1.9.2009 | 09:29
Hvar er kröftunum best beitt?
Fréttablaðið er með þrjár greinar í dag, um að maður eigi að vera góður við útrásarvíkinga og níðast ekki á eigum þeirra. Greinarnar eru allar eftir fasta penna blaðsins:
- "Sjálfbærar nornaveiðar" eftir Bergstein Sigurðsson
- "Meðan fjöldinn sefur - krafan um iðrun" eftir Jónínu Michaelsdóttur
- "Kæri herra Skap ofsi" eftir Víði Guðmundsson
Mér finnst skondið að sjá þrjár greinar um sama efni í blaðinu. Það læddist að mér sá grunur að þeir sem reka blaðið vilji hafa Range Roverana sína í verksmiðjulitunum áfram.
Það væri stórmannlegra að stunda málningarvinnuna á daginn en ég hef ekki haft uppburði í mér til að mæta sjálfur með málningu svo ég ætti ekki að segja mikið.
Ég hef heldur ekki viljað beita mér í Icesave, því ég veit bara ekki nógu vel hverju íslendingar lofuðu í ermina á sér. Það er lögfræðileg spurning. "Ef við lofuðum að borga, verðum við að borga" hugsaði ég.
Það að sjálfstæðisflokkurinn skuli vera á móti Icesave gerir mig líka beinlínis fylgjandi því að borga, af því ég trúi því nú að sjálfstæðisflokkurinn vinni alltaf á móti mínum hagsmunum. Hann hefur gert það hingað til.
Icesave og málningarslettur eru ekki á dagskrá hjá mér. Ég leyfi mér að fullyrða að fréttaumfjöllun um þessi mál séu "Red herring", beinlínis valin til þess að beina athyglinni frá mikilvægari málum.
Annað mál snýr að mér og öðrum borgurum, og væri uppbyggilegt að ræða: Af hverju sættum við okkur við ástandið á Íslandi eins og það var?
Þegar ég flutti heim voru vextir hér verðtryggðir 6-7%. (Verðtryggingin var upphaflega vegna þess að laun voru líka verðtryggð en allir virtust hafa gleymt því).
Ég var þá nýfluttur frá landi þar sem ég borgaði 5% óverðtryggt af húsinu. Venjulegt fólk í öðrum löndum hefði búið heima hjá pabba og mömmu frekar en að semja upp á svona óguðlega slæm kjör, og barið svo sleifum og pottum til að fá þeim breytt. Við biðum með öll mótmæli þar til eftir hrun. Af hverju?
Vextir hafa verið alveg út úr kortinu öll árin sem ég hef búið hérna. Mér er fyrirmunað að skilja hvernig fólk gat steypt sér í skuldaánauð með því að kaupa hús á þessum vöxtum. (Lánin í erlendum gjaldeyri voru svo vitlaus að ég ræði þau ekki einu sinni). Við vorum arðrænd af bönkunum.
Það eru ekki guðdómleg réttindi fjármagnseigenda að hreppa þjóðina í ánauð eins og landeigendur gerðu við leiguliða á miðöldum. Það á að vera mögulegt að eignast þak yfir höfuðið í eigin landi.
Verðlag á matvöru var þrefalt á við erlendis, sömuleiðis á öllum heimilistækjum. Við vorum arðrænd af kaupmönnum. Verslunareigendur leggja 120% á vöruna og segja að það sé nauðsynlegt af því markaðurinn sé svo lítill.
Rauði þráðurinn er að íslendingar hafa látið arðræna sig ár eftir ár og sýna engin merki um að vaxa úr grasi.
"Ríkið það er ég" sagði Loðvík 14. Ríkið ætti að vera við, en er það ekki. Í fyrsta lagi vinnur það með hinum ríku á móti þeim sem eru að koma undir sig fótunum og í öðru lagi höfum við verið heilaþvegin til að trúa því að ríkið sé á einhvern hátt óæskilegt og eigi að skipta sér af sem fæstu, þegar sannleikurinn er sá að ríkið er það eina sem getur gætt hagsmuna okkar. Meiri ríkisafskipti þurfa ekki að þýða kommúnisma og ríkis eldspýtnaverksmiðju.
Ríkið styrkir varla neytendasamtökin enda eru þau bitlaus. Jóhannes í neytendasamtökunum skrifar eina blaðagrein á ári til að minna á tilveru sína, rétt áður en hann er endurkjörinn af gömlum vana. (Dr. Gunni er hundraðfalt meiri neytendafrömuður en er samt ekki á launum við það).
Ef Íslendingar geta lært af hruninu að standa saman gegn auðvaldinu og gætt hagsmuna sína í viðskiptum við banka og verslanir, þá munu þeirra lífsgæði aukast til muna þrátt fyrir allar Icesave afborganir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.8.2009 | 11:06
Litla prumpueyjan
Hér er saga, hugguleg kvöldlesning fyrir yngstu kynslóðina sem kemur henni lauslega inn í þjóðmálin á Íslandi án þess að hún fái of miklar martraðir.
Sagan er í anda Thorbjörn Egner og endar vel eins og ævintýri eiga að gera. Vonandi gerir okkar saga það líka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.8.2009 | 08:53
Hvers eðlis eru peningar?
Einhvern tímann á 19.öld stofnuðu nokkrir starfsmenn bandaríkjaþings barnapössunarfélag fyrir sjálfa sig. Það voru gefnar út ávísanir í upphafi sem allir fengu jafn mikið af. Ein ávísun gilti fyrir eina pössun. Sá sem passaði fyrir einhvern annan gat svo notað ávísunina seinna til að borga fyrir barnapössun sinna barna. Allir byrjuðu því með sama "pening".
Það sem gerðist, var að sumir voru alltaf að passa börn, en aðrir voru alltaf að láta passa fyrir sig. Þeir sem voru búnir með ávísanirnar sínar gátu ekki látið passa meira fyrir sig, en þeir gátu ekki heldur passað fyrir þá sem höfðu eignast allar ávísanirnar því þeir voru svo mikið heima á kvöldin og þurftu bara ekki pössun. Barnapössunarhagkerfið botnfraus.
Það var leyst úr þessu með því að prenta nýjar ávísarnir og dreifa þeim jafnt á alla meðlimina í félaginu, bæði þá sem voru búnir með sínar, en líka þá sem áttu fullt af þeim. Þegar kerfið stoppaði aftur voru prentaðar ennþá fleiri ávísanir. Meira og meira af þessum miðum komst í umferð. Það virtist samt ekki vera skaðlegt.
---------------------
Svona í hnotskurn virkar hagkerfið líka. Ef eignamenn vilja ekkert kaupa af fátækara fólki, vilja ekki byggja brýr og breiðgötur eða kaupa flatskjái þá verður vesen því engin ný verkefni verða til fyrir fólk að vinna við og kreppa byrjar.
Í gamla daga leysti ríkið vandann með því að prenta seðla, en í stað þess að láta alla í samfélaginu hafa jafn mikið af nýju seðlunum, notaði ríkið þá sjálft til að kaupa nýja skóla og vegi af verktökum sem gátu borgað með þeim laun og keypt hráefni. Seðlarnir sem ríka fólkið hafði sankað að sér og vildi ekki nota í neitt misstu við þetta verðmæti, það köllum við verðbólgu
Verðbólgan var ekki sanngjörn gagnvart þeim sem áttu pening, eigur þeirra hjöðnuðu. En er ekki staðreynd að þeir sem eiga eitthvað verða að eyða því? Ef þú liggur á peningunum ertu hættur að spila spilið. Má það?
Seinna hætti ríkið sjálft að vasast í þessari seðlaprentun og gaf bönkunum þess í stað leyfi til að prenta peninga og lána þá. Það hlýtur að vera gott að geta með einu pennastriki í bókhaldi bankans búið til innistæðu í reikningi, lánað hana svo út og heimtað vexti í þokkabót á peninga sem maður vann sér aldrei inn.
Bankar hafa bindiskyldu. (þess vegna eru allir bankamenn svona klæddir :). Ef bindiskyldan er lág, geta bankarnir lánað peninga sem þeir fengu sjálfir lánaða, rétt eins og ef þeir ættu þá og þyrftu ekki að passa þá fyrir innlánseigendur.
Bankar sem fá leyfi til að prenta peninga verða sjálfkrafa rosalega ríkir, og með ríkidæminu er hægt að kaupa völd. Ef einhverjum líkar ekki þetta peningaprentleyfi bankanna er ekki víst að þeirra rödd fái að hljóma skírt í fjölmiðlum sem flestir eru mjög háðir bönkum, beint eða óbeint. ójæja...
Ég skil að ríkið skuli halda áfram að prenta "barnapössunarávísanir" en ég hef aldrei skilið hvers vegna bankar fá að gera það. Ef ríkið notar nýju peningana til að byggja brýr og vegi fara þeir þó amk. til að styðja góð málefni.
Mér finnst svo arfavitlaust að bankar megi prenta peninga, að ég hallast að því að þetta sé samsæri ríkra manna til að stjórna bak við tjöldin. Það er spurning hvort við viljum leyfa þetta í "nýja Íslandi". Eigum við ekki að leyfa ríkinu að sjá um peningaprentun?
PS: Auðvitað verða bankar að lána peninga sem aðrir hafa lánað þeim. En Davíð svo gott sem afnam bindiskylduna, það er það sem ég var aldrei sáttur við.
