17.6.2007 | 23:47
Frumstæðar lífverur
Útidyrnar í vinnunni opna sig sjálfar. Yfir þeim vakir auga sem sér til þess. Það er svolítið nærsýnt og ég passa mig að ganga með fyrirferð að innganginum til augað verði örugglega vart við mig. Ég óttast að verða hunzaður og skella á glerinu eins og nærsýnn mávur.
Í síðustu viku tapaðist ein merkilegasta uppfinning 20.aldar, kúlupenninn, í hurðafalsinn á sjálfvirku hurðinni, sem ég flokka ekki með merkilegustu uppfinningum 20.aldar.
Útidyrnar vissu ekkert hvernig þær áttu að taka á pennanum. Þær opnuðust uppá gátt, lokuðust aftur, lentu á pennanum og opnuðust upp á gátt. Lokuðust aftur...
Hér hætti ég að lýsa því sem útidyrnar gerðu af því ólíkt þeim er ég fær um að sjá tilgangsleysið. Þessi framvörður þekkingafyrirtækisins þar sem ég vinn, varð uppvís að örgustu heimsku.
Ef dyrnar hefðu getað horft uppá sjálfar sig og roðnað, þá væri tæknin komin lengra en menn gefa í skyn. Þær hefðu getað hringt á aðstoð, eða kannski skellt fastar og fastar þar til penninn kvarnaðist í mjél, og glaðst svo yfir árangrinum.
Dyrnar eru dæmigerðar mannanna smíðar sem eiga að létta lífið en gera það eiginlega ekki alveg. Menn læra að lifa við skavankana á útfærslunni sem gerir lífið á vissan hátt flóknara en ekki einfaldara.
Þegar ég geng upp að svona dyrum veit ég aldrei hverju ég á von á. Skyldi hurðin opnast fyrir mér eða ekki? Ætti ég að standa kyrr í smá stund og banda höndunum út í loftið í von um að eitthvað gerist? Er kannski sá tími dags þegar beita á lykilkorti? Er ég kannski í þættinum "falin myndavél?" Eða á ég bara að taka í húninn?
Ég las lýsingu á fólki sem taldi sig vera læst inni á gangi milli tveggja hurða. Það var ekki hægt að sjá á dyrunum hvort þær opnuðust inn eða út. Fyrri dyrnar opnuðust inn, þær seinni út. Handföngin gáfu ekkert í skyn og engir "Pull" "Push" miðar voru límdir á hurðirnar með kveðju frá Visa.
Fólkið komst gegnum fyrri dyrnar, en ekki þær seinni og gaf sér að þær væru læstar. Svo sneri það við en gat ekki opnað hinar dyrnar heldur. Fólk kom þeim til aðstoðar. Illar tungur gætu sagt að fólkið væri álíka vel gefið og dyrnar í vinnunni hjá mér.
Hér má lesa lýsinguna á ensku, og fleiri skondnar lýsingar er þarna að finna.
Og nú að allt öðru - og þó ekki.
Náttúran ákvað fyrir löngu að gæða "æðri lífverur" stærri heila til að þær höguðu sér ekki eins og mölfluga sem flýgur inn í kertaloga. Heilinn er dýrt líffæri og þarf orku en náttúran ákvað að það væri þess virði.
Menn smíða fleira en hurðir, þeir búa líka til fyrirtæki og stofnanir. Margar stofnanir virðast ekki geta mætt breyttum aðstæðum frekar en hurðin í vinnunni. Hvernig er hægt að gæða stofnanir þessu "æðra vitsmunastigi" svo þær bregðist við breytingum? Enginn einn starfsmaður inní þeim virðist vera heilinn, allir "bara vinna þarna" eins og frumur í heimskri lífveru.
Það er fyrir löngu orðið tímabært að "ruslakallar" endurskoði tilgang sinn og sæki ekki bara rusl, heldur líka dósir, flöskur og annan úrgang sem má endurvinna. Það er mótsögn að allir borgarbúar fari á einkabíl út í Sorpu með ruslið. Þarna vantar sjálfsgagnrýni í kerfið.
Tollurinn hagar sér ennþá eins og landið sé lokað. Einhver þyrfti að einfalda tollareglur stórkostlega. Er tollskráin endurskoðuð eða bólgnar hún bara út?
Strætó hagar sér eins og hann sé ekki í harðri samkeppni við einkabíla. Leiðaplönin eru ennþá ólæsileg og strætó tekur bara reiðufé, sem fæstir hafa handbært nú á dögum. Við horfum á strætó deyja út eins og risaeðlu.
Án samkeppni verða til fyrirbæri eins og dýrin á Galapagos eyjum. Er ekki einhver leið til að stofnanir njóti hressandi áhrifa samkeppni án þess að alltaf þurfi að einkavæða allt? Eigum við að reka tvö tollembætti og láta þau keppa um hylli þeirra sem flytja inn vörur? Eigum við að gefa stofnunum einkunn í vinsældakosningu?
Sum fyrirtæki eru alltaf að endurskilgreina sig. Við feðgarnir gengum fram hjá verzluninni "17" á Laugavegi. Sonur minn var sannfærður um að hún væri glæný í búðaflórunni, hipp og kúl. Ég gat sagt honum að þetta væri að verða gömul og virðuleg verzlun í bænum (opnuð 1976). Þetta geta eigendur "17" tekið sem hrós.
Ég agnúast út í værukærar ríkis og borgarstofnanir vegna þess að ég vil að þær dugi vel. Annars verða þær vatn á myllu einkavæðingarsinna. Ég sé ekki mikinn mun á að glata sjálfstæði landsins í hendur Dönum eða auðhringum.
(Skrifað að kvöldi 17.júní).
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt 3.7.2007 kl. 09:55 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir góða pistla! Er sammála þér með tollamaníuna íslensku. Og víst er hún að bólgna tollskráin. Ég er í innflutningi á vörum tengdum móttöku á gervihnattasjónvarpi og nú síðast var verið að bæta við tolli á öll smartkort hverju nafni sem þau nefnast. Þessi kort báru, fram að þessari breytingu, eingöngu virðisauka. Þannig að Tollurinn er sko ekkert að láta undan nema síður sé.
Ætli það megi ekki segja að víða mætti fækka starfsfólki verulega ef einhver væri verkstjórnin. Ég setti saman vefsíðu fyrirnokkrum árum sem naut mikilla vinsælda en þetta var einn af fyrstu afþreyingarvefjunum hér heima(betra.net) og þar var ég að fá um 30 þúsund flettingar á dag. Ég setti inn forrit sem sýndi mér hvaðan þessar heimsóknir kæmu, hversu lengi menn væru inni og svo framvegis. Það kom í ljós að einn daginn höfðu aðilar frá einu stórfyrirtæki verið inni á síðunni hjá mér samtals í 5380 mínútur svo samtals hafði verið eytt rúmlega 11 heilsdagstörfum í að leggja kapla og annað ámóta hjá þessu eina fyrirtæki þennan daginn.
Þetta var að vísu það mesta sem ég sá frá einu fyrirtæki en mörg fóru ótrúlega nálægt þessu og voru rúmlega hálfdrættingar.
Þorsteinn Gunnarsson, 18.6.2007 kl. 04:30
skemmtilegur pistill !
Óskar Þorkelsson, 18.6.2007 kl. 12:31
góður !
birna (IP-tala skráð) 21.6.2007 kl. 16:19
Skemmtileg grein. Eg er einmitt mjög pirruð úti allar þessar dósir og tómflöskur sem safnast hjá mér. Væri hægt að skylda allar búðir sem selja þessar umbúðir að taka við þeim líka. Á norðurlöndunum eru vélar í öllum verslunum sem maður matar þetta í og fær svo miða sem maður fær svo í frádrátt í kassanum þegar búið er að versla. sem sagt hægt að losna við um leið og maður verslar.
Hvernig væri svo fyrir borgaryfirvöld að reikna dæmið með stræto til fulls. Ef það væri frítt í stræto, þyrfti minni pening í vegaframkvæmdir, hægt að fjármagna stræto með dýrari parkeringu. Hægt væri að byggja borg fyrir fólk en ekki bíla. Hver segir að það eigi að vera auðvelt að vera á bíl í miðbænum. Engin manneskja með viti tekur bílinn inní miðbæ í borgum Norðurlanda. Það er mun þægilegra að vera á stræto.
Ásta Kristín Norrman, 21.6.2007 kl. 22:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.