16.5.2007 | 10:12
Ég hefi séð ljósið!
Ég vann á BSD Unix í Bandaríkjunum en hef notað Windows alfarið síðan 1997.
Það hefur pirrað mig hversu upptekin Windows tölvan mín er af sjálfri sér og mér hefur fundist það ágerast með árunum. Vélin verður hægari með tímanum og hún er alltaf að sækja sér "service packs" eða vírusvarna uppfærslur eða "software updates" af einhverju tagi.
Í gær fékk ég geisladisk með Ubuntu Linux 7.04 sem ég hafði heyrt að væri góð útgáfa af Linux.
Ég hafði ekki gefið Linux tækifæri í þó nokkurn tíma, svo ég ákvað að prófa. Það var kominn tími til að setja Windows upp aftur, eins og þarf reglulega að gera þegar Windows er annars vegar. Í gegnum árin hef ég sett Linux inn tímabundið en alltaf sett Windows inn aftur fljótlega á eftir.
Það hjálpaði til að þetta er sú Linux útgáfa sem Dell hefur ákveðið að bjóða með sínum tölvum svo eitthvað hlutu þeir að vera að gera rétt.
Til að gera langa sögu stutta þá var kvöldið viðburðaríkt og í dag byrjar niðurtalning hjá mér þar til ég kveð Windows XP.
Þetta var fyrsta Linux uppsetning sem gekk algerlega hratt og sársaukalaust fyrir sig og skildi mig eftir með fyllilega nothæfa vél sem ég gat byrjað að vinna á.
Hálftíma eftir að ég setti Linux geisladiskinn í tölvuna gat ég:
- séð skjáinn í réttri upplausn
- sett geisladisk í og hlustað á tónlist
- prentað á canon prentarann
- skannað með hp skannernum
- komist á netið án þess að stilla neitt
- farið á vefinn með Firefox
- opnað Windows netið í vinnunni
- lesið drifin mín í vinnunni
- opnað Acrobat PDF skrár
- unnið með ritvinnsluskjöl, reikniarkir og powerpoint með OpenOffice
- Séð póstmöppurnar mínar, tengiliði og dagatal frá Outlook Exchange Server
Allt þetta gat ég án þess að þurfa að ná í auka hugbúnað eða vélrita skipanir eða gera neitt annað en að smella með músinni. Þetta er eins og Macintosh menn lýsa sínu daglega lífi.
Það næsta sem ég gerði var að ná í forritin Picasa, Google Earth og Skype. Allt gekk eins og í sögu, bara nokkrir smellir með músinni. Ég endaði kvöldið með því að lesa inn "Bookmarks" listann minn úr gamla vafranum.
Það eina sem ég náði ekki í var vírusvörn :)
Uppsetning á hugbúnaði og allar kerfisstillingar eru betur útfærðar en í Windows XP. Það er greinilegt að Linux menn hafa notað tímann vel síðan Windows XP kom á markað á sínum tíma.
Ég áskil mér réttindi til að fara aftur í gamla Windows XP en þetta lítur óneitanlega vel út.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
15.5.2007 | 10:46
Sítrónulögmálið
Ef ég vil selja bílinn minn þá veit ég miklu meira um hann en verðandi kaupandi.
Ég veit að bíllinn er í topp standi og hefur aldrei verið þveginn með kústi á bensínstöð. Hann fékk olíuskipti oftar en sum börn fá mjólk.
Kaupandinn veit ekkert af þessu, hann hefur bara viðmiðunarverðið sem bílasölurnar eru með í sameiginlegum gagnagrunni sínum.
Hann getur ekki metið muninn á mínum bíl og öðrum svipuðum bíl sem er reyndar drusla því tölvan í þeim bíl hefur bilað þrisvar og þaklúgan lekur á vetrum.
Meðalverðið í gagnagrunni bílasala miðast við báðar tegundir bíla. Ég fæ enga umbun fyrir að selja minn bíl því það er ekki hægt að haka við "Gæðabíll" eða "Vel með farinn" á eyðublaði bílaumboðanna.
Það er bara hægt að haka við hluti eins og "upphitaðir hliðarspeglar" og "vetrardekk fylgja".
Ég vil ekki selja minn bíl á undirverði svo ég á hann áfram. Eingöngu sítrónur (lemons) verða eftir á bílaplönum hjá bílasölum. Næsta meðalverð bílasalanna reiknast út frá ennþá lélegri bílakosti.
