Íslandi er ekki einkamál Íslendinga. Þrálátur orðrómur um fjárböðun íslenzkra banka fyrir rússneska auðmenn horfir nú öðruvísi við en áður. Íslendingar og umheimurinn þurfa að fá að vita, hvort orðrómurinn á við rök að styðjast og hvað fór úrskeiðis. Aðrar þjóðir hljóta að þurfa að fá að læra af mistökum íslenzkra banka og stjórnvalda, enda hafa þær ákveðið að rétta Íslandi hjálparhönd í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Lýðræðisríki reisa trausta veggi milli framkvæmdarvalds, löggjafarvalds og dómsvalds. Þar er borin virðing fyrir þrískiptingu ríkisvaldsins, virðing fyrir valdmörkum og mótvægi. Þar eru reistar skorður gegn samþjöppun valds á of fáar hendur. Í þroskuðu lýðræðisríki gæti það ekki gerzt, að formaður stærsta stjórnmálaflokksins léti skipa sjálfan sig seðlabankastjóra án andmæla af hálfu annarra stjórnmálaflokka eða fjölmiðla.

Við stöndum nú frammi fyrir fjárhagsvanda, sem hefur hvolfzt af miklum þunga yfir Ísland og mun ágerast á næsta ári. Stjórnvöld virtu að vettugi varnaðarorð úr ýmsum áttum. Mikill hluti þjóðarinnar hefur fylgzt agndofa með rás atburðanna. Á vegum ríkisstjórnarinnar er unnið að endurskipulagningu bankanna undir tortryggilegum leyndarhjúp.

Ákæruvaldið hefði átt að láta strax til skarar skríða eftir hrunið frekar en að boða mörgum vikum síðar til veiklulegrar athugunar á því, hvort lög kunni að hafa verið brotin. Silagangur ríkisstjórnarinnar síðan bankarnir hrundu vekur ekki heldur traust. Eina færa leiðin til að endurreisa nauðsynlegt traust milli manna inn á við og álit Íslands út á við er að spúla dekkið. Stjórnmálastéttin hefur brugðizt. Hún þarf helzt að draga sig möglunarlaust í hlé, víkja fyrir nýju fólki og veita því frið til að leggja grunninn að endurreisn efnahagslífsins og réttarkerfisins með góðra manna hjálp utan úr heimi.

Reynslan sýnir, að bankahrun getur leitt af sér óstöðugt stjórnarfar og myndun öfgahópa, sem bítast um brakið, berja stríðsbumbur og ala á ótta við útlönd. Sýnum stillingu. Hlustum á allar raddir, en hlýðum þó aðeins þeim, sem boða undanbragðalaust uppgjör við liðna tíð og stefna á endurreisn íslenzks efnahagslífs með hagkvæmni, réttlæti og lýðræði að leiðarljósi. Tökum undir með skáldinu Snorra Hjartarsyni: „Ísland í lyftum heitum höndum ver ég heiður þinn og líf gegn trylltri öld.“

 

Ræðu Þorvalds afritaði ég héðan:  http://www.dv.is/frettir/2008/11/24/raeda-thorvalds-gylfasonar/

Mér finnst fréttaflutningur Morgunblaðsins á vefnum mjög takmarkaður og einhliða.  Ég veit ekki hvort ég get bloggað hér öllu lengur.

Á laugardag beið ég spenntur eftir því að sjá hversu fjölsóttur fundurinn á Austurvelli var. en það var ekki aukatekið orð um fundinn á mbl.is  !

 


Ókeypis vírusvörn frá Microsoft væntanleg

Þótt fullt af fólki noti vírusvörn á PC tölvuna eru þeir mýmargir sem eru illa smitaðir en ekki nóg til að tölvan þeirra drepist endanlega, og of værukærir til að velta fyrir sér hvers vegna tölvan er orðin svona hæg og skrýtin.

Þeir halda því áfram að smita þótt aðrir hreinsi sínar tölvur og eru eins og ennisholurnar í svæsinni sýkingu.  Mér er sagt að tölvur í gagnfræðaskólum víðsvegar sjái um margar smitanir því kennarar kunna lítið á tölvur og notendurnir eru ekki kröfuharðir.

