Færsluflokkur: Hjólreiðar
26.8.2008 | 23:35
Don't tread on me.
Ingi Þór Einarsson hjólreiðamaður sendi þessa fyrirspurn til vegagerðarinnar vegna þess að hann komst ekki leiðar sinnar:
Ég hjóla reglulega milla Voga og Keflavíkur. Þó ekki sé þægilegt að hjóla Reykjanesbrautina er hún á flestum stöðum með góða vegaöxl. Nú er hinsvegar bannað að hjóla í gegnum nýja umferðamannavirkið (mislægu gatnamótin) sem tengja Voga við Reykjanesbrautina.
Á að banna hjólreiðar á Reykjanesbrautinni? Ef svo hvernig eigum við sem notum hjólið (auk allra ferðamannanna) að komast á milli. Ef ekki, hvernig á ég þá að koma mér upp á Reykjanesbrautina þegar ég kem úr Vogunum?
Hér er svarið sem hann fékk frá Magnúsi Einarssyni deildarstjóra þar:
Við hönnun Reykjanesbrautar er gengið út frá því að hjólreiðar verði bannaðar á nýrri breikkaðri Reykjanesbraut enda fari hjólreiðar ekki saman við þunga og hraða umferð.
Í hönnun verksins er gert ráð fyrir að það verði farið í nauðsynlegar ráðstafanir til að unnt sé að beina hjólreiðaumferð um gamla Keflavíkurveginn og Vatnsleysustrandaveg. Vegagerðin hefur verið í samvinnu við sveitarfélögin á þessu svæði og hafa farið fram umræður hvernig á að útfæra hugmyndina, en samkvæmt lögum þá er skipulag og göngustígar á forræði sveitarfélaga.
Mér líst ekkert á þetta. Í fyrsta lagi er Ingi Þór að rekast á skilti þar sem honum er bannað að hjóla án þess að fá neina aðra leið í staðinn. Það er dónaskapur. Hann þurfti að spyrja hvað gengi á?
Svo fær hann svar um að það eigi einhvern tímann að lagfæra úr sér genginn malarstíg til að hjólreiðafólk neyðist til að fara fáfarnar malarslóðir, ekki hluti af vegakerfinu. Fyrst þurfi fullt af fólki sem mun ekki hafa samráð við hjólafólk samt að hittast og ræða málin og þangað til verður hjólafólk strandaglópa.
Svona vinnubrögð verða að vera algerlega bönnuð. Vegir sem eru eingöngu hannaðir fyrir bíla eru nýlunda hér á landi og þeir eru ekkert sjálfsagt fyrirbæri.. Hjólreiðamenn eru ekki 2.flokks fólk og það má ekki loka vegum á hjólreiðamenn án þess að bjóða upp á aðra leið í staðinn sem er hluti af einhverju vegakerfi en ekki bara slóði sem á eftir að teikna, byrjar hvergi og endar hvergi.
Þetta minnir mig á þegar indjanarnir voru reknir frá heimkynnum sínum í Florida til auðnanna í norðri sem þeim var sagt að væru frábærar en voru það ekki. Hjólreiðafólk verður að taka svona slagi núna eða sætta sig við að hjólreiðar endi sem útivistarskemmtun. Ef menn segja að það sé sjálfsagt að banna hjólafólki aðgang að "alvöru vegum" vil ég benda á að í bílalandinu Bandaríkjunum er oft leyfilegt að hjóla í öxlinni á hraðbrautum og eru þá jafnvel sérmerkingar fyrir hjólamenn þar.
Ég legg til að hjólreiðar verði leyfðar á vegöxl Reykjanessbrautar þangað til Vegagerðin treystir sér til að lokka hjólreiðafólk af brautinni með einhverju betra, ekki að loka fyrst á hjólafólki en koma svo með óljós loforð um "Pie in the sky".
Bandaríkjamenn notuðu þennan fána þegar þeir börðust fyrst gegn Bretum. Hjólafólk ætti kanski að fara að nota hann.
23.8.2008 | 15:48
Maraþon nördaskapur
Ég hljóp hálfmaraþon og er ágætlega sáttur við 2:14 enda er ég þungur með eindæmum þetta árið. Eldra blogg mitt um megrunaraðferðir stóð svosem fyrir sínu en þar er bara svo, að það er ekki nóg að langa til að langa til að grennast, mann verður að langa til að grennast.
