Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007
28.5.2007 | 13:20
Monní monní
Einhvern tímann las ég í frjálshyggjumálgagni, að ríkið ætti að gera sem minnst. Það ætti að sjá um hermennsku, menntun og seðlaprentun. Allt annað ætti einkageirinn að sjá um.
Ef þetta er rétt þá erum við komin langt hér á landi. Við erum ekki með her svo ekki sér ríkið um þann hluta. Og sífellt færri nota gjaldmiðil ríkisins.
Ég er farinn að borga fyrir eina pylsu með Visakortinu. Fyrst eftir að ég flutti til Íslands fannst mér þessi notkun á Visa fyndin, en ekki lengur. Ég er farinn að kalla 50 og 100 kr peningana "borgarpólettur" vegna þess að ég nota þá mest í stöðumæla. Flestir aðrir taka Visa.
Í skólanum þar sem ég vinn eru þrír sjálfsalar hlið við hlið. Sá fyrsti tekur Visa og Debetkort og gefur mér íslenska peningaseðla. Sá við hliðina á tekur við seðlum og lætur mig hafa borgarpólettur (klink). Sá síðasti tekur við klinkinu og selur mér samloku.
Ef ein þessara véla er ekki í stuði þegar ég mæti með Visa kortið fæ ég enga samloku. Þarna eru seðlar og mynt ríkins orðnir óþarfir milliliðir í viðskiptum mínum við Sóma ehf.
Danir voru hatrammir á móti innleiðingu Visakortsins og fundu í staðinn upp eigið kort, Dankortið. Dankortið er þeim eiginleikum gætt, að notkun þess kostar neytendur engin færslugjöld, danir líta svo á, að sparnaðurinn sem bankarnir fá með því að þurfa ekki að meðhöndla klink og seðla eigi að nægja þeim, þeir eigi því færslugjöldin ekki inni hjá neytendum.
Þessi umræða fór ekki fram að neinu marki hér og neytendur borga því færslugjöld beint í formi afnotagjalds Visa, og óbeint vegna þess að kaupmenn borga fyrir hverja Visa færslu og láta viðskiptavinina vitaskuld borga það á endanum.
Það er erfitt að sjá hver kostnaður er af notkun Visa en mér sýnist hann geta verið allt að 2,5% af upphæð færslu plús 280 kr.
Sjá gjaldskrá hér
Þegar við borgum nærri allt með Visa er þetta orðið jafngildi verulegs virðisaukaskatts sem rennur óskiptur til bankanna.
Visa er komið til að vera. Mér finnst við ættum að klára þetta ferli sem hefur verið í gangi síðan Visa kom til Íslands árið 1983.
Við ættum að taka upp rafræn viðskipti og hætta með seðla og skiptimynt. Mér finnst synd að borga fyrir útgáfu seðla og klinks með skattinum og borga svo aftur í formi færslugjalda Visa.
Frekar vildi ég sleppa við annan hvorn þessara kostnaðarliða. Að vísu kostar prentun og myntslátta "aðeins" um 150 milljónir á ári, en meðferð seðlanna í verslunum og bönkum kostar mikla handavinnu.
Ég legg til að ríkið semji við Visa og Mastercard um að taka að sér þetta hlutverk, eftir að umræða hefur farið fram um það, hver á að bera kostnaðinn af færslunum. Í dag er þetta einfaldlega ekki rætt þótt Samkeppnisyfirlitð sé lítið hrifið af ástandinu, sjá hér:
Í norrænu skýrslunni er farið vandlega yfir greiðslukerfi og hreyfanleika neytenda auk þess sem fjallað er um greiðslukortakerfin. Það er skoðun samkeppnisyfirvalda á Norðurlöndum að tveimur fyrrnefndu þáttunum beri að veita forgang í stefnuskrám ríkisstjórna á Norðurlöndum til þess að greiða fyrir þróun í átt til aukinnar samkeppni, neytendum til hagsbóta.