Margir hafa undrað sig á því hvers vegna Windows stýrikerfið, sem er annálað fyrir að leggjast marflatt fyrir hinum ýmsu óværum, kemur ekki með vírusvörn frá framleiðanda.  Hún virðist vera á leiðinni í júní á næsta ári, fyrir XP, Vista (og Windows 7 sem kemur víst á markað á næsta ári).

http://www.microsoft.com/Presspass/press/2008/nov08/11-18NoCostSecurityPR.mspx

Hér er úrdráttur úr fréttatilkynningunni:

“By offering such basic protection at no charge to the consumer, Microsoft is promoting a safer environment for PCs, service providers and e-commerce itself, since it is through unprotected PCs that the worst threats are introduced to the system as a whole.”

“Morro” will be available as a stand-alone download and offer malware protection for the Windows XP, Windows Vista and Windows 7 operating systems. When used in conjunction with the ongoing security and privacy enhancements of Windows and Internet Explorer, this new solution will offer consumers a robust, no-cost security solution to help protect against the majority of online threats.


Birta og ylur hf

Ég slysaðist inn úr dyrunum í sérverslun hér í Rennes sem selur eldstæði.  Ekki stór groddaleg eldstæði fyrir viðardrumba með tengingu fyrir stromp, heldur listaverk sem minna meira á Bang & Olufsen græjur.   Eldsneytið reyndist vera spritt sem seytlaði í bolla undir öllu saman.  Það var löng röð viðskiptavina og góð viðskipti hjá seljandanum sem mér sýnist vera listamaðurinn sjálfur.  Ég skal setja nokkrar myndir inn við tækifæri.

Ég kíkti á vefinn til að sjá hvort fleiri gerðu svona eldstæði.  Það reynist þá líka vera hægt að fá smekkleg eldstæði fyrir própankúta.

gd82_t.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þarna er steinvöluskál notuð undir logann.

gt8.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mér finnst þetta sniðugt því það væri gaman að kveikja upp í arni nokkra daga á ári, en kostnaður við að gera reykháfsrör finnst mér verulegur, og svo er loft og sótmengun af viðareldi.  Það sakar ekki að á svona arni má kveikja og slökkva með fjarstýringu og hann slær út ef súrefni fer undir leyfileg mörk.

Þar sem íslendingar eiga lítið af eldiviði, gæti þetta nýst vel hér.  Einhver íslenskur hagleiksmaður gæti líka viljað smíða og selja svona  - ekki förum við að flytja hlutina inn í þessu árferði, þegar við getum lært að gera þetta sjálf?

PS: Fyrirtækið heitir Napoleon.


Hugrenningar (en minna um lausnir)

Forsætisráðherra fer hús úr húsi um heimsbyggðina eins og litla stúlkan með eldspýturnar en fær ekki lán.

hca0079_01.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég óska honum alls góðs en ég er ekki hissa á lánleysinu.  Hann þarf að fara þennan bónveg útaf bankahruni sem varð því enginn vildi veita lán.  Þetta er ekki góður tími til að vera skuldugur - hvort sem maður er einstaklingur eða ríkisstjórn.  Þeim fer fækkandi sem trúa að einn daginn komi Geir heim með fullt af peningum á hagstæðum vöxtum svo martröðinni ljúki og allt geti orðið eins og það var áður.

Geir gerir sitt besta við ómögulegar kringumstæður.  Hann er menntaður, víðsýnn og ekki spillir fyrir í mínum augum að hann kann reiprennandi frönsku!  Hins vegar er hann formaður flokks sem verður að fara frá mjög fljótlega því þjóðarskútan sökk á hans vakt.  Ég get ekki fyrirgefið flokknum þessa misheppnuðu tilraun til algerrar frjálshyggju án eftirlits og því verður flokkurinn að víkja núna.


Góður vinur sagðist naga sig í handarbökin yfir að hafa ekki bjargað öllum sínum fjármunum úr landi fyrir hrunið, þetta var svo fyrirsjáanlegt, sagði hann.  Ég spurði á móti hvort hann ætti nokkuð að vera mjög reiður út í sjálfan sig.  Hann vann heiðarlega vinnu og lagði sparnaðinn inn á venjulega reikninga eins og vera ber.  Það væri hálf taugaveiklað að berja á sjálfum sér, væri ekki nær að beina reiðinni í heilbrigðari farveg og segja landsfeðrunum til syndanna?  Eru vangaveltur um að flytja fé á réttum tíma ekki bara dæmi um hugarfarið sem steypti okkur í glötun?  Hugarfar sem er svo fullt af spekúlasjónum að enginn tími gafst til að skapa raunveruleg verðmæti.

