Tollurinn

Fyrir mér er tollurinn á leið inn í landið óþægileg áminning um það sem var.  Land haftastefnu og miðstýringar.

Ég man eftir að hafa farið með pabba í Landsbankann að sækja gjaldeyri. Þá  þurfti að framvísa farmiðunum þar til að fá gjaldeyri skammtað. Visa var ekki  komið í hendur íslendinga.  Útlönd voru miklu ólíkari Íslandi en í dag, þar  fékkst Toblerone og Macintosh og kók í dósum.

Meirihluti utanlandsferða fór í að kaupa græjur og föt, myndavélar og skó. Þegar  heimferðin nálgaðist tók við stressið, skyldum við verða "tekin í tollinum".
Check_Point_Charlie
Nú er allt breytt, maður borgar með Visa og biðraðirnar í Landsbankanum eru  liðin tíð.  Eitt hefur samt ekki breyst.

Hvernig má það vera að nútíma íslenskir heimsborgarar sem kunna mannasiði í  tugum landa og eru löngu hættir að detta í það kl.sex að morgni út í gömlu  kanastöð skuli þurfa að versla eins og þeir séu á leiðinni til útlegðar á norður  Grænlandi, og reyna svo að keyra smyglið í gegnum tollinn í sjúklegri útgáfu af  stórfiskaleik?

Á þessu andartaki hættir íslendingur 21.aldarinnar að vera stoltur heimsborgari  og verður aftur álútur fátæktarlúði sem yfirvaldið á með húð og hári.  Sekur  þangað til fundinn saklaus.  Skyldi Stazi gruna eitthvað?  Múrinn ennþá á sínum  stað.

Þegar við fluttum til Bandaríkjanna var ég fyrst hneykslaður á því hversu litla  þjónustu var að finna á flugvöllum þar.  Engar verslanir, bara skyndibiti og  sjoppa.  Hvar voru allar búðirnar?  Jú, þær voru á sínum stað, úti í malli.

Vöruverð í búðum í Bandaríkjunum er svo hagstætt að það hefur ekkert upp á sig  að kaupa vörur á flugvöllum.  "Duty free" gæti aldrei náð fótfestu þar.

Svona þarf þetta að verða hér á landi.  Búðirnar á flugvellinum eru arfleið frá  tímum haftastefnu og verndarstefnu og tolla.  Verð á vörum hér þarf að verða í  samræmi við önnur lönd svo vörur komi til landsins með sjóflutningum í stað þess  að vera bornar inn í flugvélar og settar í handfarangursgeymslur á meðan  flugfreyjur teppa gangana með litlu duty free kerrununum sínum.  Þetta er léleg  nýting á þotueldsneyti.  Alþjóðlegar reglur um 20 kg farangurshámark gera ekki ráð fyrir því að íslenskar ferðatöskur eru gámar fyrir vöruflutninga.

Ónefndur afgreiðslumaður í græjubúð í Reykjavík sagði mér að hann myndi loka  búðinni ef hann væri ekki með vörurnar til sölu úti í Leifsstöð.  Hann vissi vel  að búðin í Reykjavík væri bara sýningarbás.  Kaupin færu fram úti á velli.

Tollurinn hefur nóg að gera að leita að fíkniefnum.  Af hverju þarf hann að  leita að Ipoddum og myndavélum og osti?

Mig dreymir um þann dag þegar ég fer út í búð í Reykjavík til að kaupa mér  gallabuxur eða Ipod í stað þess að bíða næstu utanlandsferðar.

Það verður frábært að labba inn í landið án þess að þurfa að horfa upp á  skömmustulega meðborgara með ferðatöskurnar opnar meðan tollarar rótast í þeim  til að leita að neytendavarningi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott blog Kári.

Ég hef hugleitt það sama í mörg ár hve fáránleg þessi tollleit í Keflavík er.

Af hverju ósköpunum er ekki nóg að láta hunda leita í farangri að fíkniefnum og svo að hafa hund og tæknibúnaði í hliðinu sem skannar farþega og starfsfólk. Hefur örugglega meiri fælingarmátt en sætar og sakleysislegar tollverjur.

Ríkisrekstur á þessari flugstöð með fríhöfn og svo tollleit í anda gamla sovét er ekki beint til að fegra ásýnd lands og þjóðar. Svo er fríhöfnin og vsk-frjálsar  verslanir þarna náttúrulega bara argasta mismunun á réttindum borgaranna.

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 7.5.2007 kl. 11:25

2 Smámynd: Sigurjón

Alveg er ég hjartanlega sammála þér Kári.  Ég er einmitt á leiðinni heim frá útlöndum, en hef ekkert keypt og það stendur ekki til að kaupa neitt nema kannske eina viskýflösku.  Ég er reyndar aldrei tekinn í tollinum, en kvíði því alltaf aðeins.

Ég hef farið til 32 landa í 6 heimsálfum, m.a. um gjörvalla Suður-Ameríku, en hef aldrei séð jafn strangan toll og einmitt í Keflavík. 

Sigurjón, 7.5.2007 kl. 13:32

3 identicon

gott blog Kári eins og venjulega.

Þegar hlutur ber 25% vörugjald, 10% toll og svo 24,5% vsk ofan á allt þá er ekki skrítið að fólk versli erlendis.  Þar sem ég er mikill neytendamaður þá fullyrði ég hinsvegar að hvergi er okrað eins mikið og í fríhöfninni. Ef þú tekur vöru sem er til sölu innanlands og dregur af öll gjöldin þá færðu út verð sem er mun lægra en á sömu vöru sem er til sölu án þessara gjalda í fríhöfninni.
Það er bara passað að hafa verðið í fríhöfninni "sæmilega" lægra en út úr búð á Íslandi. Ef slakað yrði á þessari leit í tollinum mætti ætla að vöruverð á td raftækjum myndi lækka á íslandi vegna samkeppninnar.
tollurinn upp á höfða er líka snilld. maður getur ekki pantað sér skrúfu í hjólið af ebay eða bók fyrir 5$ af amazon án þess að borga helling ofan á. Þegar ég bjó í Þýskalandi þurfti ég aldrei að borga nein gjöld af því sem ég pantaði frá t.d. USA.

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 7.5.2007 kl. 23:48

4 identicon

Við hvað eru menn hræddir? Alþjóðlega samkeppni? Held að það sé bara af hinu góða. Eru með þetta allt á hreinu hjá Frjálshyggjufélaginu... http://www.frjalshyggja.is/?gluggi=stefnumal&nafn=stefnumal/vidskipti_efnahagsmal 

  • Leggja ber alla tolla niður. Tollar gera að verkum að neytendur velja ekki þær vörur sem hagstæðast er að kaupa. Ef ódýrara er að flytja vöru inn en að framleiða hér á landi, bendir það til þess að vinnuafli og fjármunum sé betur varið í annað hérlendis. Ef íslenskt framleiðslufyrirtæki getur ekki keppt við innflutning er það vegna þess að það er líka í samkeppni við íslensk fyrirtæki um vinnuafl, húsnæði, orku og aðra framleiðsluþætti. Þannig verður notkun þessara framleiðsluþátta dýrari á Íslandi en hjá samkeppnisaðila í útlöndum vegna þess að hérlendis er hægt að nýta þá betur í aðra hluti. Fjármunir og vinnuafl munu finna sér verkefni þar sem eftirspurn er.
    Bann við innflutningi og framleiðslustyrkir hafa sömu slæmu áhrif og tollar, koma í veg fyrir að það sé framleitt sem best er að framleiða.

    Af þessu er ljóst að best er fyrir alla að tollar og framleiðslustyrkir séu ekki til staðar svo að fólk geti valið sér þá starfsemi sem skynsamlegast er og njóti lægra verðlags. Hins vegar er sá fortíðarvandi til staðar að fjöldi fólks hefur nú þegar valið sér óhagkvæmar atvinnugreinar vegna þess kerfis sem nú er við lýði. Það fólk treystir jafnvel á að núverandi kerfi verði haldið við. Skynsamlegt er að veita því fólki aðlögunartíma.

Geiri (IP-tala skráð) 8.5.2007 kl. 02:12

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég er alveg sammála þér hvað þetta varðar, það væri þarft verk að lækka tolla og aðflutningsgjöld og sömuleiðis vínandaskatt og færa þannig verslunina "heim".

En um þetta er eins og margt annað ekki sátt, margir vilja meina að sjálfsagt sé að leggja á "lúxusvarning" og vissulega verða tekjur ríkisins að koma einhversstaðar frá.

Hitt er svo líka að þetta er langt í frá að vera séríslenskt ástand.  Það er auðvitað rétt hjá þér að "duty free" er óþarft í Bandaríkjunum, en ekki þarf að fara lengra en hingað til Kanada til að þetta sé komið til sögunnar.  Hér enda miklu hærri álögur. 

Nú allir kannast við ferjurnar sem sigla um norðurhöf, sem bera Norðmenn og Svía yfir til Danmerkur, en Danirnir keyra yfir til Þýskalands.  Ennfremur er enginn skortur á Finnskum ferðamönnum sem láta ferjurnar bera sig yfir til Eistlands og kaupa þar ódýrt áfengi og annað góss.

Líklega er þetta ekki hvað síst partur af "norræna módelinu" sem allir eru sífellt að lofsyngja?

P.S. Man vel eftir gjaldeyriskömmtuninni.  Mín fyrsta utanlandsferð var farin með 8 mismunandi gjaldeyristegundum, sem tekist hafði að skrapa saman í fyrirtækjum sem höfðu samskipti við ferðamenn.  Ég man enn eftir vandræðunum sem ég lenti í þegar ég var að skipta Færeysku krónunum í Hollandi.

G. Tómas Gunnarsson, 8.5.2007 kl. 05:44

6 Smámynd: Kári Harðarson

Við öpum svo margt eftir Bandaríkjamönnum.  Bílamenning, skyndibitamenning er komin þaðan.  Eru lágir tollar og vörugjöld ekki eðlilegt framhald í þá átt?

Fjármagnstekjuskattur er lágur hér því ríkisstjórnin segir að annars fari peningarnir úr landi.  Tollar og vörugjöld eiga að vera lág með sömu rökum því annars versla íslendingar í útlöndum (og smygla eins og þeir geta).

Ég ætlast ekki til að verðið sé sambærilegt við Ameríkumarkað strax, en ég get ætlast til þess að við keppum við Þýzkaland, Frakkland og Spán.

Kári Harðarson, 8.5.2007 kl. 10:36

7 identicon

Innilega er ég sammála þér Kári og þetta er verulega góð grein hjá þér. Ég ferðast mikið og hef gert mér það að leik þegar ég er "stoppaður" að gera góðlátlegt grín með því að spurja tollverðina hvort það sé ekki leiðinlegt að vera bara svona ostalögreglumaður - og svo rifjar maður upp sögur frá Kúbu og USSR þar sem þetta var einu sinni stundað, enn þeir eru víst að mestu hættir því. Það eru því ekki margar þjóðir sem hafa þennan íslenska hátt á.

Þórður Magnússon (IP-tala skráð) 8.5.2007 kl. 23:25

8 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Og þá er það næsta spurning: Hvað eigum við að gera í þessu? Eigum við ekki bara að breyta þessu. Ég ætla að leyfa mér að varpa þessu fram burtséð frá því hvað fólk ætlar að kjósa í næstu kosningum, og svo tökum við höndum saman og vinnum að þessu hvert í okkar flokki, eða í okkar hópi, samtökum, með einkaframtaki, freestyle, en í guðanna bænum, breytum þessu. Allir sammála um að það sé nauðsynlegt og þar með hljótum við að geta gert eitthvað af viti! 

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 9.5.2007 kl. 00:32

9 Smámynd: Kári Harðarson

Flugvellir í EB eru nú með venjulegar verslanir sem eru ekki undanþegnar skatti.

Mér þætti eðlilegt að okkar flugvallarverzlanir verði reknar á sömu forsendum til að auka á samræminguna við EB.

Ef þeir, sem fljúga mikið stöðu sinnar vegna, kvarta undan því að missa þessi forréttindi, myndi ég segja þeim að beita sér fyrir sanngjörnu vöruverði í staðinn.

Kári Harðarson, 9.5.2007 kl. 13:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband