Færsluflokkur: Bloggar
15.9.2009 | 22:30
Hinir sterkustu lifa af
Í sjónvarpinu í gær var góður þáttur með David Attenborough um Charles Darwin og ævistarf hans. Hann minnti mig á þessa frásögn sem Dr. Ágúst Valfells sagði mér:
Þegar ég eignast M&M poka lít ég á það sem skyldu mína að viðhalda ágæti og styrk þessarar sælgætistegundar. Þess vegna held ég M&M einvígi.
Ég tek tvö M&M milli fingranna og klemmi saman þar til annað þeirra brotnar. Það "tapaði" og ég ét það strax. "Sigurvegarinn" fær að vera með í næsta leik.
Yfirleitt eru brún og rauð M&M sterkari, þessi nýju bláu eru erfðafræðilega síðri. Ég held að blá M&M sem kynstofn geti ekki enst lengi á vígvelli snakk og nammiframleiðslu.
Stundum kemur fram stökkbreyting, M&M sem er vitlaust í lögun, oddhvassara eða flatara en öll hin. Yfirleitt er þetta veikleiki, en stundum er þetta einmitt nammið sem hefur aukinn styrk. Þannig heldur M&M áfram að aðlagast umhverfi sínu.
Þegar ég klára allan pakkann verður eitt M&M eftir, það sterkasta í pakkanum. Það er ekkert vit í að borða það. Ég set það í umslag og sendi til M&M Mars, A Division of Mars, Inc., Hackettstown, NJ 17840-1503 U.S.A. með spjaldi sem á stendur "Vinsamlega notið þetta M&M til undaneldis".
Í síðustu viku sendu þeir mér þakkarbréf og stóran poka af M&M. Ég lít á þetta sem rannsóknarstyrk.
Bloggar | Breytt 27.9.2009 kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.9.2009 | 22:26
Cargo Cult
Í seinni heimsstyrjöld komu bandaríkjamenn á fleiri afskekktar eyjar en þá íslensku. Þeir lögðu litlar flugbrautir á mörgum eyjum í Kyrrahafi, þar á meðal eyjaklasanum Vanuatu.
Flugvélar hlaðnar varningi byrjuðu að lenda, eyjarskeggjum til mikillar ánægju (og undrunar því þetta voru frumstæðar þjóðir). Pottar og pönnur, vasaljós, skóflur, hnífar og fleiri undartól komu út úr flugvélunum.
Þegar stríðinu lauk og kaninn fór heim mynduðust trúarbrögð i kringum undarlega fólkið sem kom með allt frábæra dótið. Eyjarskeggjar fóru að byggja byssur og skriðdreka úr hálmi og laufblöðum. Þeir byggðu litla flugturna og reyndu að kalla þessa frábæru flugvélar með dótið niður aftur.
Þessi undarlegu trúarbrögð fengu nafnið "Cargo Cult" því "Cargo" var það sem eyjarskeggjar vildu fá en skildu ekki hvernig þeir gátu fengið. Þeir endurtóku ritúölin án þess að skilja hvernig þau virkuðu.
Þetta hugtak var síðar notað af vísindamanninum Richard Feynman til að lýsa lélegum vísindum, vinnu sem hafði yfirbragð vísinda, án þess að hafa vísindaleg vinnubrögð í heiðri.
Rétt eins og gerfiflugturn og gerfiflugbraut getur ekki látið guðdómlegar flugvélar með varning birtast úr tómu lofti geta sönn vísindi ekki verið stunduð nema undirliggjandi reglur séu í heiðri hafðar. Menn í hvítum sloppum í nýbyggðum rannsóknarstofum og skólabyggingum eru yfirborðið en ekki kjarninn.
Vísindamenn þurfa að vera tilbúnir að efast um eigið ágæti, eigin kenningar og eigin niðurstöður og vera tilbúnir að leyfa kollegum að fara yfir vinnu þeirra til að ganga úr skugga um að allt sé með felldu. Gagnrýnir kollegar eru ómetanlegir.
Sovétmenn stöðvuðu framrás vísinda í sínu heimalandi með því að dæla peningum í rannsóknir sem framkölluðu niðurstöður sem voru yfirvöldum þóknanlegar. Erfðafræði var ekki til. (Sjá grein hér). Ef sönn vísindi eiga að þrífast verða menn með óvinsælar rannsóknir líka að geta fengið fjármagn.
Ræða Feynman er hér. Hún er mjög læsileg, Feynman er góður penni.
Þetta hugtak "Cargo Cult" hefur líka verið notað um forritara sem gera hluti án þess að skilja af hverju. Byrjandi í forritun afritar gamla hluta af forriti sem virkuðu og reynir að láta þá virka í nýju umhverfi án þess að skilja hvað hann gerir.
"Cargo Cult" er líka notað um pólítík. Þjóðlönd sem þykjast vera með lýðræðislega ferla, þing, ráðuneyti og kosningar, en þar sem raunverulegt lýðræði er víðs fjarri.
Það er freistandi að vera latur og afrita það sem aðrir virðast vera að gera, í löndunum í kring, búa til kauphallir, prenta gjaldmiðil o.s.frv. en það er til lítils ef undirliggjandi kerfi virka ekki. Borgarar þurfa að gegna borgaralegum skyldum sem neytendur og gagnrýnendur. Menntamenn þurfa að gagnrýna það sem er ekki með felldu. Fréttamenn þurfa að veita aðhald.
Nú er tímabil í sögu Íslands þegar fólk ætti að geta leyft sér að hugsa gagnrýnið um undirstöður samfélagsins. Við viljum ekki byggja fleiri "Cargo Cult" mannvirki, hvorki úr steypu né fólki.
Feynman endaði grein sína þannig:
So I have just one wish for you the good luck to be somewhere where you are free to maintain the kind of integrity I have described, and where you do not feel forced by a need to maintain your position in the organization, or financial support, or so on, to lose your integrity. May you have that freedom.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.8.2009 | 11:06
Litla prumpueyjan
Hér er saga, hugguleg kvöldlesning fyrir yngstu kynslóðina sem kemur henni lauslega inn í þjóðmálin á Íslandi án þess að hún fái of miklar martraðir.
Sagan er í anda Thorbjörn Egner og endar vel eins og ævintýri eiga að gera. Vonandi gerir okkar saga það líka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.6.2009 | 23:37
Takk fyrir samfylgdina
Bloggar | Breytt 26.6.2009 kl. 00:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.2.2009 | 21:28
Hvernig bakar maður svona brauð?
Ég veit fátt betra en alvöru franskt "Baguette". Ég tók mynd af einu slíku í haust því ég vildi geta spurt sérfræðinga á netinu hvernig maður bakar brauð þannig.
Sjáið þessi tvö brauð á myndinni:
Efra brauðið er venjuleg "Baguette" eins og íslenskur bakari myndi selja. Áferðin er eins og í venjulegu franskbrauði eða köku.
Neðra brauðið er alvöru franskt "Baguette". Loftgötin eru miklu stærri og óreglueg, og brauðið sjálft er miklu seigara, maður þarf að tyggja það betur.
Nú spyr ég: Hvernig fer maður að því að fá þessa sérstöku frönsku áferð á brauðið?
Ég læt tvær myndir meðfylgja fyrst ég er farinn að róta í myndum frá í Frakklandi. Sú fyrri er bara tekin eftir innkaupaferð:

Sú seinni er tekin nú á gamlárskvöld:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
22.1.2009 | 16:15
Mjög er um tregt tungu að hræra
Ég hef lítið bloggað undanfarið því ég taldi mig ekki hafa neitt uppbyggilegt að segja úr því sem komið væri. Ég hafði talað gegn ástandinu fyrir hrun en eftir hrun hef ég ekki getað komið auga á næstu leiki í stöðunni sem upp er komin.
Fyrir hrunið fór ég að blogga því ég þurfti að finna að aðrir í þjóðfélaginu sæju það sama og ég. Þá vissi ég varla í hvernig raunveruleika ég lifði því allt sem ég sá var á skjön við allt sem stóð í fjölmiðlum og stjórnmálamenn sögðu. Það var talað um góðæri þótt borgin væri að breytast í rústir af veggjakroti, yfirgefnum húsum og steinsteypukumböldum. Enginn sem ég þekkti borðaði á Salt eða Vox. Fólk var farið að borða óæti eins og "skinku" frá Bónus á sama tíma og það safnaði erlendum skuldum - margir án þess að vita það.
