Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008
26.8.2008 | 23:35
Don't tread on me.
Ingi Þór Einarsson hjólreiðamaður sendi þessa fyrirspurn til vegagerðarinnar vegna þess að hann komst ekki leiðar sinnar:
Ég hjóla reglulega milla Voga og Keflavíkur. Þó ekki sé þægilegt að hjóla Reykjanesbrautina er hún á flestum stöðum með góða vegaöxl. Nú er hinsvegar bannað að hjóla í gegnum nýja umferðamannavirkið (mislægu gatnamótin) sem tengja Voga við Reykjanesbrautina.
Á að banna hjólreiðar á Reykjanesbrautinni? Ef svo hvernig eigum við sem notum hjólið (auk allra ferðamannanna) að komast á milli. Ef ekki, hvernig á ég þá að koma mér upp á Reykjanesbrautina þegar ég kem úr Vogunum?
Hér er svarið sem hann fékk frá Magnúsi Einarssyni deildarstjóra þar:
Við hönnun Reykjanesbrautar er gengið út frá því að hjólreiðar verði bannaðar á nýrri breikkaðri Reykjanesbraut enda fari hjólreiðar ekki saman við þunga og hraða umferð.
Í hönnun verksins er gert ráð fyrir að það verði farið í nauðsynlegar ráðstafanir til að unnt sé að beina hjólreiðaumferð um gamla Keflavíkurveginn og Vatnsleysustrandaveg. Vegagerðin hefur verið í samvinnu við sveitarfélögin á þessu svæði og hafa farið fram umræður hvernig á að útfæra hugmyndina, en samkvæmt lögum þá er skipulag og göngustígar á forræði sveitarfélaga.
Mér líst ekkert á þetta. Í fyrsta lagi er Ingi Þór að rekast á skilti þar sem honum er bannað að hjóla án þess að fá neina aðra leið í staðinn. Það er dónaskapur. Hann þurfti að spyrja hvað gengi á?
Svo fær hann svar um að það eigi einhvern tímann að lagfæra úr sér genginn malarstíg til að hjólreiðafólk neyðist til að fara fáfarnar malarslóðir, ekki hluti af vegakerfinu. Fyrst þurfi fullt af fólki sem mun ekki hafa samráð við hjólafólk samt að hittast og ræða málin og þangað til verður hjólafólk strandaglópa.
Svona vinnubrögð verða að vera algerlega bönnuð. Vegir sem eru eingöngu hannaðir fyrir bíla eru nýlunda hér á landi og þeir eru ekkert sjálfsagt fyrirbæri.. Hjólreiðamenn eru ekki 2.flokks fólk og það má ekki loka vegum á hjólreiðamenn án þess að bjóða upp á aðra leið í staðinn sem er hluti af einhverju vegakerfi en ekki bara slóði sem á eftir að teikna, byrjar hvergi og endar hvergi.
Þetta minnir mig á þegar indjanarnir voru reknir frá heimkynnum sínum í Florida til auðnanna í norðri sem þeim var sagt að væru frábærar en voru það ekki. Hjólreiðafólk verður að taka svona slagi núna eða sætta sig við að hjólreiðar endi sem útivistarskemmtun. Ef menn segja að það sé sjálfsagt að banna hjólafólki aðgang að "alvöru vegum" vil ég benda á að í bílalandinu Bandaríkjunum er oft leyfilegt að hjóla í öxlinni á hraðbrautum og eru þá jafnvel sérmerkingar fyrir hjólamenn þar.
Ég legg til að hjólreiðar verði leyfðar á vegöxl Reykjanessbrautar þangað til Vegagerðin treystir sér til að lokka hjólreiðafólk af brautinni með einhverju betra, ekki að loka fyrst á hjólafólki en koma svo með óljós loforð um "Pie in the sky".
Bandaríkjamenn notuðu þennan fána þegar þeir börðust fyrst gegn Bretum. Hjólafólk ætti kanski að fara að nota hann.
25.8.2008 | 23:54
Sniðugt!
Ég sá þessa stóla í Norræna húsinu:
Eins og sjá má eru þeir notaðir undir ferðatölvur. Hér eru upplýsingar um þá:
Hér er svo annað sniðugt sem ég sá í bænum, reiðhjól án keðju:
Enginn sóðaskapur og ekkert viðhald. Gírarnir eru inni í afturöxlinum.
Tölvur og tækni | Breytt 26.8.2008 kl. 00:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
23.8.2008 | 15:48
Maraþon nördaskapur
Ég hljóp hálfmaraþon og er ágætlega sáttur við 2:14 enda er ég þungur með eindæmum þetta árið. Eldra blogg mitt um megrunaraðferðir stóð svosem fyrir sínu en þar er bara svo, að það er ekki nóg að langa til að langa til að grennast, mann verður að langa til að grennast.
Ég hljóp með Garmin úr sem sýnir mér hlaupið í ótrúlegum smáatriðum. Hér er hjartsláttur (rauður) og meðaltími á kílómetra (blár) og hæð yfir sjávarmáli (græn):
Og hér er kortið af Reykjavík sem sýnir hvert ég fór:
Ef ég "Zooma inn" sé ég allar göturnar í Reykjavík. Kortið sem fylgir úrinu er ekki svona nákvæmt af Íslandi, en mér var bent á kort sem hægt er að sækja ókeypis hér:
http://www.ourfootprints.de/gps/download/msislandtopo.exe
Það þarf bara að ná í hugbúnaðinn og velja "install", eftir það birtist flipi í Garmin forritinu fyrir úrið, sem leyfir að nýja kortið sé valið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
22.8.2008 | 15:34
Íslenska handboltaliðið
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.8.2008 | 11:39
Ef ekki súrefni, þá hvað?
Ég skil ekki hvers vegna rörið innihélt ekki andrúmsloft. Hvaða lofttegund var þá í rörinu? Ef ég tæmi vatnstank sogast venjulegt andrúmsloft inn í tankinn í staðinn fyrir vatnið.
Ég hef lesið að fólk í grennd við eldfjöll kafni vegna þess að eitraðar gufur setjast í dali í grenndinni ef veðrið er stillt. Fylgja þessar sömu eiturgufur vatnsgufunni sem við erum að virkja?
Það er ekki hægt að ætlast til að Rúmenarnir viti um eiturgufur en hvað með starfsmenn Orkuveitunnar?
Fóru inn í gufulögn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
20.8.2008 | 12:10
Hvenær á að einkavæða?
Í tvær nætur hefur mig dreymt að svört daunill drulla komi úr vatnskrananum þegar ég skrúfa frá kalda vatninu og ég ræð drauminn þannig að hlutir sem eigi að vera í lagi í borginni séu gengnir úr skorðum og áhrifanna sé farið að gæta á mínu heimili.
Það er slæmt þegar borgarmálin eru farin að ásækja mig í draumi.
---
Einkavæðingu fylgja kostir og gallar. Ég myndi vilja sjá greinargerð frá þeim sem lögðu tillöguna fram, um hvaða kosti og galla þetta nýja fyrirkomulag geti haft, og hvaða væntingar þeir hafi til nýja fyrirkomulagsins, og hvernig þeir hyggjast meta hvort það hafi orðið til góðs eða ills. Á kannski bara að einkavæða alla sorphirðu eftir þrjú ár án þess að meta árangurinn?
Ef plagg sem lýsir þessu er ekki til og aðgengilegt mér, legg ég til að upphafsmenn tillögunnar vinni vinnuna sína og komi svo aftur með tillöguna. Ég óttast nefnilega að nú eigi einhver Tony Soprano í Reykjavík að fá bitling frá borgaryfirvöldum.
Ég myndi líka vilja fá skýrar línur um hvað eigi almennt að einkavæða. Hvað með kalda vatnið? Ég sé fyrir mér að hægt verði að kaupa grunnáskrift með volgu gruggugu vatni, og gæðaáskrift með köldu hreinu vatni. Svo verður lúxuspakki þar sem kók verður sett í vatnslögnina en þeir sem eru ekki í áskrift verða vatnslausir rétt á meðan kókið er í boði.
Hvað varð um "keep it simple" og "if it ain't broken, don't fix it?"
Vilja að sorphirða sé boðin út í Reykjavík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.8.2008 | 22:49
Hvað veldur?
Það var víst maður að nafni Hanlon sem fyrstur skrifaði: Ekki álykta að um samsæri sé að ræða þegar fávitaháttur getur útskýrt hlutina.
Mér finnst freistandi að útskýra þessa byggingu þannig að verktakar hafi borgað réttum mönnum fyrir rétt til að byggja þetta skrýmsli þarna til að hámarka ágóðann af landinu. Samt getur verið að borgin hafi bara leyft bygginguna án þess að neinn hafi fengið borgað undir borðið. Hvor skýringin er betri vitnisburður um starf borgaryfirvalda?
Er þetta kannski rugl í mér? Getur verið að ég finni fræðimenn í arkitektúr sem segja að þessi bygging sé nákvæmlega það sem staðurinn og stundin kallaði á?
Tilsýndar virðist bygginging vera gerð úr fjöldaframleiddum einingum á ódýran hátt og hún ber ekkert vitni um nostur eða fínerí. Hún er í hrópandi andstöðu við þesa frægu nítjándu (tuttugustu?) aldar borgarmynd sem Ólafur fráfarandi borgarstjóri var að reyna að vernda. Ég vona að ímigustur á Ólafi verði þess ekki valdandi að málefnin sem hann stóð réttilega fyrir verði forsmáð.
---
Misheppnað smartkortakerfi í strætó og sundstaði var orðið þekktur skandall fyrir fjórum árum. Sundgestir hafa horft upp á ónotuð aðgangshlið á sundstöðum lengi án þess að spyrja neinna spurninga.
Það sem mér finnst fréttnæmt er að einhver fjölmiðill sé fyrst að skrifa um það núna. Getur verið að það henti Morgunblaðinu að blása þetta upp því fylgi sjálfstæðismanna í borginni er svo lítið? Alvöru fjölmiðlar hefðu tekið málið föstum tökum fyrir lifandis löngu. Af hverju núna?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.8.2008 kl. 11:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
18.8.2008 | 14:03
Rétt forgangsröðun
Gott almenningssamgöngukerfi er bráðnauðsynlegt fyrir efnahag landsins. Allir, ekki bara notendur ættu að borga fyrir það því allir hagnast á tilveru þess. Gjaldskrárhækkanir gætu verið nauðsynlegar en það eru skattar líka. Ökumenn upplifa minni umferð. Eigendur fyrirtækja og starfsmenn fá betra starfsumhverfi og betri staði að búa á. Allir anda að sér hreinna lofti.
Það hefur aldrei verið mikilvægara að bæta almenningssamgöngur. Rétta spurningin er ekki hvort við höfum efni á þeim, heldur hvað gerist ef við borgum ekki fyrir þær?
Ritstjórnargrein New York Times 17.ágúst
Tvær aðrar greinar úr sömu röð:
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 14:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.8.2008 | 00:23
Haukur í horni
Fyrsta vinnan mín í Bandaríkjunum eftir að námi lauk var hjá hugbúnaðarfyrirtæki sem var í þann mund að skrá hlutabréfin sín á NASDAQ. Ég var þá svo blautur bak við eyrun að ég vissi varla hvað hlutabréf voru eða hvað "IPO" (Initial Public Offering) þýddi.
Maðurinn sem réði mig til starfa kom til mín í fyrstu vikunni og sagði "þú ættir að kaupa hlutabréf, öllum starfsmönnum bjóðast þau og þau munu hækka mikið strax og við förum á almennan markað". Ég sagðist ekki eiga krónu með gati enda nýkominn úr námi og væri ekki á leiðinni að fjárfesta. Hann sagði "Þetta er öruggur díll, ég skal lána þér fyrir kaupunum!" Ég spurði hann af hverju og hann sagðist vilja gera vel við sína undirmenn.
Ég var nýbyrjaður og treysti honum varla. Ég fór heim og sagði konunni frá þessu, ég væri kominn í "The firm" og það ætti að fara að neyða mig til að kaupa hlutabréf á nýja vinnustaðnum. Að endingu leyfði ég þó yfirmanninum að lána mér peninga fyrir hlutabréfum. Tveim vikum síðar var fyrirtækið komið á markað, ég seldi hlutabréfin, endurgreiddi yfirmanninum lánið og græddi rúmlega árslaun í leiðinni. Hann hafði þá rétt fyrir sér. Ekki slæmt fyrir þriggja vikna vinnu!
Ég minnist hans oft því hann kom okkur aldeilis vel af stað í húsnæðiskaupunum með þessu góðverki, en svo hugsa ég líka oft hversu gott það er að hafa vini í vinahópnum sem geta bent manni á svona "sure thing". Ég velti stundum fyrir mér hvernig kaupin ganga á eyrinni hér á Íslandi, hversu margir hafa fengið svona góðar ábendingar frá vinum sínum í bönkum og fyrirtækjum. Ef ábendingin er gullslegin þarf maður ekki einu sinni að vera eignamaður því maður getur fengið lán út á ábendinguna ef hún er nógu góð.
Þarna gildir að þekking er máttur. Svona má gera vinum sínum greiða, hvort sem til stendur að hækka eða lækka verð á hlutabréfum, eða jafnvel á gengi krónunnar. Hverjir hafa þessi völd á fjármálamarkaðinum á Íslandi og hverjum hygla þeir? Þegar þeir láta vini sína hafa peninga með þessum óbeina hætti, er það á kostnað venjulegs fólks? Er hægt að koma í veg fyrir þetta á litlum markaði þar sem allir þekkja alla? Ég veit það ekki.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.8.2008 | 13:18
Ekki kom háskerpan þetta árið
Útsending kínverja frá Ólympíuleikunum er í háskerpu. Fimm hundruð klukkustundir af háskerpuefni verða sendar út á Sky HD sjónvarpsstöðinni. Allir viðburðir sem BBC sendir frá verða einnig í háskerpu á rásinni BBC HD, og svo verða 230 klukkutímar af efni á Eurosport HD.
Ég hafði spáð fyrir ári að Olympíuleikarnir myndu marka tímamót á Íslandi, því þá yrðu fyrstu útsendingar hér í háskerpu og þá myndu kaupendur flatskjáa í fyrsta sinn fá tækifæri til að sjá útsendinguna sem þeir eru hannaðir fyrir.
Engin af þessum háskerpurásum er komin á myndlykla símans eða á aðra lykla mér vitanlega, þrátt fyrir auglýsingar símans um að vera í fararbroddi með háskerpu. Það er merkilegt því í mörgum löndum voru Ólympíuleikarnir notaðir sem ástæða fyrir söluátak fyrir háskerpuna.
Síminn leggur mikla áherslu á að selja myndlykla en þeir eru fyrir ADSL sem nýtir gömlu símalínurnar sem forfeður okkar borguðu fyrir, en ekki ljósleiðara eða breiðband. Ég efast um að ADSL muni verða mikið notað undir háskerpusjónvarp í framtíðinni því háskerpumynd þarf 10 megabita á sekúndu til að komast óbrengluð til skila ef vel á að vera. Ef myndin er send þjöppuð um ADSL rýrna myndgæðin því myndin breytist í mósaík. Hér er dæmi um lélega stafræna útsendingu:
Þetta er óþjöppuð fyrirmynd:
Ég held að gagnaveitan álykti að síminn kemst ekki mikið lengra með sína tækni enda eru göturnar í Reykjavík nú sundurgrafnar af ljósleiðaraskurðum. Síminn hefði átt að geta skipt úr ADSL yfir í VDSL um þetta leyti en ég hef ekki séð hann gera það, enda hef ég lesið að það gangi illa að kreista meiri sendihraða út úr gömlu símalínunum. Síminn hætti að þróa breiðbandið sitt og nú gæti hann verið að súpa seyðið af því.
Ef gagnaveitan leggur ljósleiðara áfram getur verið að eitthvað fari að rofa til í háskerpumálum hér, en fyrst sjálfir Olympíuleikarnir nægðu ekki til að síminn þyrði að byrja útsendingar þá er ég ekki vongóður um að þær hefjist hér á næstunni. Ég sé persónulega enga ástæðu til að endurnýja heimasjónvarpið á meðan þær eru ekki hafnar að neinu viti.
Í óskyldum fréttum þá er merkilegt að samkvæmt sölutölum seljast minni flatskjáir mest, það eru þeir sem eru undir 26 tommum. Þessi þróun hefur komið framleiðendum mikið á óvart sem hafa lagt mesta áherslu á 42 tommu tæki og stærri.
-----
Hér má sjá mismunandi stærðir af útsendingum, þar á meðal gömlu PAL útsendinguna sem íslenska sjónvarpið notar í dag, og svo nýju 1080p háskerpu útsendinguna sem er notuð frá Olympíuleikunum.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 13:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)