Fjármál | Breytt 24.8.2009 kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
17.8.2009 | 10:29
Góður púnktur
Hermann Guðmundsson skrifar:
Ég hef stundum undrað mig á því að þegar maður fer í kjörbúð og stendur við kjötborðið, koma stundum þrautreyndar húsmæður og fara að spyrja 18 ára gamlan afgreiðslumann að þvi hvort að eldunartíminn á kjötinu eigi að vera styttri eða lengri. Það eitt að standa fyrir innan borðið í slopp gefur greinilega ákveðinn trúverðugleika. Það er mér alla vega augljóst að húsmóðirin er sá sem er með reynsluna og alla áhættuna í þessu samtali.
Greinin í heild sinni er hér.
Hann spyr líka: Hvernig stendur á því að fjölmargir vel upplýstir einstaklingar gátu blindast jafn rækilega og raun ber vitni í velgengni síðustu ára?
Ég hlakka til þegar við megum vera að því að ræða þetta betur. Var þetta æskudýrkun, voru einkennisbúningar bankamanna, jakkafötin, eins og fallegir hermannabúningar? Var bara svona þægilegt að halda með sigurvegurunum? Erum við skrúfuð saman eins og Þjóðverjar í seinni heimstyrjöldinni?
Vonskan í heiminum birtist í því þegar hugsandi fólk hefst ekki að. Sumir treysta öðrum þegar þeir ættu að vita betur. Aðrir vita að þeir vita betur en segja samt ekkert. Það var þægilegra að láta bjóða sér í veislurnar.
Ég tel að hverjum hugsandi manni hafi mátt vera ljóst hvert stefndi fyrir hrun, og ég er orðinn leiður á að hlusta á þá sem segja að hrunið og Icesave sé ekki þeim að kenna og að þeir eigi ekki að borga.
Íslendingar þurfa að borga Icesave af því þeir kusu Davíð sem lagði niður þjóðhagsstofnun, lét Björgólf hafa Landsbankann, hækkaði ekki bindiskylduna heldur lagði hana niður!, hélt vöxtum háum, hafðist ekki að þegar hann vissi sennilega hvert stefndi. Ég gleymi ekki deginum þegar ég frétti að Landbankinn í Bretlandi hefði ennþá verið íslenskur banki. Hvílík handvömm! Var það ekki starf Davíðs að tryggja að svo væri ekki?
Á meðan einhver hrópar ennþá "ekki okkur að kenna, við borgum ekki" er ennþá hægt að lifa í blekkingu, að við höfum ekki gert neitt rangt, að ekkert sé okkur eða Davíð að kenna. Því tímabili fer bráðum að ljúka.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
2.7.2009 | 01:06
Gott borgarhjól
Hjólið á myndinni er með koltrefjareim í stað keðju svo engin smurning kemur í buxnaskálmar og ekkert viðhald er nauðsynlegt. Gírarnir eru 8 og innvortis og eiga að vera viðhaldsfríir. Bremsurnar eru diskabremsur bæði framan og aftan svo ekki þarf að stilla þær. Þetta er mikilvægt fyrir venjulegt fólk því hjól sem seld eru hvað mest á Íslandi þurfa óvenju mikið viðhald.
Svo fylgja alvöru bretti og hægt er að setja bögglabera á hjólið. Dekkin eru slétt, næstum mynsturslaus enda rúlla þau mun betur en ef þau væru grófmynstruð.
Hjólið heitir Soho og er frá Trek. Svona útfærsla ætti að vera algengari á götum Reykjavíkur, hún hentar mun betur en fjallahjólin - þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég hef orð á þessu en mér blöskrar hvað hjólabúðirnar okkar kaupa mikið inn af fjallahjólum þótt fæstir ætli upp á fjöll.
Hjólreiðar | Breytt s.d. kl. 01:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
26.6.2009 | 14:37
Magna Carta
Í Matteusi stendur að Jesú hafi hent "víxlurunum" út úr musterinu.
Hér er mynd sem var tekin á staðnum:
Það var bannað í gamla testamenti og í Torah, trúarriti gyðinga að innheimta vexti. Það var talsvert alvarlegra en kynvilla, held ég því Jesú barði ekki á hommum meðan hann gekk meðal vor, en hann sleppti sér alveg í musterinu.
Gyðingar gerðu seinna undantekningu á okurlánareglunni: Það mátti taka vexti af útlendingum.
Það var út af þessari undantekningu sem gyðingar urðu óvinsælir í Evrópu og sögur eins og "Kaupmaðurinn í Feneyjum" voru skrifaðar (af Shakespeare).
Árið 1215 gerðu englendingar með sér samning um að halda lög og frið, skjalið heitir Magna Carta enda skrifað á latínu.
Í honum stendur ýmislegt merkilegt, en þar á meðal að ef einhver Englendingur deyr og hann skuldar gyðingi peninga, þurfa erfingjar hans ekki að borga gyðingnum okurvextina þótt sá sem dó hafi álpast til að semja upp á þá.
Hér er ensk þýðing á latnesku málsgreininn (undirstrikun mín):
- If one who has borrowed from the Jews any sum, great or small, die before that loan be repaid, the debt shall not bear interest while the heir is under age, of whomsoever he may hold; and if the debt fall into our hands, we will not take anything except the principal sum contained in the bond. And if anyone die indebted to the Jews, his wife shall have her dower and pay nothing of that debt; and if any children of the deceased are left under age, necessaries shall be provided for them in keeping with the holding of the deceased; and out of the residue the debt shall be paid, reserving, however, service due to feudal lords; in like manner let it be done touching debts due to others than Jews.[14]
Í fljótu bragði sýnist mér að Englendingar séu orðnir Gyðingarnir, nema við eigum að borga vextina en ekki höfuðstólinn. Hvar er okkar Magna Carta sem ver okkur fyrir þeim?
Ef við ætlum að lifa hér áfram þurfum við að ákveða hvort við ætlum að umbera þessa óværu sem er stjórnlaus bankastarfsemi og okurlán. Kannski Jesú og fortíðin hafi eitthvað að kenna okkur þarna?
Í "góðærinu" sem var hreint ekkert góðæri, var því haldið fram að hin nýja kynslóð bankamanna væri ekki sníkjudýr á samfélaginu. Annað hefur komið fram. Þurfum við ekki að taka afstöðu til þessa hluta alheimsvæðingar og kapítalisma áður en enduruppbyggin hefst?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
25.6.2009 | 23:37
Takk fyrir samfylgdina
Bloggar | Breytt 26.6.2009 kl. 00:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.6.2009 | 12:54
Drauma myndavélin
Loksins er komin lítil nett vél með útskiptanlegri linsu og sem tekur jafn góðar myndir og reflex vél. Hún heitir Olympus E-P1.
Linsan sem fylgir er nett og lætur vélina líta venjulega út, en sjáið svo þessar linsur:
Vélin tekur nýjan staðal sem er kallaður Micro 4:3 en getur líka tekið gömlu Olympus Zuiko linsurnar sé notað millistykki.
Svo sakar ekki að geta þess að hún getur tekið upp High Definition video, 1280x720. Hér eru sýnishorn af kvikmyndum.
Hér er grein um vélina frá dpreview.com
23.6.2009 | 11:23
Apple Approved?
Apple heimurinn er með eindæmum lokaður, eins og hálfgerður sértrúarsöfnuður. Ég átti ágæt Bluetooth heyrnartól en þau virkuðu ekki með iPhone af því þau eru ekki frá Apple heldur frá Plantronics. Samt er Bluetooth opinn staðall.
Ég vona að nýja lifrin hans Jobs geri það sem hún á að gera þótt hún sé ekki "Approved Hardware" fyrir hans sálarhulstur. Sennilega hafa læknarnir blekkt líkama Jobs til að taka hana í notkun. Jobs sjálfur myndi lögsækja þá fyrir það ef hann hugsaði um líkama sinn eins og tölvurnar sem hann selur. Ojæja...
![]() |
Jobs aftur til vinnu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 11:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
11.6.2009 | 10:18
Beint frá býli
Á Seljavöllum er nú hægt að kaupa nautakjöt beint frá bónda. Þau hjónin Eiríkur Egilsson og Elín Oddleifsdóttir hafa innréttað litla kjötvinnslu heimafyrir. Nautunum er slátrað í sláturhúsi Norðlenska á Höfn, en síðan taka þau kjötið heim og það er látið hanga í kæli í u.þ.b 2 vikur til að það meyrni.
Kjötið selja þau síðan úrbeinað, fullsnyrt og pakkað í heilum, hálfum og ¼ hluta skrokks. ¼ hluti úr skrokk er að gefa u.þ.b 30 40 kg af beinlausu kjöti sem selt er á 1400 kr /kg sama kílóverð jafnt fyrir t.d fille, gúllas og hakk. Þetta ætti því að vera töluverð búbót fyrir neytendur, en jafnframt segja þau mikinn kost að fólk getur verið öruggt með að þetta er 100 % kjöt sem engu er blandað saman við, en það mun vera algengt að það hakk sem er á boðstólnum í verslunum sé blandað ýmsum aukaefnum til að gera kjötið þyngra.
Getur einhver miðlað af reynslu sinni með innkaup?
Neytendamál | Breytt s.d. kl. 10:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)