Ég hljóp með Garmin úr sem sýnir mér hlaupið í ótrúlegum smáatriðum. Hér er hjartsláttur (rauður) og meðaltími á kílómetra (blár) og hæð yfir sjávarmáli (græn):
Og hér er kortið af Reykjavík sem sýnir hvert ég fór:
Ef ég "Zooma inn" sé ég allar göturnar í Reykjavík. Kortið sem fylgir úrinu er ekki svona nákvæmt af Íslandi, en mér var bent á kort sem hægt er að sækja ókeypis hér:
http://www.ourfootprints.de/gps/download/msislandtopo.exe
Það þarf bara að ná í hugbúnaðinn og velja "install", eftir það birtist flipi í Garmin forritinu fyrir úrið, sem leyfir að nýja kortið sé valið.
Hjólreiðar | Breytt s.d. kl. 15:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
22.7.2008 | 12:00
Hvar er best að búa?
Samkvæmt CNN Money er Fort Collins í Colorado einn af bestu stöðunum til að búa í Bandaríkjunum. Eitt af því fyrsta sem nefnt um borgina er að þar er "bicycle library", borgin leigir út reiðhjól.
Það væri gaman að beita mælikvörðum CNN á Reykjavík og sjá hvernig hún kæmi út í samanburði. Hvernig er veðursældin, hvað kostar að kaupa í matinn, hvað kostar að kaupa hús, hvað eru menn lengi í vinnuna, o.s.frv.
Bandaríkjamenn hafa lengi gert svona "cost of living" og "quality of life" kannanir fyrir þá sem eru á faraldsfæti. Það má segja að Reykjavík hafi haft einokunaraðstöðu á Íslandi og þurfi því ekki að keppa við aðrar borgir um aðstöðu til kayakróðra, fjölda kílómetra af hjólastígum, útimarkaði á sumrin, meðalfjarlægð í vinnu. Ég vissi að það er fákeppni á Íslandi en ég hafði ekki hugsað um hana í þessu samhengi.
Hins vegar má segja að það sé álíka mikið mál að flytja frá Reykjavík til Kaupmannahafnar eins og frá einni borg í Bandaríkjunum til annarar og því þurfi Reykjavík að keppa við aðrar borgir. Kosturinn við borgarflutninga í Bandaríkjunum er að fólki tekst yfirleitt að halda viðskiptum við sama tryggingafélag og banka og kostnaður við að flytja búslóðina er lítill miðað við kostnað af gámaflutningi yfir haf.
Bandaríkjamenn gera svo mikið af því að flytja milli borga að þeir hafa gert það að listgrein, liggur mér við að segja. Það má segja að þeir séu orðnir "nomadic" eða flökkufólk. Í því ljósi er merkilegt að þeim skuli ekki koma betur saman við Araba sem eru komnir af flökkufólki.
Hjólreiðar | Breytt s.d. kl. 12:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.5.2008 | 10:02
Hvers vegna lögreglan skráir ekki stellnúmer - svarið er komið
Ég velti fyrir mér hvers vegna lögreglan skráir ekki stellnúmer þeirra hjóla sem koma inn til þeirra og gat mér í kvikindisskap til að þeir héldu ágóðanum af þeim hjólum sem færu á uppboð. Satt að segja datt mér ekki í hug að það væri reyndin.
Ég fékk svo þetta svar frá starfsmanni innan lögreglunnar sem vill ekki láta nafns síns getið:
Jú, þetta er nefnilega spilling. Lögreglufélag Reykjavíkur fær hlut af óskilamunauppboðinu sem haldið er einu sinn á ári. Síðan útdeilir Lögreglufélag Reykjavíkur þessum aurum í einhver mál skv. einhverjum reglum.
Það er fáránlegt að skrá ekki raðnúmer hjóls í LÖKE (lögreglukerfið) því það bíður svo sannarlega upp á það.
Þetta er ekki alvarlegasta spillingarmál sem ég hef heyrt um, en það ætti samt ekki að láta þetta líðast.
Kveðja, Kári
18.5.2008 | 10:26
Ég fann Trek hjól í Vesturbænum...
Ég fann stórt silfurlitað Trek reiðhjól hjá Hótel Sögu föstudagskvöldið 16.maí. Þetta er dýrt og fínt hjól, með dempara að framan, vökva- bremsum, dáldið mikið rispað. Hringdu í síma 862 9108 ef þú kannast við gripinn.
Ég hringdi í lögregluna en skiptiborðið fyrir tapað fundið er lokað um helgar. Svo setti ég upp tilkynningu í Melabúðina, og ég kom við á bensínstöð á Melunum en þar sagði afgreiðslumaðurinn að einhver hefði komið og spurt eftir fínu Trek hjóli. Hann hafði ekki skilið eftir nafnið sitt svo ekki gat ég hringt í hann.
Síðast hringdi ég í Örninn sem selur Trek og sagði þeim stellnúmerið -- sem er grafið í reiðhjól undir fótsveifaröxlinum -- það var ekki á skrá.
Ég hef lært af þessari uppákomu að ef ég vil að fólk skili mér eigum mínum er ágætt að merkja þær. Ég tók mig til og merkti hjólið mitt með nafni og símanúmeri. Ég legg til að aðrir hjólakappar geri slíkt hið sama.
Ég hef hringt áður í lögregluna þegar svona lagað kom upp á, spurt hvort einhver saknaði hjóls með ákveðnu stellnúmeri. "Við skráum ekki stellnúmer, komdu bara með hjólið og við setjum það í geymsluna". Ég spurði af hverju stellnúmer á óskilahjólum væru ekki skráð. Það stóð ekki á svari: "Þau eru svo mörg".
Lögreglan getur því ekki hringt í eigendur ef hjólin þeirra komast í leitirnar, menn verða að mæta reglulega og róta í gegnum hundrað hjól í kös. Ég skil ekki af hverju lögreglan reynir ekki að koma hjólum til eigenda sinna. Í bænum mínum í Bandaríkjunum afhenti lögreglan sérstök skilti með númeri sem hægt var að setja á hjólin, eins og bílnúmer. Sennilegasta skýringin er að lögreglan selur hjólin á uppboði á endanum svo hún tapar á því að vinna vinnuna samviskusamlega.
Hjólreiðar | Breytt s.d. kl. 10:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
11.5.2008 | 00:40
Á legsteini: Hann var í rétti
Ég var næstum keyrður niður í gær, þegar ég fór yfir Grensásveg eftir gangbrautinni meðfram Miklubraut.
Bíll hafði lagt af stað út á gatnamótin yfir Miklubraut en komst ekki yfir áður en rauða ljósið kom og þegar umferðin fór að streyma eftir Miklubraut var hann fyrir. Hann tók á það ráð að bakka á fullri ferð til baka, yfir gangbrautina þar sem ég var að hjóla yfir. Það munaði sentimetrum að hann hefði plægt mig niður. Hann stöðvaði, ég stöðvaði og við horfðum hvor á annan. Ég nennti ekki að ræða við hann, það var ekkert að segja.
Örugglega ágætis kall, bara enn einn stjórnleysinginn. Af hverju leyfði hann sér að leggja af stað yfir gatnamót sem hann gat ekki klárað að fara yfir? Af hverju bakkaði hann yfir gangbraut án þess að líta við? Hefur hann enginn prinsipp?
Sem ég skrifa þetta heyri ég vælið í dekkjunum þar sem einhverjir stjórnleysingjar æfa sig í ofsaakstri á Hringbrautinni við JL húsið...
Keyrð niður á merktri gangbraut | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hjólreiðar | Breytt s.d. kl. 01:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
4.5.2008 | 22:15
Don't ask, don't tell.
Spök kona sagði í ræðu sem ég heyrði í vikunni að jafnvel neikvæð afskipti af unglingi væru betri en engin. Þeir sem fá alls engin afskipti veslast upp.
Í framhaldi datt mér í hug : Man lesandinn til þess að hafa lesið um afstöðu borgarstjóra, eða borgarstjórans á undan, eða þar á undan, til hjólreiða og hjólreiðafólks? Ég giska á að svarið sé nei. Þessi málaflokkur er algerlega afskiptur. Borgarstjórarnir gætu ekki sent reikning upp á eina krónu fyrir vinnu í þágu hjólreiðamála.
Að vísu eru gangstéttar og útivistarstígar lagðir, en það eru aðskild verkefni, ekki hluti af stærri stefnu.
Engar greinar eru skrifaðar af öðrum en hjólafólki. Engin lög hafa verið sett um hjólreiðar síðan á sjöunda áratugnum þegar ákveðið var að reiðhjól skyldu hafa keðjuhlíf. Flestir hjólreiðamenn eru því lögbrjótar strax og þeir hjóla af stað enda hafa keðjuhlífar lítið verið notaðar síðan tíugírahjólið kom á markað á áttunda áratugnum.
Hjólafólkið í Reykjavík er að því leyti eins og hommarnir í bandaríska hernum að um þá gilda engar reglur, bara óskrifuð lög: "Don't ask, don't tell". Við tölum ekki um slíkt. Hjólið bara og við horfum í hina áttina.
Fæstir vita að samkvæmt lögum á að hjóla á götunni. Einhvern tímann var gerð undanþága um að menn mættu hjóla á gangstéttum, nokkuð sem átti aldrei að leyfa. Hugsunin var sennilega sú að týpískt hjólreiðafólk væri sex ára gamalt og þyrfti að verða samferða mömmu og pabba eftir stéttinni. Það er ekki minn raunveruleiki í dag. Ég er á fimmtugsaldri og hjóla á 25 km hraða til og frá vinnu. Það er fimm sinnum hraðar en gangandi vegfarandi enda er þeim meinilla við það þegar ég skýst fram úr þeim, lái þeim hver sem vill.
Margir halda að það eigi að hjóla á gangstétt. Fyrir vikið er flautað á hjólamenn sem fylgja lögum og fara á götuna. Einhvers staðar á ég sekt fyrir að hafa hjólað á gangstétt þegar ég var táningur í Reykjavík.
Það er engin leið að hjóla löglega í Reykjavík. Þú verður að brjóta reglur. Samkvæmt lögum er bannað að hjóla yfir gangbrautir en þær eru samt ómissandi hluti af gangstéttum.
Stundum vantar gangstéttir, stundum enda þær snögglega. Stundum byrjar hjólaslóði og endar aftur 50 metrum síðar. Stundum er hann merktur hjólum hægra megin og gangandi vinstra megin þannig að maður þarf að taka fram úr gangandi fólki hægra megin þótt venjan sé að taka eigi fram úr vinstra megin.
Biðskyldur bíla eru oft vitlausu megin við gangbrautir svo bílarnir nema staðar ofan á gangbrautinni. Þar að auki staðnæmast bílar oft með afturdekkin á stöðvunarskyldu í stað þess að stöðva fyrir framan hana. Ég hef aldrei séð lögreglu skipta sér af, frekar en af þeim sem leggja á gangstétt og loka þar með "hjólastígnum".
Áður en við getum farið að tala um úrbætur þarf að búa til raunverulegt kort af hjólaleiðum í borginni. Reykjavíkurborg gaf út kort með hjólastígum en kortið er skáldskapur, áróður fyrir eitthvað norrænt þing þar sem átti að sanna að hér væri allt í himna lagi. Hefur einhver séð hjólastíg meðfram Hringbraut frá Suðurgötu út að JL húsi? Ekki ég. Samt er hann á þessu korti.
Aðrar þjóðir eiga stefnuskrá um hjólreiðar, um það hvernig hjólastæði eiga að vera, hvernig ganga eigi frá leiðum þegar vegavinna er í gangi, frágangi við gatnamót og svo framvegis. Íslendingar eiga engar reglur.
Tvennt mætti gera strax. Í fyrsta lagi þarf að fylgja lögum og banna bílastæði á gangstéttum.
Í öðru lagi þarf að sjá til þess að bílar loki ekki gangbrautum með því að staðnæmast ofan á þeim. Hjólafólk sem fer meðfram aðalbraut þarf að stoppa á öllum gatnamótum af því bílar stöðva ekki þar sem þeir eiga að stöðva. Það er óþolandi að þurfa að stoppa fyrir öllum sem ætla inná eða út af aðalbraut þegar maður ekur sjálfur meðfram henni - á gangstéttinni. Ég er alltaf í órétti.
Ég er rauða örin á myndinni. Á meðan ég þarf að hjóla á gangstétt meðfram aðalbraut eru bílar no.1 og 2 á myndinni óvinir no.1 og 2 í umferðinni. Ef borgaryfirvöld geta minnkað hættuna af þeim væri strax betra að vera á hjóli.
4.5.2008 | 14:34
Góðar hjólafréttir í HáErr
Háskólinn í Reykjavík rís nú í Vatnsmýrinni, rétt hjá Nauthólsvík. Hver deild er í sér "pizzusneið", allar sneiðarnar snerta torg á miðju svæðinu. Hér er mynd af kjallaranum:
Rauða línan sýnir aðkomu niður skábraut sem fer undir húsið. Gráa herbergið þar sem línan endar er litlir 300 fermetrar og þar er gert ráð fyrir hjólageymslum! Búningsklefar og sturtur eru í brúna svæðinu undir miðjunni. Þetta verður ekki betra séð með augum hjólreiðamanns.
15.4.2008 | 10:57
Detroit
Ég var keyrður niður á hjólinu í morgun. Ég kom eftir aðalbraut en hjólastígurinn meðfram verður að gangbraut yfir hliðargötu og þar beið risapickup sem hafði lagt ofan á gangbrautinni og beið eftir að komast út í bílaumferðina. Þegar ég hjólaði fyrir hann ákvað hann að renna sér af stað inn á bílagötuna, yfir mig og hjólið. Pannan undir bílnum er nú merkt málningu eftir hjólið.
Fyrir náð og miskunn stoppaði ökumaðurinn snögglega og ég og hjólið sluppum með skrámur. Meðfylgjandi myndir eru ekki af slysstað en þær sýna svipaðar aðstæður.
Þessi umferðarmannvirki eru ekki í lagi og þau verða það ekki fyrr en fólk sem vinnur við gerð þeirra veit eitthvað um hjólreiðar.
Hjólreiðar | Breytt s.d. kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
7.4.2008 | 11:09
Sófasett á hjólum
Reiðhjól voru úr stáli. Núna eru þau úr áli, koltrefjum og jafnvel títan. Hjól sem vógu 8 kíló í gamla daga voru fokdýr og viðkvæm en sú þyngd þykir ekkert merkileg lengur. Vökvadiskabremsur eru að verða algengar og fjórtán gíra viðhaldsfríir öxlar líka.
Reiðhjólapartar ganga á milli hjólastella. Einn hjólaframleiðandi getur notað gíra, stýri og gjarðir frá mörgum sérhæfðum framleiðendum sem framleiða parta fyrir margar hjólategundir. Ég held að það sé skýringin á því hvað þróunin hefur verið mikil í hjólabransanum.
Bílar eru hins vegar alltaf úr stáli. Nýju efnin hafa lítið breytt þeim enda virðist bransinn vera fram úr hófi íhaldsamur. Einn og einn hlutur er úr plasti og áli en bílar hafa aldrei verið hannaðir aftur frá grunni miðað við nýju efnin.
Mér skilst að bílabransinn kunni ekki að fjöldaframleiða úr áli ennþá. Vélmennin sem púnktsjóða stálþynnurnar virka ekki á ál. Það er hægt að lasersjóða álið en verksmiðjurnar hafa ekki fjárfest í tækjunum til þess. Þar að auki er ál fimm sinnum dýrara í innkaupi en stál og því þyrfti bíll sem væri smíðaður úr áli að endast eitthvað. Þegar maður sér áldósahaugana út í Sorpu er erftitt að trúa því að ál sé dýrt, en samt er það svo.
Bílar í dag eru ekki hannaðir til að endast. Þeir eru eins og risastórar einnota umbúðir. Þess vegna má ekki vanda of mikið til neins, bíllinn þarf helst að ganga úr sér jafnt.
Þessi einnota hugsun kemur í veg fyrir að nýjar lausnir séu skoðaðar, held ég, samt er mikið í húfi. Ef bíll sem vegur 1200 kíló væri smíðaður úr áli myndi hann vega 400 kíló enda er ál þriðjungur af þyngd stáls miðað við styrk. Bíllinn myndi fara úr 9 lítra bensíneyðslu í 3 lítra giska ég á, ef kraftur er jafn og massi sinnum hröðun.
Það væri gaman ef bílabransinn væri svolítið eins og tölvu eða hjólabransinn. Maður gæti keypt húsið sér, vélina sér og sófasettið líka. Vélar gætu farið undir húdd á mismunandi húsum og fimm sæta sófasettin gætu gengið á milli líka. Ég væri þá búinn að fjárfesta í álhúsi fyrir nokkrum árum, og væri að kaupa diesel hybrid vél til að skipta út gamla bensínrokknum. Leðursætin í bílnum væru tuttugu ára gömul úr gamla bílnum hans pabba.
Það er ósennilegt að bílabransinn vilji skoða svona lausnir þegar hann getur rukkað 30 þúsund krónur fyrir einn lykil með þráðlausri fjarstýringu í krafti þess að allir varahlutir og þjónusta bjóða upp á einokun gagnvart þeim sem keypti bílinn.
Sennilega þarf bylting í þessum málum að koma frá annari átt. Kannski bílabúð Benna og álversmenn ættu að fara í þróunarverkefni saman?
Hjólreiðar | Breytt s.d. kl. 11:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)