30.10.2009 | 10:02
Flugvellir eru skemmtilegir (ef maður hefur sérstakan húmor)
Einhvern tímann bloggaði ég um undarlegheitin í flugvallaöryggi. Nú heyrði ég nýja sögu frá kollega.
Hún var að fljúga heim í gegnum París, keypti Camembert ost á flugvellinum. Hann var vel þroskaður og farinn að leka niður. Osturinn var tekinn af henni á þessum sama flugvelli af því öryggisvörðurinn sagði að þetta væri vökvi og það væri bannað að fara með vökva um borð.
Þá hafið þið það. Munið að kaupa harða osta eins og Camembert eða Old Amsterdam ef þið eigið fyrir farmiðum og osti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.10.2009 | 17:15
Hamarinn var góður
Mikið hafði ég gaman af þáttunum "Hamarinn". Þeir voru í sama gæðaflokki og besta danska eða enska sjónvarpsefni sem ég hef séð. Leikararnir léku vel, mér fannst ég hafa kynnst söguhetjunum, þær voru það trúverðugar.
Ég óska öllum sem að þáttunum stóðu til hamingju.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.10.2009 | 10:42
File Hippo
Á http://filehippo.com/ er hægt að nálgast vandaðan hugbúnað. Eigendur síðunnar virðast leggja áherzlu á gæði en ekki magn.
Þarna má finna hlekki á Audacity, Skype, Picasa, Firefox, WinRAR og fleiri góða pakka. Þeir sem þekkja vel til fara beint á heimasíður þessara fyrirtækja og þurfa ekki FileHippo, en aðrir kunna vonandi að meta að þarna er þessum gæðahugbúnaði haldið til haga.
Hér eru nokkur dæmi:
- Audacity breytir tölvunni í vandað upptökutæki. Ég hef notað það til að afrita vinyl plötur og kassettur.
- RealAlternative er spilari fyrir real audio skrár svo hægt sé að hlusta á BBC án þess að setja upp RealPlayer sem er stór og leiðinlegur og fullur af auglýsingum.
- VLC media player er besti spilarinn fyrir bíómyndir, betri en Windows Media Player.
- "Google Desktop" frá Google er prívat leitarvél fyrir öll skjöl á diskinum þínum, þú getur gert "Google leit" í póstinum, word og excel skjölunum.
- Paintshop Pro er gott teikniforrit sem nýtist líka vel til að laga og breyta ljósmyndum.
22.10.2009 | 13:33
Euroshopper er hollenskt merki
Nú kemur upp í mér púkinn. Ættum við að kaupa matinn okkar af hollendingum ;)
Í alvöru talað: Ættum við að vera að kaupa vörur sem eru seldar í Evrum nú þegar hún er farin að kosta yfir 1,50$.
Ættu vörur frá Bandaríkjunum ekki að vera að verða ódýrari?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
21.10.2009 | 12:43
Boys in da hood
Ég er að hugsa um að skrifa gangster sögu. Hér er úrdráttur:
Tupac and Malcolm drove to the warehouse, T-Bone was quickest to leave the car, he ran out looking for Jamal; when he came to the warehouse entrance, Jamal was waiting inside and hit him in the head with a fire axe so hard his skull cracked, he was dead before he hit the ground. Tupac and Malcolm entered the house but Jamal then darted across the parking lot intending to make for the bushes.
Malcom fired at him with the pistol and got him in the leg. He managed to continue but dropped the fire axe because he was so short of breath he couldn't hold it anymore.
It had become pitch dark outside. When he made it across the parking lot he ran into the woods to try and hide. Tupac and Malcom followed him and staked him out in the woods; he was so stiff and out of breath he could hardly walk and thought he could hear people coming at him from all directions.
Þetta er reyndar ekki originalt efni um inner city gangstera, ég stal þessu úr Gísla sögu Súrssonar og staðfærði. Hér er originallinn:
Þeir Börkur róa að landi og verður Saka-Steinn skjótastur af skipinu og hleypur að leita Gísla; og er hann kemur í hamraskarðið stendur Gísli fyrir með brugðið sverð og keyrir þegar í höfuð honum svo að stóð í herðum niðri og féll hann dauður á jörð. Þeir Börkur ganga nú upp á eyna en Gísli hleypur á sund og ætlar að leggjast til lands. Börkur skýtur eftir honum spjóti og kom í kálfann á honum og skar út úr og varð það mikið sár. Hann kemur á brott spjótinu en týnir sverðinu því að hann var svo móður að hann gat eigi á haldið. Þá var myrkt af nótt. Er hann komst að landi þá hleypur hann í skóg því að þá var víða skógum vaxið. Þá róa þeir Börkur að landi og leita Gísla og kvía hann í skóginum og er hann svo móður og stirður að hann má varla ganga og verður nú var við menn alla vega frá sér.
Þetta hlýtur að selja! -- en nú þegar ég hugsa út í það þá eru þessar gangster týpur kannski ekki mest þroskandi fyrirmyndirnar fyrir þjóðina?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.10.2009 | 10:01
Ef mín starfsgrein væri aðeins eldri...
Ég ólst upp við suðið í tölvu móður minnar þegar hún sat í stofunni heima og forritaði. Faðir minn var úti í tölvuveri og sinnti búverkum, afritatöku og uppfærslum.
Einu sinni í viku kom pósturinn inn dalinn, sótti nýjustu viðbæturnar sem skrifaðar höfðu verið og skildi þá gjarnan eftir einhvern bitling á pallinum í staðinn, lítinn tölvuleik eftir hagleiksmann að vestan eða annað viðbit.
Ég hef alist upp við íslenska hugbúnaðargerð og tel að hún sé ein af máttarstólpum lífs á landinu. "Forritari er netþjónabústólpi, netþjónabú er landstólpi" orti skáldið. "Þar sem tveir forritarar koma saman, þar er hugbúnaðarhús" sagði þingmaðurinn.
Við íslendingar höfum borið gæfu til að hlúa að hagsmunum forritarastéttarinnar og leyfa ekki ótakmarkaðann innflutning á erlendri hugbúnaðarvöru. Hugbúnaðarráðuneytið hefur verið ómissandi þáttur í að gæta vegferðar íslensku þjóðarinnar.
Ef þessum vörnum hefði ekki verið komið við er ekki víst að íslenska væri töluð á íslandi í dag. Erlend ritvinnsluforrit styðja ekki við íslensku og henta ekki fyrir íslenskar aðstæður.
Öðru máli gegnir um þau ritvinnsluforrit íslensk sem skrifuð hafa verið hér og seld af forritasamsölunni um árabil. Hún er í eigu hugbúnaðarhúsa og sér um að safna saman uppfærslum og dreifa þeim til neytenda sem og að standa að vöruþróun. Núna nýlega setti hún á markað leikinn "Sokkaplaggaflokkarann" sem er íslenskuð útgáfa af leik sem er kallaður "Tetris" og er seldur í útlöndum.
Ég skrifa pistil núna í tilefni af því að nú á að leyfa innflutning á nýju erlendu stýrikerfi, Windows 7. Ég er sannfærður um að þetta yrði óheillaspor.
Íslenska stýrikerfið Iðavellir sem við notum öll í dag er sameiningartákn þjóðarinnar og dæmi um íslenskt handverk eins og það gerist best. Að vísu vantar stuðning við grafík og mýs en þetta eru einmitt dæmi um óþarfann sem við fengjum fyrir dýrmætann gjaldeyrinn.
Ég skora á ráðamenn að leyfa ekki þennan innflutning. Hann mun ganga af íslenskri forritarastétt dauðri.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 10:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.10.2009 | 23:10
Sjónarmið
Ég varð samferða starfsmanni erlends sendiráðs í vikunni sem leið. Ég spurði hann hvort mikil vinna hjá sendiráðinu færi í að fylgjast með málum íslendinga og skila skýrslum til heimalandsins.
Starfsmaðurinn játti því, sagði að Ísland vekti mikla athygli í hans heimalandi og menn vildu læra af því sem hér væri að gerast.
Svo spurði ég hvað honum fyndist persónulega og off-the-record um viðbrögð íslendinga við hruninu?
Hann sagðist ekki skilja að íslendingar væru ekki reiðari miðað við skaðann sem siðlausir menn í banka og stjórnkerfinu hefðu valdið, hvort menn skildu ekki hvað skaðinn væri stór?
Svo sagði hann að sér þætti furðulegt hvað sjálfstæðisflokkurinn kæmist upp með að hafa hátt eftir allann skaðann sem hann hefur valdið. "Ég hefði haldið að sá flokkur þyrfti að stíga mjög létt til jarðar"sagði starfsmaðurinn.
Svo tókum við upp léttara hjal.
16.10.2009 | 09:58
Picasa 3.5
Ég hef notað forritið Picasa til að skoða ljósmyndir sem ég hef tekið og geymi á hörðum diski.
Það er fljótvirkt og ókeypis og gerir flest það sem venjulegt fólk vill gera við heimilis ljósmyndirnar.