Fyrst ég er farinn að tala um peningamál þá eru hér tvö atriði sem ég vil skrifa niður:
Rafrænn kassastrimill.
Ég myndi vilja fá rafrænt eintak af kassastrimlinum þegar ég fer í verslun. Mér finnst mjög þægilegt að fá tölvupóst frá Atlantsolíu með sundurliðun á innkaupum, í hvert skipti sem ég kaupi bensín.
Þessi tölvupóstur kemur í staðinn fyrir prentun á kvittun þegar ég fylli á tankinn. Ef fleiri tækju þennan sið upp yrði miklu auðveldara að færa heimilisbókhald.
Skýringar á bankayfirlitum.
Mér finnst skrýtið að skýringar á bankayfirlitum skuli ennþá vera sex stafa langar, og stundum vantar þær algerlega.
Netbanki Glitnis leyfir mér að slá inn tvær skýringar með hverri færslu. Sú langa er fyrir mig, en sú stutta er sú sem berst móttakanda greiðslu. Hún er aðeins sex stafa löng og því ónothæf fyrir nokkurn texta. Svona hefur hún samt verið síðan Reiknistofa bankanna var stofnuð fyrir grilljón árum.
Engin skýring birtist á yfirlitinu mínu þegar bankinn minn borgar Visa skuldina mína með því að taka hana af launareikningnum mínum. Ég sé bara risastóru upphæðina sem er með ekki með skýringu og hugsa "já hún". Fleiri færslur birtast svona óboðaðar og óútskýrðar.
Ef ég fæ reikning ætlast ég til að hann sé sundurliðaður. Bankarnir ættu ekki að leyfa sér að fjarlæga pening af reikningum viðskiptavina án þess að setja skýringartexta á færsluna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.5.2007 | 08:49
Hrmpfh!
Ég hjólaði í vinnuna í morgun. Sex ökumenn svínuðu fyrir mig í sama hjólatúrnum.
Það eru þeir sem keyra yfir stöðvunarskyldur og stanza á blábrún aðalbrautar sem eru stærsta hættan því þeir loka hjólastígnum sem liggur meðfram aðalbrautinni. Svo eru það þeir sem ákveða að beygja í veg fyrir mann af því gangandi og hjólandi eiga alltaf að stanza - eða hvað?
Ég er jafn rétthár og mávarnir í borginni, þakka fyrir á meðan ekki er eitrað fyrir manni.
Hér er mynd af hjólastíg (skv. korti Reykjavíkurborgar). Eins og sjá má eru nokkrir bílar á stígnum.
Fyrirgefið kaldhæðnina.
Hjólreiðar | Breytt 6.6.2007 kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
21.5.2007 | 11:26
Hvernig við lækkum vöruverð í einum hvelli
Vöruverð á Íslandi mun ekki lækka fyrir en venjulegt fólk getur auðveldlega pantað vörur á internetinu og flutt þær inn eins og fólk er farið að gera í öðrum löndum. Það er skilvirkasta aðhaldið við verslanir sem hægt er að hugsa sér.
Ég geri orð Ian Watson að mínum. Hann segir þetta í grein á ensku sem má lesa hér.
Hann segir það sem ég hef sagt lengi, að skrifræði tollsins á Íslandi er stærsti óvinur neytenda í dag.
Hér er úrdráttur úr greininni:
Our import rules hinder us from taking advantage of these innovations. If you live in Iceland, ordering something online catapults you into a nightmare of forms, charges, delays, and errands. It feels as if society has decided to punish you for the simplest and most innocent wants and needs, like a good book, a funny movie, a spare part or a comfortable shirt. Customs charges, VAT, service charges for collecting customs and VAT, delivery delays, and trips to the post office suck all the value out of participation in this new consumer culture and keep all the power in the hands of retailers.
Í gamla daga máttu Reykvíkingar ekki vinna í Hafnarfirði fyrir verkalýðsfélögunum. Við þurfum að uppræta svona haftastefnu í eitt skipti fyrir öll ef við ætlum að komast inn í nútímann.
Þörf á lögum um hópmálsókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Neytendamál | Breytt 6.6.2007 kl. 10:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.5.2007 | 13:07
Ostur, Baugur og Framsókn
Þegar ég kom til Júgóslavíu skömmu fyrir stríðið þar, sá ég fullt af spennandi sölubásum með leðurvörur. Eftir heimsóknir í nokkra slíka víða um landið, sá ég að þeir seldu allir sömu vöruna. Sama leðurbeltið merkt Marlboro var til sölu í þeim öllum.
Það kom í ljós að leðurverksmiðja ríkisins var á bak við allar vörur á ferðamannastöðum. Skipulag kaós. Helsi á bak við sýndarfrelsið.
Þetta rifjaðist upp fyrir mér í morgun þegar ég leit yfir ostahilluna í búðinni þar sem við kaupum inn til vikunnar.
Þótt mér væri stillt fyrir framan aftökusveit gæti ég ekki þekkt í sundur eftirtalda osta í bragðkönnun:
- Brauðostur
- Fjölskylduostur
- Heimilisostur
- Skólaostur
- Gouda
- Gotti
- Ísbúi
- Grettir
- AB Ostur
Þetta er allt sami osturinn enda þarf ekki að sjá hann, bara umbúðirnar.
Mjólkursamsalan er ófær um að bjóða upp á fjölbreytileika svo hún "feikar það" með nýjum og nýjum umbúðum. Það er skiljanlegt. Ekkert fyrirtæki er svo gott að það geti veitt sjálfu sér samkeppni. Ég tek fram að ég efast ekki um gæði vörunnar. Það er fjölbreytnin sem ég sakna.
Í tíð Framsóknar fékk Mjólkursamsalan algera einokun á osta og mjólkurvörum og var veldi hennar ærið fyrir.
Umboðsmaður neytenda er Framsóknarmaður. Fyrirtækið Mjólka berst fyrir lífi sínu, nú á tímum frjálsrar verzlunar.
Ég trúi að nú taki betra við. Það verður ekki Framsóknarmaður yfir landbúnaðarráðuneytinu eftir stjórnarskiptin.
Mér þykir vænt um bændur, og ég veit að þeir munu eflast og styrkjast ef hætt verður að fara með þá eins og Danir fara með Grænlendinga. Þeir munu blómstra því þeir eiga gjöfult land og þjóð, sem vill ólm kaupa af þeim vörurnar.
Baugur minnir mig á Bónus, og Jóhannes í Bónus minnir mig á hagstætt vöruverð. Baugsfeðgar hafa alltaf vilja flytja inn landbúnaðarvörur.
Ef Jón Sigurðsson á við þetta þegar hann uppnefnir næstu stjórn "Baugsstjórn", þá mæli hann manna heilastur.
Neytendamál | Breytt 6.6.2007 kl. 10:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
18.5.2007 | 21:50
Brave new world
Kort sem líta út eins og kreditkort en eru í raun "Rafræn persónuskilríki" verða send til allra landsmanna í haust, ásamt lesara fyrir kortin. Bankarnir og ríkið borga brúsann.
Kortið lítur út eins og kreditkort og er með gylltum reitum í ramma framan á kortinu eins og er á nýjustu kreditkortunum.
Þessi kort munu taka við af auðkennislyklinum sem allir fengu sendan í vetur. Það má semsagt fleygja þeim lykli fljótlega.
Tæknin
Það má líta á nýja kortið sem lyklakippu sem geymir öll "Username / password" fyrir handhafa kortsins á þeim vefsíðum sem nota staðalinn sem kortið byggist á. Allir bankarnir, ríkið og borgin ætla að nota staðalinn hér á landi.
Notandinn (þ.e. ég og þú) stingur kortinu í kortalesarann, sem á að vera tengdur við heimilistölvuna.
Síðan á að opna kortið með því að slá eitt PIN númer inn á lyklaborð tölvunnar, eins og maður gerir til að opna gemsa.
Eftir það sér kortið um að auðkenna handhafann á þeim vefsíðum sem hann heimsækir. Í stað þess að muna username / password fyrir hvern heimabanka eða þjónustu, finnur kortið rétta nafnið og lykilorðið á "lyklakippunni" sem er geymd inní því. Notandinn fer bara á vefsíðuna og síðan stendur honum opin hvort heldur sem er heimabankinn eða vefur skattstjóra. Kortið sér um rest.
Kortið er meira en plast, inní því er tölva, með örgjörva, minni og öðru sem tölva þarf að hafa. Það eina sem vantar er skermur og lyklarborð. Heimilistölvan sér um að skaffa það.
Ný kreditkort eru með þessa sömu tækni, en kreditfyrirtækin hér á landi eru ekki byrjuð að nýta hana. Sumir hafa örugglega lent í því erlendis að þurfa að nota PIN númer þegar þeir borga í verzlun í stað þess að undirrita kvittun. Semsagt, sú tækni.
Það er nánast ómögulegt að skera upp kortið til að finna "lyklakippuna" því hún er innsigluð í miðju korti og er hvort sem er ekkert nema rafmagnshleðslur sem myndu glatast ef kortið væri opnað.
Notagildið
Nóg um tæknina. Það sem ég er spenntastur fyrir í sambandi við þessi kort er, að nú geta íslenskir notendur undirritað tölvupóst þannig að hægt er að sanna fyrir lögum að aðeins handhafi kortsins hafi getað gert það.
Einnig er hægt að dulkóða tölvupóst þannig að aðeins handhafi eins ákveðins korts geti lesið hann.
Þetta þýðir að tölvupóstur hættir að vera eins og póstkort og byrjar að vera eins og innsiglað ábyrgðarbréf í staðinn.
Ég bíð spenntur eftir því að geta krafist þess að allir sem senda mér tölvupóst hafi undirritað hann, annars mun ég henda póstinum. Ég vil ekki nafnlausan póst frekar en ég vil tala við fólk í síma sem er með stillt á númeraleynd.
Tölvupóstur sem berst mér erlendis frá mun fara í ruslsíuna nema sendandinn sé á lista yfir erlenda vini mína. Ruslpóstur ætti þar með að vera úr sögunni - held ég.
Annar möguleiki sem opnast með þessum kortum er að geta sent póst sem óvéfengjanlega kvittun eða beiðni til banka.
Ég gæti til dæmis borgað öðrum pening með því að senda honum póst sem í stendur : Kæri Glitnir, borgaðu þessum manni 10.000 kr. Undirritað Kári Harðarson. Maðurinn gæti áframsent póstinn sem hann fékk frá mér til tölvupóstfangs einhverrar greiðsluþjónustu hjá bankanum og fengið peningana greidda sjálfkrafa. Vesgú, rafræn ávísun.
Það sem gerir það dæmi svolítið spennandi er þegar upphæð ávísunarinnar er upp á 1 kr. Góður bloggari gæti selt áskrift að greinum sem kosta hver um sig 1 kr. Ef þúsund manns lesa bloggið einu sinni á dag í eitt ár er hann búinn að vinna sér inn 365 þúsund krónur. Margt smátt gerir eitt stórt.
Semsagt
Ég er persónulega spenntur fyrir þessari rafrænu framtíð sem byrjar í haust enda bjartýnisnerd.
Það er samt merkilegt, að í flestum löndum sem hafa reynt að innleiða svipuð kort hefur orðið kröftug umræða um lýðræði og mannréttindi og síðan var hætt við að innleiða kortin. Hér koma þau bara...
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 21:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
16.5.2007 | 13:02
Vista selst vel, segir Microsoft
Hér er frétt um sama efni frá Seattle Times.
Þar er málið rætt frá öllum hliðum. Mér finnst frétt moggans einum of lík upphaflegu fréttatilkynningunni frá Microsoft.
40 milljónir eintaka hafa selst af Windows Vista | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt 6.6.2007 kl. 10:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.5.2007 | 10:12
Ég hefi séð ljósið!
Ég vann á BSD Unix í Bandaríkjunum en hef notað Windows alfarið síðan 1997.
Það hefur pirrað mig hversu upptekin Windows tölvan mín er af sjálfri sér og mér hefur fundist það ágerast með árunum. Vélin verður hægari með tímanum og hún er alltaf að sækja sér "service packs" eða vírusvarna uppfærslur eða "software updates" af einhverju tagi.
Í gær fékk ég geisladisk með Ubuntu Linux 7.04 sem ég hafði heyrt að væri góð útgáfa af Linux.
Ég hafði ekki gefið Linux tækifæri í þó nokkurn tíma, svo ég ákvað að prófa. Það var kominn tími til að setja Windows upp aftur, eins og þarf reglulega að gera þegar Windows er annars vegar. Í gegnum árin hef ég sett Linux inn tímabundið en alltaf sett Windows inn aftur fljótlega á eftir.
Það hjálpaði til að þetta er sú Linux útgáfa sem Dell hefur ákveðið að bjóða með sínum tölvum svo eitthvað hlutu þeir að vera að gera rétt.
Til að gera langa sögu stutta þá var kvöldið viðburðaríkt og í dag byrjar niðurtalning hjá mér þar til ég kveð Windows XP.
Þetta var fyrsta Linux uppsetning sem gekk algerlega hratt og sársaukalaust fyrir sig og skildi mig eftir með fyllilega nothæfa vél sem ég gat byrjað að vinna á.
Hálftíma eftir að ég setti Linux geisladiskinn í tölvuna gat ég:
- séð skjáinn í réttri upplausn
- sett geisladisk í og hlustað á tónlist
- prentað á canon prentarann
- skannað með hp skannernum
- komist á netið án þess að stilla neitt
- farið á vefinn með Firefox
- opnað Windows netið í vinnunni
- lesið drifin mín í vinnunni
- opnað Acrobat PDF skrár
- unnið með ritvinnsluskjöl, reikniarkir og powerpoint með OpenOffice
- Séð póstmöppurnar mínar, tengiliði og dagatal frá Outlook Exchange Server
Allt þetta gat ég án þess að þurfa að ná í auka hugbúnað eða vélrita skipanir eða gera neitt annað en að smella með músinni. Þetta er eins og Macintosh menn lýsa sínu daglega lífi.
Það næsta sem ég gerði var að ná í forritin Picasa, Google Earth og Skype. Allt gekk eins og í sögu, bara nokkrir smellir með músinni. Ég endaði kvöldið með því að lesa inn "Bookmarks" listann minn úr gamla vafranum.
Það eina sem ég náði ekki í var vírusvörn :)
Uppsetning á hugbúnaði og allar kerfisstillingar eru betur útfærðar en í Windows XP. Það er greinilegt að Linux menn hafa notað tímann vel síðan Windows XP kom á markað á sínum tíma.
Ég áskil mér réttindi til að fara aftur í gamla Windows XP en þetta lítur óneitanlega vel út.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
15.5.2007 | 10:46
Sítrónulögmálið
Ef ég vil selja bílinn minn þá veit ég miklu meira um hann en verðandi kaupandi.
Ég veit að bíllinn er í topp standi og hefur aldrei verið þveginn með kústi á bensínstöð. Hann fékk olíuskipti oftar en sum börn fá mjólk.
Kaupandinn veit ekkert af þessu, hann hefur bara viðmiðunarverðið sem bílasölurnar eru með í sameiginlegum gagnagrunni sínum.
Hann getur ekki metið muninn á mínum bíl og öðrum svipuðum bíl sem er reyndar drusla því tölvan í þeim bíl hefur bilað þrisvar og þaklúgan lekur á vetrum.
Meðalverðið í gagnagrunni bílasala miðast við báðar tegundir bíla. Ég fæ enga umbun fyrir að selja minn bíl því það er ekki hægt að haka við "Gæðabíll" eða "Vel með farinn" á eyðublaði bílaumboðanna.
Það er bara hægt að haka við hluti eins og "upphitaðir hliðarspeglar" og "vetrardekk fylgja".
Ég vil ekki selja minn bíl á undirverði svo ég á hann áfram. Eingöngu sítrónur (lemons) verða eftir á bílaplönum hjá bílasölum. Næsta meðalverð bílasalanna reiknast út frá ennþá lélegri bílakosti.
Þetta sama gildir um aðrar vörur. Neytandinn velur ódýrari vöruna í hillunni þótt næst-ódýrasta varan sé kannski tíu sinnum betri kaup. Sá sem bjó til vöruna veit það en neytandinn hefur enga aðstöðu til að komast að því.
Hann getur bara borið saman lengd á fídusalistum í bæklingi: Er gemsinn með bluetooth? Er gemsinn með vasaljós? Hvergi er hægt að lesa: Verður takkaborðið ónothæft eftir 6 mánuði?
Útkoman er sú að ódýrustu vörurnar komast af en gæðahugtakið fer halloka.
Þetta er sítrónulögmálið í hnotskurn. Það var ekki stórt vandamál á meðan menn þekktu kaupmanninn sinn persónulega, en það er orðið það núna, þegar verzlanir eru stórar og eigendurnir eru hvergi nærri en láta krakka um að afgreiða.
Eina leiðin sem ég sé út úr þessum vítahring er að neytendur komi sér upp öflugu upplýsingakerfi. Við þurfum gagnagrunn yfir dýrari vörur eins og bíla og heimilistæki.
Ég myndi glaður borga hærra árgjald til Neytendasamtakanna ef þeir kæmu sér upp svona gagnagrunni.
Neytendamál | Breytt 6.6.2007 kl. 10:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.5.2007 | 22:21
Um stjórnarmyndun
Ef Sjálfstæðisflokkurinn fer í ríkistjórn með Framsóknarflokknum eina ferðina enn, þá kemur upp í huga mér orðið "Necrophilia", en það er sú árátta að vilja sænga með einhverjum sem er farinn yfir móðuna miklu.
Orðið mætti þýða "Líkþrá" eða "Náþrá".
Ég held að Sjálfstæðiflokkurinn ætti að að leita á önnur mið.
Niðurstöður kosninganna voru að Geir Haarde ætti að leiða stjórn, en að hann ætti að gera það með Samfylkingu eða Vinstri Grænum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 10:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2007 | 09:40
Um lögmál hinna leku yfirhylminga
(Þessi grein er um tölvutengd efni enda skráð í bloggflokkinn "Tölvur og tækni").
Fyrir nokkrum árum þýddi ég grein eftir Joel Spolsky sem hét "The Law of leaky abstractions". Hún birtist hvergi á Íslandi, heldur hefur hún verið á vefnum hjá Joel.
Hérna er úrdráttur úr henni:
Lögmál hinna leku yfirhylminga þýðir að þegar einhver finnur upp á rosa flottu verkfæri sem býr til kóda sem á að gera forritara svo afkastamikla heyrir maður fók segja: "lærðu að gera þetta í höndunum fyrst, svo getur þú notað verkfærið til að spara tíma".
Verkfæri sem búa til kóda eru lek eins og allar aðrar yfirhylmingar og eina leiðin til að bregðast við því er að skilja hvað er á bak við yfirhylminguna. Yfirhylmingarnar spara tíma en hlífa okkur ekki við lærdómnum.
Mótsögnin í þessu öllu er, að þótt við fáum betri og betri forritunarverkfæri með betri og betri yfirhylmingum hefur aldrei verið erfiðara að vera góður forritari.
Hér er greinin í heild sinni.
PS: Myndin er af Joel, ekki mér.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 16:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)