Þetta var eins og í snædrottningunni eftir H.C. Andersen þar sem menn voru með flís úr spegli kölska í auga og sáu fegurðina í kaldranaleikanum. Nú virðist flísin hafa skolast burt en mikill er skaðinn.
Í morgunútvarpinu í gær sagði þulurinn að norðmenn væru að kaupa 57 orrustuþotur af bandaríkjamönnum, þetta væri stærsta einstaka fjárfesting norðmanna frá upphafi og reyndar sama upphæð og þýskir bankar hafa tapað á þeim íslensku. Við getum ekki einu sinni keypt eina björgunarþyrlu, hvernig eigum við að borga allar þessar orrustuþotur?
Ég get ekki séð að aðrar þjóðir muni koma okkur til hjálpar. Eftir heimsstyrjöldina seinni fengu þjóðverjar Marshall-aðstoð eins og fleiri Evrópubúar, en þá vildu bandamenn byggja Evrópu upp til að geta síðar átt við hana viðskipti. Hvar er okkar Marshall ríkisritari? Hvaða ómissandi iðnaður er á Íslandi sem þarf að koma aftur í gang? Ekki eigum við Volkswagen verksmiðjur eða BASF og Siemens? Ef þjóðir heimsins hjálpa ekki Palestínumönnum, af hverju ættu þær þá að hjálpa heimskum jeppaeigendum á Íslandi?
International Monetary Fund er engin góðgerðarstofnun og mun vilja fá lánin endurgreidd með viðunandi vöxtum. Ef við veljum að borga ekki eins og Steingrímur leggur til munu aðrar þjóðir setja okkur í einangrun eins og Bandaríkjamenn gerðu við Kúbu.
Hvað sem öðru líður getum við ekki haft sömu stjórn. Ég vil heldur vita hversu slæmt ástandið er en að vefja umbúðum um sárin meðan það grefur ennþá í þeim.
Ég get sagt að mér líður miklu betur á Íslandi núna en fyrir hrun. Þjóðarsálin er timbruð en hún er alla vega ekki lengur full og óviðræðuhæf. Um daginn drap bíllinn á sér, ég náði að renna honum inn á bensínstöð. Að mér þyrptust menn sem vildu hjálpa til að koma bílnum í gang. Þegar ekkert gekk skutlaði einn þeirra (hann heitir Halldór og er leigubílstjóri) mér heim og hringdi seinna um kvöldið til að láta mig vita símanúmer hjá neyðarþjónustu. Maðurinn frá neyðarþjónustunni sótti mig á laugardegi, kom bílnum í gang (það þurfti að endurræsa tölvuna) og rukkaði mig ekki því hann tók að sér að rukka umboðið beint. Þetta er Ísland eins og ég man eftir því fyrir græðgisvæðinguna.
Íslendingar geta staðið saman eins og bræður, það er okkar stærsti styrkur, og okkar veikleiki þegar hann breytist í fyrirgreiðslupólitík. Nýja Ísland þarf að vera trúrra grunnhugmyndum um jafnrétti, réttlæti og bræðralag og finna leiðir til að veita sjálfu sér aðhald.
Kannski verðum við fyrsta þjóðin sem setur klausu um öldungastjórn eða "Village Elders" í stjórnarskrána. Ég myndi vilja fá leiðsögn frá fólki sem er orðið of gamalt til að vera á kafi í sérhagsmunum eða vera með hræsni.
Svo kemur líka til greina að útlendingar verði fastur hluti af ríkisstjórn eins og Vatíkanið notar svissneska varðmenn. (Helsta ástæðan fyrir því að ég vildi ganga í Evrópubandalagið, var að opna hér út og fá ferska vinda inn en ég er ekki lengur viss um að það yrði sjálfsögð afleiðing af inngöngunni). Margir háskólar eru með prófessora frá öðrum háskólum í kennslu og rannsóknar matsnefndnum, og gera kröfur um að prófessorar hafi ekki sjálfir menntað sig hjá sömu stofnun til þess að skólinn úrkynjist ekki. Kannski þarf íslenska ríkið sambærilega útlendingaherdeild?