Í útgáfu 3.5 er kominn nýr möguleiki, sem er að leita að mannsandlitum í myndum og gefa þeim nafn.
Ég skrifa um þetta vegna þess að ólíkt mörgum nýjungum (t.d. gemsar sem skilja talaðar skipanir) virkar þessi nýjung vel. Forritið er betri mannþekkjari en ég. Picasa hefur fundið yfir 600 myndir af syni mínum, á öllum aldri en skjátlaðist aðeins 10 sinnum.
Forritið ruglar saman systkinum, jafnvel þótt mér hafi aldrei þótt þau lík. Eitthvað er sameiginlegt með þeim sem ég sé ekki en forritið sér.Nú veit ég að tölvur geta skoðað hópmyndir af fólki og þekkt nokkra einstaklinga úr. Þessi tækni er komin til að vera hvort sem það er gott eða slæmt fyrir samfélög manna.
Fyrst ég er farinn að tala um góð forrit vil ég benda á Notepad++ sem hefur tekið við af Notepad, Textpad og Ultraedit sem mitt uppáhalds forrit ef ég þarf að ritvinna skjöl önnur en Word skjöl.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 10:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.10.2009 | 13:57
Gott fólk
Eftir matinn vildi sonur minn finna tónlistarspilarann sinn, sagðist hafa gleymt honum í bílnum. Hann kom inn aftur og sagði að spilarinn hefði ekki verið þar.
Við leituðum í bílnum og í kringum bílinn en ekkert fannst.
Eftir matinn keyrðum við aftur til Reykjavíkur, við vorum að vona að þetta væri misminni, að spilarinn hefði gleymst heima en hann var ekki þar heldur.
Við lögðum heilann í bleyti. Konan mín rifjaði upp að hún hefði heyrt eitthvað detta þegar hún náði í kápuna sína í aftursætið.
Niðurstaðan var að sonurinn hefði lagt spilarann ofan á kápuna, spilarinn hafi svo fleygst út úr bílnum þegar kápan var tekin.
Þetta var mikil sorg, nýr iPod nano kostar margar íslenskar krónur..
Ég ákvað að fara aftur út að leita ef betra vasaljós gerði gæfumuninn og hann lægji milli aftursætanna.
Það fyrsta sem ég sá var iPod spilarinn, undir framrúðuþurrkunni!
Einhver miskunnsamur Samverji í Hafnarfirði hafði séð spilarann í götunni og sett hann undir rúðuþurrkuna. Þannig keyrðum við með spilarann frá Hafnarfirði yfir í vesturbæ Reykjavíkur án þess að taka eftir honum (rúðuþurrkurnar sjást ekki þegar þær eru ekki í notkun).
Ég þakka viðkomandi kærlega fyrir góðan greiða og fyrir að endurnýja trú mína á samfélaginu sem við búum í.
Svo er ég feginn að það rigndi ekki á leiðinni í bæinn!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.10.2009 | 09:33
Monty Hall
Þér er boðið í sjónvarpsþátt þar sem stjórnandinn sýnir þér þrjár lokaðar dyr. Bak við eina er nýr bíll en bak við hinar tvær eru geitur.
Þú mátt velja einar dyr. Svo opnar stjórnandinn eina af hinum tveim dyrunum sem þú valdir ekki og sýnir þér geit. Svo máttu skipta um skoðun ef þú vilt, velja hina óopnuðu hurðina, eða halda þig við hurðina sem þú valdir upphaflega.
Nú er spurningin: áttu að skipta eða halda þig við upphaflega valið?
Flestir segja að líkurnar á að vinna bílinn séu 1/3 fyrir hverja hurð hvort sem stjórnandinn opnar eina hurð eða ekki, þú getur allt eins haldið þig við upphaflega valið.
Það er samt ekki rétt svar.
Ég hef lesið flóknar skýringar á ástæðunni en svo sá ég í gær skýringu sem undirstrikar vel hvers vegna þú græðir á að skipta.
Ef hurðirnar væru 100 talsins og þú opnar eina þeirra eru 1% líkur á að bíllinn sé á bakvið hana. Nú opnar stjórnandinn 98 hurðir og sýnir þér 98 geitur. Það er bara ein hurð eftir.
Þú átt augljóslega að skipta yfir í þá hurð ekki satt? Hún var valin úr hópi 99 hurða og það val var ekki af handahófi heldur með vitund stjórnandans.
Gátan er kölluð "The Monty Hall problem" eftir stjórnanda þáttaris "Let's make a deal" í bandaríksku sjónvarpi.
Gátur | Breytt s.d. kl. 09:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)