Hvers vegna beina hann og aðrir reiðinni inná við? Af hverju stendur fullt af vel menntuðu og mælsku fólki ennþá á hliðarlínuni, þegir og bíður til að sjá hvað setur meðan "einhver skríll" fer niður á Austurvöll?  Ég held að margir voni ennþá að gamli sjálfstæðisflokkurinn bjargi þessu öllu fyrir horn, setjist aftur í hásætið, líti svo þungbrýnn yfir millistéttina og þá sé eins gott að enginn hafi sagt neitt óvarlegt.

Fólk er svo vant því að sjálfsritskoða sig á Íslandi að aðeins þeir sem hafa engu að tapa mæta niður á Austurvöll á laugardögum og hætta á að tekin verði af þeim ljósmynd.  Það ómar ennþá óraunsæ rödd innra með þeim sem segir að bráðum komi góðu fréttirnar og það opnist auðveld útleið úr þessu öllu -- en hún er orðin mjóróma.  Ég held að smám saman fjölgi þeim sem hafa engu að tapa og mæta á Austurvöll.

Ef fjöldinn á Austurvelli eykst og Davíð og sjálfstæðisflokknum verður bolað frá er samt ekkert víst að við fáum frekar erlenda aðstoð.  Það er ekki víst að erlendir aðilar séu að bíða þolinmóðir eftir að við losum okkur við gömlu stjórnina, heldur sé þeim einfaldlega sama um okkur og eigi nóg með sig.  Hversu oft hefur maður ekki séð hrjáðar þjóðir biðja um hjálp á alþjóðavettvangi án þess að fá hana, Afganistan, Kongó, Beirút?  Eigum við meiri kröfu á hjálp en þessar þjóðir af því við erum bláeyg og ljóshærð?

Væntanlegir lánveitendur munu ekki gefa okkur peninga.  Það þarf að sannfæra þá um að hér rísi aftur blómlegt samfélag sálna sem geta byrjað að borga neyðarlánin sín, með vöxtum takk.  Kannski undirbúningur að inngöngu í Evrópubandalagið auki tiltrú erlendra manna á Íslandi því þá geta þeir fjárfest hér án þess að tapa öllu aftur næst þegar örmyntin fær krampa.  Kannski endum við á að  ganga í bandalagið fyrir þá en ekki okkur?

Menn ræða hvort eigi að taka upp evruna.  Ég vil snúa umræðunni við.  Ef við værum með evru í dag, værum við þá að ræða um upptöku nýrrar örmyntar?  Ég efast um það.

barlomur.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Barlómur eftir Kára


Neyðin kennir blönkum manni að vinna

Þessi konar heitir Amy Smith og kennir við MIT.

Sjáið hvað hún fæst við í þessu myndbandi.

Þótt við búum ekki í moldarkofum getum við nýtt okkar eigin afurðir miklu betur en við gerum.

  • Getum við framleitt drumba í eldstæði úr þjöppuðum dagblaðamassa, þurrkað hann með hitaveituvatni?
  • Við ættum ekki að flytja inn próteinduft fyrir vaxtarækt þegar við getum framleitt það úr mjólkurafurðum í stað amerískra sojabauna.
  • Við hljótum að geta gert okkar eigin hunda/kattamat úr afgöngum.
  • Við flytjum inn hraunmola fyrir ketti til að skíta á!  Er ekki hægt að framleiða kattasand á Íslandi?
  • Hér í Frakklandi er mjög vinsælt að kaupa grænmetis súpur á fernum, þetta er alveg drauma heilsufæði og kostar lítið.  Hvernig væri að selja íslenskar súpur á fernum?
  • Af hverju að flytja inn eldhússborð úr granít þegar fólk annars staðar er að nota litaða steinsteypu til að gera mjög flottar borðplötur?

open1a_720416.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta er steinsteypa og gæti allt eins verið íslensk framleiðsla.

Í eðlilegu árferði á að borga sig að búa þessa hluti til hér á landi.  Ef það borgar sig að safna skuldum í stað þess að gera hlutina sjálfur er eitthvað mikið að.

Mikil nýsköpun getur farið fram á bóndabæjum, sérstaklega ef úrelt lög (eins og um heimaslátrun) verða afnumin.  Eins og Amy segir réttilega:  Bændur eiga ekki að hætta að vera bændur, en þeir eiga að hætta að vera fátækir bændur.

Ekki öll verkefni þurfa milljónalán frá bönkum.  Hvað er að því að byrja smátt og nota hagnaðinn til að stækka?

Þegar ég var lítill sagði ég einu sinni "Mamma, mér leiðist".  Mamma byrsti sig og sagði að það væri lúxusvandamál, það væri alltaf nóg að gera.  Það er örugglega rétt hjá henni.

 


Flytja eða vera kyrr?

Ég flutti heim um aldamótin eftir að hafa verið 11 ár erlendis - þá var Decode að ráða fólk og ég trúði að Ísland væri að verða eins og önnur lönd.  Það var hægt að kaupa bjór og Toblerone, og það var sjónvarp á fimmtudögum.  Það voru því mikil vonbrigði að sjá að hér höfðu stjórnmálin lítið breyst,  hér ríktu karlar sem höfðu haldið hópinn síðan í gaggó og höguðu sér eins og villikettir, veittu sjálfum sér ekki aðhald og skorti sjálfsgagnrýni enda vanir því að vera við völd sama hvað tautar og raular.

Ísland verður að verða meira eins og önnur lönd og hætta að vera skrýtið fyrirbæri í ballarhafi sem er útblásið af gortinu einu.  Ég vil losna við leifarnar af sérviskunni hér.  Ég vil virkt lýðræði þar sem menn geta misst embættið fyrir afglöp í starfi.  Ég vil ekki þurfa að fá laun og spara í platpeningum.  Verðtrygging og kvóti, tollamúrar og fákeppni, þetta verður allt að fara.

Ég hef lengi viljað að við göngum í Evrópubandalagið, líka þegar allt lék í lyndi, því ég vildi að þessi karlaklíka misti völd og síðustu leifarnar af sérviskunni hyrfu.

Strax og ég skrifa þetta veit ég að búnki af athugasemdum birtist um að það séu föðurlandssvik og afsal sjálfstæðisins að vilja þetta.  Það er sennilega rétt í einhverju samhengi en ég kýs ekki að líta svo  háleitt á það.  Fyrir mér er þetta praktísk ákvörðun,  eins og að láta gelda heimilisköttinn sem kemur heim rifinn og blóðugur á hverjum morgni.   Það er rosalegt fyrir köttinn að verða geldur, en ég er viss um að hann og heimilismenn verða hamingjusamir á eftir.  Auðvitað spyr maður köttinn ekki áður...

Ég veit að ég get flutt til meginlandsins, en fyrst vil ég bíða og sjá hvort við göngum ekki í ESB.  Spurning mín nú er hvaða flokk ég þarf að kjósa og hversu lengi ég á að bíða.

 


mbl.is Möguleiki á landflótta?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hitaveitan og fleiri vitlausar hugmyndir

Ég var að tala við mér eldri manneskjur sem sögðu mér í óspurðum fréttum að hitaveitan á Íslandi hefði ekki verið almennilega kláruð fyrr en í olíukreppunni 1973.

Ég hafði í einfeldni minni gefið mér að strax og fyrsti hitaveituofninn í Reykjavík hitnaði upp úr 1930 hefðu menn strax séð ljósið og drifið í að leggja veituna um allt.

Af þessu megum við læra í dag, að við eigum ekki að bíða eftir að olían verði allt of dýr og óaðgengileg til að venja okkur af því að ofnota hana.  Getum við ekki notað þessa kreppu til að gera ráðstafanir sem minnka þörf okkar fyrir hana?  Getum við ekki unnið vinnu sem þarf að vinna og sem kostar ekki mikið erlent fjármagn?  Við getum lagt hjólastíga, kannski byggt hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla.  Hraðbrautirnar í Bandaríkjunum og Þýzkalandi voru byggðar upp á krepputímum.  Getum við ekki notað tímann núna í svipuð verkefni?

800px-Oil_Prices_1861_2007.svg

 







Ef við lítum á kreppuna núna sem tækifæri, þá getum við kannski minnst hennar með hlýhug seinna og talað um hana sem tíma þegar Ísland varð betri staður til að búa á.

 

Nú er líka góður tími til að minnka þörf okkar fyrir erlent fjármagn og byggja upp þekkingu á Íslandi með því að innleiða opinn hugbúnað hjá opinberum stofnunum.  OpenOffice og Linux kosta hvorki evrur né dollara. Útseld vinna við uppsetningar og þjónustu á hugbúnaðinum er í höndum íslendinga.  Ég held að ríkið geri margt vitlausara til að spara erlendan gjaldeyri.

 


Post mortem

Ég les að orðspor okkar hafi stórskaðast við bankahrunið. Ég held að skaðinn hafi verið skeður, við eigum þetta orðspor fyllilega skilið.  Ísland var orðið svo gegnsýrt af auðmagnshyggju að mér fannst merkilegast hvað lítið var haft orð á því.

Á meðan auðmennirnir tóku landið vorum við hin orðin þrælslunduð og andlega löt.  Margir rugluðu lánafyrirgreiðslum við góðæri.  Við afsöluðum okkur sjálfstæðinu.

Vonin um bata er að við lærum að skammast okkar og höldum ekki bara að heimurinn sé vondur við okkur.  Þegar ég heyri að Synfóníunni hafi verið vísað frá Japan og íslendingum úr búðum í Danmörku sárnar mér, en við eigum þetta fyllilega skilið.  Við þurfum ærlega tiltekt og gera upp við fortíðina.  Nú þurfum við einlæga iðrun, ekki þrælsótta.

Ég vil fá aðra en íslenska ráðamenn til að fara yfir hvað gerðist hér.

Hvers vegna gegndu fjölmiðlar ekki hlutverki sínu?  Af hverju voru helstu ráðamenn þjóðarinnar að þiggja flugferðir og aðra bitlinga frá þeim mönnum sem þeir áttu að hafa eftirlit með?

Af hverju var Alþingi íslendinga nánast hunzað í stjórnsýslunni? Af hverju fá ráðherrar að stjórna aðhaldslítið? Af hverju er hér verðtrygging lána en ekki launa? Af hverju var kvótinn gefinn auðmönnum?   Af hverju er hægt að einkavæða banka og gefa þeim svo óútfyllta ávísun á uppsafnaðan sparnað þjóðarinnar?  Hvers vegna voru aðvaranir erlendra nefnda og íslenskra hagfræðinga eins og Þorvaldar Gylfasonar að engu hafðar?

Erum við of lítil þjóð til að hafa sjálfstæði?  Er besta ástæðan til að ganga í Evrópubandalagið kannski sú að þá losnum við undan gömlu valdaklíkunum?

Ég er ekki viss um að Ólafur Ragnar og Davíð Oddsson eigi að vera hluti af framtíð Íslands, og ég vil ekki að þetta fólk fái sjálft að dæma í sínum málum.  Þeir sem stjórna umræðunni í fjölmiðlum munu fegra sinn málstað og ballið byrjar aftur.  Svo ég vitni í kollega minn, Úlfar Erlingsson:

 

  • Hvaða fjárhagslega ávinning hefur forsetinn fengið persónulega frá íslenskum auðmönnum, beint og óbeint?  Þar með talið stuðning í kosningabaráttu, ókeypis flugferðir, gistingu, o.s.frv.?
  •  Sama spurning hvað varðar hans nánustu fjölskyldu.  Hvaða hæfileikar aðrir en blóðtengsl réðu því að dætur hans og tengdafólk hefur sitið í stjórnum og yfirmannsstöðum hjá Baugi og öðrum auðmannafyrirtækjum?
  •  Afhverju var aftur svona nauðsynlegt að stöðva lög um eignaraðild auðmanna að fjölmiðlum landsins—af hverju var það verra afsal á valdi en t.d. lög um EES ?
  •  Má ekki fá að kaupa eitt eintak af óútgefinni bókinni um forsetann í óbreyttri útgáfu, þ.a. hægt sé að sjá hvað þar stóð?

Ef við fáum ekki svör við því hvers vegna lýðræðið virkar svona illa á Íslandi þá nenni ég ekki að taka til höndunum við uppbygginguna.

Nú er básunað yfir unga fólkið að við verðum öll að standa saman og byggja upp. Þeir sem segja það eru búnir að gera þetta sama unga fólk stórskuldugt með okurlánum og uppsprengdu húsnæðisverði.  Þeir stálu frá fortíðinni og framtíðinni.  Þeir eru búnir að eyðileggja möguleika útflutningsfyrirtækja á að byggja sig upp því hér fóru allir að vinna í banka í gullæðinu.

Eigum við núna að fara að standa saman? Ekki sá ég að nýríka fólkið borgaði kennurum og hjúkrunarfólki mannsæmandi laun. Hvar var samstaðan þá?

 forest_fire_hr.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þrælsóttinn við valdamenn hjaðnar um stundarsakir.  Þegar skógareldar hafa geisað falla gömul tré en lággróðurinn fær að njóta sín.

Reynum að nota tímann sem gefst til að laga til. Í næsta góðæri verður Reykjavík vonandi mannvæn og falleg og venjulegt fólk fær kaupmátt og tíma með börnunum sínum, ekki okurlánafyrirgreiðslur . Annars er það ekki góðæri heldur byrjun á öðru fylleríi.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband