Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Bílalestir

"Mikið svakalega væri gaman að fá lestir til Íslands" hugsaði ég í gærkveldi enda frekar nýkominn frá Evrópu. Svo fór ég að hugsa hvað það væri, sem gerir lestir eftirsóknarverðar.

Lestarteinar eru vegir sem vill svo til að eru úr járni, sbr. nöfnin "Jernbane" og "Chemin de Fer".  Þeir voru sniðug lausn á því hvernig hægt er að senda þunga umferð yfir land. Lausnin er barn síns tíma. Iðnbyltingin var að byrja og menn notuðu járn í allt og svo var til nóg af timbri. Því þá ekki að leggja járnveg yfir timburstoðir?

Hugmyndin er svo gömul að gufuvélin kom til sögunnar eftir að járnteinarnir voru fundnir upp. Gúmmíið hafði ekki verið fundið upp, hvað þá uppblásin gúmmídekk. Sprengihreyflar komu miklu seinna. Malbik og steyptir vegir voru ekki komnir til sögunnar heldur.

Af hverju ætti þjóð eins og Ísland sem á hvorki tré né járn að nota járnbrautir? Væri ekki nær að nota steypu eða malbik og nota gúmmídekkin sem við þekkjum best? Úr því við lögðum ekki járnbrautir í iðnbyltingunni tekur því varla úr þessu.


Járnbrautir hafa marga kosti en það að brautin sé úr járni er ekki einn af þeim:

  • Einn ökumaður getur flutt mikinn farm því lestir geta orðið langar. Það er synd að sjá fullorðinn mann keyra einn einasta gám yfir langan veg.  Má ekki kenna flutningabílum að elta sjálfkrafa hvern annan eða tengja þá saman með krókum?
  • Margir farþegar komast milli tveggja staða í neðanjarðarlestum.  Þar eru það göngin sem eru kosturinn, ekki lestin í þeim.
  • Þunginn í hverjum lestarvagni getur verið mjög mikill, 125 tonna vagnar eru ekki óalgengir. Ég er ekki viss um að þetta sé stórvandamál hér á landi.
  • Hægt er að nota rafmagn í stað díselolíu eða bensíns til að knýja lestarvagna því rafmagnslínur eru lagðar yfir teinana.  Það er samt ekkert til fyrirstöðu að leggja rafmagnslínur yfir malbikuðum vegum ef menn vilja keyra á rafmagni, samanber strætisvagna í sumum borgum Evrópu.
  • Tími milli áfangastaða er lítill vegna þess að járnbrautalestir stoppa sjaldan og keyra hratt. Þarna er "kosturinn" við lestirnar í raun hvað þær nýta veginn sem þær keyra á illa því lestarteinar standa næstum alltaf ónotaðir.  100 metra löng lest sem keyrir eftir 42 km spori milli Reykjavíkur og Keflavíkur nýtir 2 prómill af sporinu.  Er þá ekki ódýrara að leggja venjulegan malbikaðan veg en leyfa bara fáum útvöldum að keyra hratt á honum?
  • Það þarf ekki að stýra stefnunni á járnbrautalest, bara hraðanum.  Með því að setja sjálfstýringu í bíla sem fylgja merkjum í götunni má losna við að stýra þeim ef viljinn er fyrir hendi.

 800px-DTTX_724681_20050529_IL_Rochelle

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mín niðurstaða er að það mætti fá flesta kosti við járnbrautir með því að leggja sérstaka vegi fyrir bíla sem stýra sér sjálfir og fylgja hver öðrum.  Rafmagnslína væri sett yfir veginn og sérstakur kantur sæi um að stýra bílunum og koma í veg fyrir að önnur umferð færi þar um,  rétt eins og lestarteinar eru eingöngu fyrir lestir.

Einn ökumaður gæti tekið að sér að keyra 30-40 bíla í lest og jafnvel mætti sleppa ökumanninum  eins og gert er í nýju neðanjarðarlestinni í Kaupmannahöfn, en hún keyrir á gúmmíhjólum mér vitanlega.

Svona tækni ætti miklu frekar erindi til Íslands. 

Ef kerfið yrði ekki vinsælt og yrði lagt niður væru allavega til nýjir malbikaðir vegir sem hægt væri að nota undir venjulega umferð.

Svona bílalestir hafa þegar verið prófaðar í Kaliforníu (Sjá The Path Project og  Vehicle Platooning.

platoon2

 

 

 

 

 

 

 

Ég er ekki að leggja til að við eigum strax að malbika sérstakan veg til Keflavíkur, ég er bara að benda á að innflutningur á járnteinum og lestum til Íslands sé ennþá langsóttari hugmynd.  Við þurfum ekki þessa gömlu iðnbyltingar lausn til landsins.

Mér finnst ekkert ósennilegt að við þurfum að leggja flutningabíla-akgrein hringinn um landið úr því skipaflutningar hafa lagst niður.  Hvort er þá langsóttara, að hafa fullorðna manneskju í vinnu við að keyra einn einasta gám kringum landið, eða útbúa nýju akgreinina fyrir sjálfvirkan akstur?

 


Þetta virðist vera í góðum farvegi

Hér er skipulag svæðisins við Öskjuhlíð:

flugvallarsvaedi

 

 

 

 

 

 

 

 

(Smellið tvisvar á myndina til að stækka hana). 

Ný tenging við veginn niður í Nauthólsvík byrjar á gatnamótum við gömlu BSÍ.   Hugmyndin virðist mér góð.

Myndin kemur úr þessu skjali.

 


Ætti ég að hafa áhyggjur?

Ég skokkaði fram hjá Nauthólsvík á mánudag og sá að nýja hús Háskólans í Reykjavík er þegar farið að stingast upp úr jörðinni rétt hjá veitingastaðnum Nauthól.

Ég fékk smá hland fyrir hjartað, því ég veit að tækni og verkfræðideild skólans opnar þarna strax haustið 2009 og það verða margir nemendur og kennarar sem keyra þangað.

Hér er mynd af svæðinu.  Rauði bletturinn er nýja svæði skólans:

hrvatnsmyri

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Loftmyndin sýnir veg sem liggur fram hjá hótel Loftleiðum niður í Nauthólsvík.  Vegurinn byrjar á gatnamótunum við slökkvistöðina.  Það er líka malarvegur þarna niðureftir, sem hlykkjast í gegnum kjarrið í Öskjuhlíð fram hjá kirkjugarðinum.  Sá vegur er ekki til stórræðanna.

Ég velti fyrir mér hvernig biðröðin á eftir að verða á vinstri beygjunni hjá slökkvistöðinni.  Ég efast um að núverandi vegamót beri umferðina.

Haustið 2009 verður komið von bráðar.  Vonandi er borgarstjórnin búin að skoða málið og á bara eftir að segja frá lausninni í fjölmiðlum.  Ég get varla beðið að sjá hvernig skipulagið á svæðinu verður svo ég geti byrjað að láta mig hlakka til.

 


Undir þrýstingi

Þegar við bjuggum í Bandaríkjunum eignuðumst við okkar fyrsta hraðsuðupott. Mig grunar að hraðsuðupottar séu sjaldgæfir á íslenskum heimilum og vil því kynna þá aðeins.

Þetta eru venjulegir pottar nema brúnin á pottinum læsist við pottlokið og er með gúmmíkanti. Sérstakur ventill ofan á lokinu kemur í veg fyrir að gufa sleppi út við suðu fyrr en þrýstingurinn er orðinn 15 PSI en það er álíka og í stóru jeppadekki.

15 PSI er ekki mikill þrýstingur, en munar samt því að vatnið sýður ekkki við 100 gráður eins og venjulega, heldur 125 gráður. Fyrir vikið má stytta suðutíma á mat um 70%.

Brún hrísgrjón sem venjulega taka 40 mínútur taka 12 mínútur. Bolognaise spaghettisósa sem hefur gott af því að sjóða í marga klukkutíma verður frábær á kortéri. Mér skilst að vítamín haldist betur í matnum vegna styttri suðutíma en það er ekki ástæðan fyrir því að ég kann að meta hann, heldur er það tímasparnaðurinn.

800px-Pressure_cooker

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þessir pottar voru fundnir upp í Frakklandi 1679 og voru notaðir til að sjóða niður mat fyrir heri Napóleons. Krukkurnar sem eru seldar undir jólasíldina eru með gúmmíkanti og hespuloki og voru upphaflega hannaðar fyrir niðursuðu. Ég hef ekki prófað að sjóða niður mat enda er ég með frysti, en möguleikinn er til staðar.

glassjars

 

 

 

 

 

 

Ég veit að pottarnir höfðu óorð á sér fyrir að springa fyrir mörgum árum. Nútíma hraðsuðupottar eru mjög öruggir enda eru þeir með öryggisloka og lás sem kemur í veg fyrir að þeir séu opnaðir undir þrýstingi. Það er því ástæðulaust að óttast þá.

Hraðsuðupottur er eitt af því sem ég myndi ekki vilja vera án í eldhúsinu. Við erum nú komin með okkar þriðja. Sá fyrsti var úr áli og við vildum stál. Hann var svo ónothæfur þegar við fengum spanhelluborði svo við keyptum nýjan þegar við fórum til Spánar síðast.  Hann kostaði 40 evrur eða 4 þúsund krónur.

Ég hef séð að þeir fást til sölu hjá Einari Farestveit.

 

PS: Ef einhver vill kaupa gamla stálpottinn má hann senda mér línu á karih@ru.is.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband