Um uppáhalds slönguna mína (og skort á tölvunarfræðingum)

Ég er tölvunarfræðingur.  Löngu áður en ég varð það, var ég með tölvudelluna.  BASIC var  forritunarmálið sem kom mörgum úr minni kynslóð af stað í faginu.  Ég kynntist  því fyrst á Commodore PET tölvu fimmtán ára gamall.


Commodore_PET_2001_LargeÉg veit ekki hvernig krakkar í dag fara að því að kynnast tölvum.  Þær eru  orðnar öflugri, en að sama skapi flóknari.

Það er orðið auðvelt að byrja að nota  þær, en erfitt að byrja að forrita þær.

Þetta er sambærilegt við það sem hefur gerst í bílabransanum. Bílar voru einu  sinni hannaðir þannig, að meðaljón gat gert við bílinn með topplyklasetti.  Vélin var undir hálftómu húddi tilbúin fyrir sýnikennslu. Bílskúrar landsins  voru kennslustofur í bílaviðgerðum. Nútíma bíll er svo flókinn og húddið er svo  fullt, að enginn kemst að til að skipta um kerti eða kynnast bílnum nánar.

Við þurfum fólk sem fiktaði í tölvum.

Sá sem fer í tölvunarfræði í háskóla þarf helst að hafa kynnst henni lítillega í  menntaskóla, þó ekki væri nema til að vita um hvað fagið snýst.

Ég held að krakkar séu hræddir við tölvunarfræði.  Ég held að þeir þori  ekki ekki að fara í hana af því þeir vita ekkert um hana og þori ekki  að "opna húddið".  Þeir komust ekki til að fikta í BASIC og byrja að hugsa um forritun sem heillandi ferli.

Hvort sem þessi skýring er rétt hjá mér þá er það staðreynd að krakkar sækja  ekki um í tölvunarfræði þótt markaðurinn hér á Íslandi sé að æpa sig hásan eftir lærðu  tölvufólki.

Hefur þú séð atvinnuauglýsingarnar?

Tölvunarfræðingar með þriggja ára starfsreynslu geta fengið hálfa milljón í laun.  Fyrst atvinnuhorfur eru svona góðar hljóta krakkarnir annaðhvort að halda að tölvunarfræði sé mjög erfið eða mjög  leiðinleg.

Tölvunarfræðin getur verið hrútleiðinleg ef menn skella nerdalegum hlutum eins  og vélamáli og C++ beint í fangið á nýliðum.  Hún getur hinsvegar verið  bráðskemmtileg ef menn fá strax að nota hana til að leysa dagleg verkefni og sjá hversu gefandi það er að láta vélar létta sér hugarstörfin.

Hér er dæmi um daglegt verkefni:

Búðu til lista yfir alla sem hafa sent þér tölvupóst sl. ár. Flettu þeim upp á símaskrá púnktur ís og athugaðu hvort þeir hafa skipt um símanúmer eða heimilisfang.

Uppfærðu símaskrána í Outlook til samræmis og settu nýja númerið þeirra líka út í gemsann ef það hefur breyst eða er ekki í honum þegar.

 

Þetta getur tölva leyst á sekúndum ef notandinn kann að segja henni að gera það.  Menntaskólaþekking í forritun ætti að duga til í mínu draumasamfélagi.

Samt held ég að 99.9% notenda myndu eyða mörgum klukkustundum við tölvu til að  leysa verkefnið handvirkt og enda með krampa í músarhendinni.  Til hvers vorum  við þá að finna tölvurnar upp?

...og nú að allt öðru ... og þó ekki.

Uppáhalds slangan mín

Python er uppáhaldsforritunarmálið mitt. Ef einhver myndi spyrja mig hvar hann  ætti að byrja, myndi ég svara "Python".

Þótt málið sé einfalt er það samt  alvöru forritunarmál.  Ég hef grætt fullt af peningum með forritum sem ég skrifaði í  því.  CCP samdi meirhlutann af EVE Online leiknum með því.  Google notar það til  að skrifa leitarsíðuna sína.

Í Python gæti fyrsta uppkast að lausn á verkefninu litið einhvern veginn svona  út.

    for postur in postforrit.allir_postar:
        if nyrri(postur,"1.jan 2006"):
            baeta_i_lista(sendendalisti, postur.sendandi)

    for sendandi in sendendalisti:
        sendandi.simanumer=simaskrarleit(sendandi.nafn)
        if gemsi.numer(sendandi)!=sendandi.simanumer:
            gemsi.uppfaera(sendandi)

Þetta er ekkert svo erfitt?  Hvort er skemmtilegra, að leysa smá forritaþraut eða eyða mörgum klukkutímum í handaavinnu?

Fólk er búið að breyta tölvunum í ritvélar á sterum.  Er ekki nær að læra smá forritun og geta sagt tölvum fyrir verkum í stað þess að  vinna sjálfur vinnuna fyrir þær?  Þær munu ekki læra íslensku á næstunni og forritunarþekking getur nýst öllum, ekki bara þeim sem ætla í tölvunarfræði í háskóla.

Ég vil leyfa mér að fullyrða að forritunarkunnátta sé mikilvægari en að kunna að heilda og diffra.

Ef lesandinn gæti hugsað sér að kynnast tölvum með ástarinnar gleraugum á nösum  getur hann gert margt vitlausara en að fara á http://www.python.org, ná í  forritunarmálið Python og fara í gegnum "Tutorial" sem fylgir því.  Kannski  verður ást við fyrstu sýn.

Fólk sem  heldur að Excel kunnátta sé tölvukunnátta veit hættulega lítið.


python

 

 

 

 

 

 

 

 

PS:  Það er einmanalegt að halda úti skrifum um annað en stjórnmál þessa dagana  en einhver verður að standa pliktina :)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Björgvin Antonsson

Góður pistill. Þess má einnig geta að til eru lausnir sem er m.a. ætlað að kynna leikjaforritun fyrir börnum og unglingum. Ég nefni:

http://www.gamemaker.nl/

http://darkbasic.thegamecreators.com/

http://education.mit.edu/starlogo-tng/

http://mail.kodi.is/exchweb/bin/redir.asp?URL=http://www.stagecast.com/

http://www.squeak.org/

http://www.blitzbasic.com/

J#

Jónas Björgvin Antonsson, 10.5.2007 kl. 11:30

2 Smámynd: Púkinn

Púkinn er að sjálfsögðu sammála, enda fór hann í gegnum svipaðan feril á sama tíma - byrjaði að fikta á Commodore PET tölvuna 1980.

Skorturinn á tölvumenntuðu fólki er verulegur, en ekki þorir Púkinn að fullyrða neitt um orsakir þess - hvort ímynd stéttarinnar er um að kenna eða menntakerfinu - að minnsta kosti virðist hugur unglinganna í dag stefna annað.

Frá sjónarhóli fyrirtækja gerir það ástandið síðan en verra hve erfitt er að fá atvinnuleyfi fyrir erlenda sérfræðinga á þessu sviði og þótt Púkinn hafi stofnað dótturfyrirtæki erlendis er það ekki raunhæfur kostur fyrir alla.

Púkinn, 10.5.2007 kl. 11:44

3 Smámynd: Júlíus Valsson

Takk fyrir skemmtilegan pistil! Það er þó misskilningur hjá þér að þetta sé ekki pólitík! Menntakerfið okkar er fyrir löngu orðið ansi grámyglulegt og þar er engum einum að kenna. Það hefur smám saman staðnað og sést það best á greinum sem ættu að vera "framsæknar" eins og tölvufræði og forritun. Nemendur eru heirnlega ekki vanir því að vinna skapandi starf. 
Það þarf að byrja strax í grunnskólanum að leyfa einstaklingnum að njóta sín, sem margir gera því miður ekki. Fá t.d. að fikta meira og finna sína eigin leiðir og lausnir á vandamálunum. Virkja sköpunarmáttinn! Spyrja má: Hvernig er t.d. hægt að fá nemendur til að semja tónlist? Það vita tónlistarkennarar harla vel. Þeir kenna nemandanum ákveðin grunnatriði en síðan fær hann að láta ímyndunaraflið njóta sín. Hann fær m.ö.o. að fara um víðan völl. Er þetta svo í öðrum fögum? Hver er munurinn þegar málið snýst um skapandi starf? Unga fólkið vill frelsi, held ég. Lofum því að fikta meira og finna eigin leiðir. Þá fer jafnvel staðnað fag eins og tölvunarfræði að vera spennandi!  

Júlíus Valsson, 10.5.2007 kl. 12:50

4 Smámynd: Kári Harðarson

Möguleg skýring er að krakkar séu hættir að sjá fyrirmyndir í menntaskólakennurum og sjái þær í sjónvarpinu í staðinn.

Það eru engir þættir um tölvunarfræðinga - en það eru þættir um lögfræðinga og lækna og nokkrar aðrar stéttir. 

Kannski þarf Skýrr að kosta gerð raunveruleikasjónvarpsþátta...

Kári Harðarson, 10.5.2007 kl. 13:27

5 Smámynd: Júlíus Valsson

Já, nú er "inni" að kryfja fólk. Annars segir strákurinn minn, sem er nemandi í MH,  mér að mikill áhugi sé hjá jafnöldrum hans á tölvunarfræði. T.d. er sérstök námsbraut í þeirri grein í Versló. Kannski rætist úr þessu. 

Júlíus Valsson, 10.5.2007 kl. 14:25

6 identicon

Fyrirtaks pistill.  Ég á einmitt einnig í arðbæru ástarsambandi við python slönguna. Full ástæða er til að benda á How to think like a computer scientist sem er alveg prýðileg bók fyrir byrjendur í python. Einnig má finna hana á pdf sniði hér .  

siggi (IP-tala skráð) 10.5.2007 kl. 17:52

7 identicon

Besta blogg sem ég hef lesið í langan tíma. (kannski vegna þess að ég er sammála 97% af því sem þú skrifar)

Mér finnst þú samt óþarflega gagnrýninn á Excel.

Excel getur alveg skilað einföldustu forritunarverkefnum vel ef maður kann á það, hvort sem það er þá sheet sem að reiknar út kennitölur, hversu mikið ég þarf að borga í skatt, eða hvernig launin mín hafa þróast miðað við verðbólgu.  Það er líka hægt að nota til þess að búa til einfaldan mylluleik eða Su-do-Ku.

Það er einmitt svo gott til að nota í eitthvað svona einfalt v.þ.a. GUI-ið er tilbúið fyrir þig, og þegar þú ert kominn með formúlurnar á réttum stað í rétta dálka, má segja að lítið forrit hafi orðið til, sem þú getur síðan notað aftur og aftur.

Eitt dæmi:

Einu sinni vorum við vinirnir að spila Yatzi og vorum búin að klára blöðin. Þá datt okkur í hug að skrifa bara fleiri með Excel og það tók kannski 10 mínútur að gera grunninn.  Hugmyndin í upphafi var að skrifa bara stigatöfluna og prenta hana svo út.

En svo leiddi eitt af öðru og við enduðum uppi með Excel skjal sem ekki bara lagði saman skorin jafnóðum, við vorum líka komin með nokkurskonar "forrit" sem reiknaði út bónusinn, sagði okkur hversu mikið vantaði uppá til að ná honum, skilaði okkur líka líkindum fyrir hvert kast, hver hefði oftast fengið þrennu, fernu o.s.frv. 

Við enduðum á því að hafa reit sem birti jafnóðum nafn þess sem var í efsta sæti með risastóru rauðu letri og graf sem sýndi hæsta skor í fyrri leikjum og meðalvinningsprósentu allra leikmanna. 

Það hefði líklega verið betra  og varanlegra að gera þetta í Java eða Python (kannski prófa ég að skrifa Yatzi leik í Python seinna..) en Excel er fínt í svona skyndilausnir!

LindaThorsteins (IP-tala skráð) 10.5.2007 kl. 21:31

8 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Það vermdi hjarta mitt að sjá myndina af PETinum, Kári - hafðu þökk fyrir hana!

Skora á alla að lesa Draumalandið hans Andra Snæs, og sérstaklega menntakaflann, hann er verulega góður.

En annars langar mig að guðlasta aðeins með því að segja að kannski vantar okkur ekki fyrst og fremst forritara fyrir framtíðina, heldur skapandi fólk.  Þá meina ég fólk sem hugsar út fyrir kassann og dreymir upp ný viðföng, nýjar sögur, nýja framsetningarmáta.  Það verður nóg af forriturum í hinum stóra heimi til að forrita það sem skapandi fólkinu dettur í hug.  En það verður skortur á skapandi fólki.  Svo ég vil fá fleiri í listaháskóla og meiri áherslu á sköpun og listir í öllu skólakerfinu.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 11.5.2007 kl. 01:54

9 identicon

Bloggið þitt er hér með komið í favorites hjá mér.  Nú vinn ég sem vefhönnuður sjálfur og mín þekking er ekki kominn frá Commodore eða Sinclair heldur frá MiTac ferðatölvu sem áð ég eignaðist í lok árs 2003.  Þá kunni ég að opna Word og prenta út skjöl.  Á þessum fáu árum sem að liðin eru umbreyttist ég í hálfgert skrímsli.  Ég er að læra margmiðlunarhönnun í Kaupmannahöfn og að vinna sem grafískur hönnuður/ vefforritari fyrir fjárfestingarbanka hérna.

 Hérna er vöntun eftir fólki með menntun í þessum geira svo svakaleg að skólarnir hafa ekki undan að útskrifa.  Samt vantar alltaf meira.  Fyrirtæki hérna eru í auknum mæli farin að leita erlendis eftir menntuðu fólki og m.a. til Íslands í miklum mæli.  Eitthvað segir mér að þróunin eigi eftir að verða svipuð á Íslandi áður en að lang tum líður.

Ég held að ein lausnin á þessum vanda væri að gera starf forritarans aðeins sýnilegra.  Oft á tíðum er þetta sveipað ákveðinni dulúð og látið hljóma eins og þetta sé ógerningur að læra nema að þú sért stjarnfræðilega gáfaður.  Þegar að öllu er á botninn hvolt þá er þetta lítið annað en vinna með kóða og að kunna á þau tæki sem að þú ert að nota.

 Kv.

Jón Hnefill Jakobsson

Jón Hnefill Jakobsson (IP-tala skráð) 11.5.2007 kl. 08:32

10 Smámynd: Kári Harðarson

Linda, ég er sammála -- ég var fullharður út í Excel.  Það er hægt að byggja  ótrúleg tölvukerfi upp úr Excel skjali.  Sumir flokka Excel undir tegund forritunarmála.

Þú og vinir þínir hafið verið með forritara gleraugun á nösum, annars hefðuð þið ekki náð að gera svona mikið með því.

Ég er líka sammála þér, Vilhjálmur.  Markaðurinn er ekki að kalla á hvaða tölvuþekkingu sem er núna.  Menn og konur vinna nú á búðarkössum sem hafa samt einhverja tölvukunnáttu og hefðu fengið vinnu út á hana fyrir aldamótin.

Hugtakið tölvunarfræðingur er stundum misnotað yfir alla þá, sem kunna eitthvað á tölvur.  Tölvunarfræðingur skv. mér er sá,  sem veit af hverju Scheme er sniðugt mál og kann að nýta sér endurkvæmni.

Kunnátta í vefsíðugerð nægir ekki til að mega kallast tölvunarfræðingur.  Ég tek fram að góður vefari er rosalega eftirsóttur starfskraftur og þarf mikla færni og kunnáttu í sínu fagi.

Kári Harðarson, 11.5.2007 kl. 09:44

11 Smámynd: Lára Stefánsdóttir

Fínn pistill, ég hef oft haldið því fram að það væri bæði skemmtilegra og meira menntandi að læra forritun heldur en stærðfræði af ýmsum toga þar sem bæði verður viðfangsefnið sýnilegra þegar til hefur tekist. Þ.e. forritið virkar í stað þess að fletta upp í lista af réttum svörum hvort útkoman er rétt. Forritun er í rauninni algebra og margt fleira. En einhvernvegin er okkar unga menntakerfi sem er einungis aldargamalt ótrúlega íhaldssmt þrátt fyrir að tölvur hafi nú verið almenningstæki fimmtung að líftíma alþýðuskóla í landinu.

Það var mikið ævintýri að forrita litla stubba sem gerðu heilu ævintýrin að því manni fannst upp úr 1980. Ungt fólk í dag missir af miklu að geta bara - eins og þú segir - unnið með steraðar tölvur án þess að verða meistarar maskínunnar og stjórna henni.

Lára Stefánsdóttir, 11.5.2007 kl. 22:42

12 Smámynd: Júlíus Valsson

Andri Örn!
Ég er sammála þér, þegar þú segir:
"Þó ég sé á þeirri skoðun að yngsta stigið sé allt of miðstýrt og fastmótað og dragi úr einstaklingum. Menntaskóla- og háskólakerfið er aftur á móti held ég mjög blómlegt í þessu tilliti..... "

Júlíus Valsson, 14.5.2007 kl. 12:57

13 Smámynd: Júlíus Valsson

...ég gleymdi að bæta því við, að við þurfum einmitt að endurskoða þær gamladags ítroðsluaðferðir, sem enn eru notaðar við kennslu á grunnskólastiginu og sem við þekkjum öll allof vel af eigin reynslu. 

Júlíus Valsson, 14.5.2007 kl. 13:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband