Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009
27.5.2009 | 11:13
"Vofa gengur nú ljósum logum..."
Þeir Karl Marx og Friedrich Engels gáfu út kommúnistaávarpið 1848. Ég hef ekki lesið það en mér er sagt að það sé nánast lýsing á því sem hefur verið að gerast hér á Íslandi upp á síðkastið.
Ég hélt að þetta væri úrelt speki, enda komu Stalín og fleiri ansi miklu óorði á kommúnisma, en nú þegar flestöll fyrirtæki eru í eigu ríkisins er eins gott að rifja upp út á hvað þetta gengur. Kapítalisminn er amk. jafn lemstraður og kommúnisminn í mínum huga þessa dagana og framtíðaskipulag hér á landi verður að vera eitthvert sambland af báðu.
Ávarpið hefur verið endurútgefið af hinu íslenska bókmenntafélagi, þýtt af Sverri Kristjánssyni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.5.2009 | 13:46
Sjálfstætt fólk
Stefna Norður Kóreu grundvallast á sjálfstæðishugsjóninni, sem heitir Juche. Grunnhugmyndirnar eru þessar:
- Þjóðin verður að vera sjálfstæð í hugsun og stjórnmálum, sjálfri sér nóg fjárhagslega og fær um að verja sig.
- Stefna ríkisstjórnarinnar verður að endurspegla vilja og metnað fjöldans.
- Uppbygging verður að taka mið af þörfum og aðstæðum landsins.
- Fólkið í landinu verður að menntast í góðum kommúnisma.
Einnig er tilgreint að flokknum skuli sýnd tilhlýðileg hollusta.
Mér sýnast nýjustu kjarnorkutilraunirnar vera í samræmi við þessa grunnstefnu. Það er heillandi hvað Norður Kóreumenn eru hliðhollir sjálfstæði í sinni tærustu mynd.
Nú spyr ég mig samt hvar mörkin liggja milli sjálfstæðis og einangrunarstefnu. Er það merki um veikleika að vera í bandalagi með öðrum þjóðum? leyfi ég mér að spyrja.
Samt má segja eins og Kim-Il Sung: Það er gott að búa í Pyongyang !
N-Kórea heldur áfram tilraunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.5.2009 | 14:46
Hvenær á maður eitthvað?
Maður á ekki börnin sín, maður gætir þeirra. Þetta sagði indverskur spekingur hvers nafn ég man ekki í svipinn. Þetta hefur ekki alltaf verið á hreinu, til dæmis ræðir Mósebók um kosti og galla þess að selja börnin sín í ánauð.
Indjánum N.Ameríku fannst óskiljanlegt að einhver gæti átt landið og seldu Manhattan eyju fyrir slikk. Þeir hlógu ekki þegar hvítu mennirnir settu upp girðingar og sögðu "út af minni lóð". Flestir hafa sætt sig við að hægt sé að eiga land, amk. liðu miðaldir þar sem leiguliðar supu dauðann úr skel meðan landeigendur fóru á refaveiðar án þess að stórar byltingar væru gerðar.
Ég man í róló í gamla daga þegar sumir krakkarnir þóttust eiga rólurnar og enginn annar mátti róla. Svo varð skyndilega verðhrun á rólumarkaðinum þegar mömmurnar kölluðu okkur inn í mat.
Svo er það kvótinn. Ég hef dregið þorsk og ýsu úr sjó á línu. Það er óviðjafnanlegt tilfinning, ég gæti vanist henni!
Maður rær bara út, situr við sinn keip og yfirleitt er bitið á fyrr en varir. Þetta er eins og að eiga olíulind, peningarnir hreinlega gusast upp án þess að maður geri neitt -- eins og að prenta peninga.
Vandinn er að þetta er svo auðvelt (og skemmtilegt) að það verður að setja einhver mörk svo allir mæti ekki á staðinn og tæmi hafið af fiski.
Það voru fleiri krakkar en rólur og allir vildu róla. Okkur krökkunum fannst flestum augljóst að einhverjir krakkar gátu ekki bara sezt í rólurnar og eignað sér þær. Rétta svarið var, að við áttum að skiptast á. Ef einhver fullorðinn hefði komið, hefði hann passað að allir fengju að róla smá.
Af sömu ástæðu finnst mér kvótakerfið algerlega út í hött. Það eina góða við kerfið, er að að það bjargar fiskinum frá útrýmingu. Það býr hins vegar til ríka stóreigendastétt úr engu. (Þeir sem skulda vegna kvótakaupa í dag eru krakkarnir sem ösnuðust til að kaupa rólurnar af upphaflegu ruddunum. Það var leitt).
Ég gæti alt eins tekið öll tré á landinu, girt þau inní reit og selt fóki aðgang, mikið rosalega yrði ég ríkur. Sama með heitt og kalt vatn. Þetta er röng leið til að skapa ríkidæmi því það er enginn að skapa verðmæti, það er bara verið að setjast á þau.
Nei, þarna á hvorki rányrkja né kapítalismi heima. Sumir hlutir verða að vera sameign okkar allra. Takmörkum veiðarnar, en ekki rugla veiðiheimildunum saman við eignarétt. Þeir mega róla en þeir eiga ekki rólurnar. Ég er með ökuskírteini en ég má ekki selja það öðrum.
Kapítalista módelið á ekki við, menn misnotuðu það af því það var í tísku á sínum tíma. Maður með hamar heldur að allt sé nagli.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
20.5.2009 | 11:13
NÚ ER ÉG HNEYKSLAÐUR!
Ég pantaði tíma eftir hádegi í dag hjá rakarastofunni Laugavegi 178.
Svo hringdi ég aftur og spurði: "Hvað kostar herraklipping?"
"Það fer nú eftir ýmsu" var svarið.
"Ég meina bara venjulega herraklippingu, snyrta" sagði ég.
"Það er svo breytilegt."
"Eruð þið ekki með neina verðskrá?"
"Ég má ekki vera að því að ræða einhverja verðskrár greinargerð við þig í símann, vertu blessaður!"
Maður inn á rakarastofunni skellti á mig!
Ég tek fram að þetta er stofan sem ég var vanur að fara á. Ekki lengur.
PS: Ég gúglaði þessa stofu og fékk þessa síðu:
http://www.malefnin.com/ib/lofiversion/index.php/t93987.html
Ég dreg þá ályktun að eigandinn hafi lent í útistöðum við kúnna áður og ruglað mér saman við einn af þeim sem áttu eitthvað sökótt við hann.
Neytendamál | Breytt s.d. kl. 11:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
11.5.2009 | 11:07
Spennandi tímar
Þó nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til að búa til sérstakar tölvur til að lesa bækur. Bóksalinn Amazon virðist loksins hafa gert það svo vel sé, með tölvunni "Kindle". Hún er með skjá sem er mjög læsilegur í dagsbirtu og rafhlöðurnar endast í viku.
Nú er önnur kynslóð þessarar tölvu að koma á markað, Kindle DX.
Skjárinn er í A4 stærð og mjög læsilegur, enda notar hann blek en ekki kristalla eða ljósadíóður. Tölvan er mjög þunn:
Það sem mér finnst fréttnæmast sem kennara, er að Princeton háskóli er farinn í samstarf við Amazon um að gefa skólabækur út fyrir lesarann. Aðrar háskólaútgáfur fylgja væntanlega í kjölfarið.
Lesarinn fæst ennþá bara í Bandaríkjunum en kemur vonandi einhvern tímann út á skerið. Kennslubækur á Íslandi hafa verið dýrar, þær geta vonandi lækkað hressilega þegar hægt verður að niðurhala þær yfir netið. Þær eru líka níðþungar og geta valdið nemendum hryggskekkju þegar þeir troða fleiri en tveim í bakpokann, annað vandamál sem leysist væntanlega einnig.
Nýji lesarinn getur birt PDF skjöl svo kennarar geta dreift lesefni til nemenda án þess að ljósrita. Ég sé fyrir mér að geta loksins hætt að nota pappír.
Venjulegur reyfari kostar 9.99$ fyrir lesarann í bandaríkjunum þegar þetta er skrifað. Það er athyglisvert að hann er ekki tengdur við Internetið heldur notar hann GSM kerfið til að ná í bækur, og tekur hvert niðurhal um eina mínútu. Það er því ekkert til fyrirstöðu að kaupa bók þótt maður sé utan netsambands.
PS: Þessir skjáir eru á leið í fleiri tæki. Hér er nýtt úr sem notar svona skjá sem bakgrunn og breytir útliti úrsins eftir smekk eigandans þann daginn (bæði úrin eru sömu tegundar en mismunandi stillt):
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 11:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.5.2009 | 22:50
Hvað má Olli Rehn segja skv. andstæðingum ESB?
Ég las þetta á amx.is:
Íslendingar ættu að nýta tækifærið meðan Svíar sitja í forsæti Evrópusambandsins og sækja um aðild" segir Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB. Hann býst ekki við að nokkurt þjóðþing neiti Íslandi um aðild.
[...]
Smáfuglarnir eru þeirrar skoðunar, að ekki sé tímabært fyrir Olli Rehn að tala um aðild Íslands að ESB, fyrr en málið er lagt fyrir hann. Íhlutun hans og Percy Westerlunds, sendiherra ESB gagnvart Íslandi, af íslenskum innanríkismálum er komin út fyrir öll eðlileg mörk. Olli Rehn verður auk þess örugglega hættur sem stækkunarstjóri ESB, komi einhvern tíma til þess, að Ísland sæki um aðild.
Önnur vefsíða kallaði manninn "Slettireku" þegar hann tjáði sig síðast.
Ég spyr: Hvar stendur skrifað að Olli Rehn megi ekki segja skoðun sína? Hverjir mega tjá sig?
Ég hef búið ellefu ár erlendis og er orðinn hálfgerður útlendingur fyrir vikið, amk. finnst mér þessi eyja býsna heimóttarleg oft á tíðum. Má ég tjá mig?