"Hlutirnir fara alltaf einhvern veginn" eins og Halldór Laxness sagði. Ísland verður í byggð áfram þótt ég viti ekki hvernig. Bretar, Frakkar, Þjóðverjar og Bandaríkjamenn geta allir fundið hluti í sinni sögu sem þeir blygðast sín fyrir hvort sem það eru nýlendur, stríð við aðrar þjóðir, spillingarmál eða valdníðsla. Þessar ófarir hafa stælt þá og vonandi gert að betri lýðveldum.
Við vorum að fá okkar fyrstu stóru lexíu sem losar okkur kannski við hrokann sem var okkur lifandi að drepa. Nú er spurningin hvernig við vinnum úr þessari dýru lexíu þannig að hún geti orðið eðlilegur og þolandi hluti af íslandssögunni. Vonandi verður hún ekki eins og sturlungaöldin, upphafið af aldalangri niðurlægingu. Við höfum ennþá valið, en fyrst þurfum við að losna við alla fulltrúa gamla tímans. Þannig eru byltingar bara.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
8.12.2008 | 10:56
Sushi uppí tré
Köttur húkir á grein í tré fyrir utan gluggann okkar á þriðju hæð hér í Frakklandi og mjálmar án afláts.
Í garðinum búa þrír kettir, tveir sem eru í lagi og svo þessi. Hinir nota tréð til að komast upp á þak á annari hæð á húsinu á móti en þessi þriðji köttur, sem heitir Sushi, er ekki eins vel gefinn og þeir vilja ekkert með hann hafa. Hann hljóp upp trjábolinn á föstudagsmorgninum en gleymdi að taka hægri beygjuna upp á þak, hljóp áfram upp og situr nú hærra en nokkur nær.
Kötturinn er í laufkrónunni fyrir ofan...
Hann er búinn að vera þar í þrjá daga þegar þetta er skrifað. Slökkviliðið kemst ekki inn í portið með stigabíl og kettir eru ekki hátt á forgangslista hjá þeim. Ég veit ekki hvort ég þyrði þrjár hæðir upp stiga sem hallar að grönnu tré þótt ég vissi hvar ég ætti að fá hann lánaðan.
Kjartan sonur minn vill sprauta köttinn niður með vatni og grípa í lak. Ég held að það væri besta aðferðin. Hann benti líka á að þetta myndi enda einhvern veginn, við höfum aldrei séð kattabeinagrind uppi í tré. Maður væri farinn að taka eftir þeim ekki satt?
Konan mín segir að þetta sé Darwinslögmálið í framkvæmd og að þessi köttur sé móðgun við aðra ketti, eins og til dæmis köttinn okkar sem heitir Kismundur og myndi aldrei gera svona lagað.
Þegar ég sagði kollega mínum að kötturinn okkar héti Kismund spurði hann hvort hann væri skírður í höfuðið á trommuleikaranum í "The Who"? Það tók mig nokkra stund að skilja að nafnið á Keith Moon er borið fram eins og Kismund á frönsku. Prófið að bera nafnið fram með frönskum hreim nokkrum sinnum...
Kismundur
Mér datt í hug að ef Sushi lifir þetta af ætti hann að fá nýtt nafn, "General Motors" eftir fyrirtækinu sem er búið að koma sér í ógöngur og vill nú að bandaríska þjóðin bjargi sér. Mér fannst ekki fráleitt að þjóðin legði í púkkið þangað til ég hugleiddi hvenær mig hefði síðast langað í amerískan bíl. Svarið er "Aldrei". Hvernig þeir geta framleitt þessa kagga með hernaðarnöfnum eins og "Charger", "Fury", "Spitfire", "Stealth" og "Viper" ár eftir ár án þess að mig langi í einn einasta er mér hulið. Mikið vona ég að þessi fyrirtæki fái að deyja svo nýjar hugmyndir komist á teikniborðið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
6.11.2008 | 09:44
Neyðin kennir blönkum manni að vinna
Þessi konar heitir Amy Smith og kennir við MIT.
Sjáið hvað hún fæst við í þessu myndbandi.
Þótt við búum ekki í moldarkofum getum við nýtt okkar eigin afurðir miklu betur en við gerum.
- Getum við framleitt drumba í eldstæði úr þjöppuðum dagblaðamassa, þurrkað hann með hitaveituvatni?
- Við ættum ekki að flytja inn próteinduft fyrir vaxtarækt þegar við getum framleitt það úr mjólkurafurðum í stað amerískra sojabauna.
- Við hljótum að geta gert okkar eigin hunda/kattamat úr afgöngum.
- Við flytjum inn hraunmola fyrir ketti til að skíta á! Er ekki hægt að framleiða kattasand á Íslandi?
- Hér í Frakklandi er mjög vinsælt að kaupa grænmetis súpur á fernum, þetta er alveg drauma heilsufæði og kostar lítið. Hvernig væri að selja íslenskar súpur á fernum?
- Af hverju að flytja inn eldhússborð úr granít þegar fólk annars staðar er að nota litaða steinsteypu til að gera mjög flottar borðplötur?
Þetta er steinsteypa og gæti allt eins verið íslensk framleiðsla.
Í eðlilegu árferði á að borga sig að búa þessa hluti til hér á landi. Ef það borgar sig að safna skuldum í stað þess að gera hlutina sjálfur er eitthvað mikið að.
Mikil nýsköpun getur farið fram á bóndabæjum, sérstaklega ef úrelt lög (eins og um heimaslátrun) verða afnumin. Eins og Amy segir réttilega: Bændur eiga ekki að hætta að vera bændur, en þeir eiga að hætta að vera fátækir bændur.
Ekki öll verkefni þurfa milljónalán frá bönkum. Hvað er að því að byrja smátt og nota hagnaðinn til að stækka?
Þegar ég var lítill sagði ég einu sinni "Mamma, mér leiðist". Mamma byrsti sig og sagði að það væri lúxusvandamál, það væri alltaf nóg að gera. Það er örugglega rétt hjá henni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
9.9.2008 | 08:22
Fuglagarg og blómafýla
Ég er aftur kominn til Frakklands. Ég hjóla í vinnuna eftir merktum hjólaleiðum og læt ilm af blómum, nýbökuðu brauði og ilmvatni á leiðinni gera mig meyran.
Borgarbúar Rennes eyða sínum sveiflulausu Evrum gegndarlaust í blóma- skreytingar meðfram vegum, skraut á húsmæna og málningu þótt húsin séu ekki orðin almennilega þakin veggjakroti eða flögnuð af þeim málningin.
Náttúran bruðlar með gjafir sínar til kvennanna sem ganga berleggjaðar og mittisgrannar í tísku sem hlýtur að hafa kostað eitthvað. Af hverju geta þær ekki verið hraustlegar með ístru undir flíspeysum fyrir aftan barnavagna um táningsaldurinn eins og heima?
Í stuttu máli er ég í góðu skapi því hér er alltaf sama helvítis blíðan, fuglagarg og blómafýla*.
Ég ætla að blogga stutt og sjaldan á næstunni og reyna að fylgjast sem minnst með fréttum frá Íslandi því áhyggjur af afleiðingum óráðsíunnar eru slítandi og tímafrekar.
Kveðja, Kári
* Tilvitnun frá Sigurði Rúnari Sæmundssyni
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
23.8.2008 | 15:48
Maraþon nördaskapur
Ég hljóp hálfmaraþon og er ágætlega sáttur við 2:14 enda er ég þungur með eindæmum þetta árið. Eldra blogg mitt um megrunaraðferðir stóð svosem fyrir sínu en þar er bara svo, að það er ekki nóg að langa til að langa til að grennast, mann verður að langa til að grennast.
Ég hljóp með Garmin úr sem sýnir mér hlaupið í ótrúlegum smáatriðum. Hér er hjartsláttur (rauður) og meðaltími á kílómetra (blár) og hæð yfir sjávarmáli (græn):
Og hér er kortið af Reykjavík sem sýnir hvert ég fór:
Ef ég "Zooma inn" sé ég allar göturnar í Reykjavík. Kortið sem fylgir úrinu er ekki svona nákvæmt af Íslandi, en mér var bent á kort sem hægt er að sækja ókeypis hér:
http://www.ourfootprints.de/gps/download/msislandtopo.exe
Það þarf bara að ná í hugbúnaðinn og velja "install", eftir það birtist flipi í Garmin forritinu fyrir úrið, sem leyfir að nýja kortið sé valið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)