Vélarrúm notuð sem afgreiðslustaðir

Ég kom inn í huggulegt gamalt bakarí í Strandgötunni í Hafnarfirði um daginn. Þarna var allt í gamla stílnum nema hvað þar voru fjórir eða fimm ísskápar og allir glömruðu þeir og urruðu.

Varla heyrðist mannsins mál inni í þessu annars ágæta bakaríi. Ég hrópaðist á við afgreiðslufólkið og flýtti mér út strax og ég gat.

Ég veit um nokkra svona ísskápahávaðastaði í Reykjavík.  Oft hefur eigandinn kostað miklu til að gera innréttingarnar sem bestar en gleymir sér svo alveg þegar kemur að því að kaupa ísskápa.  Hugsanlega fær hann þá ókeypis frá þeim sem útvegar vörurnar í þá og lætur sig því hafa hávaðann í þeim.

Ég velti fyrir mér hvort ekki sé hægt að setja kælivélarnar niður í geymslu eða bak við hús og leggja svo köld rör að ísskápunum og hafa þá þannig alveg hljóðláta.

Mér hefur líka dottið í hug hvort hægt væri að nota kalda vatnið til að halda vörum köldum í stað þess að nota rafmagn og mótora.   Er kannski verið að selja Eskimóunum ísskápa?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: TómasHa

Málið er einmitt að menn fá þessa skápa og borð frítt.  Það er að sjálfsögðu hægt að leggja lagnirnar, sem er gert á öllum stærri stöðum.  Það er hins vegar tvennt sem menn setja fyrir sig, annars vegar er það plássið sem það tekur (þú þarft vélarúm) og kostnaðurinn við það (sem getur verið þó nokkur).  Auk uppsetningar, þá er það viðhaldið en ef skápur er bilaður eða ónýtur er honum bara hent út og nýr kemur inn.

Menn hafa ekki síður verið að lenda í hitavandamálum, en þessi kælar gefa af sér gríðarlega mikinn hita og á sumrum eins og í sumar þýðir þetta að vörur bráðna niður. 

Varðandi það að halda vörunum köldum með köldu vatni, þá er það víða gert sérstaklega út á landi að nota vatn til að kæla eimsvala og nota svo vélarrúm.  Það er nánast enginn að nota vatn beint af kerfinu, vegna þess að þú þarft að hafa miðilinn kaldari en rýmið sem þú ætlar að kæla, ef vatnið er 5°C þá þyrftirðu að hafa hitastig sem þú værir að miða á í kringum 10°C.  Hins vegar nota menn víða lokuð kerfi og þá glýkol blandað vatn, þar sem vatnið er undir frostmarki.   Í reykjavík greiða menn fyrir vatnið, en þá verður mjög dýrt að nota vatnið til að kæla, mun ódýrara er einfaldlega að nota loftið úti.  Það eru ekki síður kjöraðstæður hér, með svo kalt umhverfis hitastig sem við höfum.

TómasHa, 5.9.2007 kl. 09:14

2 Smámynd: Kári Harðarson

Takk fyrir athugasemdina, Tómas.  Ég lærði heilmikið!

Aðalvandinn virðist vera að margir litlir skápar eru notaðir þegar einn stór skápur væri betri lausn.

Kári Harðarson, 5.9.2007 kl. 10:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband