Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010
31.5.2010 | 11:52
Ég horfi á nauðgun
Ísraelsmenn réðust í gærmorgun á þetta skip sem var á leið til Gasa strandarinnar með hjálpargögn. Amk. nítján manns létu lífið. Árásin átti sér stað á alþjóðlegri siglingaleið. Um borð eru meðlimir hjálparsamtaka frá ýmsum löndum, þar á meðal danir og svíar.
Ég hef í mörg ár horft uppá Ísraelsmenn nauðga Palestínsku þjóðinni án þess að neitt sé að gert vegna þess að Bandaríkjamenn eru hliðhollir Ísraelsmönnum.
Er einhver ástæða til þess að Íslendingar þegi þunnu hljóði yfir þessu? Skuldum við Bandaríkjamönnum skilyrðislausa hlýðni? Hvað ætlar íslenska ríkisstjórnin að gera?
http://english.aljazeera.net/news/middleeast/2010/05/201053133047995359.html
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
26.5.2010 | 10:51
Lestu mig
Nemendur við Washington háskóla hafa tekið þátt í verkefni þar sem kennslubókum var skipt út fyrir lestölvuna Kindle frá Amazon.
Vélin fékk slæma útreið í umsögn nemenda. 80% nemenda vildu frekar gömlu bækurnar þótt 90% þeirra væru ánægðir með Kindle til að lesa afþreyingarbókmenntir.
Ástæðan var aðallega sú, að kennslubækur í háskólum eru ekki lesnar línulega, frá upphafi til enda. Nemendur þurfa að geta flett í bókunum, undirstrikað texta, merkt með gulu, og sett post-it miða á síður. Á Kindle er ekki hægt að krota athugasemdir í spássíurnar, og það vantaði litinn til að geta skoðað sumar myndir og línurit almennilega.
Amazon tekur niðurstöðurnar mjög alvarlega og er að uppfæra hugbúnaðinn á Kindle tölvunni til að leyfa nemendum að flokka og merkja texta betur. Ég býst þó ekki við að þeim takist að mæta allri gagnrýninni með einni hugbúnaðaruppfærslu.
Kindle tölvan sem var prófuð, var nýja gerðin sem er með stærri skjá, en skjástærðin virðist ekki hafa skipt máli.
Það er langt frá því að allar kennslubækur fáist fyrir tölvuna svo nemendur verða að bæta henni við þær bækur sem eru fyrir í töskunni.
Bókaútgefendur hafa ekki verið fljótir að gefa efni út fyrir bókatölvur og "Kennslubækur" fyrir Kindle tölvuna hafa verið seldar fyrir 70$ sem er lítið minna en alvöru pappírsbók kostar.
Kennslubækur eru dýrar. Meðalnemandi í Bandaríkjunum notaði 659$ í kennslubækur á árinu sem leið (82 þúsund kr.). Að miklu leyti er kostnaðurinn svona hár vegna þess að bókaútgefendur koma með nýjar bækur á hverju ári þar sem litlu hefur verið breytt öðru en dæmanúmerum og kaflaheitum. Fyrir vikið keppa notaðar kennslubækur ekki við þær nýju eins og þær gætu annars gert.
Á Íslandi ætti að vera hlutfallslega meiri ávinningur í að nota rafrænar bækur því þær þarf ekki að flytja inn og borga álagningu af.
Hins vegar er ég sammála nemendum á vesturströndinni um þá vankanta sem rafbókin hefur. Það jafnast fátt á við að vera með 3-4 bækur opnar á borðinu með undirstrikuðum texta á réttum stöðum.
Mér hefur oft fundist freistandi að setja nemendum ekki fyrir kennslubók, heldur benda þeim á Wikipedia sem er sneisafull af góðum greinum um flest efni. Þar vantar þó skipulagða ferð í gegnum efnið og verkefni og dæmi í lok hvers kafla, nokkuð sem reynist skipta máli.
Í tölvubransanum hef ég lesið mikið af reference texta á skjá, en til að geta forritað verð ég oft að loka on-line hjálpinni því hún tekur frá mér skjáplássið. Ég hef líka saknað þess mjög mikið að geta ekki merkt hann og gengið að merkingunum vísum seinna. Microsoft on-line hjálpin hefur alltaf verið slæm að þessu leyti og engin merki um að hún batni.
Hyperlinkaður texti er oft því marki brenndur að vera fullur af tilvísunum en vera sjálfur frekar efnisrýr. Ég hef oft flett frá einni tómlegri síðu yfir á þá næstu, þar sem allar síðurnar frábiðja sér þá ábyrgð að útskýra eitthvað fyrir lesandanum. Á einni síðunni stendur:
"Bison : See Buffalo".
Ég fletti yfir á Buffalo síðuna og fæ
"Buffalo : 2nd largest city in New York State".
Engar upplýsingar á sjálfri síðunni, bara tilvísanir einhvert annað. Heilinn á mér vinnur ekki svona.
Bókarhöfundar hafa ekki þann munað að geta sent lesandann út um hvippinn og hvappinn, svo þeir verða að reyna að segja það sem skiptir máli skipulega, á síðunni sem þeir eru að skrifa þá stundina.
Þetta er ekki bara vandamál við lestölvur, þetta er vandamál við texta sem hefur aldrei verið almennilega skipulagður fyrir lestur. Vonandi er þannig texti ekki framtíðin, hvort sem hann verður lesinn á skjá eða ekki.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.5.2010 | 10:57
Rafmagnsreiðhjólin eru komin til að vera
Gangandi vegfarendur í Kína mega vara sig á rafmagnsreiðhjólum þessa dagana. Yfirvöld voru ekki viðbúin gífurlegri aukningu á þessum hjólum sem voru sjaldséð fyrir nokkrum árum en eru nú framleidd í 22 milljónum eintaka á ári og seljast fyrir 11 milljarða bandaríkjadollara.
Framleiðsla á venjulegum hjólum hefur fallið um 25% því flestir virðast ekki hafa á móti smá aðstoð við að komast áfram veginn.
Rafmagnshjólabransinn er erfiður því mikið offramboð er á þessum hjólum, gæðin eru mjög mismunandi og framlegðin lítil. Fyrirtækin sem hafa leyfi til að framleiða þau eru 2.600 talsins en sennilega eru um þúsund þeirra virkir framleiðendur. Flest byrjuðu að framleiða venjuleg reiðhjól, önnur koma úr mótorhjólabransanum. Stærsti framleiðandinn, Jiangsu Xinri Electric Vehicle co. framleiddi 1,8 milljón "e-reiðhjól" á síðasta ári.
Framleiðendur búast við mikilli aukningu í útflutningi á hjólunum, sérstaklega til Evrópu og Norður ameríku, en þangað voru 70% af útflutningnum send á síðasta ári. Eitt af hverjum átta hjólum sem selt er í Hollandi núna er rafmagnsreiðhjól. Kínverjar fá 377$ fyrir hvert hjól sem selst þar, til samanburðar fá þeir bara 46$ fyrir venjuleg hjól.
Nú má búast við því að kínverska ríkið verði Þrándur í götu þessa nýja bransa. Fram að þessu náðu engin sérstök lög yfir hjólin, þau þurfti ekki að skrá og ökumenn þeirra þurftu engin leyfi. 2.500 banaslys voru á þessum hjólum árið 2007. Á kvöldin eru þau sérlega hættuleg því margir keyra ljóslausir. Einhver lög segja að hámarkshraði hjólanna sé 20 Km/Klst en flest komast miklu hraðar.
(Hjólið á myndinni kemst í 45 km hraða og getur farið 100 km á einni hleðslu, en það er franskt).
Kínverska ríkið vill samt að fólk noti þessi hjól til að minnka mengun og öngþveiti sem önnur farartæki valda. Sumar borgir hafa hækkað leyfisgjald fyrir vespur og mótorhjól, eða jafnvel bannað þau með öllu. Yfirvöld eru líka að reyna að gera þessi rafmagnsreiðhjól ennþá vistvænni, með því að skylda framleiðendur til að nota lithium rafhlöður í stað blýrafgeyma. Stóru framleiðendurnir eins og Xinri og Yaeda eru í samstarfi við háskóla til að endurbæta tæknina. Sumir þeirra eru farnir að tala um að beita þekkingunni til að framleiða rafmagnsbíla.
Þýtt úr Economist
Upplýsingar um Xinri eru hér.
Ísland hefur því miður leyft hjólreiðar á gangstéttum þótt hraði reiðhjóls sé fjórfaldur hraði gangandi vegfarenda, í stað þess að greiða götu þeirra á malbikinu og byggja upp almennilegt net hjólastíga. Þessi rafmagnsreiðhjól eiga fullt erindi til Íslands en þau á ekki að leyfa á gangstéttum. Ég legg til að öll reiðhjól verði bönnuð á gangstéttum en þess í stað verði gert ráð fyrir þeim á götunni eins og í öðrum löndum.
Hjólreiðar | Breytt s.d. kl. 11:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)