9.4.2010 | 11:37
Sókn er besta vörnin
Ég horfði á fréttatímann frá 25.mars á netinu. Ég á erfitt með að sjá hvaða ummæli fréttastofunnar gætu talist sakhæf. Fréttin er upptalning á því hvernig veð í fyrirtæki var notað til að slá lán hjá Glitni, nokkuð sem er ekki dregið í efa. Svo er sagt að Pálmi og Jón Ásgeir hafi verið viðskiptafélagar og að milljarðar hafi gufað upp.
Mér sýnist að Pálmi sé að hræða fjölmiðla til að þegja og/eða fá fólk til að trúa að þarna standi orð á móti orði.
Pálmi stefnir fréttamanni RÚV | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 11:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.4.2010 | 14:51
Nafn á þessa tegund tölva: Brimbretti
Þar sem tölvurnar eru sérlega vel til þess fallnar að "sörfa" á netinu og líkjast brettum vil ég leggja til að þær verði kallaðar "Brimbretti".
Ég er afhuga hinum lokaða Apple heimi, svo ég held ég bíði eftir grip sem getur spilað aðrar bíómyndir og hljóðskrár en þær sem Apple hefur samþykkt.
HTC Hero og Legend símarnir eru með Android stýrikerfið, þeir hafa verið að fá jafnvel betri dóma en iPhone, og mér kæmi ekki á óvart þótt HTC kæmi með brimbrettis útgáfu af Android símum bráðlega.
Margir biðu eftir iPad | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.3.2010 | 13:59
Sparnaðartillaga?
Hér má spara starf blaðamanns og gefa Olís bara "login" á setningartölvu Morgunblaðsins.
Eldsneytisverð með því lægsta sem gerist í Evrópu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.3.2010 | 10:21
Gamla fólkið og tölvurnar
Mamma er 85 ára og hefur aldrei átt tölvu.
Þær verða smám saman meira ómissandi, eftir einhvern tíma verður nánast þegnskylda að hafa tölvu á heimilinu. Reikningsyfirlit og umsóknir um félagsþjónustu fara smám saman inn á netið, þá hringir mamma og biður um aðstoð af því við eru með tölvu heima hjá okkur. Hún kvartar líka yfir því að pósturinn er farinn að taka niður póstkassa um allan bæ og hún getur ekki sent póst lengur nema fara í annað bæjarfélag (Aflagrandi - Seltjarnarnes). Þeir hjá póstinum segja að enginn sendi póst lengur, allir nota tölvupóstinn. (Merkilegt viðhorf, kannski tímabært að leggjast undir feld á þeim bæ?)
Ég hef ekki séð tölvu sem myndi henta henni. Jafnvel Apple Mac væri of mikið fyrir hana. Hún myndi ekki vilja fá snúrur upp að einhverju tölvualtari í litlu íbúðinni sinni, sjónvarpið er alveg nógu ósmekklegt, finnst henni. Hún myndi í mesta lagi lesa moggann og tölvupóst svo ekki þarf hún ADSL áskrift.
Svo er það skráarkerfið. Skrár innan í möppum innan í möppum sem þarf að flytja og afrita og færa eru flókin hugmynd. Afritataka og stýrikerfisuppfærslur eru fyrir sérfræðinga. Mér fannst hugmyndin um möppur innan í möppum flókin þegar ég sá hana fyrst (DOS 2.0) og ég byði ekki í að útskýra fyrir mömmu hvert bréfin hennar fara þegar hún velur "Save" í Word.
Jafnvel músin er ekki nógu einföld. Það eru ekki allir sem geta hreyft mús og horft á árangurinn af hreyfingunni á sjónvarpsskjá. Það er miklu eðlilegra að benda beint á það sem maður vill gera, eins og gert er í iPhone.
Verðið má ekki vera mörg hundruð þúsund krónur, það er einfaldlega engin réttlæting fyrir því.
Notendaviðmótið þarf að vera stórt og einfalt, ekki röð eftir röð af litlum "íkonum" sem enginn veit hvað gera. Er þetta "A" til að stækka textann eða setja inn textabox eða gera textann feitletraðann, eða til að lita hann? Ekki veit ég...
Ennþá hef ég ekki séð tölvu sem hentar fólki sem vill ekki tölvur en þarf bara að lesa póstkort eða bréf frá vinum og ættingjum eða lesa "dödens avis" (Moggann).
Fyrr en núna.
Ég held að tölva í líkingu við Apple iPad gæti hentað. Ekkert sýnilegt skráarkerfi, engin snúra. Ekkert "Multitasking". Ekkert lyklaborð eða mús. Bara benda á það sem þú vilt. Fá en stór íkon. Samskipti við netið fara fram yfir 3G (eða Wi-Fi þar sem það býðst). Þú getur lesið uppí rúmi.
Aðgengi fyrir eldra fólk að bókasafni án þess að fara á bókasafnið verður líka blessun. Ég hef sjálfur notað iPhone sem bókarlesara en hef saknað þess að skjárinn væri ekki stærri fyrir lestur.
iPad hefur fullan rétt á sér.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 11:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.3.2010 | 15:25
Straumnesfjall og herstöðin
Á Straumnessfjalli stóð herstöð.
Ég hef komið þar á gönguferðum og kajaktúrum og velt fyrir mér hvernig þarna var umhorfs þegar stöðin starfaði.
Nú rakst ég á vefsíðu sem fyrrverandi meðlimir stöðvarinnar halda úti, þetta eru orðnir rosknir menn og margir að falla frá enda hafa þeir verið á þrítugsaldri 1955-1960.
Stöðin hét H-4 hjá þeim.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.3.2010 | 23:23
Quentin Crisp
Ef óvinir þínir eru minna illskeyttir skaltu ekki gefa þér að þú hafir sigrað þá. Kannski álíta þeir bara að þú ógnir þeim ekki lengur.
Það hlýtur að vera mjög slítandi að vera penn og settlegur. Fólk sem er þannig virðist þurfa mjög mikinn svefn.
Heilsa er að vera með sömu sjúkdóma og nágrannarnir.
Ég hef ekki uppburði í mér til að ímynda mér Guð sem heldur plánetunum á sporbrautum, en tekur sér pásu til að gefa mér þriggja gíra reiðhjól.
Ekki reka svínabú í þrjátíu ár og staglast á því að þú hefðir átt að verða ballet dansari. Sennilega hefðir þú átt að reka svínabú.
Kurteisi er ást fyrir kalt loftslag.
Bretar búast ekki við hamingju. Ég hafði á tilfinningunni öll mín ár þar, að þeir vildu ekki hamingju, þeir vildu hafa rétt fyrir sér.
Flestir eru helteknir af því að leggja líf sitt í hendurnar á einhverjum öðrum. Það finnst mér barnalegt. Sá sem ætlar að fullorðnast hlýtur að stefna að sjálfstæði.
Ef þú veist allt þá fyrirgefur þú ekki allt, þú fyrirlítur það.
Tískan er það sem þú tollir í þegar þú veist ekki hver þú ert.
Ég mæli með því að hafa kurteislega lítinn áhuga á öðru fólki.
Greind gerir fólk ekki betra en það má nota hana til að umorða veikleikana.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.3.2010 | 11:46
Þetta er hjólahjálmur!
Sjáið grein um hjálminn á vefsíðu landssamtaka hjólreiðamanna:
http://lhm.is/hjolamenning/utbunadur/417-flottir-hjolahjalmar
Ég var of fljótur á mér þegar ég sagði að menn hefðu ekki verið að fjárfesta í nýjum búnaði fyrir útsendingu á sjónvarpi.
Fréttatilkynning var að berast frá símanum um að þeir ætla að breyta "Breiðbandi" símans í "Ljósnet" símans. Breiðbandið var ekki ljósleiðari heim í hús heldur ljósleiðari út í götuskáp símans fyrir utan húsið (og næstu hús í grennd) og svo gamaldags loftnetssnúra inn í húsið.
Loftnetssnúran verður nú rifin úr sambandi einhvern tímann á þessu ári og "breiðbands" myndlyklunum gömlu sem tengdust henni verður skilað til Símans. Þess í stað verður ljósleiðarinn tengdur við símasnúruna sem liggur inn í húsið.
Í stað myndlykilsins sem tengdist loftnetssnúrunni kemur nýr myndlykill sömu gerðar og þeir sem hafa verið settir upp fyrir áskrifendur "Sjónvarps" símans. Lykillinn verður tengdur við nýjan router sem er kallaður VDSL router og kemur í stað gamla ADSL routersins ef hann var til á heimilinu fyrir.
Nýji routerinn verður tengdur við símalínu eins og ADSL router en nýji routerinn er 100 Megabit í báðar áttir, ekki 2-3 Megabit eins og gamli ADSL routerinn. Hraða aukningin er möguleg af því VDSL staðallinn gerir ráð fyrir stuttri símtaug sem hefur mikil gæði og það mun símtaugin hafa ef hún er látin enda strax út í götuskáp í stað þess að vera tengd alla leið niður í símstöð í miðbænum.
Loftnetssnúran er búin að renna sitt skeið. Bless loftnetssnúra! Ég efast um að ég leggi nýja loftnetssnúru upp á þak og freisti þess að enn sé sjónvarpsmerki í gömlu greiðunni þar enda er tímaspursmál þar til sjónvarpsútsendingum á VHF verður hætt hér, það er verið að leggja útsendingarnar niður í flestum löndum í kringum okkur.
Margir voru komnir með ADSL og farnir að tengja myndlykla við ADSL routera (þennan pakka kallar síminn "Sjónvarp símans"). ADSL routerar nota gömlu símasnúruna sem liggur frá íbúð símnotenda alla leið út í símstöð. Það er talsvert lengri leið en út í götuskápinn á horninu sem VDSL router verður tengdur við. Lengri leið þýðir minni sendihraða.
Frá 2006 hafa notendur "Sjónvarps" símans fengið myndlykil sem var með HDMI háskerputengi auk SCART tengis enda eru þeir nothæfir til að taka á móti háskerpu útsendingum. Flöskuhálsinn var fyrst og fremst ADSL routerinn sem þeir voru tengdir við á heimilinu. Þegar VDSL / Ljósnetið verður tengt verður lítið mál að sjá almennilegt háskerpumerki á þessum lyklum því þótt ein háskerpurás sé 8 Megabitar sér ekki högg á vatni þegar 100 Megabitar eru í boði. Það eru samt nokkrir megabitar á sekúndu eftir fyrir fleiri sjónvarpsrásir eða venjulegt hangs á netinu.
Þeir sem eru ekki í hverfi sem var með Breiðbandið geta beðið þolinmóðir eftir ljósleiðara gagnaveitu Reykjavíkur ef hann er ekki þegar kominn í götuna.
Eurosport og fótbolti hafa verið einu háskerpu rásirnar í boði þó nokkuð lengi, en loksins bætast nýjar háskerpu rásir við seinna á árinu, bæði vegna þess að fjöldi notenda sem getur tekið við háskerpu eykst til muna en líka vegna þess að verðið á háskerpurásum hefur verið að lækka í innkaupi. History Channel HD, og DR HD ættu að bætast við fljótlega og hver veit nema næstu Ólympíuleikar verði loksins sendir út í háskerpu hér á landi?
PS: Hér er grein um VDSL á Wikipedia
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 17:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.2.2010 | 11:19
Rafmagnsbíll sem hentar á Íslandi?
Myndir þú hætta með hitaveituna og taka upp olíukyndingu? Ég efast um að fólk geri það ótilneytt. Þegar rafmagnsbílar verða orðnir algengir mun fáum detta í hug að kaupa olíu frá öðrum löndum til að komast milli staða.
Ástæðan fyrir því að rafmagnsbílar fást ekki er fyrst og fremst batterítæknin. Flestir eru orðnir vanir því að komast með tveggja tonna bíl 700 kílómetra á einum tanki. Rafgeymar sem koma bíl aðra eins vegalengd eru ekki til ennþá.
Hins vegar eru 90% ferða örfáir kílómetrar. Það væri gott að kaupa lítinn rafmagnsbíl fyrir þessar ferðir og alvöru jeppa fyrir utanbæjarferðirnar. Þarna vinna reglur landsins á móti, því við verðum að borga full afnotagjöld og tryggingar, líka fyrir bíla sem eru keyrðir örfáa daga á ári.
Nýr bíll er væntanlegur á markað á þessu ári sem er rafmagnsbíll, með rafgeyma sem koma honum aðeins um 100 kílómetra en svo er "ljósavél" í húddinu sem fer í gang og hleður geymana eftir það. Sá sem keyrir svona bíl innanbæjar getur átt von á því að þurfa ekki að kaupa bensín vikum eða mánuðum saman, ef hann setur bílinn samviskusamlega í hleðslu á kvöldin. Hann verður þó ekki strandaglópur þótt geymarnir tæmist.
Þetta held ég að hljóti að vera framtíðin. Þetta er sambærilegt við "sýndarminni" í tölvum þar sem harði diskurinn tekur við þegar raunverulegt minni klárast. Hér eru myndir af bílnum sem heitir Opel Ampera:
Helstu rök gegn rafmagnsbílum erlendis er að það þarf olíu eða kol til að búa til rafmagn á bílana. Þessi rök eiga ekki við hér á landi. Nú þegar bensínið er komið upp fyrir 200 kr / lítrinn held ég að fólk fari að verða tilbúið að kaupa "bensín fyrir 5 krónur lítrann" en það er kostnaðurinn við að hlaða rafmagnsbíl. "Old habits die hard" segir máltækið, vonandi fer þessi olíuósiður að renna sitt skeið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.2.2010 | 11:59
Olympíuleikarnir í háskerpu
Sumarið 2008 skrifaði ég að útsendingar í háskerpu væru ekki í boði hér á landi frá Olympíuleikunum í Beijing.
Sömu sögu er að segja um vetrar olympíuleikana núna. Íslendingar keyptu flatskjái í góðærinu en verða að láta sér nægja gömlu PAL útsendingarnar.
Noregur og Danmörk eru farin að horfa á efni í háskerpu, þökk sé meðal annars, DR1 HD og NRK1 HD stöðvunum. Hér á landi er hins vegar ekki verið að fjárfesta í nýjungum, það var ekki gert í góðærinu og ekki er líklegra að hin ofurskuldsettu fyrirtæki geri það núna.
Nú er hins vegar hægt að sjá útsendingarnar frá Olympíuleikunum í háskerpu á netinu:
http://www.eurovisionsports.tv/olympics/hd
Það gæti hugsast að Internetið eigi eftir að úrelda sjónvarpsútsendingar hér á landi ef gömlu fyrirtækin fara ekki að bregðast við.
Af hverju að kaupa áskrift að myndlykli ef lítil PC tölva með netsamband, tengd við stofusjónvarpið getur sýnt bíómyndir af hörðum diski í háupplausn, erlendar útvarps og sjónvarpsstöðvar, YouTube, og tekið upp og spilað DVD og Blue-Ray diska?
Hér er sýnishorn af útsendingunni eins og hún birtist á tölvuskjá:Til sambanburðar er hér upplausn útsendingar RÚV á netinu:
Hér er PC tölva sem getur tengst sjónvarpinu í stofunni, spilað háupplausn af diski og neti en er lítil og hljóðlát.
Hún fæst í Tölvutek í Borgartúni. Athugið að ADSL heim þarf að vera 2 megabitar á sekúndu að lágmarki til að sjá háskerpu útsendingu af netinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)