Þetta sama gildir um aðrar vörur. Neytandinn velur ódýrari vöruna í hillunni þótt næst-ódýrasta varan sé kannski tíu sinnum betri kaup. Sá sem bjó til vöruna veit það en neytandinn hefur enga aðstöðu til að komast að því.
Hann getur bara borið saman lengd á fídusalistum í bæklingi: Er gemsinn með bluetooth? Er gemsinn með vasaljós? Hvergi er hægt að lesa: Verður takkaborðið ónothæft eftir 6 mánuði?
Útkoman er sú að ódýrustu vörurnar komast af en gæðahugtakið fer halloka.
Þetta er sítrónulögmálið í hnotskurn. Það var ekki stórt vandamál á meðan menn þekktu kaupmanninn sinn persónulega, en það er orðið það núna, þegar verzlanir eru stórar og eigendurnir eru hvergi nærri en láta krakka um að afgreiða.
Eina leiðin sem ég sé út úr þessum vítahring er að neytendur komi sér upp öflugu upplýsingakerfi. Við þurfum gagnagrunn yfir dýrari vörur eins og bíla og heimilistæki.
Ég myndi glaður borga hærra árgjald til Neytendasamtakanna ef þeir kæmu sér upp svona gagnagrunni.
Neytendamál | Breytt 6.6.2007 kl. 10:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.5.2007 | 22:21
Um stjórnarmyndun
Ef Sjálfstæðisflokkurinn fer í ríkistjórn með Framsóknarflokknum eina ferðina enn, þá kemur upp í huga mér orðið "Necrophilia", en það er sú árátta að vilja sænga með einhverjum sem er farinn yfir móðuna miklu.
Orðið mætti þýða "Líkþrá" eða "Náþrá".
Ég held að Sjálfstæðiflokkurinn ætti að að leita á önnur mið.
Niðurstöður kosninganna voru að Geir Haarde ætti að leiða stjórn, en að hann ætti að gera það með Samfylkingu eða Vinstri Grænum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 10:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2007 | 09:40
Um lögmál hinna leku yfirhylminga
(Þessi grein er um tölvutengd efni enda skráð í bloggflokkinn "Tölvur og tækni").
Fyrir nokkrum árum þýddi ég grein eftir Joel Spolsky sem hét "The Law of leaky abstractions". Hún birtist hvergi á Íslandi, heldur hefur hún verið á vefnum hjá Joel.
Hérna er úrdráttur úr henni:
Lögmál hinna leku yfirhylminga þýðir að þegar einhver finnur upp á rosa flottu verkfæri sem býr til kóda sem á að gera forritara svo afkastamikla heyrir maður fók segja: "lærðu að gera þetta í höndunum fyrst, svo getur þú notað verkfærið til að spara tíma".
Verkfæri sem búa til kóda eru lek eins og allar aðrar yfirhylmingar og eina leiðin til að bregðast við því er að skilja hvað er á bak við yfirhylminguna. Yfirhylmingarnar spara tíma en hlífa okkur ekki við lærdómnum.
Mótsögnin í þessu öllu er, að þótt við fáum betri og betri forritunarverkfæri með betri og betri yfirhylmingum hefur aldrei verið erfiðara að vera góður forritari.
Hér er greinin í heild sinni.
PS: Myndin er af Joel, ekki mér.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 16:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.5.2007 | 12:37
Kveðið úr gaskútnum
Nú er vor í lofti og nærri tómur gaskútur úti á svölum. Ég setti á mig neytendahattinn.
Fyrst hringdi ég í Olís sem býður 11 kg áfyllingu af própangasi fyrir 4.026 kr.
Næst hringdi ég í N1 (áður Esso eða Olíufélagið) á Ægissíðu, þeir vildu fá 3.895 kr.
Skeljungur í Skógarhlíð vildi 3.599 kr.
Allar þrjár stöðvarnar voru sammála um að þeir gætu ekki gefið mér inneign fyrir gasi sem er í kútnum ef ég skila honum ekki tómum. "Við erum ekki með aðstöðu til þess" var svarið. Með aðstöðu eiga þeir væntanlega við eina vigt.
Öll þrjú félögin kaupa gasið frá fyrirtækinu "Gasfélagið" og fá alla sína própankúta þaðan. Félögin áttu gasfélagið saman, en voru neydd til að selja það eftir ólöglega verðsamráðið. Einhverra hluta vegna versla þau samt öll við það ennþá...
ÍSAGA veitir þessu þríeyki samkeppni og selur 10 kg. af gasi á 2.750 kr. Þeir eru því langódýrastir. Kútarnir þeirra fást í Byko, ekki á bensínstöðvum.
Þeir taka járnkút frá N1/Skeljungi/Olís uppí fyrir 2.000 kr. en selja manni sína trefjaglerskúta fyrir 7.150 svo það eru upphafsútgjöld uppá 5.150 fyrir að færa viðskipti sín til þeirra.
Síminn hjá þeim er 577 3000.
Smá samanburður í lokin (Ég fann tölurnar fyrir útlönd með smá Google leit).
Hvar Kílóverð í kr.
Olís 366
N1 354
Skeljungur 327
ÍSAGA 275
-------------------
Danmörk 190
Bretland 172
USA 127
PS: Ég rakst líka á gamalt verð frá Olís og sé að gasið þeirra hefur hækkað um 22% á einu ári.
Neytendamál | Breytt 6.6.2007 kl. 10:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
10.5.2007 | 10:53
Um uppáhalds slönguna mína (og skort á tölvunarfræðingum)
Ég er tölvunarfræðingur. Löngu áður en ég varð það, var ég með tölvudelluna. BASIC var forritunarmálið sem kom mörgum úr minni kynslóð af stað í faginu. Ég kynntist því fyrst á Commodore PET tölvu fimmtán ára gamall.
Ég veit ekki hvernig krakkar í dag fara að því að kynnast tölvum. Þær eru orðnar öflugri, en að sama skapi flóknari.
Það er orðið auðvelt að byrja að nota þær, en erfitt að byrja að forrita þær.
Þetta er sambærilegt við það sem hefur gerst í bílabransanum. Bílar voru einu sinni hannaðir þannig, að meðaljón gat gert við bílinn með topplyklasetti. Vélin var undir hálftómu húddi tilbúin fyrir sýnikennslu. Bílskúrar landsins voru kennslustofur í bílaviðgerðum. Nútíma bíll er svo flókinn og húddið er svo fullt, að enginn kemst að til að skipta um kerti eða kynnast bílnum nánar.
Við þurfum fólk sem fiktaði í tölvum.
Sá sem fer í tölvunarfræði í háskóla þarf helst að hafa kynnst henni lítillega í menntaskóla, þó ekki væri nema til að vita um hvað fagið snýst.
Ég held að krakkar séu hræddir við tölvunarfræði. Ég held að þeir þori ekki ekki að fara í hana af því þeir vita ekkert um hana og þori ekki að "opna húddið". Þeir komust ekki til að fikta í BASIC og byrja að hugsa um forritun sem heillandi ferli.
Hvort sem þessi skýring er rétt hjá mér þá er það staðreynd að krakkar sækja ekki um í tölvunarfræði þótt markaðurinn hér á Íslandi sé að æpa sig hásan eftir lærðu tölvufólki.
Hefur þú séð atvinnuauglýsingarnar?
Tölvunarfræðingar með þriggja ára starfsreynslu geta fengið hálfa milljón í laun. Fyrst atvinnuhorfur eru svona góðar hljóta krakkarnir annaðhvort að halda að tölvunarfræði sé mjög erfið eða mjög leiðinleg.
Tölvunarfræðin getur verið hrútleiðinleg ef menn skella nerdalegum hlutum eins og vélamáli og C++ beint í fangið á nýliðum. Hún getur hinsvegar verið bráðskemmtileg ef menn fá strax að nota hana til að leysa dagleg verkefni og sjá hversu gefandi það er að láta vélar létta sér hugarstörfin.
Hér er dæmi um daglegt verkefni:
Búðu til lista yfir alla sem hafa sent þér tölvupóst sl. ár. Flettu þeim upp á símaskrá púnktur ís og athugaðu hvort þeir hafa skipt um símanúmer eða heimilisfang.
Uppfærðu símaskrána í Outlook til samræmis og settu nýja númerið þeirra líka út í gemsann ef það hefur breyst eða er ekki í honum þegar.
Þetta getur tölva leyst á sekúndum ef notandinn kann að segja henni að gera það. Menntaskólaþekking í forritun ætti að duga til í mínu draumasamfélagi.
Samt held ég að 99.9% notenda myndu eyða mörgum klukkustundum við tölvu til að leysa verkefnið handvirkt og enda með krampa í músarhendinni. Til hvers vorum við þá að finna tölvurnar upp?
...og nú að allt öðru ... og þó ekki.
Uppáhalds slangan mín
Python er uppáhaldsforritunarmálið mitt. Ef einhver myndi spyrja mig hvar hann ætti að byrja, myndi ég svara "Python".
Þótt málið sé einfalt er það samt alvöru forritunarmál. Ég hef grætt fullt af peningum með forritum sem ég skrifaði í því. CCP samdi meirhlutann af EVE Online leiknum með því. Google notar það til að skrifa leitarsíðuna sína.
Í Python gæti fyrsta uppkast að lausn á verkefninu litið einhvern veginn svona út.
for postur in postforrit.allir_postar:
if nyrri(postur,"1.jan 2006"):
baeta_i_lista(sendendalisti, postur.sendandi)
for sendandi in sendendalisti:
sendandi.simanumer=simaskrarleit(sendandi.nafn)
if gemsi.numer(sendandi)!=sendandi.simanumer:
gemsi.uppfaera(sendandi)
Þetta er ekkert svo erfitt? Hvort er skemmtilegra, að leysa smá forritaþraut eða eyða mörgum klukkutímum í handaavinnu?
Fólk er búið að breyta tölvunum í ritvélar á sterum. Er ekki nær að læra smá forritun og geta sagt tölvum fyrir verkum í stað þess að vinna sjálfur vinnuna fyrir þær? Þær munu ekki læra íslensku á næstunni og forritunarþekking getur nýst öllum, ekki bara þeim sem ætla í tölvunarfræði í háskóla.
Ég vil leyfa mér að fullyrða að forritunarkunnátta sé mikilvægari en að kunna að heilda og diffra.
Ef lesandinn gæti hugsað sér að kynnast tölvum með ástarinnar gleraugum á nösum getur hann gert margt vitlausara en að fara á http://www.python.org, ná í forritunarmálið Python og fara í gegnum "Tutorial" sem fylgir því. Kannski verður ást við fyrstu sýn.
Fólk sem heldur að Excel kunnátta sé tölvukunnátta veit hættulega lítið.
PS: Það er einmanalegt að halda úti skrifum um annað en stjórnmál þessa dagana en einhver verður að standa pliktina :)
Tölvur og tækni | Breytt 6.6.2007 kl. 10:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
7.5.2007 | 10:32
Tollurinn
Fyrir mér er tollurinn á leið inn í landið óþægileg áminning um það sem var. Land haftastefnu og miðstýringar.
Ég man eftir að hafa farið með pabba í Landsbankann að sækja gjaldeyri. Þá þurfti að framvísa farmiðunum þar til að fá gjaldeyri skammtað. Visa var ekki komið í hendur íslendinga. Útlönd voru miklu ólíkari Íslandi en í dag, þar fékkst Toblerone og Macintosh og kók í dósum.
Meirihluti utanlandsferða fór í að kaupa græjur og föt, myndavélar og skó. Þegar heimferðin nálgaðist tók við stressið, skyldum við verða "tekin í tollinum".
Nú er allt breytt, maður borgar með Visa og biðraðirnar í Landsbankanum eru liðin tíð. Eitt hefur samt ekki breyst.
Hvernig má það vera að nútíma íslenskir heimsborgarar sem kunna mannasiði í tugum landa og eru löngu hættir að detta í það kl.sex að morgni út í gömlu kanastöð skuli þurfa að versla eins og þeir séu á leiðinni til útlegðar á norður Grænlandi, og reyna svo að keyra smyglið í gegnum tollinn í sjúklegri útgáfu af stórfiskaleik?
Á þessu andartaki hættir íslendingur 21.aldarinnar að vera stoltur heimsborgari og verður aftur álútur fátæktarlúði sem yfirvaldið á með húð og hári. Sekur þangað til fundinn saklaus. Skyldi Stazi gruna eitthvað? Múrinn ennþá á sínum stað.
Þegar við fluttum til Bandaríkjanna var ég fyrst hneykslaður á því hversu litla þjónustu var að finna á flugvöllum þar. Engar verslanir, bara skyndibiti og sjoppa. Hvar voru allar búðirnar? Jú, þær voru á sínum stað, úti í malli.
Vöruverð í búðum í Bandaríkjunum er svo hagstætt að það hefur ekkert upp á sig að kaupa vörur á flugvöllum. "Duty free" gæti aldrei náð fótfestu þar.
Svona þarf þetta að verða hér á landi. Búðirnar á flugvellinum eru arfleið frá tímum haftastefnu og verndarstefnu og tolla. Verð á vörum hér þarf að verða í samræmi við önnur lönd svo vörur komi til landsins með sjóflutningum í stað þess að vera bornar inn í flugvélar og settar í handfarangursgeymslur á meðan flugfreyjur teppa gangana með litlu duty free kerrununum sínum. Þetta er léleg nýting á þotueldsneyti. Alþjóðlegar reglur um 20 kg farangurshámark gera ekki ráð fyrir því að íslenskar ferðatöskur eru gámar fyrir vöruflutninga.
Ónefndur afgreiðslumaður í græjubúð í Reykjavík sagði mér að hann myndi loka búðinni ef hann væri ekki með vörurnar til sölu úti í Leifsstöð. Hann vissi vel að búðin í Reykjavík væri bara sýningarbás. Kaupin færu fram úti á velli.
Tollurinn hefur nóg að gera að leita að fíkniefnum. Af hverju þarf hann að leita að Ipoddum og myndavélum og osti?
Mig dreymir um þann dag þegar ég fer út í búð í Reykjavík til að kaupa mér gallabuxur eða Ipod í stað þess að bíða næstu utanlandsferðar.
Það verður frábært að labba inn í landið án þess að þurfa að horfa upp á skömmustulega meðborgara með ferðatöskurnar opnar meðan tollarar rótast í þeim til að leita að neytendavarningi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 10:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
5.5.2007 | 09:18
Möguleg slysagildra í Vesturbæjarlaug
Í Vesturbæjarlauginni í Reykjavík er vatnið iðulega ógegnsætt eins og ef mjólk hefði verið blandað saman við.
Ég hef heyrt tvær skýringar á þessu hjá starfsfólki. Annars vegar þá, að kolsýran sem bætt er í vatnið til að minnka klórnotkun valdi þessu, hins vegar að málningin í lauginni (sem er ekki flísalögð) sé að leysast smám saman upp í klórnum.
Þegar ég syndi í lauginni sé ég oft ekki næsta mann og alls ekki sundlaugarbotninn. Vatnið hlýtur að þurfa að vera gegnsætt til að eftirlitsmyndavélarnar komi að gagni.
![]() |
Drengurinn var utan sjónsviðs eftirlitsmyndavéla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 10:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.5.2007 | 14:12
Hjólakaup
Í tilefni af því að margir eru að hugsa um hjólakaup vil ég minnast á tvennt:
Innanbæjar eru fjallahjól of þung og á of grófum dekkjum. Betri kaup eru í svokölluðu borgarhjóli (City-Bike) sem lítur svona út:
Gjarðirnar eru stærri og dekkin þynnri en á fjallahjóli. Engir demparar eru á hjólinu. Hjólið hentar betur til bæjaraksturs og er ódýrara.
Hitt sem ég vil nefna er, að það er ódýrt að taka hjól með sér heim frá Kaupmannahöfn. Flugleiðir taka 3000 kr fyrir hjólið og þyngd þess er ekki dregin frá farangursheimildinni.
Þar er mikið úrval af borgarhjólum og verðmunurinn borgar hæglega farmiðann.
Svo sakar ekki að skoða Kaupmannahöfn á nýja fararskjótanum.
PS: Hér er eldri grein um hjólreiðar í Reykjavík
![]() |
Næst því að hjóla nakinn ... |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hjólreiðar | Breytt 6.6.2007 kl. 10:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
2.5.2007 | 10:50
Kismundur
Þetta er Kismundur, heimiliskötturinn:
Hann fannst í lyftu á Aflagranda 40 fyrir fjórum árum. Forfaðir hans er sennilega norskur skógarköttur. Ég hef ekki kynnst skapbetri ketti. Annálaðir kattahatarar gera undanþágu þegar hann er annarsvegar enda er heilmikill hundur í honum.
Kannast einhver við að kettlingur hafi glatast í vesturbænum fyrir uþb. fjórum árum?
Fjölskylda | Breytt 6.6.2007 kl. 10:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)